Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 563. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 952  —  563. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um mat á skilaverði eignasafns Landsbanka Íslands hf.

Flm.: Gunnar Bragi Sveinsson, Sigurður Ingi Jóhannsson, Eygló Harðardóttir,
Höskuldur Þórhallsson,Vigdís Hauksdóttir.


    Alþingi ályktar að fela fjármálaráðherra að ráða, í samráði við formenn stjórnmálaflokka, tvö óháð ráðgjafarfyrirtæki til að meta skilaverð eignasafns Landsbanka Íslands hf.

Greinargerð.


    Sunnudaginn 20. febrúar sl. tilkynnti forseti Íslands að hann hygðist ekki undirrita lög um heimild til handa fjármálaráðherra til að staðfesta samninga um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta til breska og hollenska ríkisins á kostnaði af greiðslu lágmarkstryggingar til innstæðueigenda í útibúum Landsbanka Íslands hf. í Bretlandi og Hollandi. Með þeirri ákvörðun er hið margumrædda Icesave-mál á ný komið til afgreiðslu þjóðarinnar. Í þeim tilgangi að skýra betur stöðuna sem uppi er og til þess að íslenska þjóðin geti tekið upplýsta ákvörðun í Icesave-deilunni þarf að tryggja að sem mest af upplýsingum liggi fyrir og þær séu aðgengilegar öllum.
    Einn af þeim þáttum sem nauðsynlegt er að skoða nánar og ekki hefur verið lagt mat á með sjálfstæðum hætti af opinberum aðilum er áætlað skilaverð eigna Landsbanka Íslands hf. Þar hefur einungis verið stuðst við mat skilanefndar bankans. Endanlegt skilaverð eignasafns Landsbankans skiptir hvað mestu þegar rætt er um hversu háar fjárhæðir af endurgreiðslu til breska og hollenska ríkisins kunni að lenda á íslenskum skattgreiðendum. Jafnframt þyrfti að leggja mat á hvenær útgreiðslur helstu eigna gætu hafist.
    Þingsályktunartillaga þessi gerir því ráð fyrir að Alþingi feli fjármálaráðherra að ráða, í samráði við formenn stjórnmálaflokkanna, tvo óháða sérfræðinga eða fyrirtæki til að leggja sjálfstætt mat á skilaverð safnsins. Nokkur fyrirtæki eru þekkt í þessum efnum, svo sem McKinsey & Company og Oliver Wyman. Mikilvægt er að samráð verði haft við alla stjórnmálaflokka um val á sérfræðingum.