Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 407. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1121  —  407. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um brottfall laga um flugmálaáætlun og fjáröflun til flugmála, nr. 31/1987, með síðari breytingum.

Frá samgöngunefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Friðfinn Skaftason frá innanríkisráðuneyti, Ingunni Ólafsdóttur, Elínu Árnadóttur og Björn Óla Hauksson frá ISAVIA ohf. og Pétur K. Maack og Höllu S. Sigurðardóttur frá Flugmálastjórn Íslands. Umsagnir bárust frá Ferðamálastofu, Flugmálastjórn Íslands og ISAVIA ohf.
    Með frumvarpinu er stefnt að samræmingu í gjaldamálum og tekjuöflun vegna framkvæmda og reksturs í flugmálum með hliðsjón af breyttri gjaldastefnu á sviði flugmála og í ljósi alþjóðlegrar þróunar og skuldbindinga sem leiðir af EES-samningnum. Með breytingunni er markvisst verið að hverfa frá skatttöku yfir í gjaldtöku sem leiðir af kostnaði við þjónustuna, þ.e. að notandinn greiði í samræmi við kostnað í ríkari mæli en nú er.
    Samkvæmt athugasemdum í greinargerð frumvarpsins munu tveir skattstofnar falla niður við framangreinda samræmingu, þ.e. flugvallaskattur og varaflugvallagjald. Við niðurfall skattstofnanna mun gjaldskrá ISAVIA ohf. hækka sem þeim nemur en þjónustusamningur fyrirtækisins og fjármálaráðuneytisins að sama skapi lækka og staða ríkissjóðs þannig verða óbreytt. Er það mat frumvarpshöfunda að staða farþega og flugrekenda muni einnig verða óbreytt þar sem breytingar frumvarpsins felist í því að í stað nefskatta sem greiddir hafa verið úr ríkissjóði verði greidd þjónustugjöld til ISAVIA ohf.
    Í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytis við frumvarpið kemur m.a. fram að gert sé ráð fyrir að í stað þeirra skatta sem ætlunin er að fella niður með frumvarpinu muni ISAVIA ohf. hækka núverandi gjaldskrá fyrirtækisins sem nemur a.m.k. þeim tekjum sem gert er ráð fyrir að núgildandi skattstofnar muni skila samkvæmt frumvarpi til fjárlaga 2011 auk þess sem áform séu uppi um að lagt verði á sérstakt gjald, Passangers with Reduced Mobility (PRM), sem leggjast muni á alla farþega til að standa straum af auknum kostnaði vegna þjónustu við hreyfihamlaða í samræmi við Evrópureglugerð þar um. Þá kemur fram að gjaldtakan muni byggjast á heimild 71. gr. loftferðalaga auk þess sem gengið sé út frá því að fjárhæð hvers gjalds miðist við þann kostnað sem almennt hljótist af því að veita þá þjónustu sem veita skal. Að auki kemur fram það mat að afkoma ríkissjóðs verði óbreytt þrátt fyrir þá breytingu sem frumvarpið hefur í för með sér.
    Nefndin telur að samþykkt frumvarpsins hafi ekki í för með sér neina breytingu á högum ríkissjóðs, ISAVIA ohf., flugrekenda eða flugnotenda. Þó hljóti það fyrirkomulag sem frumvarpið boðar að horfa til einföldunar hvað flæði fjármuna varðar.
    Með dómi EFTA-dómstólsins frá 12. desember 2003, í máli ESA gegn Íslandi, kvað dómurinn upp úr um að það færi í bága við m.a. 36. gr. EES-samningsins að leggja á misháa farþegaskatta eftir því hvort flogið væri með loftfari innan lands annars vegar eða frá Íslandi til aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins hins vegar. Við undirbúning gerðar frumvarps til breytingar á lögum um flugmálaáætlun og fjáröflun til flugmála, sem lagt var fram á 130. löggjafarþingi (þskj. 1441 í 947. máli), óskaði samgönguráðuneytið eftir sérstöku áliti Davíðs Þórs Björgvinssonar, þáverandi lagaprófessors við Háskólann í Reykjavík og nú dómara við Mannréttindadómstól Evrópu, um hvað fælist í niðurstöðu EFTA-dómstólsins. Var það álit Davíðs að heimilt væri að leggja gjöld á farþega hvort heldur væri í innanlandsflugi eða millilandaflugi til að mæta sérstökum kostnaði sem leiðir af veitingu þjónustu sem þeir njóta sem flugfarþegar, þannig að samræmdist 36. gr. EES-samningsins. Skilyrði væri að gjaldið væri lagt á þá sem nytu þjónustunnar og samhengi væri milli kostnaðar við þjónustuna og fjárhæðar gjaldsins. Þá komst hann einnig að þeirri niðurstöðu að heimilt væri að hafa gjöldin mishá eftir því hvort um innanlandsflug eða millilandaflug væri að ræða, enda væri samsvörun milli mismunandi gjalda og mismunandi þjónustu sem þeir njóta sem gjaldið greiða og sá mismunur væri hóflegur og í samræmi við muninn á þeim kostnaði sem hlytist af því að veita þjónustuna.
    Nefndin vekur athygli á þeirri áherslu sem EFTA-dómstóllinn leggur á samræmi á milli gjaldtöku og kostnaðar við veitingu þjónustu. Er það álit nefndarinnar að sjónarmið dómstólsins eigi sér almenna hliðstæðu í þeim meginreglum sem gilda um töku þjónustugjalda samkvæmt íslenskum rétti. Af því leiðir að gjaldtakandi hefur ákveðnar skyldur þegar kemur að ákvörðun gjalda sem öðrum kosti hvíldu á herðum löggjafans væri um skatttöku að ræða. Í 71. gr., 71. gr. a og 71. gr. b núgildandi loftferðalaga eru á nokkuð skýran hátt settar fram þær reglur sem gilda um heimildir rekstraraðila á sviði flugmála til töku gjalda og flugrekstraraðilum tryggð aðkoma m.a. að ákvörðunum um tilhögun gjaldtöku að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Er það mat nefndarinnar að framsetning og fyrirkomulag téðra reglna skapi traustan grunn undir þá gjaldtöku sem samþykkt frumvarpsins mun óhjákvæmilega hafa í för með sér.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Lilja Rafney Magnúsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 23. mars 2011.



Björn Valur Gíslason,


form., frsm.


Róbert Marshall.


Árni Johnsen.



Ólína Þorvarðardóttir.


Guðmundur Steingrímsson.


Ásbjörn Óttarsson.



Sigmundur Ernir Rúnarsson.