Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 606. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1026  —  606. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar ÖSE-þingsins fyrir árið 2010.

1. Inngangur.
    Á vettvangi ÖSE-þingsins á árinu 2010 bar hæst fyrsta leiðtogafund stofnunarinnar síðan 1999, umdeildar kosningar í Aserbaídsjan og Hvíta-Rússlandi, umræður um umbætur á starfsemi ÖSE og áframhaldandi viðræður um evrópsk öryggismál á vettvangi Korfú-ferlisins, en því var m.a. hleypt af stokkunum vegna harðrar gagnrýni Rússa á fyrirkomulag öryggismála í Evrópu sem þeir hafa talið „frosið“ í anda kalda stríðsins.
    Í tilefni af 35 ára afmæli Helsinki-yfirlýsingarinnar var ákveðið að halda fyrsta leiðtogafund ÖSE síðan 1999 og fór hann fram í Astana í Kasakstan dagana 1.–2. desember. Fyrir fundinn fóru fram umfangsmiklar umræður um evrópsk öryggismál og framtíð ÖSE, m.a. á vettvangi Korfú-ferlisins. ÖSE-þingið setti fram ítarlegar tillögur til umbóta á starfsemi ÖSE sem miðuðu m.a. að því að styrkja hlutverk þingsins og einfalda ákvarðanatökuferli innan stofnunarinnar, en nauðsyn þess að taka ákvarðanir samhljóða þykir hafa komið mjög niður á skilvirkni hennar.
    Ekki tókst þó að ná samkomulagi um aðgerðaáætlun fyrir leiðtogafundinn til að ná fram umbótum á starfsemi ÖSE og vinna að lausn á þeim átökum sem hvað lengst hafa varað í álfunni, svo sem í Georgíu, Moldóvu og Nagorno-Karabakh. Þykir þetta bera vott um að lausn á þeim grundvallarágreiningi sem ríkt hefur milli Rússlands og aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins um framtíðarskipan öryggismála í álfunni sé langt frá því að vera í sjónmáli.
    Á ársfundi ÖSE-þingsins í Osló 6.–10. júlí lagði Róbert Marshall, formaður Íslandsdeildar, fram tillögu að ályktun f.h. landsdeildarinnar í tilefni 10 ára afmælis ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325, um konur, frið og öryggi, og var tillagan samþykkt með fjórum breytingum. Á ársfundinum var Petros Efthymiou frá Grikklandi kjörinn forseti ÖSE- þingsins til næstu tveggja ára og Spencer Oliver endurkjörinn framkvæmdastjóri.
    Pétur H. Blöndal gerði ársfundinum grein fyrir starfi sínu sem sérlegur fulltrúi forseta ÖSE-þingsins í fjárreiðum ÖSE og fyrirhuguðum vettvangsferðum. Þá sótti hann fund gagnsæis- og ábyrgðarnefndar þingsins í Vín í september og átti fjarfundi með starfsfólki skrifstofu ÖSE í Albaníu til að fylgja eftir heimsókn sinni til landsins árið 2007.
    Þá fagnaði ÖSE-þingið 10 ára afmæli Palermó-samningsins gegn fjölþjóðlegri skipulagðri glæpastarfsemi með því að halda haustfund sinn í Palermó á Sikiley og var baráttan gegn fjölþjóðlegri skipulagðri glæpastarfsemi aðalumræðuefni fundarins.
    Á árinu tók þingið þátt í kosningaeftirliti í Aserbaídsjan, Bandaríkjunum, Bosníu og Hersegóvínu, Bretlandi, Hvíta-Rússlandi, Kirgistan, Moldóvu, Tadsjikistan og Úkraínu. Flestar kosninganna voru taldar uppfylla alþjóðlega staðla, nema kosningarnar í Aserbaídsjan og Hvíta-Rússlandi.
    Í Aserbaídsjan, þar sem flokkur sitjandi forseta vann stórsigur, átöldu eftirlitsmenn yfirvöld fyrir takmarkanir á prentfrelsi og fundafrelsi og ójafna möguleika frambjóðenda til að koma sér á framfæri, sem og alvarlega ágalla á kosningaframkvæmd og talningu atkvæða.
    Framkvæmd kosninganna í Hvíta-Rússlandi þótti einnig ábótavant, en í kjölfar tilkynningar um að sitjandi forseti, Alexander Lúkasjenkó hefði náð endurkjöri, brutust út mótmæli sem lauk með handtöku hundruða mótmælenda, þ.m.t. blaðamanna og mótframbjóðenda Lúkasjenkós. Í kjölfar gagnrýni ÖSE á framkvæmd kosninganna tilkynnti forsetinn að hann mundi láta loka skrifstofu ÖSE í höfuðborg landsins, Minsk.

