Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 433. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1050  —  433. mál.




Frumvarp til laga



um útflutning hrossa.

(Eftir 2. umr., 16. mars.)



1. gr.


    Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fer með yfirstjórn mála samkvæmt lögum þessum.
    Útflutningur á hrossum er heimill án sérstakra leyfa að uppfylltum skilyrðum laga þessara og stjórnvaldsfyrirmæla sem eru sett samkvæmt þeim. Þó má ekki flytja úr landi yngri hross en fjögurra mánaða né fylfullar hryssur sem gengnar eru með sjö mánuði eða lengur.

2. gr.

    Óheimilt er að flytja úr landi hross nema héraðsdýralæknir eða eftirlitsdýralæknir Matvælastofnunar hafi skoðað það í útflutningshöfn, metið það hæft til útflutnings með tilliti til dýraverndar og smitsjúkdóma og staðfest að það sé rétt merkt og uppfylli kröfur sem gerðar eru af hlutaðeigandi yfirvöldum í innflutningslandi.
    Öll útflutningshross skulu vera örmerkt.
    Útflytjendur hrossa greiða kostnað við skoðun útflutningshrossa í útflutningshöfn samkvæmt gjaldskrá sem ráðherra setur að fenginni tillögu Matvælastofnunar.

3. gr.

     Flutningsför fyrir hross við útflutning skulu hafa fullnægjandi rými, loftræstingu og brynningu. Tryggja skal fóður, fóðrun og eftirlit með hrossunum á flutningstímanum. Matvælastofnun hefur eftirlit með að reglum um aðbúnað og umhirðu sé fylgt.
    Óheimilt er að flytja hross frá Íslandi með flutningsfari sem samtímis flytur dýr frá öðrum löndum. Hafi flutningsfar áður verið notað til flutnings á dýrum erlendis skal það þrifið og sótthreinsað áður en það kemur til landsins. Matvælastofnun hefur eftirlit með að reglum um þrif og sótthreinsun sé fylgt.
    Á tímabilinu 1. október til 15. maí er einungis heimilt að flytja hross til útlanda með flugvélum.

4. gr.

    Matvælastofnun getur ákveðið við sérstakar aðstæður að dýralæknir sé um borð í flutningsfari og hafi yfirumsjón með eftirliti hrossa í flutningi.
    Flutningsaðili greiðir allan kostnað sem fellur til vegna veru dýralæknis í flutningsfari.

5. gr.

    Hrossum sem eru flutt úr landi skal fylgja hestavegabréf frá Bændasamtökum Íslands er staðfesti uppruna, ætterni, eiganda og aðrar upplýsingar sem nauðsynlegar eru, meðal annars til að uppfylla kröfur þær sem innflutningslönd gera hverju sinni.
    Útflytjendur hrossa greiða gjald fyrir kostnað við útgáfu hestavegabréfa samkvæmt gjaldskrá sem ráðherra setur að fenginni tillögu Bændasamtaka Íslands.

6. gr.

    Af hverju útfluttu hrossi skal greiða 1.500 kr. gjald í stofnverndarsjóð skv. 15. gr. búnaðarlaga, nr. 70/1998. Bændasamtök Íslands annast innheimtu gjaldsins.

7. gr.

    Ráðherra skipar fimm manna ráðgjafarnefnd um málefni er snerta útflutning hrossa. Nefndin er samráðsvettvangur stjórnvalda og þeirra sem að þeim málefnum vinna. Bændasamtök Íslands, Félag hrossabænda, Matvælastofnun og Félag hrossaútflytjenda tilnefna einn mann í nefndina hver en ráðherra skipar formann án tilnefningar.

8. gr.

    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara, þar með talið um skoðun og merkingu útflutningshrossa, aðstöðu í útflutningshöfn og í flutningsfari, sóttvarnir og upplýsingar sem útflytjendum er skylt að leggja fram vegna útgáfu hestavegabréfa.

9. gr.

    Brot gegn lögum þessum og stjórnvaldsreglum settum samkvæmt þeim varða sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum. Mál út af brotum gegn lögum þessum sæta meðferð samkvæmt lögum um meðferð sakamála.

10. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Við gildistöku laga þessara falla úr gildi lög nr. 55/2002, um útflutning hrossa, með síðari breytingum.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 2. gr. er heimilt til 1. nóvember 2011 að flytja út hross sem eru ekki örmerkt hafi þau verið frostmerkt.