Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill málsins.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 874  —  131. mál.
Framhaldsnefndarálit


um frv. til l. um breyt. á samkeppnislögum, nr. 44/2005, með síðari breytingum.

Frá minni hluta viðskiptanefndar.


    Við 2. umræðu málsins óskuðu fulltrúar minni hlutans eftir því að frumvarp efnahags- og viðskiptaráðherra um breytingar á samkeppnislögum, nr. 44/2005, með síðari breytingum, gengi til viðskiptanefndar milli 2. og 3. umræðu. Ástæðan fyrir beiðninni var sú að minni hluti nefndarinnar taldi nauðsynlegt að nefndin aflaði sér álits sérfræðinga á sviði samkeppnisréttar á þessu umdeilda frumvarpi.
    Við meðferð málsins í viðskiptanefnd komu til fundar við nefndina þeir Hörður Felix Harðarson, hæstaréttarlögmaður og aðjúnkt í samkeppnisrétti við lagadeild Háskóla Íslands, og Heimir Örn Herbertsson, hæstaréttarlögmaður og aðjúnkt við lagadeild Háskólans í Reykjavík. Veittu þeir nefndinni munnlega umsögn um frumvarpið en skiluðu síðan skriflegri umsögn til nefndarinnar 28. janúar sl., sem fylgir framhaldsnefndaráliti þessu sem fylgiskjal.
    Í umsögn sérfræðinganna kemur fram hörð gagnrýni á efni frumvarpsins og þá einkum á það matskennda ákvæði frumvarpsins sem felur í sér mestar breytingar á núgildandi samkeppnislögum, þ.e. b-lið 2. gr. frumvarpsins sem heimilar Samkeppniseftirlitinu að brjóta upp fyrirtæki þó ekki liggi fyrir að nein brot hafi átt sér stað gegn ákvæðum samkeppnislaga heldur aðeins ef aðstæður, að mati Samkeppniseftirlitsins, eru með þeim hætti að ætla megi að samkeppni sé ekki fullkomlega virk. Taka sérfræðingarnir því undir þá megingagnrýni sem minni hlutinn hefur sett fram um efni frumvarpsins.

Aðgangshindranir og hröð málsmeðferð.
    Í upphafi er rétt að geta þess að í umsögn sérfræðinganna er bent á tvö atriði sem þeir telja öðru fremur að gætu orðið til þess að efla samkeppni eða draga úr þeim aðstæðum sem standa samkeppni helst fyrir þrifum.
    Annars vegar benda þeir á að á mörgum mörkuðum hérlendis séu ýmsar hindranir í vegi fyrir því að fyrirtæki geti keppt óhindrað sín á milli um viðskipti við neytendur. Hindranir af þessu tagi, sem sérfræðingarnir nefna aðgangshindranir, séu í flestum eða mörgum tilfellum lykilskýring á því hvernig einstök fyrirtæki geti náð svo sterkri stöðu á markaði að óheppilegt geti talist fyrir framgang samkeppni á honum. Aðgangshindranir af þessu tagi eigi sér mjög oft uppruna í ákvæðum laga eða ákvörðunum stjórnvalda sjálfra. Markvisst afnám slíkra aðgangshindrana af hendi löggjafans og stjórnvalda mundi efla samkeppni mun betur og hraðar en sú aðgerð að fela Samkeppniseftirlitinu þær óljósu heimildir sem í frumvarpinu felast og hér hafa verið nefndar.
    Hins vegar benda sérfræðingarnir á að í núgildandi samkeppnislöggjöf séu nokkrar meginreglur hverra skörp og skýr beiting sé úrslitaatriði um hvort samkeppnislögin hafi jákvæð áhrif á samkeppni og þróun markaða eða ekki. Þegar á það reyni hvort fyrirtæki hafi raskað samkeppni með ólögmætu samráði sín á milli eða með misnotkun á markaðsráðandi stöðu sé afar brýnt að niðurstöður fáist um slík álitaefni bæði skjótt og vel. Fyrirtækjum sé nauðsynlegt að vita án dráttar hvernig talið er rétt að túlka og beita þeim leikreglum sem samkeppnislögin byggist á gagnvart raunverulegum aðstæðum á markaði, samningum og hvers kyns markaðsfærslu. Staðreyndin sé hins vegar sú að það geti tekið mörg ár að fá niðurstöðu í slík mál hjá Samkeppniseftirlitinu. Fram kom á fundi nefndarinnar að dæmi væru um að það tæki jafnvel 2–4 ár að fá niðurstöðu í málum sem Samkeppniseftirlitið hefði haft til meðferðar. Slík staða sé með ólíkindum og ef samkeppnislögunum er ætlað að gera gagn og ná í alvöru þeim markmiðum sem lögin stefna að, þ.e. að tryggja hagkvæma nýtingu framleiðsluþátta með eflingu virkrar samkeppni, neytendum og landsmönnum öllum til hagsbóta, þá sé það langbrýnasta verkefni Alþingis að búa svo um hnútana að Samkeppniseftirlitið geti lokið þeim rannsóknum og athugunum sem lögin útheimta og tekið í öllum tilvikum ákvarðanir í málum sem varða bannreglur laganna innan fárra mánaða í mesta lagi.
    Undir þessi sjónarmið tekur minni hlutinn.

