Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 547. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 998  —  547. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. nr. 44/1998, um húsnæðismál, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta félags- og tryggingamálanefndar.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hönnu S. Gunnsteinsdóttur og Björn Þór Hermannsson frá velferðarráðuneyti, Sigurð Erlingsson, Gunnhildi Gunnarsdóttur og Sigurð Jón Björnsson frá Íbúðalánasjóði, Guðmund Jónsson og Lindu K. Björgvinsdóttur frá Fjármálaeftirlitinu og Jónas Þórðarson frá Seðlabanka Íslands. Umsagnir bárust frá Búseta á Norðurlandi, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Alþýðusambandi Íslands, Búseta sf. og Búmönnum, Fjármálaeftirlitinu, Samtökum fjármálafyrirtækja, Seðlabanka Íslands, Hagsmunasamtökum heimilanna og Samtökum atvinnulífsins.
    Með frumvarpinu er lagt til að við lög um húsnæðismál bætist við ákvæði til bráðabirgða sem heimili Íbúðalánasjóði að ákveðnum skilyrðum uppfylltum að færa niður fasteignaveðlán einstaklinga til samræmis við 110% af verðmæti íbúðarhúsnæðis. Frumvarpið er til samræmis við samkomulag ríkisstjórnarinnar við lánastofnanir og lífeyrissjóði sem gert var í desember 2010. Séu veðkröfur Íbúðalánasjóðs aftast í veðröð íbúðalána sem hvíla á fasteign lántaka skal sækja um niðurfærslu til Íbúðalánasjóðs, enda skal lántaki samkvæmt samkomulaginu snúa sér til lánveitanda þess íbúðaláns sem er á aftasta veðrétti.
    Nefndin hefur fjallað um málið. Þau atriði sem fengu mesta umfjöllun í meðförum nefndarinnar voru tekjuviðmið lántaka sem óska eftir úrræðinu og fríeignarmark þeirra, skattaleg meðferð niðurfærslu, úrræði fyrir húsnæðissamvinnufélög og aðra lögaðila, afskriftaþörf Íbúðalánasjóðs og eftirlit með sjóðnum.

Tekjuviðmið og fríeignarmark einstaklinga.
    Í 3. gr. samkomulags lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila er kveðið á um hvernig reikna skuli tekjur lántaka við beitingu úrræðisins. Þar er sett fram sú regla að hafi lántaki ekki haft neinar launatekjur á árinu 2010, t.d. vegna náms, skal miða við að lágmarkstekjur heimilis séu ekki lægri en sem svarar grunnatvinnuleysisbótum sem eru nú 149.523 kr. á mánuði að viðbættum 8.395 kr. á mánuði fyrir hvert barn á heimilinu yngra en 18 ára. Til að tryggja að ákvæðið sé til samræmis reglunum leggur meiri hlutinn til breytingu á frumvarpinu sem miðar að því að lögfesta þetta viðmið fyrir þá sem ekki hafa haft launatekjur á árinu 2010.
    Í 2. gr. samkomulagsins kemur m.a. fram að ef veðrými er á aðfararhæfum eignum lækkar niðurfærsla veðskulda sem því nemur. Sambærilega reglu er að finna í 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins. Þar sem laun eru ekki aðfararhæf eign hefur þó verið gerð sú undantekning að líta fram hjá innstæðu á launareikningi sem svarar til tveggja útborgaðra mánaðarlauna. Þeim sjónarmiðum var komið á framfæri við nefndina að mikilvægt væri að auki að veita fríeignarmark þegar metið væri hvaða eignir teljast aðfararhæfar eignir og koma til lækkunar niðurfærslu veðskuldar. Var nefndinni m.a. kynnt að aðrir aðilar samkomulagsins teldu rétt að líta fram hjá eignum fyrir neðan einhverja lágmarksfjárhæð eða lágmarksveðrými á bilinu 500 þús. kr. til 3 millj. kr.
    Meiri hlutinn áréttar að frumvarpinu er ætlað að lögfesta Íbúðalánasjóði heimild til niðurfærslu lána í samræmi við samkomulagið. Framangreint fríeignarmark er ekki hluti af því samkomulagi auk þess sem afskriftaþörf sjóðsins hefur verið metin út frá samkomulaginu og fyrirliggjandi frumvarpi. Ljóst er að Íbúðalánasjóður hefur ekki afskriftarými eins og sumir aðrir aðilar samkomulagsins. Meiri hlutinn telur að ekki sé unnt að réttlæta það að setja með þessum hætti fríeignarmark vegna annarra eigna lántaka umfram það sem getur í samkomulaginu og veldur beinum fjárútlátum úr ríkissjóði.