2. Almennt um ÖSE-þingið.
    Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, ÖSE (áður ráðstefnan um öryggi og samvinnu í Evrópu, RÖSE, eða til ársins 1995) starfar á grundvelli Helsinkisáttmálans (e. Helsinki Final Act) frá árinu 1975. Markmið ÖSE er að stuðla að friði, öryggi, lýðræði og samvinnu á starfssvæði sínu og standa vörð um virðingu fyrir mannréttindum og meginreglum réttarríkisins. ÖSE sinnir hlutverki sínu m.a. með baráttu gegn hryðjuverkum, mansali, þjóðernisofstæki, eiturlyfjasmygli og ólöglegri vopnasölu.
    Á leiðtogafundi ÖSE vorið 1990 var Parísarsáttmálinn samþykktur (e. Charter of Paris for a New Europe). Sáttmálinn kveður m.a. á um stofnun formlegs vettvangs fyrir þingmenn sem komi saman einu sinni á ári. ÖSE-þingið og ÖSE eru þannig greinar af sama meiði. Ólíkt öðrum fjölþjóðlegum stofnunum liggur hins vegar enginn hefðbundinn stofnsáttmáli þeim til grundvallar.
    Fyrsti fundur ÖSE-þingsins var haldinn í júlí 1992. Aðild að ÖSE-þinginu eiga 56 þjóðþing í Evrópu, Norður-Ameríku og Mið-Asíu. Þingið er skipað 320 fulltrúum. Þar af á Alþingi þrjá.
    Hlutverk ÖSE-þingsins er að hafa áhrif á stefnumótun og áherslur í starfi ÖSE og að hafa eftirlit með og meta árangurinn af starfi stofnunarinnar. Í málefnanefndum þingsins er unnið að undirbúningi ályktana. Þær eru síðan afgreiddar á ársfundi og komið á framfæri við ráðherraráð ÖSE, sem er vettvangur utanríkisráðherra aðildarríkjanna, og fastaráð ÖSE en þar eiga sæti sendiherrar eða fastafulltrúar aðildarlandanna gagnvart ÖSE. Fastaráðið fundar vikulega í Vín. Í samspili við ÖSE virkar þingið sem hugmyndabanki fyrir áherslur í starfi ÖSE auk þess sem þingið veitir ÖSE bæði stuðning og aðhald með eftirliti sínu og umræðu um starf stofnunarinnar. Hvað viðvíkur formlegum samskiptum ÖSE-þingsins og ÖSE þá ávarpar formaður ráðherranefndar ÖSE-þingið og gefur skýrslu um verkefni sem unnið er að hjá ÖSE. Þá geta þingfulltrúar beint fyrirspurnum til ráðherrans.
    Þá tekur ÖSE-þingið þátt í því að þróa leiðir til að koma í veg fyrir ágreining milli ríkja og stuðla að eflingu lýðræðislegra stofnana á því svæði sem starfsemi ÖSE tekur til. Að lokum hefur kosningaeftirlit verið eitt helsta verkefni þingsins frá upphafi. Sú starfsemi hefur vaxið jafnt og þétt undanfarin ár. ÖSE-þingið á samvinnu við lýðræðis- og mannréttindastofnun ÖSE (ODHIR) um kosningaeftirlit. Nokkur ágreiningur hefur ríkt um verkaskiptingu milli stofnana þrátt fyrir samstarfssamning á milli þeirra frá árinu 1997. Einnig á ÖSE-þingið samvinnu um kosningaeftirlit við aðrar fjölþjóðlegar þingmannasamkundur, eins og Evrópuráðsþingið og Evrópuþingið.
    ÖSE-þingið kemur saman til ársfundar í allt að fimm daga í júlí. Einstök aðildarríki skiptast á að halda ársfund. Ársfundur afgreiðir mál úr öllum þremur málefnanefndunum ÖSE- þingsins í formi ályktunar ársfundar. Auk þess geta einstakir þingmenn eða landsdeildir lagt fram ályktunartillögur sem verða hluti af ályktun ársfundar að gefnu samþykki í atkvæðagreiðslu.
    Málefnanefndirnar eru nefnd um stjórnmál og öryggismál (1. nefnd), nefnd um efnahags-, vísinda-, tækni- og umhverfismál (2. nefnd) og nefnd um lýðræðis- og mannréttindamál (3. nefnd). Formaður, varaformaður og skýrsluhöfundur hverrar málefnanefndar eru kjörnir af viðkomandi nefnd í lok hvers ársfundar. Skýrsluhöfundur nefndar velur málefnið sem tekið verður fyrir í nefndinni það árið í samráði við formann og varaformann viðkomandi nefndar. Síðan undirbýr skýrsluhöfundur skýrslu og drög að ályktun sem lögð er fyrir nefndina til umræðu og að lokum til umræðu og afgreiðslu á ársfundi. Málefnanefndir þingsins koma einnig saman á vetrarfundinum sem haldinn er í Vín í febrúar ár hvert. Þar fá þingmenn einnig tækifæri til að hlýða á framlag fastafulltrúa og embættismanna ÖSE sem hafa aðsetur í Vín eins og fyrr segir. Auk ársfundar og vetrarfundar er haldinn haustfundur þar sem stjórnarnefnd og framkvæmdastjórn þingsins koma saman auk þess sem árleg málefnaráðstefna þingsins fer fram á sama tíma.
    Fyrir utan fastanefndir þingsins, stjórnarnefnd og framkvæmdastjórn getur forseti þingsins skipað tímabundið sérstaka fulltrúa og þingið sérnefndir til að taka aðkallandi mál til skoðunar og vera ráðgefandi um þau. Sem dæmi var starfandi sérstakur fulltrúi vegna fangabúða Bandaríkjahers fyrir meinta hryðjuverkamenn í Guantanamo á Kúbu og sérnefnd vegna stjórnmálaástandsins í Hvíta-Rússlandi.

3. Íslandsdeild ÖSE-þingsins.
    Í upphafi árs 2010 voru aðalmenn Íslandsdeildar Róbert Marshall formaður, þingflokki Samfylkingar, Björn Valur Gíslason varaformaður, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, og Pétur H. Blöndal, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Varamenn voru Magnús Orri Schram, þingflokki Samfylkingar, Þór Saari, þingflokki Hreyfingarinnar, og Tryggvi Þór Herbertsson, þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Í nóvember tók Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingflokki Samfylkingar, sæti varamanns í stað Magnúsar Orra Schram.
    Þrjár málefnanefndir starfa á vegum ÖSE-þingsins og var skipan þeirra af hálfu Íslandsdeildar árið 2010 eftirfarandi:
     1.      Nefnd um stjórnmál og öryggismál: Róbert Marshall.
     2.      Nefnd um efnahags-, vísinda-, tækni- og umhverfismál: Pétur H. Blöndal.
     3.      Nefnd um lýðræðis- og mannréttindamál: Björn Valur Gíslason.