Heimild Samkeppniseftirlitsins til að brjóta fyrirtæki upp.
    Minni hlutinn hefur helst gagnrýnt það ákvæði frumvarpsins sem heimilar Samkeppniseftirlitinu að skipta fyrirtækjum upp eða fyrirskipa breytingar á skipulagi þeirra án þess að þau hafi gerst sek um brot á samkeppnislögum.
    Í umsögn sérfræðinganna er þetta ákvæði frumvarpsins gagnrýnt harðlega og lýsa þeir miklum efasemdum um að þessi breyting á samkeppnislögunum muni verða til bóta og færa fyrir þeim efasemdum ýmsar ástæður.
    Þar vegur þyngst sá alvarlegi fyrirvari fræðimannanna við að uppskiptingarákvæði frumvarpsins standist ákvæði stjórnarskrár Íslands sem verndar eignarrétt, sbr. 72. gr. hennar.
    Í umsögn sérfræðinganna segir um þetta atriði: ,,Hafa verður í huga að fyrirtæki geta náð mikilli markaðshlutdeild eða sterkri markaðsstöðu í huga neytenda með aðgerðum og háttsemi sem er fyllilega lögmæt og eðlileg. Það liggur í eðli samkeppninnar að ekki gengur öllum jafnvel að mæta þörfum viðskiptavina og neytenda og hlutdeild fyrirtækja á markaði breytist eðlilega í samræmi við slíkt. Fyrirhuguð heimild til íhlutunar í aðstæður sem raskað getur samkeppni er ekki takmörkuð á neinn hátt né veitir frumvarpið neina leiðsögn um við hvaða aðstæður nákvæmlega kemur til greina að henni verði beitt, hvaða sjónarmiðum skuli beitt við slíkt mat eða annað. Galopin og matskennd heimild af þessu tagi þar sem ofurtrú er lögð á óskeikulleika stjórnvalds og þar sem útilokað er að gera sér grein fyrir því, með lestri lagatextans, hvenær beitt verður er alls ekki í anda þess réttaröryggis og þeirrar festu sem ríkja þarf um eignarréttindi manna eins og þau eru vernduð í stjórnarskrá. Í öllu falli telja undirritaðir að gera þyrfti rækilega grein fyrir því í greinargerð með frumvarpi þessu hvernig ákvæðin teljast samþýðanleg stjórnarskrá. Þótt heimildir SKE samkvæmt margnefndu lagaákvæði nái ekki til þess að taka eignir eignarnámi án þess að endurgjald komi fyrir þá verður vart deilt um það að handstýrðar breytingar á atferli eða skipulagi fyrirtækis, svo sem með uppskiptingu þess, eru til þess fallnar að hafa veruleg áhrif á verðmæti þeirra. Í raun verður telja að heimildin ein og sér muni hafa áhrif á verðmæti fyrirtækja sem hugsanlega gætu fallið undir hana. Með lögfestingu heimildarinnar verður til óvissuþáttur sem fjárfestar hljóta að þurfa að horfa til.“
    Þá gagnrýna sérfræðingarnir í umsögn sinni að uppskiptingarheimild frumvarpsins sé ,,afar opin“ og feli í sér ,,óljósa og matskennda reglu“. Þeir benda á að ákvæði samkeppnislaga séu nú þegar að mörgu leyti afar óljós og matskennd og að erfitt sér fyrir stjórnendur fyrirtækja í mjög mörgum tilvikum að gera sér grein fyrir stöðu þeirra gagnvart ákvæðum laganna og nefna í því sambandi ákvæði 11. gr. samkeppnislaga um bann við misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Ályktanir um hvort fyrirtæki sé í markaðsráðandi stöðu séu byggðar á mjög matskenndum sjónarmiðum um skilgreiningu markaða og mati á efnahagslegum styrk fyrirtækja á þeim sem gífurlega erfitt geti verið fyrir stjórnendur fyrirtækja að glöggva sig á fyrirfram. Sú óvissa sem af þessu skapast um rekstur fyrirtækja sé mjög óheppileg og feli að sjálfsögðu í sér ágalla á því regluverki sem í samkeppnislögunum felast þótt vera kunni að slíkt sé að einhverju marki óhjákvæmilegt þegar lög af þessu tagi eigi í hlut. Engin ástæða sé hins vegar til þess að auka þessa óvissu verulega með lögfestingu þeirrar heimildar sem hér um ræðir. Mjög brýnt væri að útskýra og afmarka mun nánar, bæði í lagatextanum sjálfum og í greinargerð með frumvarpinu, hvaða aðstæður það teldust vera sem réttlætt gætu beitingu heimildarinnar, hvers konar málsmeðferð þyrfti að eiga sér stað áður en að slíku kæmi, hvaða markaðir það væru sem frumvarpshöfundar teldu að kynnu að sæta slíkri athugun yrði frumvarpið samþykkt o.s.frv. Þá benda sérfræðingarnir á að það sé síður en svo augljóst hvort samkeppni sé virk eða skert á mörgum mörkuðum eða hvað valdi því að markaðir og/eða fyrirtæki hegði sér eða virki með þessum hætti eða hinum. Orsakir og afleiðingar leikist oft á með mjög flóknum hætti og oft sé einfaldlega ekki hægt að greina með neinni fullnægjandi vissu hvers vegna markaði virki eins og þeir virki. Að ætla Samkeppniseftirlitinu að meta þetta og greina og grípa til íþyngjandi íhlutunar gegn fyrirtækjum, og þá um leið eigendum þeirra, án þess að nein lög hafi verið brotin og án neinnar leiðsagnar feli í sér oftrú á getu stjórnvaldsins, hversu vel mannað og skipulagt það teljist annars vera.
