Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 202. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Prentað upp.

Þskj. 903  —  202. mál.
Texti.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði, með síðari breytingum.

Frá sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið. Á fund nefndarinnar komu Ingimar Jóhannsson og Sigríður Norðmann frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti og Orri Vigfússon frá Norður- Atlantshafslaxasjóðnum (e. The North Atlantic Salmon Fund). Umsagnir bárust frá Bændasamtökum Íslands, Landssamtökum veiðifélaga, Orra Vigfússyni, Veiðimálastofnun og Viðskiptaráði Íslands.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á tveimur greinum laga um lax- og silungsveiði. Annars vegar er lagt til að gildistími innlausnarréttar skv. 10. gr. laganna verði framlengdur um fimm ár, þ.e. til 30. júní 2016 en samkvæmt gildandi ákvæði er innlausnarrétturinn tímabundinn og gildir til 30. júní 2011. Hins vegar er lögð til sú breyting á 44. gr. laganna að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra verði veittur réttur til að tilnefna einn þriggja nefndarmanna í matsnefnd. Samkvæmt gildandi ákvæði greinarinnar er gert ráð fyrir að tveir nefndarmenn matsnefndar séu skipaðir samkvæmt tilnefningu Hæstaréttar Íslands og einn samkvæmt tilnefningu Landssambands veiðifélaga. Matsnefnd leggur mat á og úrskurðar um ágreining um arðskrár, hvar um sé að tefla sjó, straumvatn, stöðuvatn, á, ós, ósasvæði, kvísl, ál eða takmörk fiskihverfis og önnur þau mál sem henni eru með lögum fengin.
    Flestir umsagnaraðilar gerðu ýmist ekki athugasemdir við frumvarpið eða hvöttu til þess að það yrði samþykkt óbreytt. Einn umsagnaraðili benti á að greinargerð frumvarpsins innihéldi lítinn efnislegan rökstuðning fyrir þeim breytingum sem það fæli í sér. Þannig væri aðeins upplýst að nú væri til meðferðar mál til ákvörðunar hjá ráðuneytinu sem varðaði innlausn á grundvelli 10. gr. laganna.
    Í 1. mgr. 9. gr. lax- og silungsveiðilaga kemur fram sú meginregla að óheimilt sé að skilja veiðirétt að nokkru leyti eða öllu frá fasteign. Í sérstökum athugasemdum við lagagreinina í frumvarpi því er síðar varð að téðum lögum kemur m.a. fram að þessi fortakslausa tilhögun þyki í samræmi við það meginmarkmið frumvarpsins að kveða á um eignarhald veiðiréttar í ferskvatni og þær takmarkanir sem sá réttur sætir. Þá kemur fram að meginreglunni sé m.a. ætlað að tryggja áframhaldandi sjálfstæði og rekstrargrundvöll þeirra jarða sem byggja afkomu sína, að öllu leyti eða hluta, á veiðinytjum. Þess utan telja frumvarpshöfundar ljóst að takmarkalaus uppskipting veiðiréttar einstakra jarða á fleiri hendur geti stefnt í hættu því markmiði frumvarpsins að tryggja skynsamlega, hagkvæma og sjálfbæra nýtingu þeirrar auðlindar sem fiskstofnar ferskvatna eru.
    Nefndin tekur undir þá gagnrýni sem fram hefur komið á 1. gr. frumvarpsins að greinin feli í sér tiltölulega lítt rökstudda framlengingu heimildar til íþyngjandi innlausnar veiðiréttinda. Álit nefndarinnar er að mjög knýjandi rök þurfi til þess að víkja frá áætlunum löggjafans við setningu núgildandi lax- og silungsveiðilaga um stuttan gildistíma ákvæðis 10. gr. laganna. Öðrum kosti væri dregið úr líkum á því að markmiðum laganna yrði náð. Telur nefndin rök af þeirri gerð hvorki hafa verið færð fram við framlagningu frumvarpsins né á seinni stigum málsins. Vekur nefndin athygli á