Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 571. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 963  —  571. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins fyrir árið 2010.

1. Inngangur.
    Af þeim fjölmörgu og margþættu málum sem fjallað var um á vettvangi Alþjóðaþingmannasambandsins (IPU) á árinu 2010 eru nokkur atriði sem Íslandsdeild þykir hafa sett einna mestan svip á starfsemi sambandsins árið 2010.
    Í fyrsta lagi var umræða um náttúruhamfarir og viðbragðsáætlanir við þeim áberandi á árinu og fór fram utandagskrárumræða um efnið bæði á vor- og haustþingi sambandsins. Fyrri umræðan lagði áherslu á það hvernig styrkja mætti samstöðu alþjóðasamfélagsins með íbúum Haítí og Chíle í kjölfar jarðskjálftanna sem riðu yfir löndin á árinu, með áherslu á forvarnir, bætt áhættumat, björgun og stjórnun í kjölfar náttúruhamfara og sú síðari tók á því hvernig styðja mætti við neyðarviðbrögð alþjóðasamfélagsins við náttúruhamförum, með áherslu á flóðin í Pakistan. Þá fór fram umræða um góða stjórnhætti þinga og enduruppbyggingu ríkja á vorþingi sambandsins í Bangkok í mars. Þar var m.a. rætt um afleiðingar alþjóðlegu fjármálakreppunnar og hvað fór úrskeiðis í aðdraganda hennar, með áherslu á endurreisn hagkerfa heims.
    Í öðru lagi var fyrirferðarmikil á árinu umræða um þær grundvallarbreytingar að Alþjóðaþingmannasambandið fái stöðu alþjóðasamtaka með fullgildingu milliríkjasamnings, sem samþykktur er af ríkisstjórnum aðildarríkjanna og fullgiltur af þingunum. Rætt var um að þar sem Alþjóðaþingmannasambandið er ekki byggt á alþjóðasamningi verði sambandið alltaf í tvíbentri stöðu sem viðurkenndur þátttakandi á alþjóðavettvangi og ekki með stöðu alþjóðastofnunar. Forseti Alþjóðaþingmannasambandsins lagði því til að skoðað yrði að breyta núgildandi fyrirkomulagi með því að bjóða aðildarríkjum sambandsins að fullgilda alþjóðasamning sem mun veita sambandinu lagalega stöðu alþjóðastofnunar. Í því samhengi var sjónum m.a. beint að framtíðarsýn Alþjóðaþingmannasambandsins þar sem sambandið starfaði sem alþjóðlegur þingmannavettvangur Sameinuðu þjóðanna. Skiptar skoðanir eru meðal aðildarríkjanna um tillögur að grundvallarbreytingum á sambandinu og var því ákveðið að framkvæmdastjórn Alþjóðaþingmannasambandsins muni halda þriggja daga aukafundi um málið í febrúar 2011. Á fundinum verður unnið að framtíðaráætlun fyrir sambandið og í framhaldinu verða nefndarmönnum kynntar tillögur að framtíðarsýn fyrir Alþjóðaþingmannasambandið og þróun næstu ára.
    Af öðrum stórum málum sem tekin voru til umfjöllunar á þingum Alþjóðaþingmannasambandsins árið 2010 má nefna baráttuna gegn mansali, skipulögðum glæpum, smygli á eiturlyfjum og ólöglegri vopnasölu, þátttöku æskunnar í uppbyggingu lýðræðis og fyrirbyggjandi aðgerðir gegn kosningasvindli. Enn fremur var rætt um hvernig tryggja mætti sanngjörn valdaskipti, sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda og gagnsæi og traust stjórnmálaflokka.
    Þá ber að nefna mikilvægt starf Alþjóðaþingmannasambandsins til að efla lýðræði en mörg aðildarþing sambandsins eru ekki lýðræðislega kjörin og í sumum fer ekkert eiginlegt löggjafarstarf fram. Námskeið og ráðstefnur eru haldnar fyrir þing sem eru að feta sig áfram á lýðræðisbraut um ýmsa þætti þingstarfsins, oft í samvinnu við viðeigandi stofnun Sameinuðu þjóðanna eða aðrar alþjóðastofnanir. Sem dæmi um slíkt starf árið 2010 má nefna þingmannaráðstefnu um öryggismál í Vestur-Afríku sem haldin var í Senegal, málstofu um auknar aðgerðir þjóðþinga til að berjast gegn mansali á börnum til vinnuþrælkunar í Vestur- og Mið-Afríku og svæðisbundna málstofu fyrir ríki Suður-Ameríku um baráttuna gegn ofbeldi á konum, frá löggjöf til framkvæmdar sem haldin var í Ekvador.
    Enn fremur gefur Alþjóðaþingmannasambandið út handbækur fyrir þingmenn til að hjálpa þeim að hafa áhrif í ólíkum málaflokkum. Á árinu 2010 var m.a. gefin út handbók sem leiðarvísir til aðstoðar þjóðþingum við að ná þúsaldarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Einnig voru unnar kannanir og skýrslur á árinu um málefni sem tengjast markmiðum sambandsins, að vinna að friði og samstarfi meðal þjóða og treysta lýðræði og þjóðkjörin fulltrúaþing í sessi. Í því sambandi má m.a. nefna skýrslu um það hvort þjóðþing séu í raun opin fyrir konur og úttekt um minnihlutahópa og frumbyggja í þjóðþingum.

