Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 541. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 910  —  541. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, nr. 98/1999, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta viðskiptanefndar (LMós, MSch, SkH, AtlG, VBj).



1. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 2. málsl. 1. mgr. 6. gr., 1. málsl. 4. mgr. 6. gr., 1. málsl. 2. mgr. 7. gr. og 1. málsl. 6. mgr. 7. gr. um greiðslu gjalds til sjóðsins eigi síðar en 1. mars ár hvert skal á árinu 2011 greiða gjaldið eigi síðar en 1. júní 2011.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Í 1. mgr. 6. gr. laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta er mælt fyrir um að viðskiptabankar og sparisjóðir skuli eigi síðar en 1. mars ár hvert greiða Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta gjald sem nemi 0,15% tryggðra innstæðna þeirra á næstliðnu ári. Í 2. mgr. 7. gr. laganna er sambærilegt ákvæði er varðar aðildarfyrirtæki, þ.e. fyrirtæki í verðbréfaþjónustu og aðra sem nýta sér heimildir laga til að stunda viðskipti með verðbréf, en þeim ber fyrir sama tíma að greiða gjald til sjóðsins sem nemur samtals 20 millj. kr.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að greiðslu gjaldsins verði frestað um þrjá mánuði á árinu 2011, þ.e. til 1. júní 2011. Verði frumvarpið að lögum munu áðurnefnd fyrirtæki því ekki þurfa að greiða gjaldið fyrir þann tíma sem gildandi lög kveða á um. Ástæða frestunarinnar er sú að viðskiptanefnd hefur til meðferðar frumvarp efnahags- og viðskiptaráðherra til nýrra heildarlaga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta (237. mál) en það hefur ekki verið afgreitt frá nefndinni.