Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 466. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 757  —  466. mál.
Tillaga til þingsályktunarum lækkun húshitunarkostnaðar.


Flm.: Einar K. Guðfinnsson, Kristján L. Möller, Ásbjörn Óttarsson,


Gunnar Bragi Sveinsson, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Björgvin G. Sigurðsson,
Kristján Þór Júlíusson, Sigurður Ingi Jóhannsson, Ólafur Þór Gunnarsson,
Tryggvi Þór Herbertsson, Jón Gunnarsson, Jónína Rós Guðmundsdóttir,
Þuríður Backman, Árni Johnsen, Ólína Þorvarðardóttir, Guðmundur Steingrímsson.


    Alþingi ályktar að fela iðnaðarráðherra að setja á laggirnar nefnd er móti tillögur um lækkun húshitunarkostnaðar á þeim svæðum þar sem hann er nú hæstur, marki stefnu um fyrirkomulag á niðurgreiðslum vegna hitunar á íbúðarhúsnæði og skoði hvernig unnt sé að stuðla að varanlegri lækkun húshitunarkostnaðar á svokölluðum „köldum svæðum“. Stefnt sé að því að þessi kostnaður verði sem næst kostnaði hjá meðaldýrum hitaveitum, eða tiltekið hlutfall af húshitunarkostnaði á orkuveitusvæði Orkuveitu Reykjavíkur og hjá sambærilegum hitaveitum. Nefndin verði skipuð fulltrúum þingflokka, sveitarfélaga og orkufyrirtækja og skili tillögum sínum fyrir árslok 2011.

Greinargerð.


    Húshitunarkostnaður hefur á undanförnum árum orðið æ þyngri þáttur í framfærslu heimila víða á landsbyggðinni. Talið er að um 36–37 þúsund manns búi á svokölluðum „köldum svæðum“, þ.e. svæðum þar sem húshitunarkostnaður er mestur. Allnokkru fé hefur verið varið til þess að lækka þennan kostnað og er ákvörðun um það tekin í fjárlögum hvert ár.
    Í fjárlögum yfirstandandi árs er varið ríflega 1,1 milljarði kr. til niðurgreiðslu á húshitunarkostnaði íbúðarhúsnæðis. Fram til síðustu áramóta voru í gildi lög sem kváðu á um að virðisaukaskattur vegna húshitunar væri endurgreiddur, til þess að koma í veg fyrir að þessi skattlagning lenti á heimilunum í landinu. Með lagabreytingu sem tók gildi um áramótin var horfið frá þessari endurgreiðslu, sem nam á síðasta ári um 216 millj. kr. Til þess að koma til móts við íþyngjandi áhrif af þessari lagasetningu var varið 140 millj. kr. til aukinna niðurgreiðslna og 40 millj. kr. jafnframt veittar almennt til viðbótar til niðurgreiðslnanna.

Neikvæð þróun.
    Því miður hefur niðurgreiðslan undanfarin ár alls ekki dugað til þess að hamla á móti hækkandi orkuverði til heimilisnota. Þetta má sjá í svari iðnaðarráðherra við fyrirspurn fyrsta flutningsmanns þessarar tillögu, sbr. þskj. 234, 27. mál yfirstandandi þings. Taka má dæmi af kostnaði við kyndingu á 180 fermetra húsnæði í dreifbýli á svæði RARIK. Hann er nú talinn vera um 238 þús. kr. á ári, um 20 þús. kr. á mánuði. Kostnaðurinn var 166 þús. kr. árið 2000, sem svarar til mánaðarlegs kostnaðar upp á tæpar 14 þús. kr. Lægstur var kostnaðurinn árið 2002, 138 þús. kr. á ári, um 11 þús. kr. á mánuði. Allar eru þessar tölur á núgildandi verðlagi og því vel samanburðarhæfar.
    Hækkunin frá árinu 2000 er því um 43%, en hvorki meira né minna en 72% sé árið 2002 tekið til viðmiðunar. Árétta ber að þetta eru tölur sem mæla hækkun húshitunarkostnaðar að raungildi. Ekki er fyrirséð að þessari þróun verði snúið við, heldur þvert á móti. Á þessu ári er dregur enn úr niðurgreiðslum til húshitunarkostnaðar frá því sem var á síðasta ári. Jafnframt hafa orkufyrirtækin tilkynnt talsverðar hækkanir nú í ársbyrjun. Því er ljóst að húshitunarkostnaður muni hækka á hinum „köldu svæðum“ í ár.
    Athyglisvert er að skoða til samanburðar þróun húshitunarkostnaðar á svæði Orkuveitu Reykjavíkur. Þar er talið að það kosti um 93 þús. kr. á ári að kynda 180 fermetra húsnæði, nú eftir síðustu hækkun fyrirtækisins sem mjög var umtöluð. Þetta svarar til um 8 þús. kr. mánaðarlegs húshitunarkostnaðar. Árið 2000 var kostnaðurinn 100 þús. kr. og var lægstur í fyrra, um 72 þús. kr. á verðlagi ársins í ár, um 6 þús. kr. á mánuði. Allt sömuleiðis tölur á sambærilegu og núgildandi verðlagi.