2. Almennt um Alþjóðaþingmannasambandið.
    Aðild að Alþjóðaþingmannasambandinu eiga nú 155 þjóðþing. Aukaaðild að sambandinu eiga níu svæðisbundin þingmannasamtök. Markmið sambandsins er að stuðla að skoðanaskiptum þingmanna frá öllum heimshornum um alþjóðleg málefni, vinna að friði og samstarfi meðal þjóða og treysta lýðræði og þjóðkjörin fulltrúaþing í sessi. Áhersla er lögð á að standa vörð um mannréttindi í heiminum sem eins grundvallarþáttar lýðræðis og þingræðis. Þá vinnur sambandið að styrkingu þjóðþinga og aðstoðar við þróun lýðræðislegra vinnubragða innan þeirra. Sambandið styður starfsemi Sameinuðu þjóðanna og á margvíslegt samstarf við stofnanir þeirra. Höfuðstöðvar sambandsins eru í Genf, en sambandið rekur jafnframt skrifstofu í New York.
    Alþjóðaþingmannasambandið heldur tvö þing á ári, eitt stærra þing að vori í einu af aðildarríkjum sambandsins og eitt minna þing að hausti sem er haldið í Genf, nema annað sé ákveðið sérstaklega. Auk þess stendur sambandið fyrir alþjóðlegum ráðstefnum og málstofum á ári hverju, oft um málefni sem eru efst á baugi innan Sameinuðu þjóðanna hverju sinni og þá gjarnan í tengslum við tiltekna ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Þá eru haldnar námsstefnur fyrir þjóðþing sem óska eftir slíku um ýmsa þætti löggjafarstarfsins og eflingu lýðræðis.
    Þrjár fastanefndir starfa innan Alþjóðaþingmannasambandsins:
     1.      nefnd um friðar- og öryggismál,
     2.      nefnd um sjálfbæra þróun, efnahags- og viðskiptamál,
     3.      nefnd um lýðræði og mannréttindamál.
    Ráð Alþjóðaþingmannasambandsins, sem í eiga sæti þrír fulltrúar frá hverri landsdeild (fulltrúum fækkar í tvo ef sendinefnd samanstendur ekki af fulltrúum beggja kynja í fleiri en þrjú þing í röð), markar stefnu samtakanna og hefur umsjón með starfi nefnda og vinnuhópa. Á milli funda hefur sautján manna framkvæmdastjórn umsjón með daglegum rekstri sambandsins, undirbýr fundi ráðsins og fylgir eftir ákvörðunum þess. Auk fastanefnda sambandsins skila aðrar nefndir og vinnuhópar sem starfa innan sambandsins skýrslum til ráðsins til afgreiðslu, en um er að ræða nefnd um málefni Sameinuðu þjóðanna, nefnd um mannréttindi þingmanna, nefnd um málefni Mið-Austurlanda, vinnuhóp um málefni Kýpur, nefnd til að auka virðingu fyrir alþjóðlegum mannúðarlögum, undirbúningsnefnd kvennafundar Alþjóðaþingmannasambandsins og vinnuhóp um samstarf kynjanna. Nefnd um mannréttindi þingmanna vinnur mikið starf á milli þinga og gefur út skýrslu fyrir hvert þing sambandsins þar sem hún fer yfir mál þingmanna sem mannréttindi hafa verið brotin á, m.a. ef um er að ræða fangelsun, hótanir, barsmíðar, mannshvarf eða dauðsfall. Nefndin heimsækir viðkomandi ríki, ræðir við málsaðila og aflar gagna. Málum er fylgt eftir, oft árum saman, þar til niðurstaða fæst. Ráð Alþjóðaþingmannasambandsins samþykkir á hverju þingi ályktanir sem grundvallast á skýrslu nefndarinnar.
    Ályktanir Alþjóðaþingmannasambandsins eru ekki bindandi fyrir þjóðþing aðildarríkjanna. Þær endurspegla hins vegar umræðu um mikilvæg málefni sem hinar ýmsu þjóðir glíma við. Vegna virkrar þátttöku þingmanna í umræðum á þingum sambandsins og ólíkra sjónarmiða þeirra hafa alþjóðastofnanir lagt áherslu á að fylgjast vel með ályktunum sambandsins, enda hafa þær iðulega bent á nýjar leiðir og hugmyndir að lausn mála.

3. Skipan og starfsemi Íslandsdeildar.
    Í byrjun árs skipuðu Íslandsdeild Þuríður Backman, formaður, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Guðbjartur Hannesson, varaformaður, þingflokki Samfylkingarinnar, og Einar K. Guðfinnsson, þingflokki sjálfstæðismanna. Varamenn voru Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, Atli Gíslason, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, og Ólöf Nordal, þingflokki sjálfstæðismanna.
    Breytingar urðu á skipan Íslandsdeildar og var tilkynnt um þær á þingfundi 5. október. Þá tók Sigmundur Ernir Rúnarsson sæti aðalmanns, Guðbjarts Hannessonar, í deildinni og Oddný G. Harðardóttir tók sæti varamanns, Þórunnar Sveinbjarnardóttur. Á fundi Íslandsdeildar 22. nóvember var Einar K. Guðfinnsson kosinn varaformaður. Arna Gerður Bang var ritari deildarinnar. Íslandsdeild hélt fimm fundi á árinu, en á þeim fór aðallega fram undirbúningur fyrir þátttöku í þingum Alþjóðaþingmannasambandsins.