    Minni hlutinn hefur ítrekað bent á að sé það á annað borð mat löggjafans að aðstæður í atvinnulífinu séu með þeim hætti nauðsynlegt sé að veita Samkeppniseftirlitinu víðtækari valdheimildir en finna má í núgildandi samkeppnislögum verði að gera þá lágmarkskröfu að valdheimildin sé skilgreind með skýrum hætti í lögunum þannig að útfært sé nákvæmlega í lagatexta við hvers konar aðstæður heimildin verði virk, svo sem með vísan til markaðshlutdeildar yfir ákveðnum mörkum, tilgreindri samþjöppun á markaði eða öðrum þeim mælikvörðum sem almennt eru lagðir til grundvallar í samkeppnisrétti. Sú skoðun minni hlutans byggist á því sjónarmiði að sníða beri stjórnvöldum skýran lagaramma og að tryggt sé að stjórnvöld misbeiti ekki valdi sínu heldur gæti meðalhófs við beitingu valds. Mikilvægt sé að hafa þessi meginsjónarmið að leiðarljósi jafnvel þó svo að margt hafi aflaga farið í íslensku viðskiptalífi á síðustu missirum og árum og að framferði forsvarsmanna ýmissa fyrirtækja hafi verið mjög ámælisverð. Sú leið er hins vegar ekki farin í frumvarpinu heldur er lagt til að lögfest verði matskennd, óljós og óskýr heimild til þess að brjóta upp fyrirtæki sem heimilt er að beita án þess að brotið hafi verið gegn samkeppnislögum og í raun án allrar leiðsagnar löggjafans um með hvaða hætti henni skuli beitt.
    Minni hlutinn bendir á að með því að veita stjórnvaldi svo matskenndar og óskýrar valdheimildir, sem eru verulega íþyngjandi fyrir þá aðila sem þeim þurfa að sæta, megi færa fyrir því sterk rök að löggjafinn sé að framselja Samkeppniseftirlitinu völd til þess að hlutast til um eignarréttindi og atvinnuréttindi, sem varin eru af ákvæðum stjórnarskrár, umfram lagaheimildir. Í því sambandi er full ástæða til að vísa til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 15/2000, Stjörnugrís hf. gegn íslenska ríkinu, en í því máli var m.a. tekist á um heimildir löggjafans til að framselja vald til handhafa framkvæmdarvaldsins.
    Forsaga þess máls var sú að í 6. gr. laga nr. 63/1993 var umhverfisráðherra fengið vald til þess að ákveða, að fengnu áliti skipulagsstjóra, að tilteknar framkvæmdir skyldu háðar mati samkvæmt lögunum, ef hann teldi þær kunna að hafa í för með sér umtalsverð áhrif á umhverfi, náttúruauðlindir og samfélag. Sú heimild sem lagt er til að Samkeppniseftirlitinu verði fengin í frumvarpinu til þess að brjóta upp fyrirtæki er í eðli sínu sambærileg þeirri valdheimild. Í niðurstöðu dóms Hæstaréttar í fyrrgreindu máli sagði eftirfarandi:
     „Í 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 er kveðið á um friðhelgi eignarréttar og í 75. gr. hennar um atvinnufrelsi [...] Má hvorugt skerða nema með lagaboði að því tilskildu, að almenningsþörf krefji. Þessi fyrirmæli stjórnarskrárinnar verða ekki túlkuð öðruvísi en svo, að hinum almenna löggjafa sé óheimilt að fela framkvæmdarvaldshöfum óhefta ákvörðun um þessi efni. Löggjöfin verður að mæla fyrir um meginreglur, þar sem fram komi takmörk og umfang þeirrar réttindaskerðingar, sem talin er nauðsynleg. [...] Umhverfisráðherra hefur því í raun fullt ákvörðunarvald um það, hvort tiltekin framkvæmd [...] skuli sæta mati á umhverfisáhrifum samkvæmt 6. gr., en slík ákvörðun getur haft í för með sér umtalsverða röskun á eignarráðum og atvinnufrelsi þess, er í hlut á. Svo víðtækt og óheft framsal löggjafans á valdi sínu til framkvæmdarvaldsins stríðir gegn framangreindum mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar og er ólögmætt.“
    Í ljósi fyrrgreindrar niðurstöðu Hæstaréttar Íslands hníga sterk rök í þá átt að með því frumvarpi sem hér er til umfjöllunar sé löggjafinn að framselja vald sitt með ólögmætum hætti til Samkeppniseftirlitsins.
    Umsögn Harðar Felix Harðarsonar hrl. og Heimis Arnar Herbertssonar hrl. um frumvarp þetta fylgir framhaldsnefndaráliti þessu sem fylgiskjal. Í vandaðri og ítarlegri umsögn sinni tefla sérfræðingarnir fram fjölmörgum öðrum röksemdum í gagnrýni sinni á þetta ákvæði frumvarpsins en þeim sem hér hefur verið getið. Í öllu falli komast þeir að þeirri niðurstöðu afar varhugavert sé að fela samkeppnisyfirvöldum völd til að handstýra einstökum mörkuðum. Heimildir Samkeppniseftirlitsins til íhlutunar samkvæmt núgildandi samkeppnislögunum séu afar víðtækar og að engin þörf sé á að auka þær. Þær breytingar á samkeppnislögunum sem frumvarpið mælir fyrir um séu ekki til bóta á núverandi löggjöf.

