Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 60. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 887  —  60. mál.




Framhaldsnefndarálit



um frv. til l. um breyt. á raforkulögum, nr. 65/2003, með síðari breytingum.

Frá iðnaðarnefnd.



    Nefndin sendi frá sér álit um frumvarp til breytinga á raforkulögum, nr. 65/2003, 15. desember síðastliðinn. Málið komst ekki á dagskrá þingsins fyrir þinghlé og varð frumvarpið því ekki að lögum. Þar sem frekari upplýsingar hafa fengist og umræður hafa skapast um efni frumvarpsins hefur nefndin tekið það aftur til skoðunar og skilar framhaldsnefndaráliti. Nefndin hefur fengið á fund sinn Kristján Skarphéðinsson og Ingva Má Pálsson frá iðnaðarráðuneytinu, Guðlaugu Sigurðardóttur og Þórð Guðmundsson frá Landsneti ásamt Ívari Þorsteinssyni frá Orkustofnun. Þá fékk nefndin skriflegar umsagnir frá Orkustofnun, Landsneti, Samkeppniseftirlitinu og Póst- og fjarskiptastofnun.
    Nefndin tók til frekari skoðunar atriði sem varða tekjumörk og gjaldskrármál flutningsfyrirtækisins, sbr. 6. gr. frumvarpsins, m.a. að því er varðar meðferð og skilgreiningu á upp
söfnuðum gengishagnaði hjá flutningsfyrirtækinu og áhrif hans á setningu komandi tekjumarkatímabila. Meðal þess sem nefndin kynnti sér var hvort gengishagnaður sem myndaðist í kjölfar þess að gjaldskrá stóriðju var færð í bandaríkjadali árið 2007 en tekjumörkin voru áfram í íslenskum krónum væri tekjur í skilningi raforkulaga. Það var niðurstaða sérfræðinga sem nefndin ráðfærði sig við að ekki væri hægt að líta öðruvísi á en að gengishagnaður væri tekjur í skilningi bæði raforkulaga og bókhaldslaga. Í því samhengi vekur nefndin athygli á heimild í 3. mgr. 12. gr. raforkulaga til þess að færa of- eða vanteknar tekjur milli ára við árlegt uppgjör tekjumarka. Nefndin leggur til tvenns konar viðbótarbreytingar á 6. gr. frumvarpsins sem lúta að tekjumörkum flutningsfyrirtækisins. Annars vegar er lagt til að í stað þess að kveða á um að við mat á vegnum fjármagnskostnaði skuli taka tillit til „áhættuálags fyrir stórnotendur“, eins og lagt var til í fyrri breytingartillögu, skuli setningin orðuð á þann hátt að við mat á vegnum fjármagnskostnaði skuli „m.a. taka tillit til rekstraráhættu flutningsfyrirtækisins“. Í öllum útreikningum á vegnum fjármagnskostnaði (WACC) er reiknuð ávöxtunarkrafa fjármagns sem endurspeglar eðli og áhættu þess rekstrar sem um ræðir. Á það jafnt við um útreikninga á fjármagnskostnaði fyrir stórnotendur sem dreifiveitur. Er því lögð til þessi breyting á orðalagi til að undirstrika að slíkt áhættumat er einn af mörgum þáttum sem koma til skoðunar við útreikninga á vegnum fjármagnskostnaði og að ekki er um það að ræða að með frumvarpinu sé lagt sérstakt áhættuálag á stórnotendur. Eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu er gert ráð fyrir að arðsemisviðmiðunin byggist á vegnum fjármagnskostnaði í samræmi við það sem tíðkast í svipuðum rekstri í öðrum Evrópulöndum.
    Hins vegar er lagt til að kveðið verði á um að hinir sérfróðu aðilar, sem skv. 6. gr. frumvarpsins er falið að leggja mat á hver sé eðlileg arðsemi flutningsfyrirtækisins, skuli hafa samráð við helstu hagsmunaaðila þegar það mat er unnið. Þessir hagsmunaaðilar eru framleiðendur raforku, neytendur, stórnotendur, dreifiveitur og Landsnet. Hinir sérfróðu aðilar eru, eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu, óháðir aðilar með sérfræðiþekkingu á þessu sviði. Til að tryggja vandaðan undirbúning er nauðsynlegt að fulltrúar notenda flutningskerfisins hafi tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum og skoðunum á framfæri við hina óháðu aðila. Er það jafnframt til þess fallið að öllum staðreyndum sé haldið til haga við mat á eðlilegri arðsemi flutningsfyrirtækisins. Er því með breytingartillögunni lagt til skyldubundið samráð við framangreinda aðila.
    Eins og frumvarpið var lagt fram á sl. haustþingi var gert ráð fyrir að lögin mundu öðlast þegar gildi og ákvæði þess um tekjumörk kæmu til framkvæmda 1. janúar 2011. Þar sem frumvarpið varð ekki að lögum fyrir áramót leggur nefndin til að sérstaklega verði tiltekið að frumvarpið nái til setningar tekjumarka frá og með árinu 2011. Með því verður árið 2011 inni í hinum nýju tekjumarkaviðmiðum. Að sama skapi leggur nefndin til að í bráðabirgðaákvæði II í frumvarpinu komi ártalið 2010 í stað 2009, þar sem talað er um uppsafnaðar ofteknar tekjur í „árslok 2009“. Jafnframt leggur hún til að þegar sú tala liggur fyrir, þ.e. uppsafnaðar umframtekjur síðustu ára sem koma til endurgreiðslu á næstu 10 árum, verði hún bundin við bandaríkjadali miðað við gengi þess tíma þegar talan liggur fyrir. Þar sem markmiðið með ákvæðum frumvarpsins er að gera umhverfi stórnotenda stöðugra með því að minnka gengisáhættu og áhrif gengisbreytinga telur nefndin mikilvægt að hafa fjárhæð hinna uppsöfnuðu tekna í sömu mynt.
