Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 377. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1127  —  377. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. um fjöleignarhús, nr. 26/1994, með síðari breytingum.

Frá félags- og tryggingamálanefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hönnu S. Gunnsteinsdóttur og Sigrúnu Jönu Finnbogadóttur frá velferðarráðuneyti, Margréti Steinarsdóttur frá Mannréttindaskrifstofu Íslands, Davíð Gíslason frá Félagi ofnæmis- og astmalækna, Hafrúnu Kristjánsdóttur frá Félagi sálfræðinga og Kristin Halldór Einarsson og Ólaf Haraldsson frá Blindrafélaginu. Umsagnir bárust frá Landssambandi eldri borgara, Grímsnes- og Grafningshreppi, Persónuvernd, Reykjanesbæ, Sveitarfélaginu Skagafirði, Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga, Hrunamannahreppi, Læknafélagi Íslands, Þroskahjálp, Bláskógabyggð, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Blindrafélaginu, Kópavogsbæ, Fljótsdalshéraði, Viðskiptaráði Íslands, Sjálfsbjörg, Öryrkjabandalagi Íslands og Reykjavíkurborg.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um fjöleignarhús er varða hunda- og kattahald auk þess sem lagt er til að sérstakar reglur gildi um leiðsögu- og hjálparhunda.
    Nefndin hefur fjallað um málið sem er í reynd tvíþætt. Í fyrsta lagi eru lagðar til sérreglur þegar íbúi fjöleignarhúss hefur þörf fyrir sérþjálfaðan leiðsögu- eða hjálparhund og í öðru lagi eru lagðar til almennar reglur um hunda- og kattahald í fjöleignarhúsum. Af þeim 18 aðilum sem veittu umsögn um frumvarpið gerðu 15 þeirra ekki athugasemdir við efni þess eða mæltu með því að það yrði samþykkt sem lög á yfirstandandi löggjafarþingi.

Ákvæði er varða sérþjálfaða leiðsögu- eða hjálparhunda.
    Í d-lið 1. gr. frumvarpsins (33. gr. d) er kveðið á um lagareglu sem felur í sér mikilvæga réttarbót fyrir þá sem þurfa á leiðsögu- eða hjálparhundum að halda. Nefndin hefur nýlega haft til umfjöllunar frumvarp um breytingu á lögum um málefni fatlaðs fólks (þskj. 298, 256. mál) og áréttaði í nefndaráliti sínu um málið (þskj. 550) mikilvægi þess að löggjöf sé til samræmis við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Til stendur að lögleiða samninginn og er unnið að frumvarpsgerð. Í 9. gr. samningsins er fjallað um skyldur aðildarríkja og segir þar m.a.: „Aðildarríkin skulu gera viðeigandi ráðstafanir í því skyni að gera fötluðu fólki kleift að lifa sjálfstæðu lífi og taka fullan þátt í mannlífinu á öllum sviðum.“ Í 19. gr. samningsins segir svo að aðildarríki samningsins viðurkenni jafnan rétt alls fatlaðs fólks til að lifa í samfélaginu m.a. með því að tryggja því tækifæri til þess að velja sér búsetustað og hvar og með hverjum það býr, til jafns við aðra. Telur nefndin ljóst að fyrirliggjandi frumvarp sé mikilvægt skref í þá átt að tryggja réttindi fatlaðs fólks í samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna og ber að fagna því.

