Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 420. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 885  —  420. mál.
Svarutanríkisráðherra við fyrirspurn Vigdísar Hauksdóttur um gæslu auðlinda og hagsmuna í viðræðum við Evrópusambandið.

     1.      Er útræðisréttur sjávarjarða og eignarréttur innan netlaga tryggður í samningaviðræðum við Evrópusambandið?
    Evrópusambandið kemur ekki að setningu reglna innan 12 sjómílna landhelgi aðildarríkja heldur fara aðildarríki sambandsins sjálf með það reglusetningarvald. Því verður ekki séð að möguleg aðild Íslands að Evrópusambandinu hafi nein áhrif á gildandi rétt um nýtingu útræðisréttar sjávarjarða né eignarrétt innan netlaga.

     2.      Hvaða samtök sem eiga mikilla hagsmuna að gæta í samningaviðræðum við Evrópusambandið hafa sagt sig frá undirbúningi viðræðnanna?
    Engin hagsmunasamtök hafa sagt sig frá undirbúningi viðræðna.

     3.      Hafa íslensk stjórnvöld skilgreint gagnvart Evrópusambandinu hvað flokkast til auðlinda hér á landi og hverjar þær eru?
    Rétt er að hafa í huga að eignarhald á og yfirráð yfir náttúruauðlindum á borð við jarðhita, olíu, heitt og kalt vatn o.s.frv. er í höndum aðildarríkja Evrópusambandsins en ekki sambandsins sjálfs þó að ákvæði innri markaðar Evrópusambandsins kveði á um þætti er lúta að fjárfestingum, samkeppnismálum, umhverfismálum o.fl. Þannig hafa t.d. Bretar og Hollendingar full yfirráð yfir olíuauðlindum sínum í Norðursjó, Finnar ráða að fullu yfir þeirri náttúruauðlind sem finnsku skógarnir eru, og Ungverjar hafa einir yfirráð yfir þeim jarðhitaauðlindum sem þar finnast.
    Gera má ráð fyrir að fjallað verði um þætti sem snúa að auðlindanýtingu í 13. kafla um sjávarútveg og 15. kafla um orkumál. Málefni sem tengjast nýtingu sjávarspendýra verða til umfjöllunar í 27. kafla um umhverfismál þar sem náttúruverndarlöggjöf stendur utan EES- samningsins. Að svo komnu máli hefur hvorki verið talin þörf á að skilgreina sérstaklega gagnvart Evrópusambandinu hvað Íslendingar telja flokkast til auðlinda né hverjar þær eru í samhengi samningaviðræðnanna. Hins vegar er rétt að minna á að í nefndaráliti utanríkismálanefndar Alþingis er sérstaklega fjallað um orku- og auðlindamál, þ.m.t. sjávarútvegsmálin. Þau atriði sem þar eru tilgreind mynda grundvöll þeirrar afstöðu sem mun verða mótuð af Íslands hálfu gagnvart Evrópusambandinu að því er varðar auðlindamál.