4. Starfsemi Íslandsdeildar 2010.
    Íslandsdeild hélt einn fund á árinu þar sem þátttaka í fundum ÖSE-þingsins var undirbúin. Á ársfundi þingsins í Osló lagði Róbert Marshall, formaður Íslandsdeildar, fram tillögu að ályktun f.h. landsdeildarinnar í tilefni af því að tíu ár voru liðin frá samþykkt ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325, um konur, frið og öryggi. Í framsöguræðu sinni með ályktuninni vék Róbert að mikilvægi ályktunar öryggisráðsins hvað varðar það að tryggja að litið sé til mismunandi aðstæðna karla og kvenna í átökum og að konur komi að uppbyggingu samfélaga eftir að stríðsátökum lýkur. Greindi hann frá stuðningi íslenskra stjórnvalda við ályktun nr. 1325 og starf UNIFEM á Balkanskaga og víðar og fagnaði stofnun UN Women, sem kemur í stað þeirra fjögurra stofnana sem áður störfuðu að málefnum kvenna og jafnrétti innan Sameinuðu þjóðanna. Samþykktar voru fjórar breytingartillögur við tillögu Íslandsdeildar og hún samþykkt að svo búnu.
    Pétur H. Blöndal gaf ársfundi þingsins skýrslu um störf sín sem sérlegur fulltrúi forseta ÖSE-þingsins í fjárreiðum ÖSE og fyrirhuguðum áherslum sínum á komandi ári. Þá sótti hann fund gegnsæis- og ábyrgðarnefndar þingsins í Vínarborg í september og átti fjarfundi með starfsfólki skrifstofu ÖSE í Albaníu til að fylgja eftir heimsókn sinni til landsins árið 2007.

5. Fundir ÖSE-þingsins.
    ÖSE-þingið kemur saman til reglulegra fundahalda þrisvar sinnum á ári. Yfirleitt er ársfundur haldinn að sumri, haustfundur í október og vetrarfundur í febrúar.

