Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 439. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 718  —  439. mál.




Frumvarp til laga



um uppbyggingu á Vestfjarðavegi, nr. 60.

Flm.: Einar K. Guðfinnsson, Ásbjörn Óttarsson, Gunnar Bragi Sveinsson.



1. gr.
Markmið.

    Markmið laga þessara er að stuðla að bættum samgöngum og umferðaröryggi með uppbyggingu á Vestfjarðavegi, nr. 60.

2. gr.
Veglagning.

    Leggja skal veg frá Þórisstöðum í Þorskafirði, út með Þorskafirði vestanvert, um Teigsskóg og Hallsteinsnes, þvert yfir utanverðan Djúpafjörð vestur á Grónes og þaðan þvert yfir utanverðan Gufufjörð um Melanes og vestur fyrir Kraká að uppfylltum eftirtöldum skilyrðum:
     1.      Framkvæmdaraðili skal rækta birkiskóg á Vestfjörðum við sambærilegar aðstæður og eru í Teigsskógi, a.m.k. til jafns að flatarmáli við þann birkiskóg sem raskast eða verður fyrir áhrifum við fyrirhugaða framkvæmd. Framkvæmdaraðili skal vinna áætlunina í samráði við Umhverfisstofnun og Skógrækt ríkisins og leggja fram áætlunina áður en framkvæmdir hefjast. Í áætluninni skal gera grein fyrir hvaða efnivið er áætlað að nota við ræktunina, þ.e. hvort fyrirhugað sé að nota erfðaefni úr Teigsskógi eða annars staðar að á Vestfjörðum. Meta skal plöntunarárangur á ræktunarsvæðinu eftir að plöntun er lokið og meðan skógurinn er að ná sambærilegum vexti og í Teigsskógi og gera grein fyrir til hvaða ráðstafana er ætlað að grípa ef árangur verður ekki sá sem vænst er. Gera skal grein fyrir hvort það svæði sem valið verður bjóði upp á aðstæður til landnáms viðkomandi tegunda eða hvort fyrirhugaðar séu ráðstafanir til þess að stuðla að landnámi síðar meir, ef það reynist takmarkað.
     2.      Framkvæmdaraðila ber við útfærslu á vali á vegkostum að velja þann kost sem er bestur með hliðsjón af verndun Teigsskógar. Við nánari útfærslu á vegstæðinu, frágangi þess og ræsum skal leitast við að lágmarka áhrif vegagerðar á skóginn og skal framkvæmdaraðili hafa samráð um það við Umhverfisstofnun og Skógrækt ríkisins.
     3.      Framkvæmdaraðili skal hanna veginn þannig að hann uppfylli skilyrði 19. gr. laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, nr. 64/1994. Við hliðrun á vegstæði skal hafa samráð við Náttúrufræðistofnun Íslands.
     4.      Í Teigsskógi frá Gröf að Hallsteinsnesi skal vegstæði skilgreint þröngt og efnisnám, skeringar og slóðagerð skulu takmörkuð við vegstæðið sjálft. Samráð skal haft við Umhverfisstofnun um efnisnám fyrir veginn og skeringar í Teigsskógi.
     5.      Vegna áhrifa framkvæmdanna á menningarminjar skal framkvæmdaraðili merkja og greina Fornleifavernd ríkisins frá fornminjum við vegstæðið. Framkvæmdaraðili skal hafa samráð við Fornleifavernd ríkisins um nánari útfærslu á staðsetningu vegstæðisins.
     6.      Framkvæmdaraðili skal tryggja að þverun Djúpafjarðar og Gufufjarðar takmarki ekki hefðbundin þangskurð í þeim.
    Útboð framkvæmda skal fara fram árið 2010.

3. gr.

Mat á umhverfisáhrifum.


    Ákvæði laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, eiga ekki við enda er í gildi úrskurður umhverfisráðherra frá 5. janúar 2007.

4. gr.

Gildissvið.


    Þar sem þessum lögum sleppir gilda ákvæði vegalaga, nr. 80/2007, eftir því sem við á.

5. gr.

