Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 210. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Prentað upp.

Þskj. 911  —  210. mál.
Viðbót við brtt.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, og lögum nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur (kyrrsetning eigna).

Frá meiri hluta efnahags- og skattanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sóleyju Ragnarsdóttur frá fjármálaráðuneyti, Bryndísi Kristjánsdóttur skattrannsóknarstjóra, Snorra Olsen frá tollstjóra, Halldór Árnason frá Samtökum atvinnulífsins, Þórdísi Bjarnadóttur frá Viðskiptaráði, Evu Helgadóttur frá Lögmannafélagi Íslands og Benedikt Bogason frá réttarfarsnefnd. Þá hafa nefndinni borist umsagnir frá Hagsmunasamtökum heimilanna, KPMG hf., Persónuvernd, ríkislögreglustjóra, ríkisskattstjóra, Samtökum atvinnulífsins, skattrannsóknarstjóra ríkisins, Viðskiptaráði Íslandi og Þórði Bogasyni, Lögmönnum Höfðabakka.
    Frumvarpið er lagt fram í kjölfar hæstaréttardóms nr. 372/2010 og var fyrst lagt fram á 138. löggjafarþingi (þskj.1456, 693 mál). Í umræddum dómi var komist að þeirri niðurstöðu að 6. mgr. 113. gr. tekjuskattslaga væri ekki fullnægjandi lagaheimild til kyrrsetningar vegna ætlaðra brota gegn lögum um virðisaukaskatt. Tilvitnað lagaákvæði var samþykkt með breytingalögum nr. 23/2010 og er í frumvarpinu lagt til að hliðstæð heimild gildi varðandi virðisaukaskatt og staðgreiðsluskil.
    Í áliti efnahags- og skattanefndar í tengslum við afgreiðslu frumvarps til laga nr. 23/2010 kemur fram að úttekt Ríkisendurskoðunar hafi gefið skattrannsóknarstjóra tilefni til að óska eftir því að embættinu yrðu færðar heimildir til að beiðast kyrrsetningar. Mál til meðferðar séu þess eðlis að rannsókn geti tekið langan tíma og þýðingu hafi fyrir markmið rannsóknar að varna því að eignir sakbornings sem ætla má að geti staðið undir greiðslu væntanlegra skattkrafna, sakarkostnaðar og sekta verði skotið undan. Rannsóknaraðilar eigi að hafa þær heimildir sem nauðsynlegar eru til þess að þeir nái lögmætum markmiðum sínum en á sama tíma verði að gæta þess að þær heimildir fullnægi meðalhófi og öðrum kröfum réttarríkisins.
    Sumir telja að dómurinn gefi tilefni til að endurskoða hvort heimildir sem skattrannsóknarstjóra voru veittar með lögum nr. 23/2010 fullnægi kröfum réttarríkisins. Hefur komið fram það sjónarmið að umræddar heimildir séu of matskenndar og að kveða þurfi nánar á um skilyrði þess að þeim sé beitt, ekki í síst þegar haft er í huga að þeim á að beita á grundvelli væntanlegrar kröfu en ekki kröfu sem hefur verið staðreynd og sé lögvarin. Með hliðsjón af réttlátri málsmeðferð sé ástæða til að skýra nánar hvaða gögn skattrannsóknarstjóri og tollstjóri þurfi að færa fram fyrir sýslumanni til stuðnings beiðni um kyrrsetningu og fjárhæð meintrar kröfu. Vegna hinna eignarréttarlegu takmarkana og óhagræðis sem ætla má að beiting úrræðisins hafi fyrir gerðarþola og eftir atvikum hans nánustu sé enn fremur þörf á að marka kyrrsetningu ákveðinn gildistíma og undanskilja fjármuni kyrrsetningu sem gera megi ráð fyrir að hann þurfi á að halda til að standa undir nauðsynlegum útgjöldum. Það geti auk þess haft slæmar afleiðingar í för með sér fyrir gerðarþola ef skuldheimtumenn beiðast gjaldþrotaskipta í tilefni árangurslausrar kyrrsetningar.
