Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 580. máls.

Þskj. 980  —  580. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um almenningsbókasöfn,
nr. 36/1997 (gjaldtökuheimildir).

(Lagt fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010–2011.)




1. gr.

    14. gr. laganna orðast svo:
    Almenningsbókasöfnum er heimilt að innheimta gjald fyrir þjónustu sína, svo sem fyrir útlán, millisafnalán, afritun, fjölföldun, ljósmyndun, sérfræðilega heimildaþjónustu, heimildaleit í gagnagrunnum og útlán á sérstökum safnkosti.
    Almenningsbókasöfnum er heimilt að innheimta dagsektir fyrir afnot fram yfir skilafrest, svo og bætur fyrir safnefni sem glatast eða skemmist í meðförum notenda.
    Hvert almenningsbókasafn setur gjaldskrá skv. 1. mgr. og reglur skv. 2. mgr. að fengnu samþykki bókasafnsstjórnar. Gjaldskrá þessa og reglur skal birta notendum á aðgengilegan hátt.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í gildandi lögum um almenningsbókasöfn, nr. 36/1997, er ekki að finna nein ákvæði um gjaldtökuheimildir til handa þeim söfnum. Þrátt fyrir það er löng hefð hér á landi fyrir gjaldtöku almenningsbókasafna, m.a. fyrir útlánaskírteini og vanskil á bókum og ýmsa aðra þjónustu, og lengst af hefur verið almenn sátt í samfélaginu um slíka gjaldtöku og hún ekki valdið vandkvæðum í samskiptum bókasafnanna og almennings.
    Undanfarin ár hefur orðið allmikil breyting á viðhorfum til hefða og venja í framkvæmd stjórnsýslu af öllu tagi, og hefur réttarþróunin m.a. verið á þann veg að gera ríkari kröfur en áður um lagalegan grundvöll gjaldtöku á öllum sviðum.
    Í nýlegu áliti hefur umboðsmaður Alþingis komist að þeirri niðurstöðu að reglur Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns um innheimtu sekta vegna vanskila á bókum hafi ekki haft næga lagastoð (umboðsmaður Alþingis, mál nr. 6010/2010, 17. desember 2010).
    Má draga þá ályktun af niðurstöðu umboðsmanns í þessu máli vegna Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns að hliðstæð gjaldtaka af notendum almenningsbókasafna hvíli á veikum grunni þrátt fyrir að hafa viðgengist í áratugi. Þessi staða skapar mikla óvissu um stöðu almenningsbókasafna sem ástæða er til að eyða sem fyrst.
    Því er þessi tillaga lögð fram um gjaldtökuheimild til handa almenningsbókasöfnum vegna þeirrar þjónustu sem þau veita.
    Öllum sveitarfélögum er skylt samkvæmt lögum um almenningsbókasöfn að standa að slíkri þjónustu í samræmi við ákvæði þeirra, og sveitarfélög hafa litið á það sem mikilvægt verkefni að gera það með sem bestum hætti. Það mun hins vegar fyrirsjáanlega hafa miklar og neikvæðar afleiðingar fyrir rekstur almenningsbókasafna ef það ástand sem nú ríkir dregst á langinn þar sem þau munu jafnvel neyðast til að hætta innheimtu gjalda sem hefur tíðkast um árabil. Það mundi þýða tekjusamdrátt almenningsbókasafna um allt land sem næmi samanlagt milljónatugum á ársgrundvelli og gæti bitnað harkalega á þjónustu og endurnýjun safnkosts, auk þess sem engin úrræði væru til að tryggja endurheimtur safnkosts sem lánaður er út.
    Slíkt ástand mundi leiða til verulegs samdráttar í ráðstöfunarfé almenningsbókasafna og skyggja verulega á þá jákvæðu þróun sem hefur orðið á síðustu þremur árum þar sem eftirspurn eftir þjónustu bókasafna og nýting safnkosts þeirra hefur aukist ár frá ári. Þrátt fyrir erfiðar aðstæður hafa almenningsbókasöfn, og starfsfólk þeirra, verið í stakk búin til að svara jákvæðum væntingum notenda. Er þar um verulegan árangur að ræða og alls ekki sjálfsagðan að teknu tilliti til aðstæðna í fjármálum sveitarfélaga.
