Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 187. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 880  —  187. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 121/1997, um ríkisábyrgðir, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og skattanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hafstein S. Hafsteinsson frá fjármálaráðuneyti, Ingva Má Pálsson frá iðnaðarráðuneyti, Kristján Gunnarsson og Jón Sveinsson frá Landsvirkjun, Gústaf Adolf Skúlason frá Samorku og Svein Arason og Lárus Ögmundsson frá Ríkisendurskoðun, Pál Gunnar Pálsson og Snorra Stefánsson frá Samkeppniseftirlitinu, Sigríði Logadóttur og Sigurð G. Thoroddsen frá Seðlabanka Íslands og Tryggva Þórhallsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Þá hafa nefndinni borist umsagnir frá Byggðastofnun, Landsvirkjun, Ríkisábyrgðasjóði, Ríkisendurskoðun, Ríkisútvarpinu, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samkeppniseftirlitinu, Samorku, Samtökum atvinnulífsins og Seðlabanka Íslands.
    Frumvarpið er lagt fram í kjölfar athugasemda Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) við núverandi fyrirkomulag eigendaábyrgðar Landsvirkjunar og Orkuveitu Reykjavíkur, sbr. ákvörðun, dags. 8. júlí 2009. Frumvarpið er lagt fram samhliða frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Landsvirkjun (þskj. 205, 188. mál) og frumvarpi til laga um breytingu á lögum um stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur (þskj. 222, 205. mál), sbr. nú lög nr. 144/2010.
    Fram kemur í athugasemdum við frumvarpið að markmið þess sé að koma til móts við ákvörðun ESA og tryggja að fyrir þær skuldbindingar Landsvirkjunar sem ríkisábyrgð er á, sem og aðra aðila sem falla undir 1. mgr. 6. gr. laga um ríkisábyrgðir, sé greitt hæfilegt gjald. Ríkisábyrgðargjaldinu er ætlað að svara að fullu til þeirrar ívilnunar sem viðkomandi aðili nýtur, á grunni ábyrgðarinnar, í formi hagstæðari lánskjara umfram þau kjör sem almennt bjóðast á markaði án ríkisábyrgðar.
    Við umfjöllun um málið var gagnrýnt að gjaldtakan yrði látin taka til annarra aðila en umrædd ákvörðun ESA varðar, þ.e. aðila eins og Ríkisútvarpsins og Byggðastofnunar sem lögum samkvæmt njóta ábyrgðar ríkissjóðs. Samband íslenskra sveitarfélaga telur að álögur frumvarpsins á starfsemi tilgreindra stofnana sem sinna mikilvægu almannaþjónustuhlutverki muni hafa neikvæð áhrif á íbúa landsins. Leggur sambandið til að gjaldtakan verði bundin við opinber orkufyrirtæki sem starfa á samkeppnismarkaði.
    Efasemdir komu einnig fram um hvert raunverulegt hagræði sé af töku ríkisábyrgðar ef gjaldið sem greiða þarf fyrir svarar að fullu til þeirrar ívilnunar sem í ábyrgðinni felst eins og frumvarpið gerir ráð fyrir. Var rætt hvort slíkar ábyrgðir mundu þar með leggjast niður. Fram kom sá skilningur að við núverandi rekstrarskilyrði gæti veiting ríkisábyrgðar samt sem áður haft þýðingu við öflun lánsfjár og verið hagstæðari kostur en þeir vextir sem í boði væru ef ríkisábyrgð væri ekki fyrir hendi.
    Loks komu fram sjónarmið um að þörf væri á að taka til skoðunar gjaldtökuheimildina út frá kröfum stjórnarskrár um gildi skattlagningarheimildar þar sem viðmið er áhrif hefðu á útreikningi gjaldsins væru ekki nægilega skýrt afmörkuð auk þess sem ákvörðun gjaldsins væri í höndum ótilgreinds óháðs aðila. Í skýringum fjármálaráðuneytis er á það bent að erfitt sé að heimfæra umrædda gjaldtöku undir hefðbundna skilgreiningu skatta og þjónustugjalda. Nefndin tekur undir það og telur að þau viðmið sem liggja til grundvallar gjaldtökunni endurspegli óbeint þá áhættu sem í ábyrgð ríkisins felst.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:



    2. gr. orðist svo:
    Lög þessi öðlast þegar gildi.

    Þór Saari gerir fyrirvara við álitið.
    Lilja Rafney Magnúsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 21. febr. 2011.



Helgi Hjörvar,


form., frsm.


Tryggvi Þór Herbertsson.


Álfheiður Ingadóttir.



Magnús Orri Schram.


Birkir Jón Jónsson.


Pétur H. Blöndal.



Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.


Þór Saari,


með fyrirvara.