Ofnæmi.
    Nefndin ræddi sérstaklega 4. mgr. d-liðar 1. gr. (33. gr. d) en þar er m.a. kveðið á um að sé annar íbúi fjöleignarhúss með ofnæmi þurfi það að vera á svo háu stigi að lyf megni ekki að gera sambýlið við leiðsögu- eða hjálparhund bærilegt til þess að unnt sé að leita lausnar til kærunefndar húsamála á andstæðum hagsmunum hans og þess sem þarf á leiðsögu- eða hjálparhundi að halda. Nefndinni er ljóst að með ákvæðinu er verið að tryggja rétt þeirra sem þurfa á leiðsögu- eða hjálparhundi að halda og hann settur framar rétti þeirra sem ekki vilja hund í húsið eða hafa fyrir honum ofnæmi. Á fundi nefndarinnar kom fram að fátítt væri að fólk hefði hundaofnæmi og sjaldgæft að það væri svæsið. Miðað við fyrirliggjandi gögn er því ólíklegt að upp komi aðstæður þar sem íbúi í fjöleignarhúsi sé með ofnæmi á háu stigi og annar íbúi sé með leiðsögu- eða hjálparhund. Mikilvægt er þó að tryggja úrlausn slíks máls ef upp kemur.
    Nauðsynlegt er að tryggja einstaklingi með sérþjálfaðan leiðsögu- eða hjálparhund rétt til að hafa hund sinn hjá sér en þó ber að gæta fullrar virðingar fyrir rétti og lífsgæðum annarra. Líkt og fram kemur í athugasemdum við frumvarpið getur réttarbót fyrir einn verið réttarspjöll fyrir annan. Fólk getur haft misjafnar skoðanir á lyfjagjöf, kostnaður fylgir lyfjatöku, lyf koma sjaldnast að öllu í veg fyrir einkenni ofnæmis og þau hafa stundum í för með sér aukaverkanir. Nefndinni var tjáð að slíkar aukaverkanir væru t.d. ekki óþekktar þegar um er að ræða ofnæmislyf og væru þar að auki ekki fyrirsjáanlegar. Nefndin telur því ekki rétt að kveða á um það í löggjöf með þessum hætti að einstaklingur þurfi að sannreyna að lyfjagjöf virki ekki áður en hann hefur rétt til að leita til kærunefndar húsamála, enda sé um að ræða mikið inngrip í líf fólks. Leggur nefndin til breytingar á ákvæðinu þannig að kveðið verði á um að sé eigandi eða einhver í hans fjölskyldu með ofnæmi fyrir hundum á svo háu stigi að sambýli við leiðsögu- eða hjálparhund sé ekki bærilegt og læknisfræðileg gögn staðfesta það skuli kærunefnd húsamála leita lausna að fengnu áliti þeirra aðila sem nefndir eru í ákvæðinu. Með þessari breytingu er ekki vikið í meginatriðum frá frumvarpinu eða þeirri lausnaleið sem þar er kveðið á um heldur einungis tryggður betur réttur þess ofnæmissjúka. Allsendis óvíst er að sá sem er með ofnæmi sem gerir sambýli við hund óbærilegt setji sig gegn því að taka lyf ráði þau bót þar á.

Hundafælni.
    Nefndin ræddi jafnframt hundafælni eða hundafóbíu enda hafði henni verið kynnt sjónarmið þess efnis að mikilvægt væri að tryggja rétt íbúa fjöleignarhúsa sem haldnir væru slíkri fælni ef koma ætti leiðsögu- eða hjálparhundur í fjöleignarhús. Nefndinni voru kynntar upplýsingar þess efnis að um 5% Íslendinga væru með sérstaka fælni og í kringum 30% þeirra með hundafælni. Það væru því tæpast fleiri en 1,5% Íslendinga haldnir hundafælni. Þá var nefndinni tjáð að slíka fælni væru auðvelt að meðhöndla. Nefndin telur vert að árétta að þar sem hundafælni er svo óalgeng sem raun ber vitni er afar ólíklegt að upp komi aðstæður þar sem íbúi í fjöleignarhúsi sé með hundafælni og annar íbúi sé með leiðsögu- eða hjálparhund. Komi sú staða upp telur nefndin að auðvelt ætti að vera fyrir þann sem haldinn er fælni að fá meðferð við henni án þess að um verulegt inngrip í líf hans sé að ræða auk þess sem slíkt kallar ekki á lyfjatöku. Telur nefndin því ekki um að ræða sambærilegar aðstæður og þegar ofnæmi er til staðar.