Gildistaka.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta var lagt fram á 138. löggjafarþingi, en var eigi rætt og er því flutt að nýju.
    Brýnasta verkefnið í vegamálum á Íslandi, vegagerð um Vestfjarðaveg, er í fullkomnu uppnámi og hefur svo verið um árabil. Þetta er ekki sakir fjárskorts. Á síðustu samgönguáætlun, sem gilti frá 2007 til 2010, var verulegt fjármagn, alls um 3 milljarðar kr., veitt til framkvæmda á leiðinni Svínadalur – Flókalundur. Í tillögu til þingsályktunar um nýja samgönguáætlun (2009–2012,) sem liggur fyrir þinginu, er áhersla á vegagerð á þessu svæði, sem nær frá Þorskafirði að Þverá í Kjálkafirði.
    Dómur Hæstaréttar í máli 671/2008 um vegagerð í Þorskafirði með þverun Djúpafjarðar og Gufufjarðar, ásamt ákvörðun Skipulagsstofnunar sem umhverfisráðherra staðfesti sjö mánuðum síðar, um að vegagerð frá Eiði í Vattarfirði að Þverá í Kjálkafirði færi í umhverfismat, hefur gert það að verkum að ekkert liggur fyrir um vegagerð á þessu svæði þar sem þörfin er þó brýnust.
    Við þetta verður ekki búið. Það er algjörlega óviðunandi að vegagerð á þessum slóðum geti ekki haldið áfram og það jafnvel þó að fjármagn sé til staðar. Markmið þess frumvarps sem er hér lagt fram er að rjúfa þennan grafalvarlega vítahring og heimila með lögum vegagerð á svæðinu út með Þorskafirði, með þverun Gufufjarðar og Djúpafjarðar, samkvæmt sk. tillögu B frá Vegagerðinni með þeim skilyrðum sem þáverandi umhverfisráðherra, Jónína Bjartmarz, setti í úrskurði sínum frá 6. janúar 2007.
    Er það skoðun flutningsmanna að slíkur vegur þjóni hagsmunum vegfarenda best, tryggi heilsárssamgöngur Vestur-Barðastrandarsýslu með tengingu við meginþjóðvegakerfi landsins og sé í sátt við umhverfið.