4. Yfirlit yfir fundi.
    Íslandsdeild var venju samkvæmt virk í starfi Alþjóðaþingmannasambandsins á árinu og lét að sér kveða í öllum helstu málum sem komu til umræðu í nefndum og á þingum sambandsins. Starfsemi Íslandsdeildar var með hefðbundnum hætti á árinu 2010. Hér á eftir verður gerð grein fyrir því sem fram fór á fundunum á árinu og öðrum störfum Íslandsdeildar.

Norrænt samstarf.
    Tveir norrænir samráðsfundir eru haldnir árlega til að fara yfir málefni komandi þings og samræma afstöðu Norðurlanda eins og hægt er. Norðurlönd skiptast á að fara með stjórn norræna hópsins og voru Danir í forustu á árinu. Fyrri fundurinn var haldinn í Viborg 20. mars og sá síðari í Kaupmannahöfn 28. september 2010.
    Guðbjartur Hannesson, varaformaður Íslandsdeildar, sótti fundinn í Viborg auk Örnu Gerðar Bang, ritara Íslandsdeildar. Kristian Pihl Lorentzen, formaður dönsku landsdeildarinnar, stýrði fundinum og bauð fundargesti velkomna til Viborg. Rætt var um að fundur Alþjóðaþingmannasambandsins, sem skipulagður var í tengslum við loftslagsráðstefnuna COP15 í Kaupmannahöfn 16. desember 2009, hefði verið gagnlegur og sýnt fram á gildi þess að halda sambærilega fundi í framtíðinni með hliðsjón af stærri viðburðum Sameinuðu þjóðanna. Þá skýrði Krister Örnfjäder, norrænn fulltrúi í framkvæmdastjórn Alþjóðaþingmannasambandsins, nefndarmönnum frá áhersluatriðum framkvæmdastjórnarinnar og hvað helst var til umræðu á fundi hennar í Namibíu 15.–16. febrúar 2010. Hann sagði tillögu um að breyta Alþjóðaþingmannasambandinu í alþjóðastofnun hafa komið sér á óvart og það hversu stuttan tíma áætlað er að breytingin og innleiðing hennar taki í aðildarríkjunum. Tillagan felur í sér grundvallarbreytingu á Alþjóðaþingmannasambandinu og vekur upp fjölmargar spurningar og vangaveltur um framtíð sambandsins. Nefndarmenn tóku undir með Örnfjäder að mörgum spurningum væri ósvarað og höfðu efasemdir um tillöguna. Umræða fór fram um tillöguna og var spurningum varpað fram með von um að þeim yrði sem flestum svarað á vorþingi Alþjóðaþingmannasambandsins í Bangkok seinni hluta mars 2010. Hér á eftir fara spurningar sem varpað var fram á fundinum:
          Hvað gerðist ef aðeins 25% aðildarríkjanna samþykkja breytinguna, er þá komið fordæmi fyrir A- og B-liði innan sambandsins sem skipta mundi því upp í tvo hluta?
          Er raunhæfur möguleiki að breyta Alþjóðaþingmannasambandinu á þann hátt sem lagt er til?
          Oft er erfitt að tryggja samvinnu innan Alþjóðaþingmannasambandsins þar sem viðhorf aðildarríkjanna eru ólík. Verður þetta erfiðara eftir breytinguna?
          Á Norðurlöndum fara utanríkisráðuneytin með fullgildingu alþjóðasamninga. Eru þau tilbúin til að taka það verkefni að sér í samræmi við tillögur Alþjóðaþingmannasambandsins um samninginn.
          Hvað með sjálfstæði þingmannanna? Verða þeir málpípur stjórnvalda sinna eftir fyrirhugaðar breytingar?
          Breytingin mun hafa í för með sér miklar skipulagsbreytingar á skrifstofu Alþjóðaþingmannasambandsins og aukinn kostnað. Eru þingforsetar aðildarríkjanna tilbúnir til að samþykkja þann kostnað?
          Tímaáætlunin virðist ekki raunhæf. Venja er að samningaviðræður, undirskrift og fullgilding alþjóðasamninga taki nokkur ár hið minnsta.
          Hvernig lítur tillaga framkvæmdastjórnarinnar að samningnum út í samanburði við t.d. NATO-þingið, Evrópuráðsþingið og ÖSE-þingið?
          Hvert verður hlutverk þingmannanna?
          Verður komið í veg fyrir tvíverknað milli alþjóðastofnana í kjölfar breytinganna?
    Nefndarmenn voru sammála um að það væri eftirsóknarvert fyrir Alþjóðaþingmannasambandið að fá virðingarmeiri stöðu og mikilvægara hlutverki að gegna á alþjóðavettvangi en það yrði að vera ljóst hverju væri fórnað fyrir þær breytingar. Kostir og gallar breytinganna liggja ekki fyrir að svo stöddu og því ómögulegt fyrir nefndarmenn að taka afgerandi afstöðu í málinu. Þá var rætt um mikilvægt hlutverk Alþjóðaþingmannasambandsins við að stuðla að framþróun lýðræðis í aðildarríkjum þess og voru nefndarmenn sammála um að þeir væru ekki tilbúnir til að breyta grundvallarstoðum sambandsins á kostnað grundvallarhlutverks þess. Tekin var ákvörðun um að nefndarmenn upplýstu þingforseta sína um stöðu mála svo að þeir gætu haft afstöðu norrænu landsdeildanna í huga við yfirferð á drögum að yfirlýsingu þriðju ráðstefnu þingforseta Alþjóðaþingmannasambandsins sem haldin verður í júlí nk.
    Þá fræddi Örnfjäder nefndarmenn um helstu niðurstöður fundar stjórnarnefndar Tólfplús- hópsins. Hann sagði ekkert hafa miðað áfram varðandi ósk Tólfplús-hópsins um að varaforsetar þingsins hefðu ríkara hlutverki að gegna. Þá sé fjárhagsstaða Alþjóðaþingmannasambandsins þröng þar sem skuldbindingar varðandi lífeyrisgreiðslur hafa hækkað. Í kjölfarið hefur verið óskað eftir auknum frjálsum fjárframlögum til sambandsins. John Austin mun hætta sem formaður Tólfplús-hópsins eftir þingið í Bangkok. Ekki hefur verið rætt um eftirmann hans en líklegast þykir að franski þingmaðurinn Robert del Picchia, varaformaður nefndarinnar, taki við sæti Austins sem formaður Tólfplús-hópsins. Ákveðið hefur verið að haustþing Alþjóðaþingmannasambandsins 2012 verði haldið í Kanada og hafa Kanadamenn óskað eftir því að það verði fimm daga þing í stað þriggja daga eins og venja er. Stefnt er að því að finna lausn á þessu máli á þinginu í Bangkok.
    Farið var yfir helstu umræðuefni vorþingsins og skiptingu þingmanna í fastanefndir. Umræðuefni fastanefndanna eru baráttan gegn mansali, skipulögðum glæpum, smygli á eiturlyfjum og ólöglegri vopnasölu, þátttaka æskunnar í uppbyggingu lýðræðis og þúsaldarmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Enn fremur fer fram almenn umræða um stjórnarhætti þinga og enduruppbyggingu ríkja. Nefnd um málefni Sameinuðu þjóðanna mun ekki funda í tengslum við þingið. Þá var rætt um hugsanlegar tillögur að neyðarályktun. Lagðar hafa verið fram tvær tillögur um neyðarályktun, annars vegar um ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs með áherslu á vanvirðingu Ísraela á helgistöðum íslams og kristni í Jerúsalem, af Palestínu fyrir hönd landfræðihóps araba, og hins vegar um náttúruhamfarirnar á Haítí, af Kúbu og Úrúgvæ. Flestir nefndarmanna voru sammála um að styðja tillögu Kúbu og Úrúgvæ en fleiri tillögur verða hugsanlega lagðar fram á þinginu í Bangkok.
    Jafnframt var rætt um tímasetningar vorþinga Alþjóðaþingmannasambandsins en þau hafa undanfarin ár verið haldin í páskavikunni. Framkvæmdastjórn sambandsins hefur rætt málið og bent á að þetta sé eini tíminn sem þingmenn frá Bandaríkjunum hafa tök á að sækja þing Alþjóðaþingmannasambandsins, en þau rök þykja ekki haldgóð í ljósi þess að Bandaríkjamenn eiga ekki aðild að sambandinu. 124. þing Alþjóðaþingmannasambandsins verður haldið í Panamaborg 15.–20. apríl 2011 sem er í dymbilvikunni. Þá var rætt um að halda óformlegan fund norrænu landsdeildanna í tengslum við fyrsta fund Tólfplús-hópsins sem fyrirhugaður var í Bangkok 26. mars 2010.

