Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 418. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 853  —  418. mál.
Svarutanríkisráðherra við fyrirspurn Vigdísar Hauksdóttur um starfsemi sendiráða og ræðismannsskrifstofa.

     1.      Hver var fjöldi erlendra starfsmanna, ásamt fjölskyldum, í sendiráðum erlendra ríkja hér á landi 1. janúar 2009 og 1. janúar 2011, sundurliðað eftir sendiráðum?

Erlendir starfsmenn í sendiráðum erlendra ríkja.


Fjöldi erlendra starfsmanna
1. janúar 2009 1. janúar 2011
Bandaríkin 16 24
Bretland 3 5
Danmörk 4 4
Evrópusambandið - 11
Finnland 3 2
Frakkland 8 8
Indland 12 10
Japan 4 3
Kanada 2 1
Kína 11 13
Noregur 5 4
Rússland 36 43
Svíþjóð 5 4
Þýskaland 7 8

     2.      Hvað unnu margir Íslendingar hjá sendiráðunum 1. janúar 2009 og 1. janúar 2011, sundurliðað eftir sendiráðum?

Íslendingar sem starfa hjá erlendu sendiráðunum.


Fjöldi íslenskra starfsmanna
1. janúar 2009 1. janúar 2011
Bandaríkin 38 36
Bretland 9 11
Danmörk 1 1
Evrópusambandið - 5
Finnland 5 4
Frakkland 4 4
Indland 0 1
Japan 2 3
Kanada 4 4
Kína 0 0
Noregur 1 1
Rússland 0 0
Svíþjóð 2 1
Þýskaland 3 3

     3.      Hvaða sendiráð hér á landi eru í eigin húsnæði og hvaða sendiráð leigja húsnæði undir rekstur sinn? Hver er fermetrafjöldi húsnæðis sendiráðanna?

Fermetrafjöldi húsnæðis sendiráðanna.


Húsnæði *

Bandaríkin
531 m2 Eign
Bretland 260 m2 Leigt
Danmörk 300 m2 Eign
Evrópusambandið ** 568 m2 Leigt
Finnland 274 m2 Eign
Frakkland 399 m2 Eign
Indland 330 m2 Leigt
Japan 765 m2 Leigt
Kanada 426 m2 Leigt
Kína 700 m2 Eign
Noregur 601 m2 Eign
Rússland 671 m2 Eign
Svíþjóð 328 m2 Eign
Þýskaland 599 m2 Leigt
*    Skrifstofa sendiráðs („chancery“), samkvæmt upplýsingum sendiráðanna sjálfra.
**    Notar heitið „sendinefnd“, en hefur stöðu sendiráðs.

     4.      Telur ráðherra það samræmast ákvæðum um að skipta sér ekki af innanlandsmálum, sbr. 55. gr. Vínarsamningsins, þegar beinlínis er gert ráð fyrir að sendiráð Evrópusambandsins komi að kynningarmálum sambandsins hér á landi?
    Sendiráð ESB fellur eins og önnur sendiráð undir Vínarsamninginn um stjórnmálasamband frá 18. apríl 1961. Spurning háttvirts fyrirspyrjanda lýtur að því hvort starfsemi umrædds sendiráðs sé í samræmi við „55. gr. Vínarsamningsins“. Þá myrkvast málið. Hvorki löglærðum embættismönnum ráðuneytisins né ráðherra hefur tekist að finna umrædda 55. grein í Vínarsamningnum um stjórnmálasamband. Fyrirspyrjandi hefur að líkindum farið samningavillt og er að vitna til 55. greinar í öðrum samningi, sem líka er kenndur við Vín. Sá er frá 24. apríl 1963 og er um ræðissamband. Sú grein er aftur efnislega samhljóða 41. grein Vínarsamningsins um stjórnmálasamband sem fjallar um starfsemi sendiráða, þarmeð þess sendiráðs sem hæstvirtur þingmaður spyr um. 41. grein samningsins frá 18. apríl ætti því að vera andlag spurningar hæstvirts fyrirspyrjanda. Fremur en vísa þessum hluta fyrirspurnarinnar til móðurhúsanna tekur ráðherra sér það bessaleyfi að byggja svar sitt á þeirri niðurstöðu.
    Greinarnar kveða á um hvernig samræma skuli friðhelgisrétt sendiráða og ræðisskrifstofa því að þau starfi í samræmi við lög og reglur móttökuríkisins, sem og skilgreiningu samningsins sjálfs og þjóðarétt. Ráðuneytið fær hins vegar ekki séð að aðkoma sendiráðs ESB að kynningarmálum sambandsins hér á landi stangist á nokkurn hátt við efnisatriði þessara greina.
    Þvert á móti er rétt að vísa háttvirtum fyrirspyrjanda á e-lið 1. mgr. 3. gr. Vínarsamningsins um stjórnmálasamband. Umræddur töluliður kveður á um að það sé viðfangsefni sendiráða að „efla vinsamleg samskipti milli sendiríkisins og móttökuríkisins og auka efnahagsleg, menningarleg og vísindaleg samskipti þeirra“. Utanríkisráðherra telur að umrætt sendiráð sé augljóslega að fylgja þeirri mikilvægu reglu eftir. Segja má á kjarnyrtri íslensku að sú starfsemi falli að e-lið 1. mgr. 3l gr. Vínarsamningsins eins og flís við rass. Svar ráðherra við fyrrgreindri spurningu háttvirts fyrirspyrjanda er því játandi.
    Því má við bæta að löng hefð er fyrir starfsemi sendiráða af þessu tagi. Má af því tilefni nefna öflugt sendiráð eins og það sem Bandaríkin hafa árum saman rekið af miklum þrótti. Á þess vegum hefur um langt skeið verið rekin öflug upplýsinga- og kynningarstarfsemi sem miðar að því að koma málstað og menningu Bandaríkjanna á framfæri. Sendiráðið rekur meðal annars sérstakan kynningarfulltrúa í því skyni. Ráðherra telur þetta fyllilega samræmast tilvitnuðu lagaákvæði og vera auk þess hrósvert af hálfu viðkomandi ríkis. Skoði háttvirtur fyrirspyrjandi hvernig Íslendingar hafa sjálfir túlkað þetta ákvæði Vínarsamningsins virðist nákvæmlega sama uppi á teningnum með starfsemi íslenskra sendiráða. Íslenskir ráðherrar, sem meðal annars hafa komið úr flokki hæstvirts fyrirspyrjanda, hafa litið svo á að gildur þáttur í að uppfylla e-lið 1. mgr. 3. gr. umrædds samnings felist í að kynna málefni Íslands í gistiríkinu. Þannig hefur íslenskum sendiskrifstofum erlendis um langt árabil verið falið að kynna íslensk málefni hvort sem er á sviði stjórnmála, viðskipta eða menningar í gistiríkjum sínum, sem og eftir atvikum í öðrum umdæmisríkjum. Á sama hátt hafa sendiráð erlendra ríkja á Íslandi skyldum að gegna við að kynna sín málefni. Hefur slík kynningarstarfsemi ekki talist vera afskipti af innanlandsmálum heldur þvert á móti eðlilegur og – að mati ráðherra – æskilegur hluti af starfsemi sendiráða. Utanríkisráðuneytið hefur ekki ástæðu til að ætla að öðru muni gegna um fyrirhugað kynningastarf sendiráðs Evrópusambandsins á Íslandi og óskar sendiráðinu velfarnaðar á því sviði.
    Í hröðum erli dags getur það hent bestu menn og konur að villast á samningum og ráðuneytið telur síður en svo eftir sér að beita skapandi túlkun til að greiða úr flækjum sem af því kunna að spinnast. Ráðuneytið hvetur þó til þess í fullri vinsemd að undirbúningur fyrirspurna sé vandaður til að greiða fyrir skjótum og skýrum svörum. Það er jafnan reiðubúið til að veita tæknilega ráðgjöf ef það mætti skýra fyrirspurnir og að sama marki gera svör ráðuneytisins greinarbetri.