Forsagan.
    Allmiklar umræður fóru fram um vegagerð í Austur-Barðastrandarsýslu um og eftir síðustu aldamót. Þær höfðu þó staðið allmiklu lengur en skriður komst á umræðuna um aldamótin. Skiptar skoðanir voru um hvaða leið væri skynsamlegast að fara og voru í því sambandi athugaðir allmargir kostir. Heimamenn í Reykhólasveit og í sveitarfélögunum í Tálknafirði og Vesturbyggð voru þó einhuga um vegstæði á þessum slóðum. Var einkanlega litið til þess að með endurbættum samgöngum lægi vegurinn sem mest á láglendi til þess að tryggja öruggar heilsárssamgöngur. Þetta sjónarmið var síðan áréttað af öðrum sveitarstjórnum á Vestfjörðum og hefur komið þráfaldlega fram í ályktunum Fjórðungssambands Vestfirðinga og í vinnu og áliti fastanefndar þess um samgöngumál. Áhugasamir einstaklingar á Vestfjörðum og víðar hafa og lagt sig mjög fram í baráttunni fyrir vegagerð á þessu svæði. Ber þar helst að nefna sem fremstan meðal jafningja í þeirri baráttu Þórólf Halldórsson, fyrrverandi sýslumann á Patreksfirði.
    Frá því að frumvarpið var fyrst lagt fram hafa sveitarstjórnir fjögurra sveitarfélaga á Vestfjörðum ályktað um málið. Þetta eru sveitarstjórnirnar í Ísafjarðarbæ, Vesturbyggð, Tálknafirði og Bolungarvík. Sama gerði Fjórðungsþing Vestfirðinga. Þessar ályktanir fylgja með í fylgiskjali 1.
    Stefnumörkun heimamanna og sveitarstjórnarmanna á Vestfjörðum fól m.a. í sér að fara skyldi með veginn á þessum slóðum yfir firði, en ekki í fjarðarbotna, þar sem því yrði við komið. Átti það til dæmis við um vegagerð í Mjóafirði og Kjálkafirði. Hefur Vegagerðin sett fram tillögu um þessa leið sem nú er í umhverfismati sem vænta má að ljúki snemma á næsta ári.
    Það mál mest var rætt var hins vegar hvernig skyldi standa að vegtengingu úr Þorskafirði að Melanesi sem er utan til í Gufufirði, skammt innan við Skálanes. Þar voru fyrst og fremst uppi tvö sjónarmið þó að fleiri kostir væru skoðaðir.
    Í fyrsta lagi að fara með veginn fyrir Þorskafjörð, yfir Hjallháls, með nýjum og uppbyggðum vegi, ofan í Djúpafjörð, að nokkru leyti með nýju vegstæði, um Djúpafjörð og með nýju vegstæði upp á Ódrjúgsháls og með nýju vegstæði um Gufufjörð, til þess að sneiða hjá snjóflóðasvæðum og að Melanesi. Þessi tillaga hefur verið nefnd leið D og er nokkurn veginn á þeim slóðum þar sem núverandi vegstæði er.
    Í öðru lagi var sú hugmynd sem heimamenn í Vestur- og Austur-Barðastrandarsýslu sameinuðust um. Í henni fólst tillaga um að Þorskafjörður yrði þveraður, vegurinn lægi síðan frá Þórisstöðum í Þorskafirði, út með Þorskafirði vestanvert, um Teigsskóg og Hallsteinsnes, þvert yfir utanverðan Djúpafjörð vestur á Grónes og þaðan þvert yfir utanverðan Gufufjörð um Melanes og vestur fyrir Kraká Þessi tillaga hefur verið nefnd leið B.
    Þriðja leiðin sem kom til álita var að fara með veginn um Hjallháls og síðan um Djúpafjörð að Grónesi sem skiptir Gufufirði og Djúpafirði og þaðan í Melanes.
    Þá var sú leið skoðuð að gera jarðgöng undir Hjallháls, úr Þorskafirði í Djúpafjörð, ásamt vegi yfir Ódrjúgsháls samkvæmt nýrri veglínu og loks með öðrum jarðgöngum úr Gufufirði í Kollafjörð. Þessi leið var hins vegar slegin út af borðinu sakir kostnaðar. Í grein sem Hreinn Haraldsson, núverandi vegamálastjóri og þáverandi framkvæmdastjóri Þróunarsviðs Vegagerðarinnar, birti í ritinu Framkvæmdafréttir Vegagerðarinnar, 2. tbl. frá 2007, er komist að þeirri niðurstöðu að jarðgangaleiðin sé um 6 km styttri en um 3 milljörðum kr. dýrari en vegur á þeirri leið sem nú hefur verið ákveðin („leið B“). Það er of mikill munur til að hægt sé að taka jarðgöng með sem raunhæfan valkost. Ef einungis er miðað við göng undir Hjallháls en ekki Gufudalsháls og vegurinn færi áfram út fyrir Skálanes væri jarðgangaleiðin 3 km lengri og 2 milljörðum kr. dýrari en vegur á „leið B“ (sbr. fylgiskjal 2).
    Þrjár fyrst töldu hugmyndirnar fóru í umhverfismat. Skipulagsstofnun féllst á fyrstu tillöguna með skilyrðum en hafnaði hinum tveimur vegna umhverfisáhrifa. Í þessu sambandi er nauðsynlegt að fram komi að lagning vegarins samkvæmt leið B uppfyllir skilyrði 28. gr. vegalaga, nr. 80/2007, og er í samræmi við nýtt aðalskipulag fyrir Reykhólahrepp 2006–2018, sem umhverfisráðherra staðfesti 24. ágúst 2009.