Vetrarfundur ÖSE-þingsins í Vínarborg 19.–20. febrúar 2010.
    Af hálfu Íslandsdeildar ÖSE-þingsins sóttu fundinn Róbert Marshall formaður og Pétur H. Blöndal, auk Magneu Marinósdóttur ritara, en alls tók 221 þingmaður frá 52 ríkjum þátt í fundinum. Samkvæmt venju funduðu stjórnarnefnd og málefnanefndir þingsins með embættismönnum ÖSE auk þess sem fram fór sameiginlegur fundur málefnanefnda og fundur um stöðu mála í Afganistan.
    Fundur stjórnarnefndar var settur af João Soares, forseta þingsins. Forsetinn tók til sérstakrar umræðu mikilvægi þess að gera ákvörðunartöku innan fastaráðs ÖSE skilvirkari til þess að stofnunin gæti brugðist við atburðum líðandi stundar hratt og örugglega. Sömu áherslu gætti í máli Marc Perrin de Brichambaut, sendiherra og framkvæmdastjóra ÖSE, en samstöðureglan sem gildir um ákvörðunartökur ÖSE þykir koma niður á starfsemi stofnunarinnar í æ ríkari mæli þar sem hún veitir í raun einstökum aðildarríkjum neitunarvald. Skýrasta dæmið er ákvörðunin um að leggja niður starfsemi ÖSE í Georgíu þrátt fyrir andstöðu allra nema Rússlands sem ekki náðist samkomulag við.
    Kosningaeftirlit kom til umræðu á stjórnarnefndarfundinum og sameiginlegum fundi málefnanefndanna. Spencer Oliver, framkvæmdastjóri ÖSE-þingsins, sagði það vera óásættanlegt af ÖSE að stilla ÖSE-þinginu upp jafnfætis öðrum fjölþjóðaþingmannasamkundum. Þvert á móti væri forustuhlutverk ÖSE-þingsins við kosningaeftirlit ekki síst til þess fallið að standa vörð um sjálfstæði ÖSE. Tók hann sem dæmi kosningar í Kasakstan árið 1994. Þá var kosningaeftirlitið nánast alfarið í höndum ÖSE-þingsins. Eftir kosningarnar voru fulltrúar ÖSE-þingsins boðaðir á fund með sendiherrum sem lýstu áhyggjum sínum af hugsanlegum afleiðingum neikvæðrar umsagnar um kosningarnar fyrir samskipti erlendra stjórnarerindreka við stjórnvöld í Kasakstan. Fundurinn hefði verið til vitnis um mikilvægi ÖSE-þingsins við að standa vörð um sjálfstæði ÖSE gagnvart pólitískum þrýstingi. Þróunin eftir kosningar 1994 hefði hins vegar orðið sú að lýðræðis- og mannréttindastofnun ÖSE (ODIHR) hefði aukið þátttöku sína í kosningaeftirliti sem skapaði ágreining við þingið. Sá ágreiningur hefði verið leystur árið 1997 með undirritun samstarfssamnings milli þeirra. Þann samning hefði ODIHR virt að vettugi að mati framkvæmdastjórans sem tíndi til dæmi máli sínu til staðfestingar. Forseti ÖSE-þingsins tók undir orð framkvæmdastjórans og sagði m.a. að ODIHR hagaði sér eins og ríki í ríkinu og beitti sér gegn ÖSE-þinginu í anda hefðbundinnar valda- og hagsmunabaráttu á kostnað fagmennsku og samvinnu.
    Marc Perrin de Brichambaut, sendiherra og framkvæmdastjóri ÖSE, greindi frá því á sameiginlegum fundi málefnanefndanna að árið 2010 hefði markað tímamót í sögu ÖSE en 35 ár voru liðin frá Helsinki-sáttmálanum, 20 ár frá Kaupmannahafnaryfirlýsingunni og 10 frá Parísaryfirlýsingunni. Hugmyndir væru uppi um leiðtogafund í tilefni tímamótanna en síðasti leiðtogafundur ÖSE fór fram 1999 í Istanbúl. Til stæði að utanríkisráðherrar ÖSE kæmu saman til óformlegs fundar í júní 2010 til að ræða hugsanlegan leiðtogafund sem mundi vera allt í senn hátíðarfundur og stefnumarkandi fundur þar sem litið yrði um öxl og hugað að árangri og áskorunum fram undan, ekki síst Afganistan og hlutverki ÖSE þar í landi. Að lokum ræddi framkvæmdastjórinn Korfú-ferlið. ÖSE hefði í formennskutíð Finnlands árið 2008 verið fyrsta alþjóðastofnunin sem brást við beiðni Rússlands með stuðningi Frakklands um endurskoðun á skipan öryggismála í Evrópu. Korfú-ferlið, sem formlega var sett af stað 2009 í formennskutíð Grikklands, hefur að markmiði viðræður milli ÖSE og annarra fjölþjóðastofnana, þ.e. NATO, ESB, Evrópuráðsins, Sameiginlegu öryggismálastofnunarinnar (Collective Security Treaty Organisation sem Rússland, Hvíta-Rússland, ríki Mið-Asíu og Armenía eiga aðild að) og Samveldis sjálfstæðra ríkja um skipan öryggismála. Hvorki NATO né ESB hafa tekið málið formlega á dagskrá og það sama gildir um ÖSE þar sem málið hefur ekki verið til formlegrar umræðu innan fastaráðsins, heldur eingöngu óformlega innan ramma Korfú-ferlisins sem Kaskastan hélt í formennskutíð sinni áfram að vinna að.
    Sérstök umræða var um stöðu mála í Afganistan en í janúar 2010 var haldin alþjóðleg ráðstefna í London þar sem þátttakendur komu sér saman um markmið og leiðir til að stuðla að öryggi og friði í landinu til framtíðar. Framsögumenn á fundi ÖSE-þingsins voru Kassym- Jomart Tokayev, forseti efri deildar löggjafarþings Kasakstan og varaforseti ÖSE-þingsins, og Michel Voisin, sérlegur fulltrúi forseta ÖSE-þingsins um Afganistan. Sérstakur gestur fundarins var Robert Ayasse, aðgerðastjóri hjá NATO.
    Í máli Tokayev kom fram að ríki Mið-Asíu færu ekki varhluta af ástandinu í Afganistan sem væri litað af 30 ára stríðsátökum, harðstjórn trúarofstækismanna, stríðsherra og hryðjuverkamanna, framleiðslu á ópíum, sem margir hefðu lifibrauð sitt af og talið er að svari um 93% af ólöglega framboðinu á heimsmarkaði, og flóttamannastraumi. Tokayev fagnaði tillögum Lundúnaráðstefnunnar og yfirlýsingum bandarískra og breskra stjórnvalda um að reynt yrði að ná sáttum við hófsama talíbana og bjóða þeim að ganga til liðs við lögmæt stjórnvöld með því skilyrði að þeir legðu niður vopn og hættu öllum stuðningi við hryðjuverkasamtökin Al-Kaída, sem hann taldi líklegra til árangurs en hernaður. Að lokum greindi hann frá stuðningi ríkisstjórnar sinnar í Afganistan en ríkisstjórn Kasakstans hefur bæði veitt fjármuni til mannúðaraðstoðar og uppbyggingarstarfs auk þess sem nemendum frá Afganistan hefur verið boðin skólavist í Kasakstan þar sem allt uppihald er greitt með því skilyrði að viðkomandi snúi aftur og vinni að uppbyggingarstarfi í heimalandinu. Ríkisstjórn Kasakstans styður einnig við bakið á alþjóðlegum öryggissveitum NATO, m.a. með því að heimila birgðaflutninga í lofti og á láði, auk þess sem fulltrúi hers Kasakstans starfar hjá höfuðstöðvum alþjóðaöryggissveitanna í Kabúl og er það í fyrsta sinn sem hernaðarfulltrúi frá ríki Mið- Asíu tekur þátt í NATO-aðgerð. Kasakstan mun í formennskutíð sinni hjá ÖSE leggja höfuðáherslu á að ÖSE komi í meira mæli að uppbyggingarstarfi í Afganistan.
    Voisin sagði markmið ráðstefnunnar í London góðra gjalda verð en spurning væri hversu raunhæf þau væru í ljósi vandans sem við væri að eiga. Stjórnkerfið í Afganistan væri gegnsýrt spillingu og þeir sem færu raunverulega með völdin væru glæpamenn, ekki einn heldur fjölmargir. Átök milli þjóðernis- og þjóðfélagshópa færu vaxandi og meðal almennings gætti aukinnar vantrúar á getu alþjóðaöryggissveitanna og ríkisstjórnarinnar, sem álitin væri veik og spillt, til ná markmiðum um frið og öryggi. Sáttaumleitanir, afvopnun og uppbyggingarstarf væri erfitt í framkvæmd við slíkar aðstæður.
    Í umræðum kom fram almennur stuðningur við áframhaldandi veru alþjóðasamfélagsins í Afganistan. Hins vegar var sú skoðun áberandi að þrátt fyrir áframhaldandi stuðning við veru alþjóðaherliðs í Afganistan þá væru hernaðarlegar leiðir ekki til þess fallnar að leysa vandann sem við væri að etja. Í þessu samhengi ber að nefna að ríkisstjórn Hollands féll vegna ágreinings um veru hollenskra hermanna í Afganistan 21. febrúar 2010. Þingmannasendinefndir, ekki síst Kasakstan og Kirgistan voru á einu máli um mikilvægi friðsamlegra sáttaleiða og formaður þingmannasendinefndar Kirgistan bauð höfuðborg sína fram sem vettvang fyrir sáttaumleitanir milli stríðandi fylkinga sem væru forsenda þess viðsnúnings og umbreytinga sem þörf væri á. Robert Ayasse, aðgerðastjóri hjá NATO, lýsti því yfir í lok fundar að nú yrði vörn snúið í sókn og aukin áhersla lögð á baráttuna gegn spillingu, að ná til hófsamra talíbana og auka borgaralega starfsemi á vegum alþjóðaöryggissveita NATO með það að markmiði að koma stjórntaumum landsins í hendur heimamanna, ekki innan ákveðins tímaramma heldur þegar réttar aðstæður væru fyrir hendi.