122. þing Alþjóðaþingmannasambandsins í Bangkok 5.–10. mars.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefndar Alþjóðaþingmannasambandsins sóttu fundinn Þuríður Backman, formaður, Guðbjartur Hannesson og Einar K. Guðfinnsson auk Örnu Gerðar Bang, ritara Íslandsdeildar. Helstu mál á dagskrá voru baráttan gegn mansali, skipulögðum glæpum, smygli á eiturlyfjum og ólöglegri vopnasölu, þátttaka æskunnar í uppbyggingu lýðræðis og þúsaldarmarkmið Sameinuðu þjóðanna með áherslu á þróunaraðstoð og samstarf ríkja. Þá fór fram almenn umræða um góða stjórnhætti þinga og enduruppbyggingu. Enn fremur tók utandagskrárumræðuefni ráðstefnunnar á samstöðu alþjóðasamfélagsins með íbúum Haítí og Chíle í kjölfar jarðskjálftanna sem riðu yfir löndin, með áherslu á forvarnir, björgun og stjórnun í kjölfar náttúruhamfara. Um 620 þingmenn frá 124 ríkjum sóttu þingið, þar af 36 þingforsetar.
    Tólfplús-hópurinn, sem er samstarfsvettvangur vestrænna lýðræðisríkja, hittist að venju flesta morgna meðan á þinginu stóð, en þar er farið yfir helstu mál þingsins og afstaða sendinefnda samræmd eins og hægt var. Formaður hópsins, John Austin frá Bretlandi, stýrði fundunum í síðasta sinn en hann mun hætta sem formaður Tólfplús-hópsins eftir þingið í Bangkok. Franski þingmaðurinn Robert del Picchia var valinn eftirmaður Austins sem formaður hópsins. Fulltrúar Tólfplús-hópsins í framkvæmdastjórn Alþjóðaþingmannasambandsins, Geert Versnick (Belgíu) og Robert del Picchia, kynntu helstu niðurstöður funda stjórnarinnar og gafst fundargestum kostur á að spyrja út í starf hennar. Enn fremur voru skipaðir fulltrúar hópsins í nefnd sem vann að drögum að neyðarályktun þingsins.
    Þá kynnti Anders B. Johnson Tólfplús-hópnum tillögu forseta Alþjóðaþingmannasambandsins að þeirri grundvallarbreytingu að sambandið fái stöðu alþjóðasamtaka með fullgildingu milliríkjasamnings sem samþykktur er af ríkisstjórnum aðildarríkjanna og fullgiltur af þingunum. Johnson lagði áherslu á að málið væri á byrjunarstigi og umræður ættu eftir að fara fram um tillöguna. Hann sagðist sannfærður um að breytingin væri Alþjóðaþingmannasambandinu til góðs, ekki síst í samskiptum sambandsins við Sameinuðu þjóðirnar. Einnig nefndi Johnson sem kosti það aukna vægi sem starf sambandsins fengi á alþjóðavettvangi auk þess sem fulltrúar aðildarríkjanna gætu fengið vegabréfsáritanir til að sækja fundi Alþjóðaþingmannasambandsins í öllum aðildarríkjunum. Johnson sagði næsta skref vera að þingmenn kynntu tillöguna fyrir þingforsetum sínum í aðildarríkjunum. Eftir kynninguna sköpuðust líflegar umræður um málið og var fjölmörgum spurningum varpað fram, m.a. um kostnað við breytinguna og frekari útlistun á kostum og göllum. Johnson sagði ekki mögulegt að svara spurningum varðandi aukinn kostnað að svo stöddu, tillagan fæli ekki í sér aukningu á ráðstöfunarfé sambandsins heldur styrkingu þess. Nefndarmenn óskuðu eftir frekari gögnum um tillöguna sem grunn að umræðu um málið í aðildarríkjunum.
    Monika Griefahn (Þýskalandi) sagði fundargestum frá niðurstöðum árlegs kvennafundar Alþjóðaþingmannasambandsins sem haldinn var 27. mars í Bangkok. Þuríður Backman tók þátt í fundinum en um 100 þingmenn frá 62 aðildarríkjum sóttu fundinn. Taílenska prinsessan Bajrakitiyabha, velunnari UNIFEM gegn ofbeldi á konum, hélt erindi um baráttuna gegn kynbundnu ofbeldi. Þá var fundinum skipt upp í tvo umræðuhópa, annars vegar um mansal á konum og hins vegar um hlutverk kvenna við að berjast gegn smygli á eiturlyfjum. Þuríður tók til máls í fyrri hópnum og sagði frá aðgerðaáætlun íslenskra stjórnvalda gegn mansali frá 2009. Í máli sínu lagði Þuríður áherslu á aðgerðir sem miða að því að sækja gerendur til saka, auka aðstoð við þolendur og tryggja vernd þeirra. Næsti kvennafundur Alþjóðaþingmannasambandsins verður haldinn á vorþingi samtakanna 2011.
    Við setningu 122. þings Alþjóðaþingmannasambandsins flutti forseti þess og forseti neðri deildar taílenska þingsins, Chai Chidchob, ávarp þar sem hann bauð þátttakendur velkomna og kynnti dagskrá þingsins. Taílenska prinsessan Maha Chakri Sirindhorn setti þingið og lagði í ávarpi sínu áherslu á framþróun lýðræðis í heimsvísu og samvinnu þinga aðildarríkjanna. Þá ávarpaði aðstoðarforsætisráðherra Taílands, Trairong Suwankiri, þingið og sagðist trúa því að Alþjóðaþingmannasambandið væri öflugur vettvangur til að stuðla að lausn erfiðra mála á alþjóðavísu. Aðrir sem tóku til máls við setningu þingsins voru forseti öldungadeildar taílenska þingsins, Prasobsook Boondech, framkvæmdastjóri ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um viðskipti og þróun, sem flutti skilaboð frá aðalritara þeirra, Ban Ki- moon, og Theo-Ben Gurirab, forseti Alþjóðaþingmannasambandsins.
