Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 346. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1081  —  346. mál.




Svar



velferðarráðherra við fyrirspurn Gunnars Braga Sveinssonar um forsendur fyrir uppbyggingu Landspítala og framtíðarstarfsemi.

     1.      Hvernig var sú starfsemi sem gert er ráð fyrir að flytjist utan af landi til Landspítala metin í forsendum fyrir uppbyggingu spítalans og framtíðarstarfsemi?
    Af hálfu heilbrigðisyfirvalda liggur ekki fyrir ákvörðun um að flytja þjónustu af landsbyggðarsjúkrahúsum til Landspítala frekar en gert er ráð fyrir í gildandi fjárlögum og orðið er frá efnahagshruninu 2008. Þrátt fyrir samdrátt í útgjöldum í kjölfar efnahagshrunsins er grunnforsendan áfram sú að almennri sjúkrahúsþjónustu verði mætt innan hvers svæðis og ekki verði þörf á að sækja þjónustu utan heimahéraðs umfram það sem verið hefur. Með samdrætti í útgjöldum er verið að gera hagræðingarkröfu sem mæta skal með því að stytta legutíma, fækka innlögnum og hagræða með öðrum leiðum á sambærilegan hátt og þegar hefur verið gert á Landspítala og á Sjúkrahúsinu á Akureyri á undanförnum árum. Eftir sem áður verða fleiri sjúkrarúm ætluð til almennrar sjúkrahúsþjónustu (samkvæmt skilgreiningu 4. gr. laga nr. 40/2007) á landsbyggðinni, eða um 1,5 rými á hverja 1.000 íbúa, en á höfuðborgarsvæði þar sem er tæplega 1 rými á hverja 1.000 íbúa.

     2.      Var tekið tillit til starfsemi landsbyggðarsjúkrahúsanna þegar þarfagreining í forsendum samkeppnislýsingar 2005 og 2010 var gerð?

    Þarfagreining fyrir nýbyggingu Landspítala tekur mið af hlutverki hans sem almenns sjúkrahúss fyrir íbúa höfuðborgarsvæðisins, sem landshlutasjúkrahús fyrir suðvesturhornið og sjúkrahús allra landsmanna fyrir sérhæfðustu meðferðirnar. Auk þess er hlutverk hans að vera háskólasjúkrahús með tilheyrandi kennsluskyldu fyrir fjölda heilbrigðisstétta. Stærð byggingarinnar miðast við áætlaða þörf árið 2030. Jafnframt er gert ráð fyrir að áframhaldandi þróunarmöguleikar verði til staðar eftir það á lóð spítalans til þess meðal annars að stækka sjúkrahótel og göngudeildir og fjölga legurýmum um 100. Í fyrsta áfanga nýbyggingarinnar, sem samkvæmt áætlunum á að vera lokið 2017, er reiknað með að rúmafjöldi á bráðadeildum spítalans verði nánast sá sami og nú er, eða samtals 453 rými í stað 445 rýma nú. Auk þess eru geðdeildir á Hringbraut og Kleppi, öldrunardeildir á Landakoti, endurhæfingardeild á Grensási, vökudeild í barnaspítala og hæfingardeild í Kópavogi. Fjöldi legurúma á þessum deildum breytist ekki með tilkomu nýbyggingarinnar.
    Í áætlunum um byggingu spítalans var hvorki gert ráð fyrir lokun nágrannasjúkrahúsanna á suðvesturhorninu né annarra sjúkrahúsa á landsbyggðinni. Í forsendunum var meðal annars reiknað með að útskriftarmöguleikar sjúklinga af Landspítala frá þjónustusvæðum annarra sjúkrahúsa, einkum á suðvesturhorninu, yrðu tryggðir með framhaldsmeðferð eða vistun heima í héraði. Hér skal ítrekað að ekki hefur verið tekin ákvörðun af hálfu heilbrigðisyfirvalda um tilflutning sjúklinga út fyrir heimahérað umfram það sem nú er, einkum vegna sértækra aðgerða og bráðatilfella.