Húshitunarkostnaður með hliðsjón af kaupmætti.
    Til þess að varpa frekara ljósi á þetta mál er gott að draga fram þróun kaupmáttar á þessu tímabili. Ef skoðuð er þróun kaupmáttar frá ársbyrjun 2002 og fram í nóvember sl. kemur í ljós að kaupmáttur jókst um 3,18%. Til samanburðar eru svo tölurnar um að húshitunarkostnaður hækkaði í dreifbýli á svæði RARIK um 72% á þessum tíma. Ef tímabilið frá ársbyrjun 2008 og fram í nóvember í fyrra er svo sérstaklega skoðað er niðurstaðan sú að kaupmáttur hefur minnkað um 10,7%. Frá árinu 2008 og fram í október 2010 hækkaði húshitunarkostnaður í dreifbýli á RARIK-svæðinu hins vegar um tæp 25%.
    Enn má nefna að grunndagvinnulaun fiskvinnslufólks eru núna á mánuði um 189 þús. kr., regluleg laun 223 þús. kr. og regluleg heildarlaun um 328 þús. kr. Það er því ljóst að húshitunarkostnaður upp á 20 þús. kr. á mánuði tekur mjög mikið í heimilispyngju venjulegs launafólks og er 10,5% af grunndagvinnulaunum fiskverkafólks. Þegar best lét var þetta hlutfall 5,3%.
    Það er því ljóst að hjá þeim tæplega 40 þúsund einstaklingum sem búa við hæst verð er húshitunarkostnaðurinn orðinn mjög íþyngjandi og verður stöðugt stærri hluti af launum almennings á þessum svæðum.

Aðrir orkukostir.
    Það veldur síðan áhyggjum að nú virðist það vera orðin niðurstaðan að ekki séu miklir möguleikar á frekari jarðvarmakyndingu með hagkvæmum hætti, sbr. tillögu til þingsályktunar um byggðaáætlun. Væntingar um lækkun húshitunarkostnaðar með átaki í jarðhitaleit eru þess vegna ekki mjög burðugar. Þetta er alvarlegt vegna þess að húshitunarkostnaður er hærri þar sem notuð er raforka til húshitunar en þar sem jarðvarmi er orkugjafinn. Raforkukostnaður í þéttbýli á köldum svæðum er svipaður og annars staðar í þéttbýli á landinu en nauðsynlegt er að jafna dreifingarkostnað raforku milli dreifbýlis og þéttbýlis.
    Ýmis úrræði eru til sem stuðlað geta að lægri húshitunarkostnaði. Átak í frekari orkusparandi aðgerðum gæti skilað árangri. Þó verður að halda því til haga að íbúðareigendur á köldum svæðum hafa mjög margir þegar ráðist í slíkar aðgerðir, meðal annars af illri nauðsyn. Vandinn við slíkar aðgerðir er líka sá að þær eru jafnan kostnaðarsamar og skila íbúðareigendum ábata á mjög löngum tíma. Þarna er þó sjálfsagt að halda áfram, svo sem kostur er.
    Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp sem felur í sér heimild til þess að endurgreiða virðisaukaskatt af varmadælum, sem margir telja að geti verið liður í því að lækka húshitunarkostnað, sbr. þskj. 601, 393. mál. Þá má benda á að varmadælur bera nú þegar tolla og vörugjöld, sem einfalt er að fella niður varanlega eða tímabundið til þess að stuðla að lækkun húshitunarkostnaðar. Slíkt kallar ekki á lagaheimild, heldur breytingu á tollflokkum og reglugerðum.
    Það hefur verið almennur skilningur á því að stuðla að lægra orkuverði og húshitunarkostnaði á þeim svæðum þar sem þessi kostnaður er mestur. Hefur það verið liður í byggðastefnu stjórnvalda og almennri viðleitni til þess að jafna kjör landsmanna. Ef til vill má einnig segja að þetta hafi verið hluti af því að tryggja að arður af sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar renni til almennings, eins og mjög er nú rætt um. Krafan um frekari aðgerðir til lækkunar á húshitunarkostnaði er því allt eins krafa um að eigendur orkuauðlindanna njóti með beinum hætti arðs af sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar.

