Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 547. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1095  —  547. mál.
Framhaldsnefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. nr. 44/1998, um húsnæðismál, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta félags- og tryggingamálanefndar.    Nefndin hefur haft frumvarpið til athugunar eftir 2. umræðu og hefur fengið á sinn fund Gunnhildi Gunnarsdóttur frá Íbúðalánasjóði, Hall Magnússon frá Búmönnum, Gísla Örn Bjarnhéðinsson frá Búseta og Benedikt Sigurðarson frá Búseta á Norðurlandi.
    Eins og fram kemur í nefndaráliti meiri hluta félags- og tryggingamálanefndar um málið (þskj. 998) lækkar niðurfærsla veðskulda samkvæmt frumvarpinu sem nemur veðrými á aðfararhæfum eignum. Nokkur umræða hafði verið um að ákveða svokallað fríeignarmark, þ.e. að horfa fram hjá eignum eða veðrými að tiltekinni hámarksfjárhæð við ákvörðun niðurfærslunnar. Meiri hlutinn áréttar þá afstöðu að ekki sé unnt að réttlæta það að setja með þessum hætti fríeignarmark vegna annarra eigna lántaka umfram það sem getur í samkomulaginu enda kallar slíkt á frekari kostnað ríkisins.
    Nefndin ræddi jafnframt að nýju um málefni húsnæðissamvinnufélaga og greiðsluvanda þeirra og var þeim sjónarmiðum hreyft fyrir nefndinni að lækkun lána húsnæðissamvinnufélaga væri í samræmi við markmið frumvarpsins sem væri m.a. að lækka greiðslubyrði heimila. Lækkun lána húsnæðissamvinnufélaga mundi þannig leiða til lægra búsetugjalds og lækka greiðslubyrði þeirra heimila sem væru í búsetaíbúð. Meiri hlutinn ítrekar að markmið með niðurfærslu skulda í samræmi við frumvarpið er að draga úr yfirveðsetningu eigna og lækka greiðslubyrði heimila og stuðla þannig að minni vanskilum við lánastofnanir. Eitt af meginmarkmiðum samkomulagsins, sem liggur til grundvallar frumvarpinu, eru aðgerðir í þágu yfirveðsettra heimila þar sem ákveðið var að færa niður skuldir til samræmis við verðmæti íbúðarhúsnæðis. Yfirveðsetning er vissulega til staðar hjá lögaðilum, svo sem húsnæðissamvinnufélögum, en hún er ekki til staðar hjá þeim sem keypt hefur búseturétt og býr í búsetuíbúð. Kjósi einstaklingur í búsetuíbúð að segja upp búseturétti sínum kemur ekki til þess að hann sitji uppi með skuldir umfram verðmæti búseturéttar síns líkt og lántakendur með yfirveðsetta eign fái þeir ekki niðurfærslu lána sinna. Úrræðið er enn fremur sniðið að því að horfa til tekna og eigna einstaklinga og eðli málsins samkvæmt er ekki unnt að beita þeim viðmiðum á félög. Meiri hlutinn áréttar því þá afstöðu sem fram kom í fyrra nefndaráliti um málið að vinna þarf heildstætt úr greiðsluvanda félaga og líta m.a. til skuldaþols, rekstrarvirðis, nýtingar, reksturs, leigusamninga og hagræðingarmöguleika í samræmi við 6. mgr. 47. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998. Í ljósi þeirra athugasemda sem komið hafa fram og sérstöðu húsnæðissamvinnufélaga beinir meiri hlutinn þeim tilmælum til velferðarráðuneytis að það hraði slíkri vinnu og telur jafnframt mikilvægt að skoðaðar verði allar leiðir í þessu efni, m.a. hvort unnt sé að beita sambærilegum reglum og í fyrirliggjandi frumvarpi á lán húsnæðissamvinnufélaga. Í ljósi sérstöðu húsnæðissamvinnufélaganna og mikilvægis þeirra fyrir fjölbreytni á húsnæðismarkaði mun meiri hlutinn leggja áherslu á að fylgja málinu eftir og óska eftir fundi með ráðuneytinu hið fyrsta um málefni þeirra.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með áorðnum breytingum.
    Ásmundur Einar Daðason og Unnur Brá Konráðsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 22. mars 2011.Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,


form., frsm.


Ólafur Þór Gunnarsson.


Jónína Rós Guðmundsdóttir.Guðmundur Steingrímsson.


Valgerður Bjarnadóttir.


Árni Þór Sigurðsson.