þeirri kröfu réttarríkisins að lög eigi að vera stöðug enda verði borgurunum með því móti gert kleift að sjá fyrir með nokkurri vissu undir hvaða tilvikum yfirvöld muni beita valdi sínu og þeir geti skipulag líf sitt með hjálp slíkrar vitneskju (Garðar Gíslason: Eru lög nauðsynleg?, bls. 142–145). Að auki bendir nefndin á að við skerðingu réttinda með lögum ber almennt að gæta þess að sú leið sem valin er samræmist því markmiði sem að er stefnt og að ekki sé gengið of langt við útfærslu þeirrar leiðar. Telur nefndin að sá tími sem eftir er af gildistíma ákvæðis um innlausnarrétt ætti að nægja stjórnvöldum til þess að leiða til lausnar þær kröfur um innlausn sem þegar hafa verið fram lagðar. Þá ætti þeim sem hyggja á framlagningu slíkra krafna að vera slíkt fært á hinum sama tíma.
    Á fundi nefndarinnar kom það sjónarmið fram að rétt kynni að vera að útfæra 2. gr. frumvarpsins á þann hátt að allir nefndarmenn matsnefndar skv. 44. gr. lax- og silungsveiðilaga væru óháðir hagsmunaaðilum. Var nefnt að slíkt væri ef til vill fært með því að allir nefndarmenn væru skipaðir samkvæmt tilnefningu Hæstaréttar Íslands. Var á það bent að ekki gæti talist eðlilegt að hagsmunaaðilar tækju þátt í tilnefningu nefndarmanna sem ættu að skera úr um réttindi manna sem hefðu hliðstæða hagsmuni og þeir sjálfir. Væri þeim með því móti gert fært að láta fulltrúa sinn taka þátt í sköpun fordæmisgefandi framkvæmdar sem kynni að ná til þeirra eigin réttinda.
    Nefndin hefur tekið framangreint sjónarmið til skoðunar. Í almennum athugasemdum við frumvarpið kemur fram að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra beri ábyrgð á lax- og silungsveiðimálum hér á landi. Þá er á það bent að meiri hluti laxveiðiáa landsins sé í eigu bænda og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti fari með yfirstjórn landbúnaðarmála hér á landi. Þá hafi aðalfundur Landssambands veiðifélaga 2010 beint því til stjórnar félagsins að hún beitti sér fyrir skoðun á lax- og silungsveiðilögum, m.a. varðandi skipun í matsnefnd skv. 44. gr. laganna. Á fundi nefndarinnar var vakin athygli á því að fyrir kæmi að kvartanir bærust til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra vegna matskostnaðar fyrir matsnefnd og ráðherra hefði engin tök á að bregðast við slíkum athugasemdum. Að auki kom fram að aðilar sem Landssamband veiðifélaga hefur tilnefnt til nefndarstarfa í gegnum tíðina hafi búið yfir þekkingu sem nauðsynleg sé til þess að slík nefnd reynist starfi sínu vaxin.
    Nefndin telur að þrátt fyrir að e.t.v. sé að einhverju leyti óheppilegt að matsnefnd skv. 44. gr. lax- og silungsveiðilaga sé ekki skipuð mönnum sem þiggja tilnefningu sína frá óháðum aðilum þá sé nauðsynlegt að Landssamband veiðifélaga hafi þá aðkomu að skipun hennar að tryggt sé að nægileg sérfræðiþekking sé til staðar í nefndinni og enn fremur að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipi einn fulltrúa.
    Að öllu framansögðu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGUM:



     1.      1. gr. falli brott.
     2.      3. gr. orðist svo:
              Lög þessi öðlast þegar gildi.

    Ólína Þorvarðardóttir, Róbert Marshall og Ásmundur Einar Daðason voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 23. febr. 2011.



Atli Gíslason,


form., frsm.


Einar K. Guðfinnsson.


Sigurður Ingi Jóhannsson.



Björn Valur Gíslason.


Jón Gunnarsson.


Valgerður Bjarnadóttir.