Ársfundur ÖSE þingsins í Osló 6.–10. júlí 2010.
    ÖSE-þingið hélt 19. ársfund sinn dagana 6. 10. júlí í Osló. Fyrir hönd Íslandsdeildar ÖSE-þingsins sóttu fundinn Róbert Marshall, formaður, og Pétur H. Blöndal, ásamt Magneu Marinósdóttur, ritara.
    Tvö framboð höfðu verið tilkynnt fyrir ársfundinn til forseta og framkvæmdastjóra auk þess sem kosið var í embætti varaforseta og nefndarformanna. Í framboði til forseta ÖSE- þingsins voru Consiglio Di Nino frá Kanada og Petros Efthymiou frá Grikklandi. Sá síðarnefndi hlaut meiri hluta atkvæða í lok ársfundar og tók við sem forseti af João Soares frá Portúgal sem gegnt hafði embættinu undanfarin tvö ár. Framkvæmdastjórn þingsins hafði tilkynnt að Spencer Oliver gæfi kost á sér til áframhaldandi setu í embætti framkvæmdastjóra en hann hefur sinnt embættinu síðan þingið var stofnað árið 1992. Samkvæmt þingsköpum er það hlutverk stjórnarnefndar að staðfesta val framkvæmdastjórnar með einföldum meiri hluta. Í aðdraganda ársfundar tilkynnti formaður landsdeildar Lettlands, Janis Eglitis, um framboð Artis Pabriks, þingmanns í Lettlandi, til embættis framkvæmdastjóra. Framboðið olli nokkru uppnámi enda ekki í samræmi við reglur þingsins, þar sem ekki er gert ráð fyrir mótframboði ef framkvæmdastjóri þingsins ákveður að gefa kost á sér til endurkjörs. Samhliða framboðinu lagði landsdeildin fram breytingartillögur á þingsköpum með þeim rökum að núverandi fyrirkomulag þætti ólýðræðislegt. Viðbrögð framkvæmdastjórnar var að senda bréf til stuðnings framboði Spencer Oliver undirrituð af forseta þingsins, báðum forsetaframbjóðendunum og tveimur fyrrverandi forsetum. Spencer Oliver var síðan kosinn með meiri hluta atkvæða á stjórnarnefndarfundi en jafnframt var ákveðið að taka fyrirkomulag við val á framkvæmdastjóra þingsins til endurskoðunar og leggja fram breytingartillögur á vetrarfundi þingsins í Vín.
    Samþykkt var að árgjald ÖSE-þingsins yrði óbreytt frá fyrra ári eftir að gagnrýni hafði borist frá formanni bresku sendinefndarinnar, Tony Lloyd, á fyrirhugaðri hækkun á tímum niðurskurðar í öllum aðildarþingunum. Kosningaeftirlitsskýrslur voru teknar til umræðu og gerð grein fyrir fyrirhuguðum kosningaeftirlitsverkefnum sem þingið mundi taka þátt í það sem eftir væri árs, alls fimm talsins. Tilkynnt var að ársfundur ÖSE-þingsins 2011 yrði haldinn í Belgrad í Serbíu dagana 6.–10. júlí, árið 2012 í furstadæminu Mónakó og 2013 í Istanbúl í Tyrklandi og að haustfundur ÖSE-þingsins árið 2011 yrði haldinn í Króatíu.
    Í umræðu um skýrslur sérlegra fulltrúa forseta ÖSE-þingsins gerði Pétur H. Blöndal, sérlegur fulltrúi í fjárreiðum ÖSE, grein fyrir tillögum sínum og fyrirhuguðum vettvangsferðum. Sérlegur fulltrúi um aðgerðir gegn mansali, Christopher Smith, meðlimur í fulltrúadeild Bandaríkjaþings, greindi frá sérstöku átaki þar sem starfsmenn flugfélaga fá sérstaka þjálfun til að koma auga á vísbendingar um hugsanleg fórnarlömb mansals. Einnig var rætt um óleystar deilur milli Armeníu og Aserbaídsjan um Nagorno-Karabakh héraðið þar sem geisuðu vopnuð átök frá 1988–1994 og deilurnar milli Georgíu og Rússlands, sem lúta að sjálfsstjórnarhéruðunum Suður-Ossetíu og Abkasíu, sem eingöngu rússnesk stjórnvöld hafa viðurkennt sem fullvalda ríki eftir að þau lýstu yfir sjálfstæði sínu í ágúst 2009. Í máli Kimmo Kiljunen, sérlegs fulltrúa ÖSE-þingsins í málefnum Mið-Asíu, kom fram að honum hefði verið boðið af forseta landsins, Roza Otunbaeva, sem fer fyrir bráðabirgðastjórn Kirgistans, að vera í forsvari fyrir alþjóðlegri rannsókn á þeim átökum sem urðu á milli hópa Kirgisa og Úsbeka í Fergana-dalnum um tveimur mánuðum eftir stjórnarskiptin í landinu. Þykir boð bráðabirgðastjórnar landsins vera viðurkenning á starfi ÖSE-þingsins en í átökunum hafa nokkur hundruð manns látið lífið og um 400 þúsund manns lagt á flótta yfir til Úsbekistans.