    Almenn umræða fór fram um góða stjórnhætti þinga og enduruppbyggingu ríkja. Þuríður Backman tók þátt í umræðunum og fjallaði í ræðu sinni um enduruppbygginguna á Íslandi eftir hrun efnahagskerfisins haustið 2008 og hvað fór úrskeiðis í aðdraganda þess. Tillögur um neyðarályktun eða utandagskrárefni voru lagðar fram fyrir upphaf þingsins, en aðeins er hægt að taka fyrir eitt mál utan dagskrár á hverju þingi samkvæmt reglum Alþjóðaþingmannasambandsins. Utandagskrárumræðuefnið sem kosið var til umræðu og ályktunar var lagt fram af landsdeildum Kúbu, Frakklands, Taílands, Úganda, Bretlands og Úrúgvæ og bar yfirskriftina: Hlutverk þinga við að styrkja samstöðu alþjóðasamfélagsins gagnvart íbúum Haíti og Chíle í kjölfar jarðskjálftanna sem gengu yfir löndin auk mikilvægra aðgerða sem bæta áhættumat, björgun og forvarnir í tengslum við náttúruhamfarir. Ályktun þingsins endurspeglaði málefni umræðunnar og var hún samþykkt einróma.
    Fastanefndirnar þrjár tóku fyrir fram ákveðin mál til umfjöllunar. Ályktanir nefndanna voru síðan afgreiddar á þingfundi. Þuríður Backman tók þátt í störfum 1. nefndar, um frið og alþjóðleg öryggismál, en þar var rætt um baráttuna gegn skipulagðri glæpastarfsemi með áherslu á baráttuna gegn mansali, skipulögðum glæpum, smygli á eiturlyfjum og ólöglegri vopnasölu. Einar K. Guðfinnsson tók þátt í störfum 2. nefndar, um sjálfbæra þróun, efnahags- og viðskiptamál, en þar var fjallað um þúsaldarmarkmið Sameinuðu þjóðanna með áherslu á þróunaraðstoð og samstarf ríkja. Einar tók þátt í umræðum nefndarinnar og lagði áherslu á að í kjölfar heimskreppunnar væri mikilvægt fyrir framþróun í þróunarríkjunum að beina sjónum að auknum viðskiptum og fríverslun. Guðbjartur Hannesson tók þátt í störfum 3. nefndar, um lýðræði og mannréttindi, en hún fjallaði um þátttöku æskunnar í uppbyggingu lýðræðis. Þá fóru fram tvær pallborðsumræður á þinginu, annars vegar um hlutverk þinga við að uppfylla skilyrði barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og hins vegar um málefni hafsins og verndun hafsvæða. Fyrri pallborðsumræðan var skipulögð í samvinnu við barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) í tilefni af tuttugu ára afmæli sáttmálans.
    Ráð Alþjóðaþingmannasambandsins kom tvisvar sinnum saman á þinginu og afgreiddi fjölda mála. Þingin í Djíbútí, Gíneu-Bissá og Malaví fengu endurinngöngu í sambandið og þinginu í Seychelles-eyjum var vikið úr samtökunum. Aðildarríki sambandsins eru nú 155. Þá fór forseti þingsins yfir tillögu framkvæmdastjórnar að þeirri grundvallarbreytingu að Alþjóðaþingmannasambandið fái stöðu alþjóðasamtaka. Forsetinn hvatti nefndarmenn til að kynna sér tillöguna vel á næstu mánuðum og beina spurningum sínum og athugasemdum til skrifstofu sambandsins sem mun gera sitt besta til að skýra málin. Þá lagði hann til að komið yrði á vinnuhópum innan landfræðihópanna sex þar sem málið yrði sérstaklega skoðað. Jafnframt hvatti hann þingforseta til að ræða tillöguna á fundi þingforseta sem fyrirhugaður var í Genf í júní 2010.
    Nefnd um mannréttindi þingmanna kynnti skýrslur um brot gegn mannréttindum þingmanna og samþykkti ráð Alþjóðaþingmannasambandsins fjölmargar ályktanir á grundvelli þeirra. Formaður nefndarinnar sagði nefndina hafa til skoðunar mál 293 löggjafa, þar af opinber mál 32 þingmanna í 21 landi. Ríkin sem í hlut eiga eru Afganistan, Bangladess, Hvíta-Rússland, Búrma, Búrundi, Kólumbía, Kongó, Ekvador, Erítrea, Líbanon, Madagaskar, Malasía, Mongólía, Palestína/Ísrael, Níger, Filippseyjar, Rússland, Rúanda, Srí Lanka, Tyrkland og Simbabve. Þess má geta að 29% þingfulltrúa á 122. þinginu voru konur sem er lakari árangur en náðist á 121. þingi (32%). Samþykkt var að 125. þing Alþjóðaþingmannasambandsins verði haldið í Bern í október 2011.
    Enn fremur hélt Íslandsdeild óformlegan fund með bresku landsdeildinni þar sem m.a. var rætt um deilu ríkjanna vegna Icesave-innlánsreikninganna og stöðu mála.

