Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 542. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 912  —  542. mál.




Beiðni um skýrslu



frá velferðarráðherra um fæðingar- og foreldraorlof.

Frá Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, Ólafi Þór Gunnarssyni, Pétri H. Blöndal,


Jónínu Rós Guðmundsdóttur, Guðmundi Steingrímssyni,
Ásmundi Einari Daðasyni, Unni Brá Konráðsdóttur,
Þórunni Sveinbjarnardóttur og Lilju Rafneyju Magnúsdóttur.


    Með vísan til 54. gr. stjórnarskrárinnar og 46. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að velferðarráðherra flytji Alþingi skýrslu um fæðingar- og foreldraorlof. Meðal þess sem óskað er eftir að fram komi í skýrslunni er eftirfarandi:
     1.      Upplýsingar um töku fæðingarorlofs eftir kyni og hvort, og þá hvaða, breytingar hafi orðið í þeim efnum á síðustu árum auk upplýsinga um áhrif fæðingarorlofs og fæðingarorlofskerfisins á jafnrétti á vinnumarkaði og launamun kynjanna.
     2.      Áhrif skerðingar á hámarksgreiðslur fæðingarorlofs,
                  a.      úr 480 þús. kr. í 400 þús. kr., sbr. lög nr. 173/2008,
                  b.      úr 400 þús. kr. í 350 þús. kr., sbr. lög nr. 70/2009,
                  c.      úr 350 þús. kr. í 300 þús. kr., sbr. lög nr. 120/2009,
        á orlofstöku foreldra, m.a. með tilliti til
            i.        lengdar orlofs,
            ii.    kyns foreldris,
            iii.    tekna foreldris.
     3.      Upplýsingar um töku foreldraorlofs, m.a. með tilliti til:
                  a.      kyns foreldris,
                  b.      tekna foreldris,
                  c.      aldurs barns.
     4.      Áhrif sérstakra aðstæðna á vinnumarkaði á töku fæðingarorlofs, með tilliti til lengdar orlofsins, tekna foreldris eða kyns foreldris.
     5.      Hvernig staðið hefur verið að fjármögnun fæðingarorlofskerfisins hingað til.
     6.      Upplýsingar um núverandi og áætlaða fjárþörf Fæðingarorlofssjóðs sem og fjárþörf sjóðsins ef ekki hefði komið til þeirra skerðinga sem vísað er til í 2. lið beiðninnar.
     7.      Leiðir til að tryggja fjármögnun fæðingarorlofskerfisins.
     8.      Úttekt á því hvaða reglur gilda í nágrannalöndum um takmörkun á því að báðir foreldrar taki fæðingarorlof á sama tíma.
     9.      Yfirlit yfir í hversu miklum mæli foreldrar hér á landi taka fæðingarorlof á sama tíma.
     10.      Fjárhagsleg áhrif á Fæðingarorlofssjóð ef sá tími sem báðir foreldrar geta verið í fæðingarorlofi á sama tíma yrði takmarkaður.
     11.      Upplýsingar um hvort unnið sé að áframhaldandi þróun fæðingar- og foreldraorlofs út frá sjónarhorni barnsins.

Greinargerð.