    Fundurinn var formlega settur með ávarpi João Soares, forseta ÖSE-þingsins og Dag Terje Andersen, forseta norska stórþingsins. Forseti norska stórþingsins gerði starf ÖSE í baráttunni gegn mansali að sérstöku umtalsefni en mansal er sýnilegt vandamál í Osló. Auk forsetanna tóku til máls þau Jonas Gahr Støre, utanríkisráðherra Noregs, Marc Perrin de Brichambaut, sendiherra og framkvæmdastjóri ÖSE, og Tone Tingsgård, sænsk þingkona og jafnréttisfulltrúi ÖSE-þingsins.
    Utanríkisráðherra Noregs vék að möguleikanum á því að Mið-Austurlönd ættu með sér sams konar samvinnu og ríki Austur- og Vestur-Evrópu áttu með sér á tímum kalda stríðsins á grundvelli Helsinki-sáttmálans sem varð liður í því að járntjaldið féll að lokum. Svæðisbundið samstarf í Mið-Austurlöndum gæti að sama skapi verið liður í því að finna farsæla lausn á deilunum fyrir botni Miðjarðarhafs. Í framhaldinu fór hann yfir þau verkefni ÖSE sem honum fannst hvað mikilvægust, og nefndi baráttuna gegn alþjóðlegri glæpastarfsemi, leiðir til að takast á við öryggisáskoranir samtímans með vísan í Korfú-ferlið sem lýtur að endurskoðun á núverandi skipan öryggismála, og hlutverk ÖSE við að fyrirbyggja og leysa átök. Framkvæmdastjóri ÖSE vék einnig að Korfú-ferlinu í tengslum við fyrirhugaðan leiðtogafund ÖSE og öryggisáskorunum samtímans með vísan í átökin í Kirgistan sem hann tók sem dæmi um hvernig veikburða stofnanir og spilling grafa undan lýðræði. Í umræðum var einnig fjallað um hvernig stjórnarskiptin í Kirgistan og kosningar um nýja stjórnarskrá væru skref í þá veru að breyta þeirri pólitísku menningu einræðis og spillingar sem hefur verið við lýði í fyrrum lýðveldum Sovétríkjanna. Í tengslum við umræðu um átökin í Kirgistan hélt Knut Vollebæk, sérlegur fulltrúi ÖSE í málefnum minnihlutahópa, erindi þar sem hann fjallaði um sambúð þjóðarbrota með hliðsjón af nálgun ÖSE, sem gengur út á réttindi og skyldur þjóðarbrota innan sama ríkis, auk þess sem þingið samþykkti ályktun um Kirgistan. Jafnréttisfulltrúi þingsins vék að stöðu mála innan ÖSE og hvatti til þess að fleiri konur væru ráðnar í háttsett embætti innan stofnunarinnar.
    Eftir erindi framsögumanna tóku nefndir þingsins til starfa en fyrir utan skýrslur og ályktanir fastanefndanna þriggja lágu 35 ályktanir fyrir þinginu sem einstakir þingmenn eða þingmannasendinefndir höfðu lagt fram til samþykktar. Þar á meðal var ályktun sem Róbert Marshall lagði fram fyrir hönd Íslandsdeildar um ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325, um konur, frið og öryggi. Tilefnið var að 10 ár eru liðin frá samþykkt ályktunarinnar. Ályktun Íslandsdeildar var samþykkt með fjórum breytingum. Í framsöguræðu sinni með ályktunni vék Róbert að mikilvægi ályktunar nr. 1325 við að tryggja að litið sé til mismunandi aðstæðna karla og kvenna í átökum og að konur komi að uppbyggingu samfélaga eftir að stríðsátökum lýkur sem og að fyrirbyggjandi aðgerðum. Hann hvatti ríki til að gera aðgerðaráætlun um framfylgni við ályktun nr. 1325 en alls hafa 19 ríki gert slíka áætlun, þar á meðal Ísland. Hann vék einnig að stuðningi íslenskra stjórnvalda við ályktunina og starf UNIFEM (þróunarsjóðs SÞ í málefnum kvenna) á Balkanskaganum og víðar. Að lokum fagnaði hann stofnun UN Women sem mun leysa af hólmi þær fjórar stofnanir sem áður sinntu málefnum kvenna og jafnréttismálum innan SÞ með það að markmiði að styrkja starf Sameinuðu þjóðanna í þágu kvenna og kynjajafnréttis.
    Sérstakur hádegisverðarfundur var haldinn um jafnréttismál þar sem lög um kynjakvóta voru til umræðu. Framsögu hélt Marit Nybakk, varaforseti norska stórþingsins. Í máli sínu vék hún að því hvernig lög gætu breytt viðhorfum og hegðun og það væri meðal annars tilgangur laganna sem sett voru í Noregi um að stjórnir hlutafélaga í opinberri eigu skulu hafa minnst 40% að hvoru kyni innanborðs. Að lokum vék hún að ályktun nr. 1325, um konur, frið og öryggi, og þróunarstarfi á vegum norska ríkisins en til að mynda hafa leiðtoganámskeið undir fyrirsögninni „Konur geta“ verið þýtt á 50 tungumál og haldin í löndum allt frá Suður-Súdan til Serbíu.