123. þing Alþjóðaþingmannasambandsins í Genf 19.–21. október.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefndar Alþjóðaþingmannasambandsins sótti fundinn Þuríður Backman, formaður, auk Örnu Gerðar Bang, ritara Íslandsdeildar. Helstu mál á dagskrá voru gagnsæi og traust stjórnmálaflokka, sjálfbær nýting náttúruauðlinda og stjórnun í kjölfar náttúruhamfara og fyrirbyggjandi aðgerðir gegn kosningasvindli. Auk þess fór fram utandagskrárumræða um hvernig styðja megi við neyðarviðbrögð alþjóðasamfélagsins við náttúruhamförum, með áherslu á flóðin í Pakistan. Þá var rætt um fyrirhugaðar grundvallarbreytingar á starfsreglum Alþjóðaþingmannasambandsins og framtíðarsýn sambandsins. Um 460 þingmenn frá 118 ríkjum sóttu þingið, þar af 22 þingforsetar.
     Tólfplús-hópurinn, sem er samstarfsvettvangur vestrænna lýðræðisríkja, hittist að venju flesta morgna meðan á þinginu stóð. Nýr formaður hópsins var kosinn, Robert del Picchia frá Frakklandi, og stýrði hann fundunum. Fulltrúar Tólfplús-hópsins í framkvæmdastjórn Alþjóðaþingmannasambandsins kynntu helstu niðurstöður funda stjórnarinnar og gafst fundargestum kostur á að spyrja út í starf hennar. Þá var fundargestum sagt frá skipulagningu árlegs kvennafundar Alþjóðaþingmannasambandsins sem haldinn verður á vorþingi samtakanna í Panama. Einnig fór fram umræða um fyrirhugaðar grundvallarbreytingar á starfsreglum Alþjóðaþingmannasambandsins, þ.e. að sambandið fái stöðu alþjóðasamtaka með fullgildingu milliríkjasamnings sem samþykktur er af ríkisstjórnum aðildarríkjanna og fullgiltur af þingunum. Var meiri hluti nefndarmanna á þeirri skoðun að breytingarnar hefðu neikvæð áhrif á sambandið og skoða þyrfti málið frekar á vorþingi sambandsins í Panama.
    Fram fór kosning um lausa stöðu Tólfplús-hópsins í framkvæmdastjórn Alþjóðaþingmannasambandsins og hlaut kanadíski þingmaðurinn Donald H. Oliver kosningu. Tólfplús- hópurinn á fjóra fulltrúa í stjórninni. Framkvæmdastjórnin hefur umsjón með rekstri samtakanna og er hún skipuð 17 fulltrúum sem kosnir eru til fjögurra ára. Enn fremur voru skipaðir fulltrúar hópsins í nefnd sem vann að drögum að neyðarályktun þingsins.
    Við setningu 123. þingsins flutti forseti Alþjóðaþingmannasambandsins, Theo-Ben Gurirab, ávarp þar sem hann bauð þátttakendur velkomna og kynnti dagskrá þingsins. Þá studdi þingið yfirlýsingu forsetans um nýafstaðna atburði í Ekvador. Í yfirlýsingunni sagði forsetinn að Alþjóðaþingmannasambandið fordæmdi þær þvingunaraðgerðir sem beitt hefur verið gegn forseta Ekvadors, Rafael Correa, og hafnaði alfarið nýlegum hótunum um að kollvarpa stjórnskipan landsins.
    Tvær tillögur um neyðarályktun voru lagðar fram fyrir upphaf þingsins, af Sameinuðu arabísku furstadæmunum og Íran, en aðeins er hægt að taka fyrir eitt mál utan dagskrár á hverju þingi samkvæmt reglum Alþjóðaþingmannasambandsins. Þar sem báðar tillögurnar fjölluðu um náttúruhamfarir og viðbragðsáætlanir við þeim voru þær sameinaðar í eina tillögu sem samþykkt var einróma af þinginu. Yfirskrift tillögunnar var: Hvernig styðja megi við neyðarviðbrögð alþjóðasamfélagsins við náttúruhamförum, með áherslu á flóðin í Pakistan. Í umræðum um neyðarályktunina lýstu þingmenn yfir miklum áhyggjum af ástandinu eftir flóðin í Pakistan og í öðrum löndum sem nýlega hafa orðið fyrir náttúruhamförum og vottuðu fórnarlömbum og fjölskyldum þeirra samúð sína. Þá hvöttu þingmenn einkageirann og alþjóðasamfélagið, sérstaklega þróuð ríki, alþjóðlegar fjármálastofnanir og alþjóðasamtök, til að veita enn frekari stuðning og aðstoða ríkisstjórn Pakistans við að draga úr eyðileggjandi áhrifum flóðanna. Aðgerðir sem lagðar voru til í neyðarályktuninni voru m.a. að afskrifa og/eða enduráætla skuldir Pakistans, veita Pakistan aðgang að mörkuðum til að stuðla að endurreisn efnahagslífsins í landinu og að fjárfesta í meðferðar- og endurreisnarverkefnum. Þá voru stjórnvöld í Pakistan jafnframt hvött til að halda áfram að kynna og innleiða eigin efnahagsumbætur sem nauðsynlegar eru árangursríkri enduruppbyggingu landsins. Ályktun þingsins endurspeglaði málefni umræðunnar og var hún samþykkt einróma.
