Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 237. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1135  —  237. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

Frá 1. minni hluta viðskiptanefndar.



    Hin nýja tilskipun Evrópusambandsins nr. 2009/14/EB, hefur enn ekki verið tekinn upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar. Í þessari tilskipun er nokkuð breytt orðalag um innstæðutryggingar en þar er kveðið á um að aðildarríki skuli tryggja að vernd sérhvers innstæðueiganda nemi 50.000 evrum (e. shall ensure that the coverage for the aggregate deposits of each depositor shall be at least EUR 50.000). Í eldri tilskipun var ekki kveðið eins sterkt að orði þar sem mælt var fyrir um að áskilið væri að innstæðutryggingakerfi veittu innstæðueiganda vernd allt að 20.000 evrum (e. deposit-guarantee schemes shall stipulate that the aggregate deposits of each depositor must be covered up to ECU 20 000). Meiri hlutinn túlkar þetta á þann hátt að ríkisvaldið verði að tryggja fjármögnun innstæðutryggingasjóðsins ef og þegar hann þarf að taka lán til að geta staðið við skuldbindingar sínar. Það er erfitt að sjá muninn á því að þurfa að tryggja fjármögnun og því að hafa ríkisábyrgð á skuldbindingum sjóðsins. Samkvæmt tilskipuninni hækkar tryggingarfjárhæðin úr 20.887 evrum í 100.000 evrur, eða úr 3,3 millj. kr. í 15,8 millj. kr. fyrir hvern innstæðueigenda í viðkomandi fjármálastofnun. Þá er sá tími sem sjóðurinn hefur samkvæmt tilskipuninni styttur talsvert og samkvæmt frumvarpinu er iðgjald fjármálafyrirtækja í sjóðinn hækkað.
    Hugmynd meiri hlutans er sú að Tryggingasjóður innstæðueigenda og fjárfesta verði deildaskiptur þannig að gamla deildin haldi utan um skuldbindingar vegna Icesave og aðrar skuldbindingar sem tengjast hinum föllnu bönkum. Ekki er vitað hversu miklar skuldbindingarnar verða þar sem eftir er að útkljá fjölmörg mál fyrir dómstólum en innstæðueigendur í Evrópu sækja á sjóðinn. Forstöðumaður hans benti á að það gæti reynst erfitt að fá deildarskiptinguna viðurkennda. Þannig sé vafasamt að hægt sé að vísa þeim sem gerir kröfu á sjóðinn á gjaldþrota deild þegar um fleiri deildir er að ræða hjá sama lögaðila.
    Líkt og framar er getið hefur hin nýja tilskipun Evrópusambandsins ekki verið tekin upp í EES-samninginn. Ástæðan er sú að Norðmenn hafa staðið á bremsunni og vilja hafa tryggingarfjárhæðina hærri. Það er þeim kleift vegna góðrar fjárhagsstöðu sinnar. Enginn íslenskur ráðherra í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefur gætt hagsmuna Íslendinga í þessu máli. Ferðir ríkisstjórnarinnar til Brussel hafa verið nýttar í annað.
    Tryggingar eru í eðli sínu dreifing á áhættu og er trygging innstæðna þar engin undantekning. Kerfið á uppruna sinn í Bandaríkjunum þar sem allar fjármálastofnanir sem taka við innlánum eru aðilar að kerfinu með greiðslu iðgjalda. Í Evrópu er hverju ríki gert að setja upp sinn eigin tryggingasjóð. Það gengur ekkert sérstaklega vel upp í fjölmennum ríkjum Evrópu og það er fullkomlega vonlaust í minni ríkjum og er Ísland gott dæmi um það. Innstæður í bönkum hér á landi eru um 1.500 milljarðar kr. eða þreföld íslensku fjárlögin. Þrír bankar er með 70–80% af þeirri upphæð og þeir eru svipaðir að stærð sem þýðir að dreifing áhættunnar er sáralítil. Miðað við þá útreikninga sem viðskiptanefnd Alþingis fékk í hendurnar tekur það nær heila öld að safna í tryggingasjóð sem stæði undir innstæðum eins banka ef svo illa færi að hann færi í þrot. Því hefur verið haldið fram að bankar muni ekki falla í framtíðinni. Reynslan kennir okkur annað og það er sömuleiðis nokkuð öruggt að ef fyrningarleið ríkisstjórnarinnar verður farin muni ríkisbankinn Landsbankinn ekki standa uppréttur. Helstu rök meiri hlutans fyrir samþykkt frumvarpsins eru þau að með því sé dregið úr vernd innstæðna frá því sem nú er samkvæmt yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 3. febrúar og 9. desember 2009. 1. minni hluti bendir á að 95% innstæðna einstaklinga er undir 15 millj. kr. og er þessi röksemd meiri hlutans því fallin um sig sjálfa.
    Öllum er ljóst að betur hefði átt að standa að lagasetningu fyrir hrunið haustið 2008. Það væri einnig betur komið fyrir okkur ef við hefðum metið áhættu betur en við gerðum. Við breytum ekki hinu liðna en það er engin ástæða til að endurtaka fyrri mistök. Það eru mikil mistök að samþykkja þetta frumvarp efnahags- og viðskiptaráðherra óbreytt. Með því er verið að blekkja almenning, búa til falskt traust og leggja allt þjóðarbúið undir.

Alþingi, 24. mars 2011.



Guðlaugur Þór Þórðarson,


frsm.


Sigurður Kári Kristjánsson.