     5.      Hvað hefur Ísland stjórnmálasamband við mörg ríki og hvað eru margir sendiherrar tilnefndir og gagnvart hve mörgum löndum?
    Ísland hefur stofnað til stjórnmálasambands við 186 ríki auk einnar alþjóðastofnunar, Evrópusambandsins. Samkvæmt forsetaúrskurði frá 20. janúar 2010 fara sendiskrifstofur Íslands erlendis með fyrirsvar gagnvart 186 ríkjum og eru sendiherrar í viðkomandi sendiskrifstofum tilnefndir sendiherrar gagnvart viðkomandi gistiríki og umdæmisríkjum. Utanríkisráðuneytið fer með fyrirsvar gagnvart 63 ríkjum en í þeim tilvikum er fyrirsvarið ekki á hendi sendiherra.

     6.      Í hvaða löndum rekur íslenska ríkið:
                  a.      sendiráð,
                  b.      ræðismannsskrifstofur?
    Íslenska ríkið rekur sendiráð í 15 löndum; Þýskalandi, Belgíu, Finnlandi, Danmörku, Bretlandi, Rússlandi, Noregi, Frakklandi, Svíþjóð, Austurríki, Kanada, Bandaríkjunum, Indlandi, Kína og Japan. Umdæmisskrifstofur Þróunarsamvinnustofnunar Íslands gegna einnig hlutverki sendiráðs, sbr. 1. tölulið a í forsetaúrskurði nr. 6/2010, um sendiráð, fastanefndir hjá alþjóðastofnunum og sendiræðisskrifstofur. Þær eru nú í þremur löndum: í Malaví, Mósambík og Úganda. Rekstri umdæmisskrifstofu Þróunarsamvinnustofnunar í Namibíu var hætt í lok árs 2010, en hún gegndi einnig hlutverki sendiráðs samkvæmt forsetaúrskurði. Einnig er rétt að geta fastanefnda Íslands hjá Atlantshafsbandalaginu í Brussel, hjá alþjóðastofnunum í Genf og hjá Sameinuðu þjóðunum í New York. Tvær síðar töldu fastanefndirnar fara jafnframt með sendiráðsstörf gagnvart nokkrum ríkjum.
    Þá rekur íslenska ríkið aðalræðisskrifstofur í Kanada, Færeyjum og Bandaríkjunum. Jafnframt eru 248 kjörræðismenn Íslands erlendis, en þeir reka skrifstofur sínar fyrir eigin reikning.

     7.      Hvað starfa margir Íslendingar á erlendri grund í sendiráðum og ræðismannsskrifstofum Íslands?
    Flutningsskyldir starfsmenn utanríkisþjónustunnar, sem eru nú við störf í sendiskrifstofum Íslands erlendis, eru 52. Staðarráðnir starfsmenn í sendiskrifstofum erlendis, sem eru íslenskir ríkisborgarar, eru 29.

     8.      Hvað starfa margir erlendir aðilar á erlendri grund í sendiráðum og ræðismannsskrifstofum Íslands?
    Staðarráðnir starfsmenn í sendiskrifstofum erlendis, sem eru ríkisborgarar annars ríkis, eru 41.