    Umræður um skýrslur fastanefndanna þriggja fóru fram sem pallborðsumræður þar sem efni skýrslnanna var kynnt af skýrsluhöfundum og sérfræðingum og í framhaldinu tóku þingmenn þátt í umræðum um málefnin. Í 1. nefnd, um frið og alþjóðleg öryggismál, var rætt um fyrirbyggjandi aðgerðir gegn kosningasvindli og hvernig tryggja mætti sanngjörn valdaskipti. Skýrsluhöfundar skýrðu fundargestum frá framgangi vinnu nefndarinnar við undirbúning skýrslunnar sem flutt verður á vorþinginu í Panama. Í 2. nefnd, um sjálfbæra þróun, efnahags- og viðskiptamál, var fjallað um sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda og stjórnun í kjölfar náttúruhamfara. Þar sem fjallað var um efnið á afar breiðum grunni var sérfræðingur frá þróunarskrifstofu Sameinuðu þjóðanna fenginn til að halda erindi um nýtingu auðlinda heims og helstu vandamál þar að lútandi. Hann lagi áherslu á mikilvægi landbúnaðar fyrir bæði þróuð lönd og þróunarlönd og fjallaði um stefnubreytingar sem væru nauðsynlegar vegna hlýnunar af völdum loftslagsbreytinga. Í 3. nefnd, um lýðræði og mannréttindi, var fjallaði um gagnsæi og traust stjórnmálaflokka. Í umræðu um drög að skýrslu nefndarinnar ræddu þingmenn m.a. mikilvægi þess að koma á viðmiðunarreglum til að hlúa að gagnsæi og ábyrgð, grundvallarstoðum lýðræðis. Skírskotun var gerð um að takmarka upphæðir fjárstyrkja og nauðsyn þess að stjórnmálaflokkar gefi upp hverjir veiti styrkina og upphæð þeirra og hvernig þeir séu nýttir, sérstaklega séu þeir veittir af opinberum aðilum.
    Nefnd um málefni Sameinuðu þjóðanna fundaði í tengslum við þingið og hélt aðstoðarframkvæmdastjóri innra stefnumótunarsviðs Sameinuðu þjóðanna erindi um niðurstöður nýlegrar ráðstefnu um þúsaldarmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Hann lagði í máli sínu sérstaka áherslu á þau skref sem nauðsynlegt er að taka til að markmiðunum verði náð. Nefndarmenn voru sammála um að jafnrétti kynjanna hefði margfeldisáhrif þegar kæmi að markmiðunum og væri það svið sem Alþjóðaþingmannasambandið gæti lagt hvað mest af mörkum. Þá kynnti formaður indónesísku landsdeildarinnar skýrslu Alþjóðaþingmannasambandsins um þúsaldarmarkmiðin sem gerð var í tilefni af þriðju ráðstefnu þingforseta Alþjóðaþingmannasambandsins sem haldin varð í Genf í júní. Þar er m.a. farið yfir vinnu sambandsins síðasta áratuginn sem stuðlað hefur að framgangi markmiðanna, aukið pólitískan stuðning og hvatt til aðgerða. Jafnframt var kynnt fyrir nefndinni rannsókn Alþjóðaþingmannasambandsins á því hvernig þing aðildarríkjanna vinna að stuðningi við þúsaldarmarkmiðin.
    Ráð Alþjóðaþingmannasambandsins kom tvisvar sinnum saman á þinginu og afgreiddi fjölda mála. Aðildarríki sambandsins eru nú 155. Samþykkt var fjárhagsáætlun fyrir 2011 þar sem ekki var gert ráð fyrir auknum útgjöldum frá 2010. Þá voru fyrstu drög að grundvallaráætlun Alþjóðaþingmannasambandsins lögð fram. Drögin endurspegla sambandið, verkefni þess og framtíðarsýn. Forseti Alþjóðaþingmannasambandsins lýsti því yfir að framkvæmdastjórn sambandsins muni halda þriggja daga aukafundi í febrúar 2011 til að vinna í áætluninni og muni senda nefndarmönnum hnitmiðað skjal fyrir vorþingið í Panama þar sem fram mun koma framtíðarsýn fyrir Alþjóðaþingmannasambandið og þróun næstu ára.
    Nefnd um mannréttindi þingmanna kynnti skýrslur um brot gegn mannréttindum þingmanna og samþykkti ráð Alþjóðaþingmannasambandsins fjölmargar ályktanir á grundvelli þeirra. Formaður nefndarinnar sagði nefndina hafa til skoðunar mál 306 löggjafa, þar af opinber mál 118 þingmanna í 35 löndum. Ríkin sem m.a. eiga í hlut eru Afganistan, Bangladess, Búrundí, Búrma, Kambódía, Kólumbía, Kongó, Ekvador, Egyptaland, Erítrea, Írak, Líbanon, Mongólía, Madagaskar, Malasía, Palestína/Ísrael, Filippseyjar, Rúanda, Rússland, Srí Lanka, Tyrkland og Simbabve.
    Þess má geta að 148 þingfulltrúar á 123. þingi Alþjóðaþingmannasambandsins voru konur (32%), sem er betri árangur en náðist á 122. þingi (29%). Þingin 2012 verða bæði haldin utan Genf, vorþingið verður haldið í Kampala í Úganda og haustþingið í Quebec í Kanada þar sem tíðrætt vandamál varðandi vegabréfsáritanir til Kanada fyrir landsdeildir Alþjóðaþingmannasambandsins hefur verið leyst. Vorþing 2011 verður haldið í Panamaborg 15.–20. apríl, haustþing 2011 verður haldið 16.–19. október í Bern.