Haustfundur ÖSE-þingsins í Palermó 8.–11. október 2010.
    Af hálfu Íslandsdeildar ÖSE-þingsins sóttu fundinn Róbert Marshall, formaður, og Kjartan Fjeldsted, ritari. Meginefni fundarins var baráttan gegn skipulagðri glæpastarfsemi og spillingu og var fundurinn haldinn í Palermó á Sikiley í tilefni af því að tíu ár eru liðin frá undirritun Palermó-sáttmálans um varnir gegn skipulagðri glæpastarfsemi. Helstu mál á dagskrá voru reynslan af framkvæmd Palermó-sáttmálans, baráttan gegn spillingu, og mansal.
    Framsögumenn í umræðum um Palermó-sáttmálann voru sammála um að mikilvægi alþjóðlegrar samvinnu í að stemma stigu við glæpastarfsemi hefði aukist mjög í takt við hnattvæðingu og tæknivæðingu af ýmsu tagi. Í þessu sambandi hefði undirritun Palermó-sáttmálans markað ákveðin tímamót. Piero Grasso, aðalsaksóknari á Ítalíu í málum tengdum mafíunni, gerði grein fyrir reynslu Ítala af baráttu gegn skipulagðri glæpastarfsemi og minntist sérstaklega dómarans Giovanni Falcone, sem ráðinn var af dögum af Sikileyjarmafíunni árið 1992. Í máli hans kom fram að alþjóðleg glæpasamtök störfuðu nú í auknum mæli í fámennum sellum, ekki ólíkt hryðjuverkasamtökum, og raunar væru sífellt meiri samskipti milli glæpahópa og hryðjuverkamanna. Lykilatriði væri að ráðast gegn fjárhagslegum grundvelli glæpasamtaka, en til þess væri alþjóðleg samvinna sérstaklega mikilvæg. Í því sambandi benti Mario Morcone, yfirmaður ítalskrar stofnunar sem sér um upptöku eigna sem tengjast skipulagðri glæpastarfsemi, á að á Ítalíu hafa meira en 27 þúsund eignir verið kyrrsettar og margar gerðar upptækar vegna gruns um að þær séu ágóði skipulagðrar glæpastarfsemi.
    Í umræðum um varnir gegn spillingu benti Miklos Marschall frá Transparency International á að talið væri að 1 billjón bandaríkjadala tapaðist á ári hverju vegna spillingar. Richard Boucher, aðstoðarframkvæmdastjóri OECD, taldi að raunverulegur árangur hefði þó náðst frá því að sáttmáli OECD gegn mútum gekk í gildi árið 1999. Meðal annars leyfa nú engin ríki lengur frádrátt frá skatti vegna mútugreiðslna erlendis. Þá hafa 225 einstaklingar og fyrirtæki hlotið refsingar vegna mútugreiðslna á grundvelli sáttmálans og 280 mál eru í rannsókn. Antonella Mularoni, ráðherra utanríkis- og samgöngumála San Marínó, sagði frá viðleitni landsins til að auka gagnsæi í landinu, m.a. með gerð samninga um upplýsingaskipti við önnur ríki – þar á meðal Ísland – vegna skattrannsókna, sem leitt hefur til þess að landið var nýverið tekið af lista OECD yfir skattaparadísir.
    Á málþingi um mansal benti Jonathan Eyers, yfirmaður mansalsmála hjá Interpol, á að talið sé að einungis 5% mansalsmála komi til kasta yfirvalda og að aðeins um 1% fórnarlamba sé bjargað. Mansal sé nú annar umfangsmesti milliríkjaglæpurinn (e. transnational crime) og velti um 32 milljörðum bandaríkjadala árlega. Chris Smith, sérstakur fulltrúi forseta ÖSE-þingsins í aðgerðum gegn mansali, gerði grein fyrir árangri af bandarískri lagasetningu á sviði mansals sem hann átti frumkvæði að árið 2000, sem og nýstofnuðum samtökum flugfreyja og flugþjóna gegn mansali. Marija Andjelkovic, forseti serbnesku félagasamtakanna ASTRA, sagði frá þróuninni í Serbíu, en þar eru sífellt fleiri fórnalömb mansals frá Serbíu sjálfri. Er það breyting frá því sem áður var, þegar þorri fórnarlamba var frá ríkjum austar í Evrópu, svo sem Moldóvu og Úkraínu. Einnig er nú meira um það en áður að karlar og börn séu fórnarlömb mansals.
    Í umræðum um mál framsögumanna var m.a. bent á að ein af höfuðástæðum þess að upp kemst um svo fá mál væri sú að fórnarlömb veigri sér við að leita til yfirvalda vegna ótta við að þeim verði umsvifalaust vísað úr landi. Skiptar skoðanir voru um það hvernig best væri að takast á við þetta vandamál og lögðu sumir fulltrúar áherslu á að bæta þyrfti réttarstöðu fórnarlamba en aðrir töldu að slíkt mundi verða til þess að auka straum ólöglegra innflytjenda og því væri mikilvægast að styrkja landamæragæslu.
    Þess má geta að Ísland fullgilti viðauka Palermó-sáttmálans um baráttu gegn mansali í júní 2010.
    Sérstakur gestur á fundi forsætisnefndar þingsins var Marc Perrin de Brichambaut, framkvæmdastjóri ÖSE, og gerði hann grein fyrir fjárreiðum stofnunarinnar. Fram kom í máli hans að hann mundi leita eftir 2% hækkun fjárveitinga til stofnunarinnar á næsta ári vegna aukins starfsmannakostnaðar. Þá sagði Johannes Koskinen frá starfi gagnsæis- og ábyrgðarnefndar þingsins, sem hann er formaður fyrir, og tillögum nefndarinnar í þeim umbótum sem standa fyrir dyrum á starfi stofnunarinnar. Þá gerði Roberto Battelli, gjaldkeri ÖSE-þingsins, grein fyrir niðurstöðum kosningaeftirlits þingsins í Bosníu og Hersegóvínu 3. október, en kosningarnar þar voru almennt taldar hafa uppfyllt staðla ÖSE og Evrópuráðsins. Tina Schøn, aðstoðarframkvæmdastjóri ÖSE-þingsins, kynnti fyrirkomulag kosningaeftirlits þingsins í þingkosningunum í Bandaríkjunum og Aserbaídsjan í nóvember.
    Að loknum fundi forsætisnefndar lögðu formenn landsdeilda blómsveig að minnisvarða um fórnarlömb skipulagðrar glæpastarfsemi í höfuðstöðvum lögreglunnar í Palermó.

