Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 470. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Prentað upp.

Þskj. 761  —  470. mál.
Flutningsmenn.
Frumvarp til lagaum veitingu ríkisborgararéttar.

Flm.: Árni Johnsen.1. gr.

    Ríkisborgararétt skal öðlast:
    Madina Salamova, f. 1985 í Rússlandi.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að Alþingi veiti rússneskættuðu konunni Madinu Salamova, sem þekkt er undir höfundarnafninu Marie Amelie, íslenskan ríkisborgararétt. Hún hefur búið í Noregi frá blautu barnsbeini en kom til Noregs sem ólöglegur innflytjandi með foreldrum sínum fyrir 25 árum frá Norður-Ossetíu í Rússlandi. Hún talar norsku reiprennandi og hefur mótast fyrst og fremst af siðum norræns samfélags. Hún er með háskólapróf og hefur því gengið í gegnum öll stig norska skólakerfisins og getið sér gott orð hvarvetna.     
    Á síðasta ári gaf hún út bók um líf ólöglegra innflytjenda í Noregi og byggði hana að nokkru leyti á eigin lífi. Í kjölfarið fór norska útlendingastofnunin fram á að hún yrði handtekin. Henni var síðan vísað úr landi og flutt nauðug til Rússlands þar sem hún á enga að, eftir því sem fram hefur komið í fjölmiðlum. Öðlist hún íslenskan ríkisborgararétt getur hún ráðið hvar á Norðurlöndum hún býr.
    Íslendingar leggja höfuðáherslu á að verja jafnt sjálfstæði einstaklinga sem þjóða og það er mikið kappsmál fyrir Íslendinga að verja norræna samfélagið, menningu þess, tungu, drifkraft og kærleika. Mál Marie Amelie, eins og hún kallar sig, er sérstakt ef ekki einstakt og þarf að meðhöndlast sem slíkt. Hún talar einstaklega fagra norska tungu af útlendingi að vera. Íslendingar vilja leggja sérstaka áherslu á að verja norska tungu sem barn íslenskrar tungu. Íslenska tungan hefur haft þrek til að standa af sér alvarleg áhrif annarra tungumála á síðustu 1000 árum á sama tíma og önnur norræn tungumál hafa tekið stakkaskiptum.
    Flutningsmenn telja það ekki stórmannlegt af frændum okkar Norðmönnum að vísa ungri konu með norskar rætur, Marie Amelie, úr landi. Þeir telja það ómanneskjulegt, ónútímalegt og í raun valdbeitingu gegn einstaklingi sem hefur í áratugi alist upp innan veggja norræna samfélagsins. Hjartahlýja hefur löngum verið Norðmönnum í blóð borin. Einstaklingur sem hefur þannig fest rætur í norræna samfélaginu um langt árabil, eins og Marie Amelie hefur gert, hlýtur að eiga mikilvægan rétt til áframhaldandi þátttöku í norræna samfélaginu.
    Með þessari tillögu er lögð áhersla á íslenska orðið vinarþel, sem erfitt er að þýða á önnur tungumál, en ætti að búa í hjörtum Norðmanna. Íslendingum ætti að vera í lófa lagið að taka af skarið í þessum efnum þegar aðra skortir bæði þrek, þor og skilning á orðinu vinarþel.