Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 478. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 773  —  478. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um stofnun vestnorræns sögu- og samfélagsseturs.

Flm.: Ólína Þorvarðardóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Atli Gíslason,


Árni Johnsen, Sigurður Ingi Jóhannsson, Þráinn Bertelsson.


    Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að leita leiða í fjárlögum til að styðja við stofnun vestnorræns sögu- og samfélagsseturs.

Greinargerð.


    Tillaga þessi er lögð fram á grundvelli ályktunar Vestnorræna ráðsins nr. 2/2010 sem samþykkt var á ársfundi ráðsins 24. ágúst 2010 í Tasiilaq á Grænlandi.
    Hópur sagnfræðinga frá Íslandi, Færeyjum og Grænlandi hefur um nokkurt skeið unnið að því að rannsaka og skrifa sögu Vestur-Norðurlanda að tillögu og frumkvæði Vestnorræna ráðsins.
    Nú styttist í að verkefninu ljúki en sagnfræðingarnir hafa lagt til að vinnunni verði fram haldið og fylgt eftir með stofnun „Vestnorræns sögu- og samfélagsseturs“, svo sem lýst er hér á eftir.
    Lögþing Færeyja hefur á nýliðnu ári veitt 200 þús. dkr. til Háskóla Færeyja til að hrinda hugmyndinni í framkvæmd. Styðji Grænland og Ísland verkefnið með álíka upphæð gæti setrið hafið starfsemi sína innan skamms.

Verkefnislýsing.
    Markmið vestnorræns sögu- og samfélagsseturs er að stunda rannsóknir, kennslu á háskólastigi og miðlun á rannsóknarniðurstöðum á sviðum sem tengjast svæðinu. Rannsóknir fara fram í háskólum, þjóðskjalasöfnum, söfnum og öðrum viðeigandi stofnunum. Setrið stýrir samvinnunni og kennaraskiptum á milli landanna og býður háskólum og stofnunum upp á fyrirlestra og námskeið í vestnorrænum fræðum. Rannsóknarniðurstöðunum er miðlað í formi útgáfu fréttabréfa og annarrar útgáfustarfsemi, kennslubókum sem og með sýningum í söfnum vestnorrænu ríkjanna þriggja.

Tilgangur.
          Að styrkja menningartengsl milli Vestur-Norðurlanda.
          Að stuðla að framgangi rannsókna á vestnorrænni sögu, samfélagi og menningu.
          Að miðla upplýsingum til barna og ungmenna og almennings um Vestur-Norðurlönd í nútíð og þátíð.
          Að safna og geyma þekkingu um Vestur-Norðurlönd og nærsvæði þeirra.
          Að stuðla að viðgangi þekkingarstarfsemi á svæðinu.

Þáttakendur.
    Helstu þátttakendur eru háskólar og æðri menntastofnanir, söfn, þjóðskjalasöfn og aðrar rannsóknastofnanir. Lagt er til að eftirfarandi stofnanir verði meginþátttakendur í samstarfinu:

Færeyjar Grænland Ísland
Fróðskaparsetur Føroya Ilisimatusarfik Háskólinn á Akureyri
Føroya Fornminnissavn Nunatta Katersugaasivia Háskólinn í Reykjavík
Føroya Landsskjalasavn Allagaateqarfialu Háskóli Íslands
Þjóðminjasafn Íslands
Þjóðskjalasafn Íslands

Starfsemi.
    Áætlað er að meginstarfsemi setursins verði rannsóknir, kennsla og miðlun upplýsinga. Setrið hafi frumkvæði að og umsjón með rannsóknarverkefnum, kennslu og annarri miðlun. Setrið skipuleggi ráðstefnur, námskeið og fyrirlestra og haldi úti heimasíðu sem innihaldi m.a. fréttabréf og almennar upplýsingar um sögu, menningu og samfélag Vestur-Norðurlanda. Heimasíðan verði á grænlensku, íslensku, færeysku og ensku. Miðlun setursins fer fram með útgáfu fagbókmennta, kennslubóka fyrir skóla og samræmingu á sameiginlegum sýningum. Setrið mun styðja stofnun rannsóknarskóla, menntun og ráðningu fræðimanna og draga til sín meistara- og doktorsnema.

Staðsetning.
    Setrið verði til að byrja með hýst hjá Fróðskaparsetri Færeyja og síðar flutt til Íslands eða Grænlands, ef ástæða þykir til.

Stjórn.
    Setrið hefur stjórn skipaða fagfulltrúum frá Færeyjum, Grænlandi og Íslandi. Stjórnin ræður forstöðumann sem heyrir í daglegum rekstri undir stjórn þeirrar stofnunar þar sem setrið er hýst.

Fjármögnun.
    Fjármögnun setursins verði með fjárframlögum frá vestnorrænu ríkjunum þremur. Grunnfjármögnun verður:
          laun til forstöðumanns,
          skrifstofa,
          heimasíða, þ.m.t. þýðingar,
          ferðakostnaður fyrir forstöðumann og stjórnarmeðlimi,
          kostnaður í tengslum við kennsludvalir.
    Verkefni setursins fjármagnist af norrænum og öðrum sjóðum.

Samvirknisáhrif stofnunar setursins.
          Sterkt vestnorrænt svæði með aukinni samvinnu.
          Aukinn skilningur á lífsskilyrðum á Vestur-Norðurlöndum.
          Samfelldara samstarf og aukin áhrif í norræna samstarfinu.
          Betri þekking og skilningur hjá utanaðkomandi á sögu, menningu og samfélagi Vestur- Norðurlanda.