Málskotsheimild Samkeppniseftirlitsins.

    Minni hlutinn hefur gagnrýnt það ákvæði frumvarpsins sem veitir Samkeppniseftirlitinu heimild til þess að skjóta úrskurðum áfrýjunarnefndar samkeppnismála til dómstóla. Byggist sú gagnrýni á því að með því að veita slíka heimild sé vikið frá þeirri meginreglu íslensks stjórnsýsluréttar að lægra settu stjórnvaldi beri að hlíta ákvörðunum æðra setts stjórnvalds og geti þarf af leiðandi ekki hlutast til um að fá úrskurðum æðra setts stjórnvalds hnekkt fyrir dómstólum.
    Undir þessa gagnrýni minni hlutans taka sérfræðingarnir í samkeppnisrétti sem viðskiptanefnd leitaði álits hjá. Í umsögn þeirri segjast þeir ekki sá neina ástæðu til þess að víkja frá þeirri meginreglu að lægra sett stjórnvald þurfi að hlíta niðurstöðu þess æðra. Þeir vísa til þeirrar óvissu sem er samfara löngum málsmeðferðartíma hjá samkeppnisyfirvöldum, sem vikið hefur verið að hér að framan. Segja sérfræðingarnir að með því að veita Samkeppniseftirlitinu heimild til að skjóta úrskurðum áfrýjunarnefndarinnar til dómstóla sé enn aukið á óvissuna sem fyrir er. Fyrirtæki þurfi því að sæta því að vera áfram í fullkominni óvissu um starfsemi sína til nokkurra ára, þrátt fyrir að mál þeirra kunni að hafa lokið með hagfelldum hætti með niðurstöðu æðra setts stjórnvalds. Segja fræðimennirnir að fyrir heimild af þessum toga þyrftu að minnsta kosti að vera afar veigamikil rök, sem ekki sé að finna í greinargerð með frumvarpinu.