Nauðsynlegt að leita annarra leiða.
    Það fyrirkomulag að ákveða umfang niðurgreiðslna á húshitunarkostnaði í fjárlögum hefur bersýnilega ekki skilað ætluðum árangri. Oftar en ekki hefur þessi liður orðið fyrir niðurskurði, jafnvel umfram almennan niðurskurð í fjárlögum. Að minnsta kosti er ljóst að þessar fjárveitingar hafa ekki megnað að hamla gegn hækkunum á töxtum til húshitunar, eins og tölur sem raktar hafa verið sýna svart á hvítu. Við verðum því einfaldlega að horfast í augu við að þetta fyrirkomulag kallar á tafarlausa endurskoðun. Húshitunarkostnaður kemur víða mjög hart niður og á einstökum svæðum er hann mjög stór hluti af heimilisútgjöldunum.
    Þess vegna er mjög brýnt að þegar í stað verði farið í róttæka og gagngera endurskoðun á þessum málum, með það að markmiði að lækka húshitunarkostnað þar sem hann er þungbærastur. Leiðir að því markmiði eru þó nokkrar og geta sannarlega verið umdeildar. Hér er hins vegar um að ræða mál sem Alþingi verður að láta sig varða og freista þess að mynda víðtæka samstöðu um að leysa með viðunandi hætti, ella er hætt við að enn verr fari í byggðum sem þegar standa höllum fæti.
    Með þessari þingsályktunartillögu er ætlunin að kalla til verka fulltrúa allra þingflokka, sveitarstjórnarmanna og orkufyrirtækja, skapa um málið almenna sátt og koma því þannig fyrir að húshitunarkostnaður á „köldum svæðum“ lækki en sé ekki undirorpinn árlegum ákvörðunum við fjárlagagerð hverju sinni.Fylgiskjal I.


Húshitunarkostnaður 180 fm húsnæðis.


(Tafla úr svari iðnaðarráðherra við fyrirspurn í 27. máli yfirstandandi þings.)
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Fylgiskjal II.


Tafla um kaupmáttarþróun.


(Unnin upp úr gögnum Hagstofu Íslands.)Laun Verðlag Kaupmáttur
Breytingar jan. 2002 – nóv. 2010 70,3% 65,0% 3,18%
Breytingar jan. 2008 – nóv. 2010 15,6% 29,5% –10,74%
Laun fullvinnandi í september 2010
HRL RL RHL HVT
Iðnverkafólk í fiskvinnslu 189.000 223.000 328.000 50,7
Allir 303.000 327.000 370.000 44,6

Hrein regluleg laun
(HRL) eru grunndagvinnulaun (það næsta sem við komumst dagvinnulaunum).
Regluleg laun (RL) eru hrein regluleg laun að viðbættu vaktaálagi, álagsgreiðslum, kostnaðargreiðslum og afkastatengdum bónusgreiðslum sem gerðar eru upp á hverju útborgunartímabili. Í reglulegum launum er ekki tekið tillit til yfirvinnugreiðslna, uppmælinga, ákvæðisgreiðslna, hlunninda, akstursgreiðslna og greiðslna sem ekki eru gerðar upp á hverju útborgunartímabili, svo sem eingreiðslna, hvort sem þær eru greiddar samkvæmt kjarasamningum eða ekki.
Regluleg heildarlaun (RHL) eru regluleg laun að viðbættum yfirvinnulaunum, veikindalaunum og fyrirframgreiðslu vegna uppmælinga.
Heildarvinnutími (HVT) .