Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 451. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 741  —  451. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, með síðari breytingum (raf- og vefbækur).

Flm.: Mörður Árnason, Helgi Hjörvar, Margrét Tryggvadóttir,


Sigurður Kári Kristjánsson, Eygló Harðardóttir, Pétur H. Blöndal,
Þráinn Bertelsson, Jónína Rós Guðmundsdóttir,
Sigmundur Ernir Rúnarsson, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 14. gr. laganna:
     a.      6. tölul. orðast svo: Sala bóka, jafnt frumsaminna sem þýddra, hljóðupptökur af lestri slíkra bóka, sala vefútgáfu og rafútgáfu slíkra bóka og aðgangs að hliðstæðum gagnagrunnum, og sala landakorta.
     b.      Á eftir orðunum „með tónlist“ í 10. tölul. kemur: eða texta.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Með frumvarpinu er lagt til að vefbækur, rafbækur, bækur á geisladiski og landakort færist á neðra þrep virðisaukaskatts sem verði 7% af sölu þessara vara með sama hætti og af sölu hefðbundinna bóka og hljóðbóka nú. Í a-lið 1. gr. frumvarpsins er gerð tillaga um vef- og rafbækur en í b-lið bækur á geisladiski sem eru keyptar og settar í drif eða hlaðið í tölvuna í eitt skipti fyrir öll.
    Vefbók er bókartexti sem lesendur kaupa sér aðgang að á vefnum eða hlaða niður af öðru vefsetri. Rafbók er bókartexti sem hlaðið er í venjulegar tölvu, síma eða lestölvu, sérstakt tæki svipað tónhlöðunni eða æpoddinum, og lesinn í þeim. Til að taka af tvímæli eru í frumvarpstextanum einnig tilteknir „hliðstæðir gagnagrunnar“ þar sem útgáfuefni á vefnum eða í stafrænu formi er ekki allt jafnframt til sem prentbók.
    Geisladisksbækur og vefbækur eru þegar kunnar á íslenskum bókamarkaði, einkum orðabækur, handbækur og kennslugögn af ýmsu tagi. Notkun rafbóka eykst stöðugt þótt enn um sinn hafi aðeins ein bók verið gefin út á íslensku með þeim hætti, nefnilega skáldsagan Zen og listin að viðhalda vélhjólum eftir Robert M. Pirsig í þýðingu Sigurðar A. Magnússonar, sem bókaútgáfan Edda hefur nýverið sent frá sér. Vert er að geta þess að nú í janúar opnaði Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra fyrsta rafbókavefsetur landsins, Lestu.is, þar sem í boði eru sígild bókmenntaverk, sem vef- og rafbækur, og er einnig fyrirhuguð útgáfa nýrra íslenskra bóka á vegum vefsetursins.
    Raf- og vefbækur geta ekki síst komið skólafólki að gagni, létt útgjöld bæði nemenda og skólahaldara – sem fyrst og fremst eru ríki og sveitarfélög, og sparað samfélaginu veruleg gjaldeyrisútgjöld. Í skýrslu fyrir menntamálaráðuneytið frá í fyrra um Kosti og galla e- bókavæðingar í íslenska skólakerfinu segja höfundar í lokaorðum að ef ekkert verður að gert af hálfu stjórnvalda til að auka hlut stafræns námsefnis í skólum sé „ljóst að Ísland verður eftirbátur á sviði nýtækni í námsefnisgerð og námsefnisdreifingu“. Höfundar mæla eindregið með því að „e-bækur“ færist í neðra þrep virðisaukaskatts „þegar í stað“.
    Landakort bera nú lægra hlutfall virðisaukaskatts þegar þau eru bundin inn eða gormuð saman sem bók en hærra hlutfall þegar þau eru gefin út á hefðbundinn hátt. Kortabók Íslands, sem margir ferðamenn og bifreiðastjórar þekkja og kom út fyrst hjá Máli og menningu árið 2000, ber 7% virðisaukaskatt en Kortamappa frá sama útgefanda, þar sem nokkurn veginn sömu kortum er raðað í hulstur eða öskju, ber 24,5% virðisaukaskatt.
    Um breytingarnar sem í þessu frumvarpi felast eiga við öll sömu rök og um lægri virðisaukaskatt af sölu prentaðra bóka, hljóðbóka og hljómdiska, bæði menningarleg rök og rök af samkeppnistoga um staðkvæmdarvörur.
    Tekjutap ríkissjóðs af þessum breytingum verður lítið og vinnst upp með aukinni sölu bóka og korta af öllu tagi.
    Frumvarp þetta var áður flutt á 135. og 136. löggjafarþingi. Á síðarnefnda þinginu hlaut frumvarpið umræðu (þá 48. mál) og var vísað til efnahags- og skattanefndar sem leitaði um það umsagnar. Flestar umsagnanna voru afar jákvæðar, þar á meðal frá forsvarsmönnum Forlagsins, Hagþenkis, Íslenskrar málnefndar, Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns, Neytendasamtakanna, Rithöfundasambands Íslands, Skólavefjarins, Tónastöðvarinnar og frá Einari Erni Benediktssyni tónlistar- og athafnamanni. Í nokkrum umsagnanna komu fram ábendingar um fleira menningarefni sem vert væri að hafa í lægri virðisaukaskattsflokki, svo sem nótnabækur og tónlist til stafræns niðurhals. Í umsögn ríkisskattstjóra voru ýmsar tæknilegar athugasemdir um álitamál sem umsegjandi taldi rétt að könnuð yrðu nánar.
    Nefndin afgreiddi málið ekki frá sér en ræddi hins vegar efni þess, og í nefndaráliti um frumvarp til laga um ráðstafanir í skattamálum (þskj. 525) telur meiri hluti hennar fram að „á fundum nefndarinnar hafi komið fram sá skilningur fjármálaráðuneytis og skattyfirvalda að endurskoða þurfi verklag við álagningu virðisaukaskatts á sölu vef- og rafbóka, hljóðbóka, nótnabóka, landabréfa o.þ.h.“.
    Fyrr á því þingi sem nú er háð var fjármálaráðherra spurður hvað þessari endurskoðun liði (175. mál). Ráðherra svaraði því til að „eftir að hafa yfirfarið þetta verklag“ væri mat hans það „að ekki [stæðu] sterk rök til að gera þarna breytingar á að svo komnu máli“. Þó væri „aldrei neitt endanlegt eða óumbreytanlegt í þeim efnum“.
    Með þessu svari er í ljós komið að af hálfu framkvæmdarvaldsins er ekki fyrirhugað að bæta úr þeim augljósu menningarlegu og samkeppnislegu vanköntum sem hér er bent á, og er málið því lagt að nýju fyrir löggjafarsamkomuna til rannsóknar og umræðu.
    Af þeim ástæðum er sá kostur tekinn að flytja frumvarpið óbreytt, þótt full ástæða virðist til að taka tillit til þeirra ábendinga sem borist hafa um m.a. nótnabækur og tónlist í netsölu í þessu sambandi.
    Frumvarp þetta tengist þingsályktunartillögu sem flutningsmenn leggja fram samhliða um að lestölvur verði settar í annan tollflokk en nú er.