Skattaleg meðferð.
    Bent var á að þess er ekki getið sérstaklega í frumvarpinu að niðurfærsla lána samkvæmt frumvarpinu myndar ekki stofn til tekjuskatts. Meiri hlutinn áréttar að með lögum nr. 104/ 2010 var bætt við tekjuskattslög, nr. 90/2003, tveimur ákvæðum til bráðabirgða er varða skattalega meðferð á eftirgjöf skulda. Í ákvæði til bráðabirgða XXXVII við tekjuskattslögin er því kveðið á um að eftirgjöf veðskulda vegna greiðsluerfiðleika sem ákveðin er á árunum 2009–2011 teljist ekki til skattskyldra tekna að hámarki samtals 15 millj. kr. hjá einstaklingi og 30 millj. kr. hjá hjónum og samsköttuðum. Hafi einstaklingur eða hjón þegar fengið niðurfærslu skulda vegna annarra greiðsluvandaúrræða fellur sú niðurfærsla ekki undir framangreindar viðmiðunarfjárhæðir enda segir í nefndaráliti efnahags- og skattanefndar um breytinguna:
    „Nefndin bendir á að frumvarpið sé viðbótarúrræði og rýri í engu þann rétt sem aðilar utan atvinnurekstrar hafa samkvæmt gildandi reglum vegna skattalegrar meðferðar á eftirgjöf skulda.“ (Þskj. 1429, 659. mál, 138. þing.)

Úrræði fyrir húsnæðissamvinnufélög og aðra lögaðila.
    Nefndin ræddi vanda lögaðila en margir af þeim lögaðilum sem eru í viðskiptum við Íbúðalánasjóð eru í greiðsluvanda og þurfa úrlausn á honum. Fyrirliggjandi frumvarp tekur einungis til niðurfærslu yfirveðsettra íbúðalána einstaklinga en Íbúðalánasjóður hefur þó heimildir til frystingar lána lögaðila auk þess sem honum er heimilt að afskrifa af lánum þeirra eftir að hafa borið afskriftina undir velferðarráðherra og Ríkisendurskoðun. Meiri hlutinn telur mikilvægt að slíkar afskriftir séu þó ekki gerðar með almennum hætti heldur sé unnið heildstætt úr greiðsluvanda og litið m.a. til skuldaþols, rekstrarvirðis, nýtingar, reksturs, leigusamninga og hagræðingarmöguleika. Nefndinni hefur verið kynnt að vinna sé hafin við að skoða leiðir til að vinna úr greiðsluvanda fyrirtækja og fyrirhugað er m.a. að skoða vel stöðu þeirra með tilliti til framangreindra þátta. Meiri hlutinn telur því ekki tímabært að skoða lagabreytingar að sinni hvað þennan þátt varðar.
    Kynnt voru sjónarmið þess efnis að til að gæta jafnræðis væri rétt að færa niður lán húsnæðissamvinnufélaga á sama hátt og lán annarra. Bent var á að félagsmenn í húsnæðissamvinnufélögum ættu í sömu erfiðleikum og einstaklingar á almennum markaði. Meiri hlutinn áréttar að frumvarpið tekur einungis til íbúðalána einstaklinga. Húsnæðissamvinnufélög eru lögaðilar með rekstur og til að jafnræðis sé gætt er rétt að um þá gildi sömu reglur og um aðra lögaðila. Félögin eru eigendur íbúðanna og lántakendur í þessum tilvikum en ekki þeir einstaklingar sem keypt hafa búseturétt. Meiri hlutinn leggur áherslu á að við úrvinnslu greiðsluvanda lögaðila verði horft heildstætt á málin og fram fari mat hverju sinni. Með vísan til títtnefndrar jafnræðisreglu verður heldur ekki séð að hægt sé að taka húsnæðissamvinnufélög og beita á þau almennum aðgerðum án þess að gera slíkt hið sama fyrir aðra aðila, svo sem leigufélög, verkamannaíbúðir, byggingaraðila og félagslegar íbúðir.