Alþingi, 14. mars 2011.



Róbert Marshall,


form.


Björn Valur Gíslason,


varaform.


Pétur H. Blöndal.





Fylgiskjal.


Ályktanir og skýrslur ÖSE-þingsins árið 2010.


    Eftirfarandi ályktanir og skýrslur voru samþykktar á ársfundi ÖSE-þingsins árið 2010:
          Ályktun um ástandið í Kirgistan.
          Ályktun um sterkara hlutverk ÖSE-þingsins í Korfú-ferlinu um öryggi í Evrópu.
          Ályktun um framtíðaráherslur ÖSE-þingsins.
          Ályktun um að styrkja hlutverk, skilvirkni og áhrif ÖSE-þingsins.
          Ályktun um að stuðla að trausti innan ÖSE-þingsins.
          Ályktun um styrkingu á fyrirkomulagi Vínarskjalsins frá 1999 um samningaviðræður um aðgerðir til að auka öryggi og traust.
          Ályktun um stuðning við friðarferlið í Mið-Austurlöndum.
          Ályktun um kjarnorkuöryggi.
          Ályktun um afmörkun landamæra fullvalda ríkja í Austur-Evrópu.
          Ályktun um Moldóvu.
          Ályktun um Guantanamó.
          Ályktun um baráttu gegn hryðjuverkum, framleiðslu og smygli á eiturlyfjum og ólöglegum fólksflutningum frá Afganistan.
          Ályktun um bann við notkun herliðs á yfirráðasvæði nágrannaríkja.
          Ályktun um ályktanir öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um konur, frið og öryggi.
          Ályktun um norðurskautið.
          Ályktun um ábyrgð aðildarríkja ÖSE á að tryggja hnattrænt orkuöryggi.
          Ályktun um alþjóðlegar samningaviðræður um loftslagsmál.
          Ályktun um samvinnu ríkjanna við strendur Miðjarðarhafs.
          Ályktun um rétt flóttamanna innan eigin ríkja til að snúa aftur til síns heima.
          Ályktun um aðlögun landbúnaðarframleiðslu að verndun náttúrulegra vistkerfa.
          Ályktun um stöðu sérfræðinga í stefnumótunarferlum.
          Ályktun um uppfyllingu þúsaldarmarkmiðanna.
          Ályktun um rafræna glæpi.
          Ályktun um fólksflutninga sem áframhaldandi áskorun fyrir ÖSE.
          Ályktun um samstarf um aðstoð við flóttamenn.
          Ályktun um skuldbindingar ÖSE í þágu trúfrelsis og aðskilnaðar ríkis og trúarhópa.
          Ályktun um vernd rannsóknarblaðamanna.
          Ályktun um þjóðarminnihluta í milliríkjasamskiptum
          Ályktun um bann við mismunun á grundvelli kynhneigðar eða kynferðis.
          Ályktun um réttindi kvenna og æxlunarheilbrigði.
          Ályktun um dauðarefsingar.
          Ályktun um að sniðganga hótel sem styðja við kynlífsiðnaðinn.
          Ályktun um að herða baráttuna gegn mansali vegna kynferðislegrar misnotkunar í aðildarríkjum ÖSE.
          Ályktun um baráttu gegn eftirspurn eftir mansali og rafrænum tegundum misnotkunar.
          Ályktun um mannréttindi og grundvallarfrelsi hermanna.
          Skýrsla stjórnmála og öryggismálanefndar um baráttuna gegn fjölþjóðlegri skipulagðri glæpastarfsemi og spillingu.
          Skýrsla nefndar um efnahags-, tækni-, vísinda- og umhverfismál.
          Skýrsla nefndar um lýðræðis- og mannréttindamál.