Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 555. máls.

Þskj. 942  —  555. mál.Frumvarp til laga

um breyting á lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar,
nr. 78/1997, með síðari breytingum (setning í prestsembætti).

(Lagt fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010–2011.)
1. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða er hljóðar svo:
    Nú er sóknarpresti eða presti veitt lausn frá embætti, leyfi frá störfum eða hann forfallast af öðrum ástæðum og getur þá biskup Íslands falið öðrum presti að gegna embættinu til allt að eins árs í senn.
    Ákvæði þetta fellur úr gildi 1. janúar 2015.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Á kirkjuþingi 2010 var samþykkt þingsályktun um að beina þeim tilmælum til ráðherra að flytja frumvarp til laga um breytingu á lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar sem heimilaði biskupi að fela presti að gegna embætti sóknarprests eða annars prests þegar embætti sóknarprests eða annars prests losnar af tilgreindum ástæðum. Fór kirkjuráð þess á leit við ráðherra með bréfi, dags. 23. nóvember 2010, að flytja slíkt frumvarp. Með bréfinu fylgdi frumvarp þetta sem samþykkt var á kirkjuþingi 2010.
    Í frumvarpi þessu er byggt á því sjónarmiði að eðlilegt geti talist, miðað við hið ríka aðhald í fjármálum kirkjunnar, að fresta að auglýsa laust til umsóknar embætti sóknarprests eða prests, sem losnar af ástæðum þeim sem greinir í ákvæðinu, en fela í stað þess sóknarpresti í öðru prestakalli eða öðrum presti að gegna embættinu um tiltekinn tíma. Er hér litið til þess að um sé að ræða prestakall sem kunni að verða sameinað grannprestakalli á grundvelli stefnumörkunar kirkjuþings um framtíðarskipan sókna, prestakalla og prófastsdæma frá árinu 2000. Í stefnumörkun þessari eru sett fram almenn viðmið um stærð prestakalla. Um málsmeðferð samkvæmt starfsreglum kirkjuþings vegna tillagna um breytingar á prestakallaskipan fer samkvæmt ákvæði 3. gr. starfsreglna um skipulag kirkjunnar í héraði nr. 1027/ 2007 en þar segir að tillögur um breytingar á skipan sókna og prestakalla skuli fá umsögn á aðalsafnaðarfundum viðkomandi sókna og þær því næst bornar upp á héraðsfundi, sem sendir þær biskupafundi, sem býr málið til kirkjuþings. Málsmeðferð getur samkvæmt þessu tekið allt að eitt ár, einkum ef tillaga að breytingum kemur fyrst fram á kirkjuþingi. Í því tilviki verður slík tillaga ekki afgreidd á því þingi heldur verður tillagan að fara fyrir aðalsafnaðarfundi og héraðsfund og að því búnu fyrir næsta kirkjuþing á eftir. Þeirri breytingu sem hér er lögð til er ætlað að skapa svigrúm í þeirri vinnu sem nú fer fram hjá kirkjunni vegna þeirrar hagræðingarkröfu sem ríkið hefur gert á hendur kirkjunni en óhjákvæmilegt er að leita allra leiða til að spara kirkjunni útgjöld. Með fyrrgreindri lagabreytingu er kirkjunni gert kleift að hagræða ef þær aðstæður skapast að embætti losnar vegna starfsloka prests eða af öðrum ástæðum. Eins og fyrr segir á þetta eingöngu við þar sem ástæða þykir til að endurskoða prestakallaskipan á grundvelli framangreindrar stefnumótunar kirkjuþings.
    Öll laus embætti skal auglýsa samkvæmt lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996. Hinar sérstöku aðstæður sem nú eru uppi í íslensku þjóðfélagi kalla á undantekningar hvað þetta varðar. Ekki er að finna heimild, hvorki í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, né í lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, nr. 78/1997, til þess að setja mann tímabundið í embætti sem er laust í skilningi 7. gr. starfsmannalaga, né heldur að fela sóknarpresti eða presti í einu embætti að gegna einnig öðru embætti. Í 24. gr. starfsmannalaga er ákvæði sem mælir fyrir um setningu í embætti við tilteknar aðstæður. Þar er einungis að finna heimild til setningar í embætti í stað embættismanns sem fellur frá, vegna fjarveru hans um lengri tíma eða vegna veikinda. Er því nauðsynlegt að fengin sé þessi heimild sem lögð er til í frumvarpi þessu.
    Með nýju ákvæði til bráðabirgða er lagt til að þegar embætti sóknarprests eða annars prests þjóðkirkjunnar losnar af þeim ástæðum að viðkomandi lætur af embætti eða forfallast af öðrum ástæðum megi biskup setja tímabundið annan prest til að gegna embættinu. Miðað er við að setning í embættið geti aldrei verið lengri en til eins árs í senn. Ef ekki er að ári liðnu búið að sameina umrætt prestsembætti öðru prestsembætti er heimilt að setja aftur í embættið. Ákvæðið kemur ekki í veg fyrir að sett sé í embætti til skemmri tíma en eins árs.
Ekki er gert ráð fyrir að ákvæðið gildi lengur en til 1. janúar 2015, en þá er miðað við að jafnvægi hafi skapast í fjármálum þjóðkirkjunnar.
    Lagt er til að lögin öðlist þegar gildi en afar brýnt er að framangreint ákvæði komi til framkvæmda sem fyrst.Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum um stöðu, stjórn
og starfshætti þjóðkirkjunnar, nr. 78/1997, með síðari breytingum.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að ef sóknarpresti eða öðrum presti þjóðkirkjunnar er veitt lausn frá embætti eða leyfi frá störfum eða hann forfallast af öðrum ástæðum geti biskup Íslands falið öðrum presti að gegna embættinu til allt að eins árs í senn. Þjóðkirkjan eins og aðrir þeir aðilar sem fjármagna starfsemi sína með framlögum úr ríkissjóði hefur þurft að grípa til margvíslegra aðhaldsaðgerða til að draga úr kostnaði. Með frumvarpi þessu er verið að bregðast við og er þetta einn þátturinn í því að aðlaga starfsemina að lækkuðum fjárveitingum. Er fyrirsjáanlegt að nauðsynlegt verði að sameina prestaköll og hefur kirkjuþing markað stefnu um framtíðarskipan sókna, prestakalla og prófastsdæma frá árinu 2000.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki gert ráð fyrir að það hafi í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð heldur muni það gera þjóðkirkjunni betur kleift að mæta þeim aðhaldsmarkmiðum sem sett eru í fjárlögum.