    Í d-lið 3. gr. frumvarpsins er tiltekið að flutningsfyrirtækið megi ekki stunda aðra starfsemi en þá sem því er nauðsynleg til að það geti rækt skyldur sínar samkvæmt lögum. Hins vegar er flutningsfyrirtækinu heimilað að eiga og reka fjarskiptakerfi sem því er nauðsynlegt vegna rekstursins og því er heimilt að bjóða út umframflutningsgetu ef það hefur yfir slíkri flutningsgetu að ráða, svo fremi sem samkeppni sé ekki raskað. Fyrir nefndinni var hreyft þeim sjónarmiðum að ákjósanlegt væri að flutningsfyrirtækjum væri heimilað að stofna sameiginlega sérstakt félag um fjarskiptakerfi. Tilgangur slíks félags væri eingöngu sá að sinna þörfum raforkukerfisins og yrði félagið nokkurs konar öryggisfjarskiptafélag sem ekki mundi starfa á almennum markaði. Hjá Landsneti kemur fram að slíkt félag mundi ekki sinna öðrum verkefnum en þeim sem starfsemi orkufyrirtækjanna krefst og að umframflutningsgeta yrði boðin án þjónustu. Gerir Landsnet ráð fyrir að tekjur vegna leigu á umframgetu yrðu óverulegar og þannig væri horft til þess þjóðhagslega hagræðis sem felst í samnýtingu og að hægt yrði að opna fjarskiptaþjónustu inn á afskekkta staði og auðvelda þannig samkeppnisaðilum að selja þjónustu sína. Leitast yrði við að byggja upp fjarskiptakerfið á hagkvæman hátt samhliða stækkun og endurnýjun raforkukerfisins. Gert er ráð fyrir að slíkt félag yrði í jafnri eigu Landsnets og Landsvirkjunar og að greiðslur fyrir veitta þjónustu mundi skiptast svo til jafnt á milli þeirra. Þá er á síðari stigum gert ráð fyrir að önnur orkufélög geti gerst eigendur að félaginu á jafnræðisgrunni. Í umsögn Orkustofnunar kemur fram að á grundvelli 5. tölul. 4. mgr. 9. gr. raforkulaganna hvíli sú skylda á Landsneti að annast og tryggja öryggi í raforkukerfinu og má leiða af því að einn hluti þess sé að tryggja örugg fjarskipti vegna starfsemi þess kerfis. Telur stofnunin því eðlilegt að fyrirtækinu sé tryggður með einum eða öðrum hætti réttur til að reka öryggisfjarskiptakerfi raforkukerfisins. Slík starfsemi þurfi eftir sem áður að samræmast almennum kröfum raforkulaga og sérlögum á sviði fjarskiptamála.
    Nefndin leitaði eftir mati Póst- og fjarskiptastofnunar á tillögu þessari. Í umsögn Póst- og fjarskiptastofnunar kemur fram að skoða þurfi stofnun fyrirtækis um umframflutningsgetu í ljósi 36. gr. fjarskiptalaga, nr. 81/2003, og túlkunar á ákvæðinu. Þá tiltekur stofnunin að mikilvægt sé að fjarskiptastarfsemi Landsnets verði innan þess ramma sem fjarskiptalöggjöfin markar og að sú starfsemi sem lýtur að sölu umframgetu falli undir fjarskiptalögin. Í ljósi upplýsinga sem nefndin fékk er það mat hennar að heimild þessi sé til hagsbóta enda muni hún auka öryggi í rekstri fjarskiptakerfa raforkukerfisins ásamt því að leiða til hagræðingar vegna samlegðaráhrifa. Leggur hún því til viðbót við 3. gr. frumvarpsins á þann hátt að flutningsfyrirtæki sé heimilað að eiga hlut í fjarskiptafélagi sem hafi það hlutverk að reka öryggisfjarskiptakerfi raforkukerfisins. Nefndin fékk einnig umsögn frá Samkeppniseftirlitinu um frumvarpið. Í umsögninni kemur fram að þessar breytingar feli í sér að mögulegir keppinautar sameinist um rekstur fjarskiptafélags og geti slíkt samstarf farið gegn 10. gr. samkeppnislaga. Samkeppniseftirlitið getur skv. 15. gr. samkeppnislaga veitt undanþágu frá slíku samstarfi og telur Samkeppniseftirlitið eðlilegt að skýrt verði kveðið á um að slík undanþága sé forsenda stofnunar félagsins. Með þeim hætti er tryggt að stofnun félags um öryggisfjarskiptakerfi raforkukerfisins leiði ekki til röskunar á samkeppni, notendum raforku til tjóns. Nefndin tekur heilshugar undir þessi sjónarmið og leggur til breytingar þar að lútandi. Með þeim breytingum er tekinn af allur vafi um að samkeppni verði ekki raskað þrátt fyrir að flutningsfyrirtækinu verði heimilað, að uppfylltum þessum skilyrðum, að eiga hlut í fjarskiptafélaginu.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:



     1.      Við 3. gr.
                  a.      Við d-lið bætist nýr stafliður, svohljóðandi: að fengnu leyfi Samkeppniseftirlitsins, skv. 15. gr. samkeppnislaga, nr. 44/2005, að eiga hlut í, ásamt öðrum, fjarskiptafélagi sem hefur það hlutverk að reka öryggisfjarskiptakerfi raforkukerfisins. Félaginu skal vera heimilt að bjóða út umframflutningsgetu, ef það hefur yfir slíkri flutningsgetu að ráða, svo fremi sem samkeppni sé ekki raskað.
                  b.      Við bætist nýr stafliður, svohljóðandi: Í stað orðanna „skv. 3. mgr.“ í 7. mgr. kemur: um stofnun flutningsfyrirtækisins.
     2.      Á eftir a-lið 4. gr. komi nýr stafliður, svohljóðandi: Í stað tilvísunarinnar „12. gr.“ í 1. tölul. 3. mgr. kemur: 12. gr. a.
     3.      Við 6. gr.
                  a.      Á eftir 2. málsl. 2. tölul. 3. mgr. komi tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Við mat á vegnum fjármagnskostnaði skal m.a. taka tillit til rekstraráhættu flutningsfyrirtækisins. Kveða skal nánar á um mat á vegnum fjármagnskostnaði í reglugerð.
                  b.      Við 2. tölul. 3. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Við mat hinna sérfróðu aðila ber þeim að hafa samráð við framleiðendur raforku, neytendur, stórnotendur, dreifiveitur og Landsnet.
     4.      Í stað orðanna „sbr. ákvæði 3. mgr. 12. gr.“ í 4. efnismgr. 10. gr. komi: sbr. ákvæði 3. mgr. 12. gr. a.
     5.      Í stað orðanna „koma til framkvæmda 1. janúar 2011“ í 17. gr. komi: ná til setningar tekjumarka frá og með árinu 2011.
     6.      Við ákvæði til bráðabirgða II bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Uppsafnaðar ofteknar tekjur í árslok 2010 skulu færðar í bandaríkjadali miðað við gengi þess dags þegar samtala oftekinna tekna liggur fyrir.

Alþingi, 21. febr. 2011.



Kristján L. Möller,


form., frsm.


Gunnar Bragi Sveinsson.


Sigmundur Ernir Rúnarsson.



Margrét Tryggvadóttir,


með fyrirvara.


Jón Gunnarsson.


Lilja Rafney Magnúsdóttir.



Lilja Mósesdóttir.


Magnús Orri Schram.


Tryggvi Þór Herbertsson.