    Það hefur verið markmið sveitarfélaga að gjaldtaka vegna þjónustu almenningsbókasafna sé hófleg og að notendur upplifi hana ekki sem íþyngjandi. Þess er ekki vænst að hækkun eiginlegra þjónustugjalda fylgi í kjölfar lagabreytingar á þessu sviði, enda eru bókasöfnin mikilvæg almannaþjónusta sem sveitarfélögin hafa lagt metnað í að byggja upp. Fjárhæðir bóta og sekta hafa til þessa fyrst og fremst verið ákveðnar út frá skaðleysis- og varnaðarsjónarmiðum sem lagabreytingin sem hér er lögð til hefur ekki áhrif á.
    Þá er rétt að taka fram að þessi tillaga um breytingu á lögum um almenningsbókasöfn hefur verið undirbúin í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga sem styður breytinguna.
    Í 1. mgr. 1. gr. felst heimild til handa almenningsbókasöfnum til að innheimta gjöld fyrir ýmsa þjónustu. Gjald fyrir útlánaþjónustu hefur fyrst og fremst falist í árgjaldi vegna útgáfu skírteina og gjöldum fyrir millisafnalán sem hægt er að leggja á í gegnum sameiginlegt skráningarkerfi bókasafnanna; einnig getur verið um að ræða gjöld fyrir útlán á sérstökum safnkosti af ýmsu tagi. Jafnframt er hér veitt heimild til gjaldtöku fyrir ýmsa sértæka þjónustu, svo sem afritun, fjölföldun, sérfræðilega heimildaþjónustu o.fl.
    Í 2. mgr. 1. gr. er mælt fyrir um heimildir almenningsbókasafna til að tryggja skil á safnefni, annars vegar með innheimtu dagsekta fyrir afnot fram yfir skilafrest og hins vegar greiðslu bóta vegna efnis sem notendur hafa fengið að láni en glatast eða skemmist í meðförum þeirra.
    Í 3. mgr. 1. gr. segir að hvert almenningsbókasafn skuli setja gjaldskrá fyrir alla þá þjónustu sem gjald verður innheimt fyrir, og skal stjórn safnsins samþykkja hana. Er það ákvæði sett til að tryggja að gjaldskrá sé sett með vitund og vilja þeirra sveitarfélaga sem reka viðkomandi almenningsbókasöfn. Gjaldskráin skal síðan birt með aðgengilegum hætti, t.d. innan safnsins og á vefsvæði þess. Í 3. mgr. er jafnframt mælt fyrir um útgáfu reglna um innheimtu dagsekta skv. 2. mgr. og greiðslu bóta vegna safnefnis sem skemmist eða glatast í meðförum notenda. Fram til þessa hefur verið við það miðað að bótafjárhæðir fari ekki yfir enduröflunarverð safnefnis og er gert ráð fyrir að svo verði áfram hjá almenningsbókasöfnum.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um almenningsbókasöfn, nr. 36/1997 (gjaldtökuheimildir).

    Frumvarpi þessu er ætlað að eyða lagalegri óvissu um gjaldtöku almenningsbókasafna. Með úrskurði umboðsmanns Alþingis um að reglur Landsbókasafns um innheimtu sekta vegna vanskila á bókum hafi ekki nægilega trausta lagastoð hefur skapast óvissa um fjárhagslega afkomu almenningsbókasafna.
    Þrátt fyrir langa hefð fyrir gjaldtöku er í gildandi lögum ekki að finna nein ákvæði um gjaldtökuheimild. Í frumvarpinu er því lagt til að leidd verði í lög ákvæði um að almenningsbókasöfnum verði heimilt að innheimta gjald fyrir þjónustu sína, álag vegna afnota fram yfir skilafrest og bætur vegna efnis sem skemmist eða glatast í meðferð notenda.
    Ríkissjóður og stofnanir ríkisins reka nokkur almenningsbókasöfn. Þar á meðal er Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn en í lögum um það er skýr heimild til gjaldtöku. Hjá öðrum almenningsbókasöfnum stofnana ríkisins er gjaldtaka vegna brota á notkunarreglum minni háttar.
    Verði frumvarpið lögfest er ekki ástæða til að ætla að það hafi áhrif á fjárhag ríkissjóðs.