Úrskurður umhverfisráðherra.
    Úrskurður Skipulagsstofnunar var kærður til þáverandi umhverfisráðherra, Jónínu Bjartmarz, sem kvað upp úrskurð vegna málsins 5. janúar árið 2007, sem finna má á heimasíðu Umhverfisráðuneytisins, sjá meðfylgjandi:
http://www.umhverfisraduneyti.is/frettir/nr/958. Ráðherrann féllst á leið B með sex skilyrðum sem voru eftirfarandi:
     1.      „Framkvæmdaraðili skal rækta birkiskóg á Vestfjörðum við sambærilegar aðstæður og eru í Teigsskógi a.m.k. til jafns að flatarmáli við þann birkiskóg sem raskast eða verður fyrir áhrifum við fyrirhugaða framkvæmd. Framkvæmdaraðili skal vinna áætlunina í samráði við Umhverfisstofnun og Skógrækt ríkisins og leggja fram áætlunina áður en framkvæmdir hefjast. Í áætluninni skal gera grein fyrir hvaða efnivið er áætlað að nota við ræktunina þ.e. hvort fyrirhugað sé að nota erfðaefni úr Teigsskógi eða annars staðar á Vestfjörðum. Meta skal plöntunarárangur á ræktunarsvæðinu eftir að plöntun er lokið og meðan skógurinn er að ná sambærilegum vexti og í Teigsskógi og gera grein fyrir til hvaða ráðstafana er ætlað að grípa ef árangur verður ekki sá sem vænst er. Gera skal grein fyrir hvort það svæði sem valið verður bjóði upp á aðstæður til landnáms viðkomandi tegunda eða hvort fyrirhugaðar séu ráðstafanir til þess að stuðla að landnámi síðar meir, ef það reynist takmarkað.
     2.      Framkvæmdaraðila ber við útfærslu á vali á vegkostum velja þann kost sem er bestur með hliðsjón af verndun Teigsskóga. Við nánari útfærsla á vegstæðinu, frágangi þess og ræsum skal leitast við að lágmarka áhrif vegagerðar á skóginn og skal framkvæmdaraðili hafa samráð um það við Umhverfisstofnun og Skógrækt ríkisins.
     3.      Framkvæmdaraðili skal hanna veginn þannig að hann uppfylli skilyrði 19. gr. laga um vernd, friðun og veiðar á villtum dýrum og villtum fuglum nr. 64/1994. Við hliðrun á vegstæði skal hafa samráð við Náttúrufræðistofnun Íslands.
     4.      Í Teigsskógi frá Gröf að Hallsteinsnesi skal vegstæði skilgreint þröngt og efnisnám, skeringar og slóðagerð skulu takmörkuð við vegstæðið sjálft. Samráð skal haft við Umhverfisstofnun um efnisnám fyrir veginn og skeringar í Teigsskógi.
     5.      Vegna áhrifa framkvæmdanna á menningarminjar skal framkvæmdaraðili merkja og greina Fornleifavernd ríkisins frá fornminjum við vegstæðið. Framkvæmdaraðili skal hafa samráð við Fornleifavernd ríkisins um nánari útfærslu á staðsetningu vegstæðisins.
     6.      Framkvæmdaraðili skal tryggja að þverun Djúpafjarðar og Gufufjarðar takmarki ekki hefðbundin þangskurð í þeim.“

Áfrýjað til héraðsdóms og Hæstaréttar.
    Niðurstaða umhverfisráðherra var kærð til dómstóla. Héraðsdómur féllst á kröfur stefnenda. Í forsendum héraðsdóms er sú niðurstaða byggð á því að ráðherra hafi við töku ákvörðunar sinnar ekki haft fullnægjandi upplýsingar um áhrif af þverun Gufufjarðar og Djúpafjarðar á strauma í fjörðunum. Málið hafi því ekki verið rannsakað nægjanlega áður en ákvörðun var tekin, sbr. kröfur sem leiðir af rannsóknarreglu stjórnsýslulaga.
    Enn var málinu áfrýjað til Hæstaréttar, sem kvað upp dóm sinn 22. október 2009 (mál 671/2008).

