Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 645. máls.

Þskj. 1141  —  645. mál.



Frumvarp til laga

um þjónustuviðskipti á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins .

(Lagt fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010–2011.)




I. KAFLI
Markmið, gildissvið og skilgreiningar.
1. gr.
Markmið.

    Markmið laga þessara er að greiða fyrir frjálsum þjónustuviðskiptum og tryggja jafnræði þeirra sem veita þjónustu innan Evrópska efnahagssvæðisins en viðhalda jafnframt hágæðaþjónustu.

2. gr.
Gildissvið.

    Lög þessi gilda um alla þjónustu sem er ekki sérstaklega undanskilin gildissviði laganna.
    Lög þessi gilda ekki um eftirfarandi þjónustu:
     1.      þjónustu í almannaþágu sem er ekki af efnahagslegum toga,
     2.      fjármálaþjónustu,
     3.      rafræna fjarskiptaþjónustu og fjarskiptanet sem og aðstöðu og þjónustu því tengda,
     4.      þjónustu á sviði flutninga og tengda starfsemi sem fellur undir 6. kafla III. hluta EES- samningsins, sbr. ákvæði laga um Evrópska efnahagssvæðið,
     5.      starfsmannaleigur,
     6.      heilbrigðisþjónustu,
     7.      hljóð- og myndmiðlunarþjónustu,
     8.      fjárhættuspil, þ.e. hvers konar spil eða leik sem ræðst að hluta eða öllu leyti af heppni og felur í sér fjárhagslegan ávinning,
     9.      starfsemi í tengslum við meðferð opinbers valds,
     10.      félagsþjónustu,
     11.      öryggisþjónustu á vegum einkaaðila,
     12.      þjónustu lögbókenda og fulltrúa sýslumanna sem eru skipaðir af hinu opinbera.
    Lög þessi gilda um þjónustuveitendur:
     1.      sem hafa staðfestu í öðru EES-ríki og hyggjast öðlast staðfestu á Íslandi,
     2.      sem hafa staðfestu í öðru EES-ríki og hyggjast veita þjónustu á Íslandi án þess að hafa staðfestu hér á landi,
     3.      sem hafa staðfestu á Íslandi.
    Reglur laga þessara gilda ekki um:
     1.      markaðsvæðingu þjónustu í almannaþágu sem hefur almenna efnahagslega þýðingu, hvort sem hún er í höndum opinberra aðila eða einkaaðila, né einkavæðingu opinberra aðila sem veita þjónustu,
     2.      afnám einkaréttar á sviði þjónustustarfsemi,
     3.      ríkisaðstoð sem er veitt í EES-ríki og fellur undir samkeppnisreglur EES-samningsins, sbr. ákvæði laga um Evrópska efnahagssvæðið,
     4.      rétt stjórnvalda til að skilgreina, í samræmi við EES-reglur, hvað telst vera þjónusta í almannaþágu sem hefur almenna efnahagslega þýðingu,
     5.      skipulag og fjármögnun þjónustu í almannaþágu sem hefur almenna efnahagslega þýðingu, í samræmi við EES-reglur um ríkisaðstoð, eða hvaða sérstöku skyldur felast í slíkri þjónustu,
     6.      ráðstafanir, í samræmi við EES-reglur, til að vernda eða stuðla að margbreytileika menningar og tungumála eða fjölbreyttri fjölmiðlun,
     7.      refsirétt,
     8.      vinnurétt, þ.e. lagaleg eða samningsbundin ákvæði um ráðningarskilmála, vinnuskilyrði, heilbrigði og öryggi á vinnustað, tengsl milli vinnuveitenda og starfsmanna, réttindi og skyldur launafólks sem starfar á Íslandi í lengri eða skemmri tíma, eða almannatryggingalöggjöf,
     9.      nýtingu grundvallarréttinda, né réttinn til að semja um, ganga frá og framfylgja kjarasamningum eða grípa til aðgerða á vinnustað í samræmi við landslög og venju er samræmist EES-reglum,
     10.      rétt stjórnvalda til að ákvarða hvort um er að ræða ráðningarsamband milli vinnuveitanda og launþega eða verktöku, og beita í því sambandi viðeigandi íslenskum lögum og kjarasamningum,
     11.      skattarétt,
     12.      alþjóðlegan einkamálarétt.
    Ráðherra er heimilt að kveða nánar á um gildissvið í reglugerð.