    Samhljóða skýrslubeiðni var flutt á síðasta löggjafarþingi og samþykkt af Alþingi 4. mars 2010 (þskj. 727, 411. mál á 138. þingi). Skv. 2. mgr. 46. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, skal ráðherra ljúka skýrslugerð innan 10 vikna. Skýrsla barst þó ekki frá félags- og tryggingamálaráðherra og er því beiðni þessi nú endurflutt.
    Alþingi samþykkti 18. desember 2009 breytingar á lögum um fæðingar- og foreldraorlof, sbr. lög nr. 120/2009 (274. mál á 138. þingi). Í nefndaráliti meiri hluta félags- og tryggingamálanefndar um málið eru tiltekin nokkur atriði sem rædd voru í nefndinni og ástæða þótti til að kanna nánar. Í álitum bæði minni hluta og meiri hluta nefndarinnar má einnig lesa áhyggjur nefndarmanna af frekari skerðingu á orlofinu og hvaða áhrif þær geti haft á fæðingarorlofskerfið og launamun kynjanna. Þá liggja enn ekki fyrir upplýsingar um áhrif þeirra aðgerða og skerðinga sem þegar hefur verið gripið til á töku orlofs og jafnréttisgrundvöll fæðingarorlofskerfisins. Af þessum sökum er óskað eftir því að velferðarráðherra flytji Alþingi skýrslu um fæðingar- og foreldraorlof þar sem m.a. verði tilteknar almennar upplýsingar um töku fæðingarorlofs á undanförnum árum, auk þess sem þar komi fram upplýsingar um áhrif fæðingarorlofskerfisins á vinnumarkað, launamun kynjanna og jafnrétti.
    Þá er þess óskað að farið verði yfir áhrif þeirra skerðinga sem þegar hafa verið gerðar á töku fæðingarorlofs foreldra á síðustu missirum og hvort breytingar hafi orðið þar á sem rekja megi til skerðinganna. Er sérstaklega beðið um að skoðaðir verði ákveðnir þættir, þ.e. lengd orlofsins, kyn foreldris og tekjur. Í jafnréttisáætlun til fjögurra ára sem félags- og tryggingamálanefnd hefur nú umfjöllunar (þskj. 401, 334. mál) er lagt til að farið verði í það verkefni að kanna töku feðra á fæðingarorlofi og áhrifum þess á verkaskiptingu ungra foreldra á heimilum og atvinnuþátttöku kvenna og karla. Sérstaklega verði könnuð áhrif niðurskurðar á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði á töku feðra á fæðingarorlofi. Hér er því um sambærilega könnun að ræða og óskað er eftir í skýrslubeiðninni. Tímaáætlun verkefnis er þó tiltekin 2010–2012. Flutningsmenn telja mikilvægt að löggjafinn sem þegar hefur samþykkt beiðni um framangreindar upplýsingar fái þær hið fyrsta enda hefur nokkuð verið rætt um frekari skerðingar á fæðingarorlofi og ekki hægt að fara í upplýsta umræðu um það án þess að metin verði áhrif fyrri skerðinga. Gera verður ráð fyrir að unnt verði að vinna frekar með upplýsingar úr skýrslu ráðherra og hægt verði að nýta þær áfram í vinnu við framangreint verkefni.
    Auk upplýsinga um töku fæðingarorlofs er talið nauðsynlegt að fá upplýsingar um töku foreldraorlofs, hvort algengt sé að foreldrar taki slíkt orlof, hversu gamalt barn sé ef og þegar foreldraorlof er tekið og hvort einstakir þættir ráði einhverju um töku orlofsins, svo sem kyn foreldris og tekjur. Enn fremur væri áhugavert að vita hvort verið sé að skoða hvernig fæðingar- og foreldraorlof ásamt framlagi sveitarfélaga og atbeina vinnuveitenda geti lengt þann tíma sem börn geta verið heima í umsjón foreldra sinna án fjárhagslegra fórna fjölskyldunnar.
    Þá er óskað eftir því að í skýrslunni verði skoðað hvort ástand á vinnumarkaði í kjölfar efnahagshrunsins hafi haft áhrif á töku fæðingarorlofs og hvort merkja megi breytingar á lengd orlofs eða hvort dregið hafi úr töku orlofs hjá ákveðnum tekjuhópi eða kyni. Að auki er óskað upplýsinga um fjárþörf Fæðingarorlofssjóðs, sem og hver fjárþörfin hefði verið ef ekki hefði komið til skerðinga. Þá verði farið yfir fjármögnun Fæðingarorlofssjóðs.
    Auk framangreinds er þess m.a. óskað að skoðuð verði samtímis taka fæðingarorlofs hjá foreldrum. Hvað þennan síðasttalda þátt varðar telja flutningsmenn beiðninnar rétt að skoðuð verði löggjöf nágrannaríkja og hvort þar séu í gildi reglur sem takmarka skörun fæðingarorlofs hjá foreldrum. Þá verði metin þörf á slíkum reglum hér á landi, m.a. á grundvelli fjárhagslegra áhrifa slíkra reglna á Fæðingarorlofssjóð.