Niðurstaða.
    Minni hlutinn hefur ítrekað bent á allar þær breytingar á núgildandi samkeppnislögum sem lagðar eru til í frumvarpinu séu íþyngjandi fyrir fyrirtækin í landinu. Slík stefnumörkun er að mati minni hlutans einkar ámælisverð þar sem flest fyrirtæki landsins búa í kjölfar efnahagshrunsins sem hér verð við miklar þrengingar. Við slíkar aðstæður telur minni hlutinn að stjórnvöldum beri fremur að styðja við bakið á fyrirtækjum landsins en að gera rekstrarumhverfi þeirra enn erfiðara en nú er.
    Minni hlutinn lýsir sig andsnúinn ákvæðum frumvarpsins og þá einkum því sem veitir Samkeppniseftirlitinu heimildir til þess að brjóta upp fyrirtæki án þess þau hafi gerst sek um brot á samkeppnislögum eða öðrum lögum. Uppskiptingarheimildin er til að mynda mun víðtækari en þær heimildir sem framkvæmdastjórn ESB og Eftirlitsstofnun EFTA geta gripið til. Heimildin gengur alltof langt og væri afar íþyngjandi fyrir íslenskt viðskiptalíf. Þá er heimildin, eins og hún er útfærð í frumvarpinu, alltof matskennd, óljós og opin og brýtur svo freklega í bága við almenn sjónarmið íslensks réttar um skýrleika lagaákvæða að á hana er ekki hægt að fallast. Þar við bætist að þeir sérfræðingar á sviði samkeppnisréttar sem nefndin hefur leitað til hafa með rökstuddum hætti sett sterka fyrirvara við að ákvæði frumvarpsins standist ákvæði stjórnarskrár Íslands auk þess sem dómafordæmi Hæstaréttar Íslands bendir til þess að með frumvarpinu sé löggjafinn að framselja Samkeppniseftirlitinu völd með ólögmætum hætti.
    Í umræðum um samkeppni og samkeppnislög er mikilvægt að hafa það í huga að velgengni í viðskiptum er ekki neikvæð. Það er eðlilegt og leiðir af eðli samkeppninnar að þeir sem bjóða betri vöru, verð og þjónustu en samkeppnisaðilarnir nái sterkri stöðu á þeim markaði sem þeir starfa á. Raunar er það svo að markaðsráðandi staða einstakra fyrirtækja er ekki óheimil samkvæmt núgildandi samkeppnislögum. Misnotkun slíkrar stöðu er það hins vegar. Þó að minni hlutinn telji fákeppni í eðli sínu óheppilega verður engu að síður í því sambandi að hafa í huga þær sérstöku aðstæður sem uppi eru á Íslandi. Vegna smæðar íslenska markaðarins og smæðar íslensku þjóðarinnar er því miður líklega óhjákvæmilegt að á einhverjum mörkuðum ríki fákeppni af einhverju tagi þar sem ekki er rekstrargrundvöllur fyrir mörg fyrirtæki. Á öðrum mörkuðum hefur átt sér stað samþjöppun vegna stærðarhagkvæmni og vegna þess að fyrirtækjum hefur gengið misjafnlega vel í samkeppninni. Raunar er það svo að slík samþjöppun einskorðast ekki við fámenna markaði heldur er til staðar á mörgum sviðum í öllum stærstu hagkerfum heims. Engu að síður verða stjórnvöld að horfast í augu við það að þeim hefur á umliðnum árum mistekist að koma í veg fyrir að sömu fyrirtæki eða fyrirtækjasamsteypur verði markaðsráðandi á mörgum mörkuðum, þrátt fyrir að hafa fram til þessa nægar lagaheimildir til þess að koma í veg fyrir slíkt. En vegna hinna sérstöku aðstæðna sem hinn íslenski markaður og þau fyrirtæki sem á honum starfa búa við verða þau viðkvæmari gagnvart þeim