    Við umfjöllun málsins hafa enn fremur komið fram sjónarmið um að úrræðið sem ætlað er að taka til fyrirsvarsmanna sem taldir eru með saknæmum hætti hafa gerst sekir um brot í rekstri lögaðila geti almennt haft óæskileg áhrif á vilja til stjórnarmennsku í félögum. Einnig hafa komið fram sjónarmið um að ekki sé rökrétt að kyrrsetja eignir til tryggingar greiðslu væntanlegra sekta og sakarkostnaðar þar sem sektir og sakarkostnaður séu ekki fjármunir sem gerðarþoli hefur eignað sér á kostnað ríkisins eins og í tilviki undanskota frá skatti.
    Fulltrúar fjármálaráðuneytisins og skattrannsóknarstjóra hafa áréttað að framsetning frumvarpsins taki mið af 88. gr. laga um meðferð sakamála og að mestu varði að heimildinni verði beitt í samræmi við meðalhóf. Ekkert í dómnum gefi til kynna að þessa hafi ekki verið gætt við meðferð málsins. Lögreglan hafi beitt tilvitnuðu lagaákvæði um árabil í alvarlegum efnahagsbrotamálum og til stendur að heimild skattrannsóknarstjóra verði bundin við stórfelld skattalagabrot, sbr. 262. gr. almennra hegningarlaga. Ekkert standi því í vegi að stofnanirnar viðhafi samráð við meðferð úrræðisins en þó má ætla að það geti tafið málsmeðferð ef skattrannsóknarstjóri þarf að afla heimildar lögreglu í hvert og eitt skipti. Skattrannsóknarstjóra beri við rannsókn máls að gæta laga um meðferð sakamála eftir því sem við getur átt auk þess sem reglugerð um framkvæmd skatteftirlits og skattrannsókna gerir ráð fyrir að vísa beri máli til opinberrar rannsóknar svo fljótt sem kostur er. Við umfjöllun málsins hafa nefndinni verið afhent drög að verklagsreglum embættisins sem varða heimild til kyrrsetningar, dags. í september 2010.
    Meiri hlutinn leggur til þá breytingu á texta frumvarpsins að heimildin eigi einungis við þegar ætluð brot eru talin varða við 262. gr. almennra hegningarlaga. Einnig vekur meiri hlutinn athygli á að ákvæði frumvarpsins mæla fyrir um heimild gerðarþola til að bera lögmæti kyrrsetningar undir dómstóla. Þá hefur fulltrúi réttarfarsnefndar bent á að um andlag kyrrsetningar og um heimildir til að ljúka kyrrsetningu án árangurs gilda samkvæmt almennum reglum sambærileg ákvæði og um fjárnám, sbr. 15. gr. laga nr. 31/1990. Að öðru leyti vísar meiri hlutinn til fyrra álits við lög nr. 23/2010.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGUM:



     1.      Við 1. efnismgr. 1., 2. og 3. gr. bætist: enda megi ætla að meint refsiverð háttsemi varði við 262. gr. almennra hegningarlaga.
     2.      Á eftir III. kafla komi nýr kafli, IV. kafli, Breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með einni nýrri grein, 4. gr., svohljóðandi:
                  Við 1. málsl. 6. mgr. 113. gr. laganna bætist: enda megi ætla að meint refsiverð háttsemi varði við 262. gr. almennra hegningarlaga.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     3.      Fyrirsögn frumvarpsins verði: Frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, lögum nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, og lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt (kyrrsetning eigna).
    
    Pétur H. Blöndal og Þór Saari voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 24. febr. 2011.



Helgi Hjörvar,


form., frsm.


Álfheiður Ingadóttir.


Magnús Orri Schram.



Birkir Jón Jónsson.


Lilja Rafney Magnúsdóttir.


Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.