Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 568. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 957  —  568. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um meðferð einkamála, nr. 91/1991, með síðari breytingum (gjafsókn).

Flm.: Álfheiður Ingadóttir, Atli Gíslason, Birgitta Jónsdóttir,
Eygló Harðardóttir, Helgi Hjörvar, Ólöf Nordal,
Siv Friðleifsdóttir, Þór Saari, Þórunn Sveinbjarnardóttir.


1. gr.

    Í stað 1. mgr. 126. gr. laganna koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Gjafsókn verður aðeins veitt ef málstaður umsækjanda gefur nægilegt tilefni til málshöfðunar eða málsvarnar og öðru hvoru eftirfarandi skilyrða er að auki fullnægt:
     a.      að fjárhag umsækjanda sé þannig háttað að kostnaður af gæslu hagsmuna hans í máli yrði honum fyrirsjáanlega ofviða, enda megi teljast eðlilegt að öðru leyti að gjafsókn sé kostuð af almannafé,
     b.      að úrlausn máls hafi verulega almenna þýðingu eða varði verulega miklu fyrir atvinnu, félagslega stöðu eða aðra einkahagi umsækjanda.
    Ráðherra getur í reglugerð kveðið nánar á um skilyrði gjafsóknar, þ.m.t. hvenær nægilegt tilefni sé til veitingar gjafsóknar, þau atriði sem líta ber til við mat á fjárhagsstöðu umsækjanda og heimildir til takmörkunar á gjafsókn skv. 1. mgr. 127. gr.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarpið var flutt á 137. löggjafarþingi og miðar að því að auka möguleika almennings á gjafsókn óháð fjárhagsstöðu umsækjanda. Málið náði ekki fram að ganga og er því endurflutt nú. Með frumvarpinu er lögð til breyting á 126. gr. laga um meðferð einkamála um gjafsókn. Einnig felur það í sér reglugerðarheimild fyrir ráðherra til að kveða nánar á um skilyrði gjafsóknar.
    Þegar einkamálalögin voru samþykkt árið 1991 voru skilyrði gjafsóknar skv. 126. gr. laganna þau hin sömu og lögð eru til með 1. gr. frumvarpsins, þ.e. að gjafsókn yrði aðeins veitt ef nægilegt tilefni væri til málshöfðunar eða málsvarnar og öðru hvoru eftirfarandi skilyrða væri fullnægt: að efnahag umsækjanda væri þannig háttað að kostnaður af gæslu hagsmuna hans í máli yrði honum fyrirsjáanlega ofviða, sbr. a-lið 1. mgr., eða úrlausn máls hefði verulega almenna þýðingu eða varðaði verulega miklu fyrir atvinnu, félagslega stöðu eða aðra einkahagsmuni umsækjanda, sbr. b-lið 1. mgr.
    Á 131. löggjafarþingi voru samþykkt lög nr. 7/2005, sem breyttu ákvæðum um gjafsókn í einkamálalögum, nr. 91/1991, og þjóðlendulögum, nr. 58/1998. Sú breyting var þá gerð að fellt var brott skilyrði gjafsóknar skv. b-lið 1. mgr. 126. gr., að úrlausn máls hafi verulega almenna þýðingu eða varði verulega miklu fyrir atvinnu, félagslega stöðu eða aðra einkahagi umsækjanda. Ákvæðið hafði þá verið í lögunum í um 12 ár án nokkurra vandkvæða í framkvæmd. Ástæða lagabreytingarinnar var sögð sú að ákvæðið væri afar víðtækt og ekki forsvaranlegt að kosta málshöfðun eða málsvörn einstaklinga af almannafé á grundvelli svo almenns ákvæðis.
    Efni núgildandi ákvæðis þrengir verulega að möguleikum almennings til þess að leita réttar síns með málshöfðun gagnvart stjórnvöldum og opinberum aðilum í málum sem geta varðað einstaklinga og almenning miklu. Slíkar takmarkanir eru í andstöðu við hefðir sem hafa verið að þróast í öðrum lýðræðisríkjum. Með frumvarpinu er því lagt til að fella umrætt skilyrði aftur inn í ákvæðið. Sú rýmkun sem lögð er til í frumvarpinu mun fela í sér að gjafsókn verður möguleg í málum sem eru mikilsverð réttlætismál fyrir hagsmuni einstaklinga og almennings, svo sem mál sem varða heimtu skaðabóta fyrir varanlega örorku þegar örorka er mikil en aflahæfi verulega skert, mál er varða lífeyrisréttindi, atvinnuréttindi og eignarréttindi, mál er varða bætur fyrir missi framfæranda, mál vegna læknamistaka, mál um réttindi varðandi friðhelgi einkalífs og önnur mál er varða hefðbundin mannréttindi. Þá gæti gjafsókn skv. b-lið 1. mgr. 126. gr. verið veitt í málum einstaklinga gagnvart stjórnvöldum.
    Gert er ráð fyrir að áfram verði inni reglugerðarheimild til að kveða nánar á um skilyrði málsóknar. Á grundvelli laga nr. 7/2005 gaf dómsmálaráðherra út reglugerð nr. 45/2008 þar sem kveðið var nánar á um skilyrði gjafsóknar. Verði frumvarpið að lögum þarf að gera breytingar á 5. gr. reglugerðarinnar um mat á tilefni til veitingar gjafsóknar fyrir héraðsdómi í samræmi við víkkun á heimild til gjafsóknar.