Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 641. máls.

Þskj. 1130  —  641. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög
(einföldun samruna- og skiptingarreglna o.fl.).

(Lagt fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010–2011.)




I. KAFLI
Breyting á lögum um hlutafélög, nr. 2/1995, með síðari breytingum.

1. gr.

    Orðin „þegar unnt er að gera það án tjóns fyrir félagið og“ í 59. gr. laganna falla brott.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 121. gr. laganna:
     a.      Við 1. málsl. 1. mgr. bætist: nema hluthafar samþykki samhljóða að greinargerðin skuli ekki samin.
     b.      Við 3. málsl. 2. mgr. bætist: nema hluthafar samþykki samhljóða að falla frá milliuppgjöri eða sérreglur gilda um félög með hluti í viðskiptum á skipulegum verðbréfamarkaði eða markaðstorgi fjármálagerninga þar sem upplýsingar eru aðgengilegar almenningi.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 124. gr. laganna:
     a.      Við 4. mgr. bætist nýr málsliður sem verður 2. málsl. og orðast svo: Félagsstjórn skal á þeim fundi upplýsa um atvik sem hafa verulega þýðingu, m.a. verulega breytingu á eignum og skuldum, frá því að samrunaáætlun var undirrituð og fram að fundinum nema hluthafar samþykki annað samhljóða.
     b.      Við inngangsmálslið 5. mgr. bætist: nema skjölin séu birt á vef félagsins eða öðrum viðurkenndum vef.
     c.      Á eftir orðunum „Efnahags- og rekstrarreikningur“ í 3. tölul. 5. mgr. kemur: þar sem við á.

4. gr.

    Á eftir orðinu „sérfræðiskýrslu“ í 5. málsl. 2. mgr. 133. gr. laganna kemur: eftir því sem við á.

5. gr.

    Á eftir „(104. gr.)“ í 2. tölul. 153. gr. laganna kemur: upplýsingagjöf á fundi um samruna (2. málsl. 4. mgr. 124. gr.).

II. KAFLI
Breyting á lögum um einkahlutafélög, nr. 138/1994, með síðari breytingum.

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 96. gr. laganna:
     a.      Við 1. málsl. 1. mgr. bætist: nema hluthafar samþykki samhljóða að greinargerðin skuli ekki samin.
     b.      Við 3. málsl. 2. mgr. bætist: nema hluthafar samþykki samhljóða að falla frá milliuppgjöri.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 99. gr. laganna:
     a.      Við 4. mgr. bætist nýr málsliður sem verður 2. málsl. og orðast svo: Félagsstjórn skal á þeim fundi upplýsa um atvik sem hafa verulega þýðingu, m.a. verulega breytingu á eignum og skuldum, frá því að samrunaáætlun var undirrituð og fram að fundinum nema hluthafar samþykki annað samhljóða.
     b.      Inngangsmálsliður 5. mgr. orðast svo: Í síðasta lagi mánuði fyrir hluthafafundinn skulu eftirfarandi skjöl lögð fram til skoðunar fyrir hluthafa á skrifstofu hvers samrunafélags um sig og enn fremur látin hverjum skráðum hluthafa í té án endurgjalds samkvæmt beiðni nema skjölin séu birt á vef félagsins eða öðrum viðurkenndum vef.
     c.      Á eftir orðunum „efnahags- og rekstrarreikningur“ í 3. tölul. 5. mgr. kemur: þar sem við á.

8. gr.

    Á eftir orðinu „skal“ í 5. málsl. 2. mgr. 107. gr. a laganna kemur: eftir því sem við á.

9. gr.

    Á eftir „(79. gr.)“ í 2. tölul. 127. gr. laganna kemur: upplýsingagjöf á fundi um samruna (2. málsl. 4. mgr. 99. gr.).

III. KAFLI
Gildistaka o.fl.

10. gr.