3. gr.
Skilgreiningar.

    Í þessum lögum merkir:
     1.      Þjónusta: öll sjálfstæð atvinnustarfsemi er lýtur að veitingu þjónustu sem að öllu jöfnu er veitt gegn þóknun, sbr. 37. gr. EES-samningsins, sbr. og ákvæði laga um Evrópska efnahagssvæðið.
     2.      Þjónustuveitandi:
              a.      einstaklingur sem er ríkisborgari í EES-ríki og veitir þjónustu,
              b.      lögaðili sem hefur staðfestu í EES-ríki og veitir þjónustu.
     3.      Viðtakandi þjónustu:
              a.      einstaklingur sem er ríkisborgari í EES-ríki eða nýtur góðs af réttindum sem honum eru veitt með EES-gerðum og nýtir sér eða óskar eftir að nýta sér þjónustu,
              b.      lögaðili sem hefur staðfestu í EES-ríki og nýtir sér eða óskar eftir að nýta sér þjónustu.
     4.      Staðfesta: þar sem raunveruleg atvinnustarfsemi þjónustuveitanda fer fram, í ótiltekinn tíma og á fastri atvinnustöð þaðan sem þjónustan er í reynd veitt.
     5.      Fyrirkomulag leyfisveitinga: hver sú málsmeðferð þar sem gerð er krafa um að þjónustuveitandi eða viðtakandi þjónustu geri ráðstafanir í því skyni að fá formlega ákvörðun eða óbeina ákvörðun frá lögbæru yfirvaldi um að fá að veita eða nýta þjónustu.
     6.      Krafa: hver sú skuldbinding, bann, skilyrði eða takmörkun sem kveðið er á um í lögum og stjórnsýslufyrirmælum EES-ríkjanna eða vegna dómaframkvæmdar, stjórnsýsluvenju, reglna fagfélaga, eða vegna sameiginlegra reglna sem fagsamtök og aðrar fagstofnanir hafa samþykkt á grundvelli lagalegs sjálfstæðis. Reglur sem kveðið er á um í kjarasamningum milli aðila vinnumarkaðarins teljast ekki kröfur í þessu sambandi.
     7.      Lögbært yfirvald: hver sá aðili sem gegnir hlutverki eftirlitsaðila eða stjórnvalds í EES- ríki í tengslum við þjónustustarfsemi, þ.m.t. dómstólar þegar þeir gegna eftirlits- eða stjórnvaldshlutverki, fagfélög, fagsamtök eða aðrar fagstofnanir sem á grundvelli lagalegs sjálfstæðis setja sameiginlegar reglur um aðgang að þjónustustarfsemi eða um það að stunda hana.
     8.      Lögvernduð starfsgrein: starfsréttindi sem aflað er á grundvelli menntunar eða hæfni og eru staðfest af þar til bæru stjórnvaldi með útgáfu leyfis, löggildingar eða sérstakrar viðurkenningar, sem nánar er mælt fyrir um í lögum.
     9.      Starfsábyrgðartrygging: vátrygging sem þjónustuveitandi tekur vegna hugsanlegrar skaðabótaábyrgðar gagnvart viðtakendum þjónustu og ef við á, þriðja aðila, sem rekja má til þjónustunnar.
     10.      Þverfagleg starfsemi: þegar þjónustuveitandi stundar fleiri en eina tegund starfsemi.
     11.      Markaðssetning: hvert það form boðskipta eða annarra aðgerða sem ætlað er að kynna, beint eða óbeint, vörur, þjónustu eða ímynd fyrirtækis, samtaka eða einstaklings sem leggur stund á lögverndaða starfsgrein eða starfsemi á sviði viðskipta, iðnaðar eða iðnar.