5. Ályktanir Alþjóðaþingmannasambandsins árið 2010.
    Ályktanir 122. þings Alþjóðaþingmannasambandsins vörðuðu eftirfarandi efni:
     1.      Að stuðla að samvinnu og sameiginlegri ábyrgð í baráttunni gegn skipulögðum glæpum, með áherslu á smygl á eiturlyfjum, ólöglegra vopnasölu, mansal og hryðjuverk sem ná yfir landamæri.
     2.      Hlutverk þjóðþinga við framþróun svokallaðs „suður suður“ samstarfs ríkja með það að leiðarljósi að flýta fyrir því að þúsaldarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna verði náð.
     3.      Þátttöku æskunnar í uppbyggingu lýðræðis.
     4.      Hlutverk þjóðþinga við að styrkja samstöðu alþjóðasamfélagsins með íbúum Haítí og Chíle í kjölfar jarðskjálftanna sem riðu yfir löndin, með áherslu á forvarnir, bætt áhættumat, björgun og stjórnun í kjölfar náttúruhamfara.

    Ályktun 123. þings Alþjóðaþingmannasambandsins varðaði eftirfarandi efni:
    Aðkallandi aðgerðir sem styðja við neyðarviðbrögð alþjóðasamfélagsins við náttúruhamförum, með áherslu á flóðin í Pakistan.

Alþingi, 2. mars 2011.



Þuríður Backman,


form.


Einar K. Guðfinnsson,


varaform.


Sigmundur Ernir Rúnarsson.