Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 87. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
2. uppprentun.

Þskj. 1131  —  87. mál.
Framsaga.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. um stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur, lögum um Landsvirkjun, lögum um samvinnufélög og lögum um sameignarfélög (stjórnarformaður, kynjahlutfall í stjórn).

Frá meiri hluta viðskiptanefndar.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jón Ögmund Þormóðsson frá efnahags- og viðskiptaráðuneyti, Elínu Smáradóttur frá Orkuveitu Reykjavíkur og Kristbjörgu Stephensen frá Reykjavíkurborg. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Félagi atvinnurekenda, Félagi löggiltra endurskoðenda, Jafnréttisstofu, Kvenfélagasambandi Íslands, Kvenréttindafélagi Íslands, Orkuveitu Reykjavíkur, Reykjavíkurborg, Ríkisendurskoðun, ríkisskattstjóra, Seðlabanka Íslands og Viðskiptaráði Íslands.
    Með frumvarpinu er lagt til að gerðar verði sams konar breytingar á lögum um stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur, lögum um Landsvirkjun, lögum um samvinnufélög og lögum um sameignarfélög og gerðar voru með lögum nr. 13/2010, um breytingu á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög.
    Í frumvarpinu er mælt er fyrir um tvenns konar breytingar á áðurnefndri löggjöf. Annars vegar er lagt til að formaður stjórnar taki ekki að sér verkefni fyrir fyrirtæki eða félag sem ekki telst eðlilegur hluti starfa hans sem stjórnarformanns. Undantekning er þó ef stjórn felur formanni að vinna fyrir sig einstök verkefni. Í nefndaráliti um frumvarp það sem varð að lögum nr. 13/2010 kom fram að ákvæðið um starfandi stjórnarformenn byggðist m.a. á áliti nefndar um íslenskt viðskiptaumhverfi sem þáverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra skipaði í janúar 2004. Meiri hluti hennar lagði til að stjórnarformanni hlutafélags yrði ekki heimilt að taka að sér önnur störf fyrir félag en þau sem féllu undir eðlileg störf hans. Í áliti nefndarinnar kom fram að hún teldi óæskilegt að stjórnarformenn væru í reynd hluti af framkvæmdastjórn félags enda væri það eitt af hlutverkum stjórnarformanns að stýra eftirliti stjórnar með félagi. Meiri hlutinn bendir á að hætta er á hagsmunaárekstrum ef formaður stjórnar er jafnframt starfsmaður félags enda stjórnar hann þá í raun eftirliti með sjálfum sér. Tilgangur ákvæðisins er að minnka líkur á hagsmunaárekstrum en verði ákvæðið óbreytt að lögum mun stjórn félags þó geta falið stjórnarformanni að vinna einstök verkefni fyrir hana.
    Hins vegar er lagt til að bætt verði við áðurnefnda löggjöf ákvæði um að hlutföll kynja í stjórnum félaga og fyrirtækja verði jöfn eða sem jöfnust. Í 1. mgr. 3. gr. laga um stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur er kveðið á um að stjórn þess sé skipuð sex mönnum. Lagt er til með frumvarpinu að við greinina bætist nýr málsliður þess efnis að tryggt skuli að hlutföll kynjanna í stjórn fyrirtækisins séu jöfn. Við umfjöllun um frumvarpið í nefndinni var gerð athugasemd við orðalag 1. gr. þess þar sem mælt er fyrir um að tryggt skuli að kynjahlutföll séu jöfn enda væru sams konar ákvæði að jafnaði orðuð á þá leið að hlutföll kynja verði sem jöfnust. Meiri hlutinn bendir á að þar sem stjórn Orkuveitu Reykjavíkur er skipuð sex einstaklingum er eðlilegt að mæla fyrir um að hlutföll kynja skuli vera jöfn. Ef breyting verður hins vegar gerð á lögunum í þá veru að fækka eða fjölga stjórnarmönnum verður unnt að breyta orðalaginu þannig að kynjahlutföll verði sem jöfnust eða mæla fyrir um að hlutfall hvors kyns verði ekki lægra en 40%.
    Í a-lið 2. gr. er lagt til að við 1. mgr. 5. gr. laga um Landsvirkjun bætist nýr málsliður þess efnis að tryggt skuli að í stjórn hennar, sem er skipuð fimm mönnum, sé hlutfall hvors kyns ekki lægra en 40%. Í a-lið 3. gr. og 4. gr. er lagt til að við lög um samvinnufélög og lög um sameignarfélög bætist ákvæði samhljóða því sem var lögfest með lögum nr. 13/2010, um hlutafélög og einkahlutafélög. Það felur í sér að í stjórnum samvinnufélaga og sameignarfélaga þar sem starfa að jafnaði fleiri en 50 starfsmenn á ársgrundvelli skuli hvort kyn eiga fulltrúa í stjórn þegar stjórnarmenn eru þrír en þegar stjórnarmenn eru fleiri en þrír skuli hlutfall hvors kyns ekki vera lægra en 40%.
    Ákvæði frumvarpsins um hlutföll kynjanna í stjórnum samvinnufélaga og sameignarfélaga taka skv. 6. gr. frumvarpsins gildi 1. september 2013 í samræmi við gildistökugrein laga nr. 13/2010. Meiri hlutinn leggur til breytingu á 6. gr. enda er önnur dagsetning sem þar er vísað til liðin. Lagt er til að ákvæði frumvarpsins um starfandi stjórnarformenn sem og ákvæði um kynjahlutföll í stjórnum Landsvirkjunar og Orkuveitu Reykjavíkur, þ.e. 1. gr., 2. gr., b-liður 3. gr. og 5. gr. öðlist gildi 1. janúar 2012. Þannig hafa þau félög og fyrirtæki sem frumvarpið á við um ráðrúm til þess tíma til að skipa málum í samræmi við ákvæði frumvarpsins.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:    6. gr. orðist svo:
    Ákvæði 1. gr., 2. gr., b-liðar 3. gr. og 5. gr. öðlast gildi 1. janúar 2012.
    Ákvæði a-liðar 3. gr. og 4. gr. öðlast gildi 1. september 2013.

    Margrét Tryggvadóttir skrifar undir álit þetta með fyrirvara vegna efasemda um réttmæti þess að kveðið sé á um kynjahlutföll í stjórnum í lögum.
    Guðlaugur Þór Þórðarson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 17. mars 2011.Lilja Mósesdóttir,


form.


Ólína Þorvarðardóttir.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Skúli Helgason,


frsm.Eygló Harðardóttir.


Atli Gíslason.


Jónína Rós Guðmundsdóttir.Margrét Tryggvadóttir,


með fyrirvara.