    Með lögum þessum er innleidd tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/109/EB frá 16. september 2009 um breytingu á tilskipunum ráðsins 77/91/EBE, 78/855/EBE og 82/891/ EBE, svo og á tilskipun 2005/56/EB, varðandi kröfur til skýrslna og skjala við samruna og skiptingu. Tilskipunin var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 37/2010 frá 12. mars 2010 sem birt var 10. júní 2010 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 30/2010, bls. 41, sbr. nr. 71/2010, bls. 177.

11. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta, sem samið er í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu með hliðsjón af drögum að dönsku lagafrumvarpi, felur, að undanskilinni 1. gr., í sér innleiðingu á tilskipun 2009/109/EB sem breytir fjórum tilskipunum á sviði félagaréttar. Snerta breytingarnar reglur um samruna og skiptingu hlutafélaga og einkahlutafélaga. Vikið er að umsögnum um frumvarpið aftast í almennum athugasemdum.
    Með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 37/2010 frá 12. mars 2010 var tekin upp í EES-samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/109/EB frá 16. september 2009 um breytingu á tilskipunum ráðsins 77/91/EBE, 78/855/EBE og 82/891/EBE, svo og á tilskipun 2005/56/EB, varðandi kröfur til skýrslna og skjala við samruna og skiptingu. Þýðing á texta tilskipunarinnar fylgir tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 37/2010 um breytingu á XXII. viðauka (Félagaréttur) við EES-samninginn, þskj. 266, 235. mál.
    Heiti tilskipunarinnar á ensku er Directive 2009/109/EC of the European Parliament and of the Council of 16 September 2009 amending Council Directives 77/91/EEC, 78/855/EEC and 82/891/EEC, and Directive 2005/56/EC as regards reporting and documentation requirements in the case of mergers and divisions.
    Aðalmarkmiðið með tilskipuninni, sem innleiða þarf í íslenskan rétt fyrir júnílok 2011, er að draga úr stjórnsýslubyrðum í hlutafélögum en á þeim hvíla ýmsar upplýsingaskyldur. Dregið er úr þeim skyldum við vissar aðstæður hvað snertir gerð skýrslna og skjala og birtingu þeirra. Er aukin heimild til að nýta m.a. vef félaga. Bent skal á að tilskipun 2005/56/EB hér að framan (tíunda félagaréttartilskipunin) tekur líka til einkahlutafélaga.
    Vegna innleiðingar ákvæða tilskipunarinnar í íslenskan rétt eru lagðar til breytingar á ákvæðum í lögum nr. 2/1995, um hlutafélög, með síðari breytingum, og lögum nr. 138/1994, um einkahlutafélög, með síðari breytingum. Breytingarnar snúa að ákvæðum beggja laga um innlendan samruna og skiptingu, svo og millilandasamruna og millilandaskiptingu. Lagt er til að ákvæði tilskipunarinnar gildi jafnt um hlutafélög og einkahlutafélög. Kjarni ákvæða laganna varða samruna en þó eru svipuð ákvæði um skiptingu eftir því sem við á. Þá byggjast ákvæði um millilandasamruna og millilandaskiptingu að miklu leyti á ákvæðunum um innlendan samruna og skiptingu.
    Framangreind tilskipun felur í sér breytingar á eftirfarandi tilskipunum á sviði félagaréttar:
     1.      tilskipun 77/91/EBE (annarri félagaréttartilskipuninni um fjármagn, fjármagnstilskipuninni),
     2.      tilskipun 78/855/EBE (þriðju félagaréttartilskipuninni um samruna, samrunatilskipuninni),
     3.      tilskipun 82/891/EBE (sjöttu félagaréttartilskipuninni um skiptingu, skiptingartilskipuninni) og
     4.      tilskipun 2005/56/EB (tíundu félagaréttartilskipuninni um millilandasamruna).
    Tilskipunin á rætur að rekja til ákvörðunar Evrópusambandsins frá árinu 2007 um að draga úr stjórnsýslubyrðum hjá félögum með ýmsum hætti til ársins 2012 í því skyni að auka samkeppnishæfni félaga í sambandinu. Áherslur þessar á breytingar má jafnvel rekja til Lissabonáætlunarinnar frá 2000 um vöxt í sambandinu. Umbreytingarnar hafa áhrif á almennar reglur um félög en einnig ársreikninga og endurskoðun. Leitast er við að gæta þess að þær hafi ekki neikvæð áhrif með tilliti til verndarhlutverks þeirra.
    Í inngangi að tilskipuninni er m.a. greint frá því að í ákveðnum tilvikum megi draga úr upplýsingaskyldum í félögum varðandi skýrslur og skjöl ef allir hluthafar samþykkja. Þetta merkir að reglurnar eiga helst við í félögum með fáa hluthafa. Þá er greint frá því að möguleiki sé á að birta drög að samrunaáætlun og önnur skjöl á vef félaga og jafnvel öðrum vefjum í stað hefðbundinnar birtingar í hlutafélagaskrá. Gæta þarf að hagsmunum annarra aðila en hluthafa, t.d. lánardrottna og stjórnvalda. Vikið er að minni kröfum en nú eru gerðar varðandi ákveðnar skýrslur sérfræðinga við samruna móðurfélaga og dótturfélaga og í markaðsfélögum þar sem hálfsársuppgjör er gert.
    Frumvarpið, að undanskilinni 1. gr., var á vinnslustigi sent til umsagnar fjármálaráðuneytis, hlutafélagaskrár, Lögmannafélags Íslands, Samtaka atvinnulífsins, Samtaka fjármálafyrirtækja og Samtaka iðnaðarins. Umsagnir bárust frá ríkisskattstjóra, Samtökum atvinnulífsins og Samtökum fjármálafyrirtækja. Verður nú gerð grein fyrir aðalatriðum í umsögnum þeirra er gerðu athugasemdir.
    Í umsögn ríkisskattstjóra, sem annast fyrirtækjaskráningar, er almennt mælt með því að lagabreytingar nái aðeins til hlutafélaga og aðeins séu þar tekin upp ákvæði sem skylt er að taka upp en ekki þau sem heimilt er að taka upp.
    Er greint frá því í umsögn ríkisskattstjóra að breytingar samkvæmt tilskipuninni nái aðeins til hlutafélaga. Það er ekki nákvæmt því að tilskipunin felur m.a. í sér breytingar á tíundu félagaréttartilskipuninni um millilandasamruna (og millilandaskiptingu) en hún tekur bæði til hlutafélaga og einkahlutafélaga. Í þeirri tilskipun er m.a. vísað til þess að hvað millilandasamruna snertir skuli ákvæði um innlendan samruna gilda. Felur það í sér að ákvæði um innlendan samruna verði að taka bæði til hlutafélaga og einkahlutafélaga. Allt frá því að reglur Evrópska efnahagssvæðisins öðluðust gildi hér á landi fyrir um fimmtán árum hefur verið reynt að hafa lagaákvæði um samruna og skiptingu sem líkust bæði hjá