Helstu atriði hæstaréttardómsins.
    Trausti Fannar Valsson, lektor í lögfræði, vann í framhaldinu lögfræðilega álitsgerð um málið að beiðni Vegagerðarinnar. Þar er niðurstaða Hæstaréttar rakin með eftirfarandi hætti:
    „Í fyrsta lagi staðfestir Hæstiréttur þá niðurstöðu héraðsdóms að rannsókn umhverfisráðherra á umferðaröryggi hafi verið fullnægjandi.
    Í öðru lagi staðfestir Hæstiréttur þá niðurstöðu héraðsdóms að rannsókn á umhverfisáhrifum á gróðursamfélag á landsvæðinu hafi verið fullnægjandi. Í héraðsdómi er í þessu sambandi m.a. vísað til úttektar sem Ásta L. Aradóttir vistfræðingur vann fyrir ráðuneytið um áhrif veglagningar skv. leið B á Teigsskóg.
    Í þriðja lagi staðfestir Hæstiréttur þá niðurstöðu héraðsdóms að umhverfisráðherra hefði ekki horft framhjá lagaákvæðum sem tryggja eiga sérstaka vernd hafarnarins.
    Í fjórða lagi staðfestir Hæstiréttur þá niðurstöðu héraðsdóms að ráðherra hafi tekið fullnægjandi afstöðu til áhrifa framkvæmdarinnar á fornminjar í Teigsskógi.
    Í fimmta lagi staðfestir Hæstiréttur þá niðurstöðu héraðsdóms að ráðherra hafi ekki brotið gegn meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar í úrskurði sínum með því að heimila leið B þrátt fyrir að hún hefði í för með sér mestu umhverfisspjöll þeirra valkosta sem í boði voru. Í héraðsdómi er í þessu sambandi vísað til þess að ráðherra hafi að lögum verulegt svigrúm til að takmarka umfang framkvæmdar og leggja á framkvæmdaraðila að grípa til mótvægisaðgerða eða annarra aðgerða ef hann telur að með því móti verði neikvæð umhverfisáhrif innan þeirra marka sem talin eru ásættanleg og þar með ekki umtalsverð.
    Í sjötta lagi staðfestir Hæstiréttur þá niðurstöðu héraðsdóms að umhverfisráðherra hafi hvorki brotið gegn andmælarétti stefndu eða að rökstuðningur ráðherra hafi ekki verið fullnægjandi.
    Í sjöunda lagi hafnaði Hæstiréttur því að ráðherra hefði ekki rannsakað nægjanlega áhrif sem leiddu af þverun Gufufjarðar og Djúpafjarðar á strauma í fjörðunum. Segir um þetta atriði í dómi Hæstaréttar:
    „Í ljós er leitt að skýrslur um áhrif þverunar Djúpafjarðar og Gufufjarðar á strauma í fjörðunum lágu fyrir Skipulagsstofnun. Því verður fallist á með áfrýjanda að stofnunin hafi lagt mat á áhrif af þverun fjarðanna. Einnig er fallist á með áfrýjanda að ekki sé á færi dómstóla að meta hvort skýrslurnar hafi verið fullnægjandi og að ekki hafi getað ráðið úrslitum um mat á því hvort Skipulagsstofnun eða umhverfisráðherra hafi sinnt rannsóknarskyldu sinni við meðferð málsins hvernig orðalagi var háttað í matsskýrslu áfrýjanda. Ekki er annað sýnt en að ráðherra hafi í úrskurði sínum byggt á þeim gögnum og upplýsingum sem lágu fyrir í málinu. Verður því ekki fallist á að ráðherra hafi brotið gegn 10. gr. stjórnsýslulaga að þessu leyti.“
    Í áttunda og síðasta lagi taldi Hæstiréttur að umhverfisráðherra hefði verið óheimilt að lögum að taka tillit til umferðaröryggis við mat á umhverfisáhrifum í úrskurði sínum. Taldi hann þátt heyra til grundvallarþáttar við veglagninguna sjálfa, en teldist ekki afleiðing hennar á umhverfi. Með vísan til þessa staðfesti Hæstiréttur þá niðurstöðu héraðsdóms að fella bæri úr gildi úrskurð umhverfisráðherra um þann þátt sem laut að leið B í öðrum áfanga Vestfjarðavegar milli Bjarkarlundar og Eyrar í Reykhólahreppi.“