Eftirlit með Íbúðalánasjóði.
    Nefndin ræddi sérstaklega eftirlit með Íbúðalánasjóði. Fjármálaeftirlitið hefur ekki eftirlit með sjóðnum á grundvelli laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, heldur er kveðið á um það í 27. gr. laga um húsnæðismál. Greinin hljóðar svo:
    „Fjármálaeftirlitið skal hafa eftirlit með því að starfsemi Íbúðalánasjóðs sé í samræmi við ákvæði laga þessara og reglugerða settra samkvæmt þeim. Um eftirlitið fer samkvæmt ákvæðum laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi eftir því sem við á.“
    Fjármálaeftirlitið benti nefndinni á að mun víðtækara eftirlit fengist með sjóðnum væri hann skilgreindur sem lánafyrirtæki á grundvelli laga um fjármálafyrirtæki enda sé grundvöllur þeirra laga að tryggja að fjármálafyrirtæki séu rekin á heilbrigðan og eðlilegan hátt með hagsmuni viðskiptavina, hluthafa, stofnfjáreigenda og alls þjóðarbúsins að leiðarljósi. Seðlabanki Íslands kynnti nefndinni sambærileg sjónarmið og ítrekaði þá afstöðu sína að starfsemi Íbúðalánasjóðs ætti að falla undir lög um fjármálafyrirtæki m.a. í ljósi þeirra miklu umsvifa sem Íbúðalánasjóður hefur og margvíslegrar áhættu sem tengist þeim.
    Meiri hlutinn telur mikilvægt að nánara eftirlit verði haft með sjóðnum og beinir þeim tilmælum til velferðarráðuneytis að leita leiða til að tryggja slíkt eftirlit með því m.a. að skoða það að fella sjóðinn undir lög um fjármálafyrirtæki. Slíkt mundi auka aðhald með starfsemi sjóðsins.

Afskriftaþörf sjóðsins.
    Í fjáraukalögum fyrir árið 2010 var veitt heimild til að efla eiginfjárstöðu sjóðsins um allt að 33 milljarða kr. Framlagið var byggt á mati á fjárþörf sem fundin var út með notkun reiknilíkans sem byggðist á stöðu lánasafnsins 1. janúar 2010 og átti heimildin að ná til afskriftaþarfar sjóðsins árin 2010–2013. Íbúðalánasjóður kynnti nefndinni nýja útreikninga miðað við stöðu lánasafnsins um áramót. Ljóst er af fyrirliggjandi gögnum að lánasafn sjóðsins hefur versnað nokkuð og vanskil bæði einstaklinga og lögaðila aukist á síðasta ári. Samkvæmt nýrri fjárhagsáætlun sjóðsins og kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytis gæti afskriftaþörf sjóðsins árin 2011–2013 orðið rúmlega 48 milljarðar kr. Vegur þar þyngst að í fyrri áætlun var gert ráð fyrir 12 milljarða kr. afskriftum vegna niðurfærslu lána samkvæmt 110% leiðinni en ný áætlun hljóðar upp á 21,8 milljarða kr. afskriftir. Þar af er áætluð nettóaukning afskrifta 14,8 milljarðar kr. enda er gert ráð fyrir að hefði úrræðið ekki komið til hefði sjóðurinn þurft að afskrifa um 7 milljarða kr. hjá einstaklingum á næstu þremur árum. Endanlegar tölur um afskriftaþörf vegna frumvarpsins munu þó ekki liggja fyrir fyrr en seint á þessu ári. Þá er ekki ljóst á þessu stigi málsins hversu mikið ríkissjóður mun þurfa að leggja sjóðnum til vegna annarra afskrifta. Meiri hlutinn telur mikilvægt að nefndin fylgi málinu eftir og kalli sjóðinn og velferðarráðuneytið á sinn fund í haust þegar línur fara að skýrast varðandi fjárhagsstöðu sjóðsins.
    Auk þeirrar breytingar sem gerð hefur verið grein fyrir leggur meiri hlutinn til nokkrar breytingar á texta til leiðréttingar auk þess sem lögð er til breyting sem miðar að því að gæta samræmis við önnur ákvæði laganna en rétt þykir að tiltaka sérstaklega að heimildin eigi við um veðkröfur vegna lána sem veitt voru með ábyrgð varasjóðs viðbótarlána.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Við 1. gr.
     a.      Við 3. málsl. 1. efnismgr. bætist: sem og veðkröfur vegna lána sem veitt voru með ábyrgð varasjóðs viðbótarlána.
     b.      Við 4. efnismgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Hafi lántaki ekki haft neinar launatekjur á árinu 2010, t.d. vegna náms, skal miða við að lágmarkstekjur heimilis séu ekki lægri en sem svarar grunnatvinnuleysisbótum sem eru nú 149.523 kr. á mánuði að viðbættum 8.395 kr. á mánuði fyrir hvert barn á heimilinu yngra en 18 ára.
     c.      Í stað orðanna „samkvæmt ákvæði þessu“ í 1. málsl. 5. efnismgr. komi: skv. 4. mgr.
     d.      Í stað orðsins „kröfunnar“ í 1. málsl. 5. efnismgr. komi: íbúðalána.

    Ásmundur Einar Daðason, Lilja Rafney Magnúsdóttir og Unnur Brá Konráðsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 14. mars 2011.Ólafur Þór Gunnarsson,


varaform., frsm.


Magnús Orri Schram.


Jónína Rós Guðmundsdóttir.Guðmundur Steingrímsson.


Þórunn Sveinbjarnardóttir.