hlutafélögum og einkahlutafélögum þótt reglur um innlendan samruna (og skiptingu) hafi á þeim tíma aðeins náð til hlutafélaga. Eftir að sérstök lagaákvæði á grundvelli Evrópska efnahagssvæðisins voru sett um millilandasamruna og millilandaskiptingu, með tilvísunum til lagaákvæða um innlendan samruna og skiptingu, þykir ekki fært að fara nú þá leið að vera á þessu sviði með aðrar reglur fyrir einkahlutafélög en hlutafélög. Réttara þykir að fylgja Evrópulöndum hvað snertir heimildir til að slaka á reglum varðandi skýrslu- og skjalagerð.
    Þá er í umsögninni fundið að því að verndarhlutverk laganna gagnvart hluthöfum verði mjög lítið ef fyrirhugaðar breytingar ná fram að ganga. Ekki er fallist á það enda byggist undanþáguleið laganna varðandi skýrslugerð á því að allir hluthafar samþykki að falla frá skýrslugerðinni. Hluthafar geta því sjálfir gætt hagsmuna sinna að þessu leyti. Upplýsingar kunna auk þess að liggja fyrir á vef félagsins og því ekki þörf á að skylda aðila til gera sérstaka grein fyrir slíku á fundum. Í tilskipuninni er og sérstaklega tekið fram að verndarhlutverks umræddra reglna sé reynt að gæta.Varðandi athugasemd ríkisskattstjóra um skattamál skal því til svarað að Evrópuríkin, sem að núverandi tilskipun standa, hafa ekki talið að umrædd undantekning varðandi skýrslugerð sé til slíks baga fyrir skattyfirvöld í sínum störfum að fyrirhuguð áform um einföldun reglna eigi að stranda á slíku.
    Gerðar voru breytingar á b-lið 3. gr. frumvarpsins vegna umsagnar ríkisskattstjóra.
    Í umsögn ríkisskattstjóra er talið að umræddar breytingar samkvæmt frumvarpinu séu ekki viðskiptalífinu til framdráttar og muni létta um of upplýsingaskyldu íslenskra félaga.
    Umsögn Samtaka atvinnulífsins felur í sér allt annað mat. Telja samtökin mikilvægt að efla samkeppnishæfni fyrirtækja og atvinnulífs og fagna fyrirhugaðri framlagningu frumvarpsins. Telja þau full rök til þess að lagaákvæðin nái jafnt til einkahlutafélaga sem hlutafélaga og benda á að ákvæði um millilandasamruna og millilandaskiptingu, sem ná samkvæmt framansögðu bæði til hlutafélaga og einkahlutafélaga, geri enn mikilvægara að viðhalda samræmdri lagasetningu um samruna og skiptingu. Bent er á að einföldun reglna getur sparað fyrirtækjum umtalsverðan kostnað.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Samkvæmt 59. gr. laganna um hlutafélög skal hlutafélag, sem eignast hefur hluti með nánar tilgreindum hætti, láta þá af hendi í síðasta lagi þremur árum eftir öflun þeirra nema samanlagt nafnverð félagsins og dótturfélaga þess á hlutum í félaginu fari ekki yfir 10% af hlutafénu. Hnýtt er við í greininni því skilyrði að þetta skuli gert „þegar unnt er að gera það án tjóns fyrir félagið“. Með samanburði á greininni og 2. mgr. 20. gr. annarrar félagaréttartilskipunarinnar, sem er hluti EES-samningsins, kemur í ljós að ekki er heimilt að setja þetta skilyrði. Er því lagt til að það verði fellt niður þannig að samningsskuldbindingum Íslands sé fullnægt.