Í samræmi við evrópska umhverfislöggjöf.
    Eitt atriði hefur sjaldan komið til umræðu í sambandi við vegagerðina á þessum slóðum, en mikil ástæða er til þess að vekja athygli á. Íslensk löggjöf um mat á umhverfisáhrifum byggist á ESB tilskipun 85/337/EBE, með breytingum samkvæmt tilskipunum 97/11/EB og 2003/35/EB. Í inngangi tilskipunarinnar, segir að meta verði áhrif sem framkvæmdir geta haft á umhverfið, m.a. að gera grein fyrir atriðum sem varða að vernda heilsu manna og stuðla að lífsgæðum með bættu umhverfi. Þessi tiltekna vegagerð sem eykur greiðfærni og umferðaröryggi til muna á Vestfjarðavegi samræmist því fullkomlega þeim markmiðum tilskipunarinnar að vernda heilsu manna og stuðla að lífsgæðum.
    Þá er í 3. gr. tilskipunarinnar kveðið á um að í mati á umhverfisáhrifum skuli tilgreina, lýsa og meta á viðhlítandi hátt bein og óbein áhrif framkvæmda á eftirfarandi þætti: menn, dýr og plöntur; jarðveg, vatn, loft, veðurfar og landslag; samspil áðurnefndra þátta; og efnisleg verðmæti og menningararfleifð. Trauðla verður annað sagt en að ákvörðun umhverfisráðherra sem að hluta til byggðist á mikilvægi umferðaröryggis (sem afleiðingu framkvæmdar) fari fullkomlega saman við þessi ákvæði tilskipunarinnar. Í því sambandi skal og vísað til 4. viðauka tilskipunar 85/337/EBE, en þar segir að í mati á umhverfisáhrifum skuli lýsa beinum og óbeinum áhrifum, afleiddum áhrifum, samlegðaráhrifum, skammtíma og langtímaáhrifum, varanlegum og tímabundnum áhrifum og jákvæðum og neikvæðum áhrifum. Þetta vekur spurningu um hvernig sú niðurstaða Hæstaréttar í máli nr. 671/2008 fær staðist, að lögum um mat á umhverfisáhrifum sé „einungis ætlað að taka til mats á afleiðingum framkvæmdar fyrir umhverfið en ekki á kostum hennar sjálfrar og göllum“ í ljósi þess að íslenskum lögum um mat á umhverfisáhrifum er ætlað að fullnægja kröfum ESB um innleiðingu tilskipunar 85/ 337/EBE, með síðari breytingum.

Höggvið á hnútinn.
    Hvernig sem á málin er litið blasir við að mikil óvissa grúfir yfir því hvort og þá hvernig haldið verði áfram við að vinna að vegagerð á leið B, eins og ósk heimamanna stendur til. Þessi afstaða heimamanna kom skýrt fram nú síðast á geysilega fjölmennum fundi heimamanna með samgönguyfirvöldum á Patreksfirði 11. maí sl.
    Brýnt er að höggvið sé á þennan hnút og óvissunni aflétt. Æskilegast væri vitaskuld að leysa þessi mál í góðri sátt. Til þess að sú sátt ríki við heimamenn er nauðsynlegt að vegurinn liggi um láglendið og fari ekki upp á hálsana, Ódrjúgsháls og Hjallháls. Því miður virðist slíkt samkomulag ekki í sjónmáli. Þess vegna er nauðsynlegt að löggjafarvaldið sjálft taki af skarið og heimili þessa vegagerð.
    Við undirbúning þessa máls hefur birst okkur órofa samstaða heimamanna. Þingmenn kjördæmisins hafa mjög komið að þessu máli og hefur aldrei neitt annað komið fram en að í þeim hópi væri stuðningur við þennan vilja heimamanna. Vegagerð á þessum slóðum hefur oft verið rædd á Alþingi og hefur komið fram víðtækur vilji allra þeirra sem hafa tjáð sig um málið að vinna að lausn þess. Það hefur einnig átt við um fyrrverandi samgönguráðherra, Kristján L. Möller og Sturlu Böðvarsson. Verður því að ætla að um þetta frumvarp geti tekist víðtæk samstaða.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Hér er um að ræða almenna markmiðslýsingu, sem ekki þar frekari útskýringar við.