valdheimildum sem í frumvarpinu er lagt til að Samkeppniseftirlitinu verði fengnar og eru mjög umdeildar, matskenndar og óskiljanlegar. Þá er ekki síður ástæða til þess að geta þess hversu óeðlilegt og ósanngjarnt það er að eigendur og stjórnendur fyrirtækja, sem náð hafa miklum árangri á markaði og fylgt í einu og öllu þeim lagareglum sem um starfsemi þeirra gildir, þurfi engu að síður að sæta því að fyrirtæki þeirra sé skipt upp á grundvelli ákvæða frumvarpsins.
    Minni hlutinn bendir á að verði heimildin lögfest séu verulegar líkur á að hún leiði til þess að framtíðarverðmæti íslenskra fyrirtækja rýrni og dragi úr líkum á því að fyrirtæki gangi kaupum og sölum milli aðila í íslensku viðskiptalífi og muni hafa skaðleg áhrif á endurreisn íslensks efnahagslífs. Verulegar líkur séu á að kaupendur og fjárfestar haldi að sér höndum ef þeir mega eiga von á því að fyrirtæki sem fjárfest er í verði skipt upp eftir að kaupin hafa átt sér stað. Ákvæði frumvarpsins muni jafnframt hafa neikvæð áhrif á fjárfestingar fyrirtækjanna sjálfra og draga úr áhuga erlendra aðila á að fjárfesta í íslenskum fyrirtækjum. Þá megi gera ráð fyrir að afleiðingar lögfestingar frumvarpsins verði þær að fjármálastofnanir verði tregari til en áður til þess að veita fyrirtækjum og fjárfestum lánafyrirgreiðslur af ótta við að þau veð sem standa að baki lántökum rýrni. Enn fremur má leiða að því líkur að við slíkar aðstæður muni aukast fjármögnunar- og vaxtakostnaður fyrirtækja sem ráðast í lántökur.
    Við lokaafgreiðslu þessa frumvarps er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því að Ísland nýtur takmarkaðs trausts nú um stundir. Það vantraust snýr ekki síst að fjármálastofnunum, fyrirtækjum og stjórnvöldum. Minni hlutinn telur að verði frumvarpið að lögum í óbreyttri mynd muni þetta vantraust aukast og gera uppbyggingu atvinnulífsins erfiðari. Frumvarpið kunni að leiða til minni fjárfestingar, draga úr hagvexti og auka atvinnuleysi. Ávinningurinn af samþykkt frumvarpsins er hins vegar afar óljós og raunar er það svo að sérfræðingar á sviði samkeppnisréttar telja að þær breytingar á samkeppnislögunum sem frumvarpið mælir fyrir um séu ekki til bóta.
    Í ljósi þess sem að framan greinir, þeirra sjónarmiða sem fram koma í nefndaráliti minni hlutans, sbr. þskj. 434, og annarra röksemda sem minni hlutinn hefur fært fram um alla efnisþætti frumvarpsins við meðferð þess á Alþingi leggst minni hlutinn gegn því að frumvarpið verði samþykkt.

Alþingi, 22. feb. 2011.


Sigurður Kári Kristjánsson,

frsm.

Guðlaugur Þór Þórðarson.Fylgiskjal.


Hörður Felix Harðarson,
Heimir Örn Herbertsson:
Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á samkeppnislögum, nr. 44/2005.
(28. janúar 2011.)


Hér er myndað efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Hér er myndað efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Hér er myndað efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Hér er myndað efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Hér er myndað efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.