Almenn ákvæði frumvarpsins.
    Eins og fram kemur í athugasemdum við frumvarpið er ekki ætlunin með frumvarpinu að rýmka reglur og skilyrði fyrir hunda- og kattahaldi í fjöleignarhúsum. Ákvæði frumvarpsins eru í samræmi við gildandi reglur eins og þær hafa verið skýrðar og túlkaðar. Ákvæðin eru því nokkuð ítarleg til að tryggja að reglur séu skýrar og telur nefndin mikilvægt að leitast sé við að koma í veg fyrir deilur um þessi mál. Nefndin leggur ekki til breytingar á almennum ákvæðum frumvarpsins en telur þó rétt að tiltaka nokkur atriði vegna sjónarmiða og athugasemda sem komið hefur verið á framfæri við hana.
    Þeim sjónarmiðum var komið á framfæri við nefndina að orðið húsfélag væri ekki skilgreint í lögum um fjöleignarhús og þörf væri á skilgreiningu á því sem og orðinu húsfélagsdeild. Nefndin bendir á að í 10. gr. laganna er húsfélag skilgreint sem félagsskapur allra eigenda um húsið, nánari ákvæði um skyldur, réttindi og starfsemi húsfélags er svo að finna í ýmsum ákvæðum laganna. Þá er í 76. gr. laganna að finna skilgreiningu á húsfélagsdeild. Nefndin telur því ljóst við hvað er átt þegar rætt er um húsfélag og húsfélagsdeildir. Vegna misskilnings um efnið telur nefndin vert að árétta að húsfélag eða húsfélagsdeild getur bundið almennt leyfi til hunda- og/eða kattahalds skv. a-lið 1. gr. frumvarpsins (33. gr. a) fjöldatakmörkunum þannig að hver íbúi geti einungis verið með hámarksfjölda gæludýra. Gæta þarf þó jafnræðis og huga að banni við mismunun, sbr. 4. mgr. ákvæðisins. Þeim áhyggjum var komið á framfæri við nefndina að ákvæði frumvarpsins opnuðu fyrir að íbúi í fjöleignarhúsi gæti stundað dýraræktun í eign sinni. Nefndin bendir á að um dýrarækt gilda ákvæði laga um dýravernd, nr. 15/1994, og þarf skv. 12. gr. þeirra laga leyfi Umhverfisstofnunar til hvers konar ræktunar dýra í atvinnuskyni.
    Nefndinni var bent á að nánari skilgreiningar væri þörf á hvað teldist til leiðsögu- og hjálparhunda. Í 2. mgr. d-liðar 1. gr. (33. gr. d) er nákvæmlega skilgreint að um sérþjálfaða hunda sé að ræða sem skráðir eru sem leiðsögu- eða hjálparhundar og að fyrir liggi vottorð sérfræðinga um þörf hans og þjálfun. Telur nefndin með vísan til þessa ekki hættu á misskilningi eða misnotkun ákvæðisins.

    Auk þeirrar breytingar sem þegar hefur verið gerð grein fyrir leggur nefndin til smávægilegar breytingar til leiðréttingar á texta. Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Við 1. gr.
     a.      Í stað orðanna „frá jarðhæð eða“ í 1. mgr. b-liðar komi: á jarðhæð eða frá.
     b.      Í stað orðanna „getur húsfélag“ í 4. mgr. c-liðar komi: og getur húsfélag þá.
     c.      Í stað orðanna „lyf megna ekki að gera sambýlið við leiðsögu- eða hjálparhund bærilegt“ í 4. mgr. d-liðar komi: sambýlið við leiðsögu- eða hjálparhund sé óbærilegt.

    Ásmundur Einar Daðason og Guðmundur Steingrímsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 24. mars 2011.Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,


form., frsm.


Ólafur Þór Gunnarsson.


Pétur H. Blöndal.Jónína Rós Guðmundsdóttir.


Unnur Brá Konráðsdóttir.


Þórunn Sveinbjarnardóttir.Lilja Rafney Magnúsdóttir.