Um 2. gr.


    Greinin lýsir því hvar vegurinn, sem um ræðir í frumvarpinu, skuli liggja. Jafnframt eru tekin inn í frumvarpstextann þau skilyrði sem Jónína Bjartmarz, þáverandi umhverfisráðherra, setti fyrir því að vegurinn yrði lagður. Úrskurðurinn var kveðinn upp 5. janúar árið 2007 og má finna í heild sinni á heimasíðu umhverfisráðuneytisins frá þeim tíma. Með þessari grein er því ætlað að tryggja að vegagerð verði ekki framkvæmd á umræddum kafla nema að uppfylltum þeim skilyrðum.

Um 3.–5. gr.


    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal I.

Ályktanir sveitarstjórna á Vestfjörðum


og Fjórðungssambands Vestfirðinga.



Fjórðungsþing.
    Fjórðungsþing Vestfirðinga haldið 3 til 4. september 2010 ályktaði: Endurbyggingu Vestfjarðavegar um Barðastrandarsýslu frá Flókalundi í Bjarkalund verður að hraða. Framkvæmdin er í óþolandi biðstöðu og stjórnvöld verða að höggva á þann hnút. Fyrir Alþingi liggur frumvarp til laga um lagningu vegarins, þar sem tillit er tekið til náttúruverndarsjónarmiða sbr. dóm Hæstaréttar nr. 671/2008. Þar er fallist á þau sex skilyrði sem umhverfisráðherra setti fram í úrskurði sínum 6. janúar 2007 og heimilar þar með lagningu vegar á láglendi í Gufudalssveit. Þá skal enn fremur minnt á að fordæmi eru fyrir því að sett séu sérstök lög um málefni sem varða almannahag.

Ísafjarðarbær .
    Bæjarstjórn ísafjarðarbæjar ályktaði svo á 281. fundi sínum þann 1. júlí sl.
    Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar vekur athygli á framkomnu frumvarpi til laga um uppbyggingu á Vestfjarðavegi nr. 60. Bæjarstjórn lýsir sig sammála því sem fram kemur í greinargerð frumvarpsins þar sem segir:
    „Brýnasta verkefnið í vegamálum á Íslandi, vegagerð um Vestfjarðaveg, er í fullkomnu uppnámi og hefur svo verið um árabil. Þetta er ekki sökum fjárskorts. Á síðustu samgönguáætlun, sem gilti frá 2007 til 2010, var verulegu fjármagni, alls um 3 milljörðum kr., veitt til framkvæmda á leiðinni Svínadalur – Flókalundur. Í tillögu til þingsályktunar um nýja samgönguáætlun (2009–2012), sem liggur fyrir þinginu, er áhersla á vegagerð á þessu svæði, sem nær frá Þorskafirði að Þverá í Kjálkafirði.“
    Bæjarstjórn telur að með samþykkt þessa frumvarps verði stigið bráðnauðsynlegt og óhjákvæmilegt framfaraskref í samgöngumálum á sunnaverðum Vestfjörðum, þar sem jafnframt er tekið tillit til náttúrverndarsjónarmiða. Bæjarstjórn skorar á þingheim að fylkja sér að baki þessa mikilvæga samgöngumáls.

