Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 557. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1035  —  557. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna, nr. 91/2010.

Frá minni hluta allsherjarnefndar.



    Minni hluti allsherjarnefndar er að meginefni til samþykkur þeim breytingum sem lagðar eru til í áliti meiri hlutans á frumvarpi til laga um breytingar á lögum um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna. Sérstaklega er því fagnað að með frumvarpinu er hlutur kjörstjórna og yfirkjörstjórna aukinn á ný. Því er fallið frá þeirri stefnu sem mörkuð var af meiri hluta allsherjarnefndar við meðferð og umræðu þess frumvarps sem varð að lögum nr. 91/2010, að líta á landið sem eitt kjördæmi í slíkum kosningum og telja atkvæði á einum stað. Yfirkjörstjórnir endurheimta vald sitt og sjá um yfirumsjón kosninga og talningar í hverju kjördæmi fyrir sig eins og verið hefur. Fyrir þessu barðist minni hluti allsherjarnefndar þegar lögin voru sett. Ekki var hlustað á rök hans en það hefur nú verið gert.
    Eftir ógildingu Hæstaréttar á kosningu til stjórnlagaþings var ekki hægt að líta fram hjá þeirri staðreynd að lög um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna eru gölluð, eins og lögin um stjórnlagaþing. Fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna hafa illa getað hlustað á sérfræðinga í kosningamálum og ekki tekið góðum ráðum. Því stóð þjóðin frammi fyrir því í fyrsta sinn í lýðveldissögunni að Hæstiréttur ógilti almennar kosningar. Í kjördæmunum er mikið af hæfu fólki sem er alvant að fást við kosningar, talningu og uppgjör kosninga og auðvitað á að virkja þann mannauð í öllum kosningum sem fram fara.
    Minni hluti allsherjarnefndar telur að ganga eigi skrefið alla leið þannig að yfirkjörstjórnir tilkynni úrslit í sínum kjördæmum í stað þess að þau verði tilkynnt frá Reykjavík. Má reikna með að það auki spennu fyrir þjóðaratkvæðagreiðslunni, hvernig atkvæði falla eftir landshlutum, því gert er ráð fyrir því að einungis mjög umdeild mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu. Minni hlutinn tekur ekki undir áhuga meiri hluta allsherjarnefndar á því að unnið skuli að því að taka upp rafræna talningu í framtíðinni, víða erlendis hafa slíkar talningar ekki gefist vel og auðvelt er að brjótast inn í slík kerfi til að skekkja niðurstöður. Fámennið hér á landi er til þess fallið að kosningar og talning fari fram með þeim hætti sem verið hefur.
    Ágreiningsefnið sem var uppi í allsherjarnefnd snýr að kærumálum ef eitthvað fer úrskeiðis í þjóðaratkvæðagreiðslu. Í kosningu til stjórnlagaþings voru ágallar á framkvæmd kosningarinnar svo miklir að þrír einstaklingar sáu sig knúna til að kæra hana. Svo vildi til að kærendur komu úr þremur kjördæmum. Það var því mikið lán að ákvæði um kærur vegna kosninganna voru sóttar til 2. mgr. 14. gr. laga nr. 36/1945, um framboð og kjör forseta Íslands. Hefði kæruákvæðið verið samhljóða kæruákvæði 12. gr. laga nr. 4/2010, um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu um gildi laga nr. 1/2010, um breytingu á lögum nr. 96/2009, um heimild til handa fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, til að ábyrgjast lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu til að standa straum af greiðslum til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands hf., hefðu kærurnar þurft að fara fyrst fyrir héraðsdóm. Í athugasemdum í frumvarpi því sem varð að lögunum segir um 12. gr.: „Í greininni er fjallað um hugsanlegar kærur um ólögmæti atkvæðagreiðslunnar og meðferð þeirra og mælt fyrir um að þær skuli sendar landskjörstjórn til úrlausnar eigi síðar en tveimur dögum fyrir fund þann sem getið er um í 9. gr. Er hér um sambærilegt fyrirkomulag að ræða og á við í forsetakosningum, sbr. 14. gr. laga nr. 36/1945, um framboð og kjör forseta Íslands, að því frátöldu að landskjörstjórn hefur hér með höndum þau störf sem Hæstiréttur hefur í forsetakosningum. Dómstólar eiga svo úrskurðarvald um gildi ákvörðunar landskjörstjórnar í samræmi við almennar reglur ef á reynir.“ Minni hlutinn telur að ekki væri búið að leysa úr þeim réttarágreiningi sem reis eftir kosninguna hefði málið farið hina hefðbundnu dómstólaleið og er því brýnt að kæruleið til Hæstaréttar sé greið. Sex dómarar Hæstaréttar úrskurðuðu kosninguna ógilda. Niðurstöður Hæstaréttar ber að skilja sem svo að annmarkar á kosningunni hafi verið til þess fallnir að hafa áhrif á úrslitin. Fram hjá því verður ekki litið. Í 15. gr. laga nr. 90/2010, um stjórnlagaþing, er kveðið á um kærur til Hæstaréttar og þeim eindregna vilja lýst að niðurstaða réttarins leiði til endanlegrar niðurstöðu í kærumálum er kynnu að rísa við framkvæmd kosninganna.
    Að þessu sögðu er það álit minni hlutans að vísa eigi til 2. mgr. 14. gr. laga nr. 36/1945, um framboð og kjör forseta Íslands, varðandi kæruleiðir í lögum um þjóðaratkvæðagreiðslur. Þau mál sem lögð eru fyrir þjóðina í atkvæðagreiðslu samkvæmt lögum nr. 91/2010 hafa verið og verða umdeild. Það er því afar brýnt að ef einhver ágreiningur kemur upp varðandi kosningarnar að kæruleiðir séu stuttar og stuðst verði til framtíðar við þá reglu sem sköpuð var í kosningunni til stjórnlagaþings, þ.e. að Hæstiréttur fái kæru til úrskurðar innan ákveðinna tímamarka eftir kosningu, rísi ágreiningur um slík atriði.
    Minni hlutinn leggur til eftirfarandi

BREYTINGU:



    5. gr. falli brott.

Alþingi, 15. mars 2011.



Vigdís Hauksdóttir.