Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 494. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 810  —  494. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um heildarúttekt á starfsemi æskulýðs- og ungmennasamtaka á Íslandi.

Frá menntamálanefnd.



    Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að láta gera óháða heildarúttekt á ráðstöfun opinberra fjárveitinga til starfsemi æskulýðs- og ungmennasamtaka á Íslandi. Þar komi m.a. fram hlutfallsleg skipting fjármuna milli rekstrar- og stjórnunarkostnaðar annars vegar og verkefna sem nýtast ungmennum beint hins vegar. Jafnframt komi fram upplýsingar um það hve mörgum ungmennum viðkomandi samtök þjóna og á hvaða landsvæðum, hver sé hlutur ungs fólks, greint eftir kynjum þar sem kostur er, í stefnumótun og ákvarðanatöku innan viðkomandi samtaka og hvernig mati á árangri af starfi samtakanna sé háttað. Loks verði þessar upplýsingar bornar saman við skipan, starfsemi og fjármögnun æskulýðssamtaka annars staðar á Norðurlöndum.
    Niðurstöður úttektarinnar verði nýttar við stefnumótun stjórnvalda í æskulýðsmálum og liggi fyrir eigi síðar en 1. september 2011.

Greinargerð.


    Í 3. gr. æskulýðslaga, nr. 70/2007, kemur fram að ríki og sveitarfélög skuli stuðla að því að ungt fólk eigi þess kost að starfa að æskulýðsmálum við sem fjölbreyttust skilyrði.
    Töluverðu fjármagni er á ári hverju varið til æskulýðsmála á Íslandi, en framlög til málaflokksins námu 199,4 millj. kr. í fjárlögum ársins 2010. Hins vegar er skortur á heildstæðum upplýsingum um hvernig því fjármagni er varið og hve mikið skilar sér í eiginlegri þátttöku ungs fólks.
    Nú á tímum mikils atvinnuleysis og niðurskurðar má teljast eðlilegt að skoðað sé hvernig fjármagni er varið og sérstaklega þegar litið er til þess hlutverks sem æskulýðsstarf getur haft við að koma í veg fyrir óæskileg langtímaáhrif á ungt fólk án atvinnu.
    Um helmingur heimsbyggðarinnar er fólk undir 29 ára aldri og er ungt fólk (15–29 ára) á landsvísu um 20% þjóðarinnar. Þessi hópur verður að hafa tækifæri til að taka þátt í stefnumörkun á öllum sviðum samfélagsins þar sem hagsmunir ungs fólks eru í húfi. Mikilvægt er að leita leiða til að virkja ungt fólk í auknum mæli við mótun stefnu í æskulýðsmálum. Þá er brýnt að beita þarfagreiningu til grundvallar stefnumótun og ráðstöfun fjárveitinga í málaflokknum.
    Lagt er til að í úttekt á starfsemi æskulýðssamtaka á Íslandi verði gert yfirlit yfir þróun fjárveitinga til slíkra samtaka og ráðstöfun þeirra undanfarinn áratug. Þar komi m.a. fram hvaða félög starfa að æskulýðsmálum á Íslandi, á hvaða svæðum og hvernig fjárveitingar ríkisins hafa skipst milli þeirra á undanförum árum. Veitt verði yfirlit yfir hlutfallslega skiptingu fjármuna milli skrifstofu- og stjórnunarkostnaðar annars vegar og framlaga til verkefna sem nýtast ungmennum beint hins vegar. Upplýst verði hver sé hlutur ungs fólks, greint eftir kynjum þar sem kostur er, í stefnumótun og ákvarðanatöku viðkomandi samtaka og hvernig mati á árangri af starfi samtakanna sé háttað. Leitað verði fyrirmynda erlendis varðandi leiðir til að byggja upp öflugt æskulýðsstarf með virkri þátttöku ungs fólks í stefnumótun og framkvæmd.