Tálknafjörður .
    Sveitarstjórn Tálknafjarðar samþykkti eftirfarandi ályktun á fundi sínum 20. júlí sl. Hreppsnefnd Tálknafjarðarhrepps tekur undir bókun Ísafjarðarbæjar þar sem lýst er yfir stuðningi við frumvarp til laga um uppbyggingu á Vestfjarðavegi nr. 60. Hreppsnefnd minnir á fjölmennan íbúafund á Patreksfirði þann 11. maí 2010, þar sem þingmenn blésu íbúum þá von í brjóst að kominn væri fullur stuðningur þingmanna NV kjördæmis um að beita sér fyrir því að hin svokallaða B-leið um Gufudalssveit verði að veruleika. Mikilvægt er að draga fram að í frumvarpinu er tekið fullt tillit til náttúruverndarsjónarmiða sbr. dómur Hæstaréttar nr. 671/2008 þar sem dómurinn fellst á þau sex skilyrði sem umhverfisráðherra setti fram í úrskurði sínum 6.janúar 2007, og heimilar veglagningu í Gufudalssveit. Verður því að ætla að um þetta frumvarp geti orðið breið samstaða.

Vesturbyggð .
    Bæjarráð Vesturbyggðar samþykkti eftirfarandi þann 27. júlí sl. Bæjarráð Vesturbyggðar tekur undir samþykkt bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar sem og bókun Tálknafjarðarhrepps frá 20. júlí sl. hvað varðar stuðning við frumvarp til laga um uppbyggingu Vestfjarðavegar nr. 60.
    Bæjarráð Vesturbyggðar lýsir yfir eindregnum stuðningi við frumvarpið og bendir jafnframt á að suðursvæði Vestfjarða er sá landshluti sem býr við einna vanþróaðasta vegakerfi landsins. Afstaða íbúa Vesturbyggðar um að hin svokallaða leið B, láglendisvegur, verði farin, hefur komið afar skýrt fram, meðal annars á fjölmennum íbúafundi þann 11. maí 2010. Bæjarráð Vesturbyggðar fer fram á að þeirri óvissu sem ríkt hefur um löngu tímabærar samgöngubætur verði eytt og að höggvið verði á þann hnút sem svo rækilega hefur bundið suðursvæði Vestfjarða í fjötra fortíðar. Uppbygging samgöngubóta fyrir samfélag og atvinnulíf á svæðinu er málefni sem þolir enga bið og er því afar brýnt að breið samstaða verði um þetta frumvarp.

Bolungarvíkurkaupstaður .
    Bæjarráð Bolungarvíkur samþykkti 2. nóvember sl. eftirfarandi, sem síðar var staðfest í bæjarstjórn: Bæjarráð Bolungarvíkur lýsir þungum áhyggjum yfir því hvernig málum er komið við vegtengingu suðursvæðis Vestfjarða við hringveginn. Við blasir að suðurfirðir Vestfjarða muni næstu 5 til 7 árin búa við vegleysur og oft á tíðum algjört samgönguleysi ef ekki verður gripið til róttækra aðgerða. Bæjarráð Bolungarvíkur skorar því á Alþingismenn sem standa eiga vörð um byggð í landinu að standa sem einn að baki frumvarpi til laga sem liggur fyrir Alþingi um uppbyggingu á Vestfjaravegi nr. 60. Í frumvarpinu er tekið tillit til náttúruverndarsjónarmiða sbr. dóm Hæstaréttar nr. 671/2008. Þar er fallist á þau sex skilyrði sem umhverfisráðherra setti fram í úrskurði sínum 6. janúar 2007.
    Minnt er á að Vestfirðingar standa frammi fyrir þeirri ótrúlegu staðreynd að leyfi til veglagningar um Teigskóg er í raun hafnað á þeirri forsendu að umhverfisráðherra leyfði sér í úrskurði sínum fyrir tæplega fjórum árum síðan að nefna þá staðreynd, að veglagningin yki á umferðaröryggi vegfarenda.
    Nú virðist ljóst að sá hnútur sem kominn er á málið verður ekki leystur, á hann verður að höggva með lagasetningu. Bæjarráð Bolungarvíkur tekur því undir ályktun Fjórðungsþings Vestfirðinga frá 4. september varðandi þetta mál, áframhaldandi biðstaða er óþolandi. Alþingi þarf að taka afgerandi afstöðu með íbúum á Vestfjörðum og tryggja þeim öruggar samgöngur.



Fylgiskjal II.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Framkvæmdafréttir Vegagerðarinnar.


    (2. tbl. 2007)




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.