Um 2. gr.

    Í a-lið greinarinnar, sem snertir samruna, er dregið úr þeim kröfum að félagsstjórn í hverju samrunafélaganna um sig skuli semja greinargerð þar sem samrunaáætlunin er skýrð og rökstudd. Geta hluthafar samþykkt samhljóða að slík greinargerð skuli ekki samin. Undanþágan byggist á 9. gr. þriðju félagaréttartilskipunarinnar, nr. 78/855/EBE, eins og henni hefur verið breytt með valkvæðum 4. tölul. 2. gr. tilskipunar 2009/109/EB, en gerðirnar taka til hlutafélaga eins og að framan greinir.
    Í b-lið byggist reglan um að hluthafar geti samþykkt samhljóða að falla frá milliuppgjöri í tengslum við greinargerð um samrunaáætlun á 11. gr. þriðju félagaréttartilskipunarinnar, m.a. reglan um markaðsfélög, sbr. valkvæðan 5. tölul. 2. gr. tilskipunar 2009/109/EB.

Um 3. gr.
    

    Í a-lið er kveðið á um að félagsstjórn skuli á hluthafafundi upplýsa um atvik sem hafa verulega þýðingu frá því að samrunaáætlun var undirrituð og fram að fundinum nema hluthafar samþykki annað samhljóða. Ákvæðið er byggt á 2.–3. mgr. 9. gr. þriðju félagaréttartilskipunarinnar, nr. 78/855/EBE, eins og henni hefur verið breytt með 4. tölul. 2. gr. tilskipunar 2009/109/EB.
    Ákvæði b-liðar um að unnt kunni að vera að birta skjöl á vef félags eða öðrum viðurkenndum vef, t.d. samtaka í atvinnulífi, leiðir af rýmkun reglna í 6. gr. þriðju félagaréttartilskipunarinnar, nr. 78/855/EBE, eins og henni hefur verið breytt með 2. tölul. 2. gr. tilskipunar 2009/109/EB (töluliðurinn er ekki valkvæður).
    Ákvæði c-liðar þar sem bætt er við orðunum „þar sem við á“ varðandi efnahags- og rekstrarreikning taka mið af rýmkun reglna í frumvarpinu, sbr. b-lið 2. gr. frumvarpsins um uppgjör.

Um 4. gr.

    Í greininni er gert ráð fyrir að orðunum „eftir því sem við á“ verði bætt við í 5. málsl. 2. mgr. 133. gr. laganna sem fjallar um skiptingu hlutafélaga. Greinin byggist á 2. mgr. 7. gr. sjöttu félagaréttartilskipunarinnar, nr. 82/891/EBE, eins og henni hefur verið breytt með 3. tölul. 3. gr. tilskipunar 2009/109/EBE.

Um 5. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að bætt verði við refsiákvæði er lýtur að brotum á upplýsingagjöf á fundi um samruna skv. 2. málsl. 4. mgr. 124. gr. laganna.

Um 6.–9. gr.

    Í samræmi við venju varðandi samruna- og skiptingarákvæði er í lögum um einkahlutafélög gætt samræmis við samsvarandi ákvæði í lögunum um hlutafélög. Eru því lagðar til samsvarandi breytingar á lögum um einkahlutafélög nú þótt tilskipun 2009/109/EB feli í sér breytingar á fjórum gerðum er varða samkvæmt framansögðu aðallega hlutafélög. B-liður 6. gr. tekur þó ekki til markaðsfélaga enda eru einkahlutafélög ekki aðilar að þeim. Nánar vísast til athugasemda við 2.–5. gr.

Um 10. gr.

    Í greininni er getið þeirrar tilskipunar sem innleidd er með frumvarpinu. Um upptöku gerðarinnar í EES-samninginn vísast til umfjöllunar í almennum athugasemdum.

Um 11. gr.

    Grein þessi geymir gildistökuákvæði en innleiðingarfrestur samkvæmt ákvæðum tilskipunarinnar er til 30. júní 2011.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um hlutafélög
og lögum um einkahlutafélög (einföldun samruna- og skiptingarreglna o.fl.).

    Með frumvarpi þessu er í fyrsta lagi lagt til að fellt verði niður skilyrði í gildandi lögum þess efnis að hlutafélag og dótturfélög þess sem eiga samanlagt umfram 10% af hlutabréfum í félaginu þurfi einungis að losa sig við hlutabréfin ef unnt er að gera það án tjóns fyrir félagið. Í öðru lagi er lagt til að innleidd verði tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/109/ EB sem breytir fjórum tilskipunum á sviði félagaréttar. Tilskipunin snýr að breytingum á reglum um innlendan samruna og skiptingu hlutafélaga og einkahlutafélaga, svo og millilandasamruna og millilandaskiptingu. Breytingunum er ætlað að draga úr stjórnsýslubyrðum í hlutafélögum um upplýsingaskyldu en frumvarpið gerir ráð fyrir að dregið verði úr skyldum hvað snertir gerð skýrslna og skjala og birtingu þeirra. Er með þessu jafnframt verið að auka heimildir félaga til að nota vefinn til upplýsingagjafar. Skýrslugerð félaganna hefur fyrst og fremst lotið að upplýsingum til hluthafa og markaðsaðila en síður að opinberum aðilum.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður þannig ekki séð að það muni hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.