II. KAFLI
Aðgengi að þjónustu, kröfur til skjalagerðar og réttur til upplýsinga.
4. gr.
Rafræn málsmeðferð.

    Þjónustuveitendur geta með rafrænum hætti sótt um leyfi til að stunda starfsemi sína á Íslandi og fengið svör frá lögbærum yfirvöldum með rafrænum hætti. Á það við um öll nauðsynleg formsatriði og það ferli er lýtur að leyfisveitingu.
    Ákvæði 1. mgr. um rafræna málsmeðferð gildir ekki um það sem eðli málsins samkvæmt getur ekki farið fram rafrænt, svo sem skoðun á húsnæði þar sem þjónusta er veitt, skoðun á búnaði sem þjónustuveitandi notar eða áþreifanlega skoðun á getu þjónustuveitanda eða starfsmanna sem hann ber ábyrgð á.
    Ráðherra er heimilt að kveða nánar á um nauðsynlegar ráðstafanir vegna rafrænnar málsmeðferðar í reglugerð.

5. gr.
Kröfur til framlagðra skjala.

    Ef leyfisveitandi krefst þess að þjónustuveitandi eða viðtakandi þjónustu leggi fram vottorð eða hvers kyns staðfestingu á því að tiltekið skilyrði sé uppfyllt skal leyfisveitandinn viðurkenna skjöl frá öðrum EES-ríkjum sem þjóna sama tilgangi og þar sem skýrt kemur fram að skilyrðið sé uppfyllt.
    Óheimilt er að krefjast þess að skjal frá öðru EES-ríki sé frumrit, staðfest endurrit eða löggilt þýðing nema slík krafa sé rökstudd með vísan til brýnna almannahagsmuna.
    Leyfisveitanda er heimilt að krefjast þess að þjónustuveitandi eða viðtakandi þjónustu leggi fram þýðingu skjala, þó ekki löggilta, á íslensku.
    Ráðherra er heimilt að kveða á um í reglugerð að ákveðin tegund skjala sé undanþegin kröfum þessarar greinar.

6. gr.
Réttur til upplýsinga.

    Eftirfarandi upplýsingar skulu þjónustuveitendur og viðtakendur þjónustu geta fengið með rafrænum hætti:
     1.      hvaða skilyrði þjónustuveitendur þurfa að uppfylla til að geta veitt þjónustu á Íslandi,
     2.      upplýsingar um hvernig hægt er að hafa samband við lögbær yfirvöld sem bera ábyrgð á veitingu leyfis til að stunda þjónustu,
     3.      upplýsingar um skilyrði og leiðir til að fá aðgang að opinberum skrám og gagnagrunnum um þjónustuveitendur og þjónustu,
     4.      upplýsingar um þær úrlausnarleiðir sem alla jafna eru tiltækar komi upp ágreiningur,
     5.      upplýsingar um hvernig unnt er að ná sambandi við samtök eða stofnanir, önnur en lögbær yfirvöld, þar sem þjónustuveitendur eða viðtakendur þjónustu geta fengið hagnýta aðstoð,
     6.      upplýsingar um kjarasamninga og aðrar upplýsingar er varða réttindi og skyldur á íslenskum vinnumarkaði.
    Þjónustuveitendur og viðtakendur þjónustu eiga rétt á aðstoð með rafrænum hætti sem felst í upplýsingagjöf um almenna túlkun og beitingu skilyrða skv. 1. tölul. 1. mgr. Umrædd aðstoð felur þó ekki í sér skyldu til að veita lögfræðilega ráðgjöf í einstökum málum. Upplýsingarnar skulu vera réttar og uppfærðar og settar fram á skilmerkilegan hátt. Lögbær yfirvöld skulu bregðast við beiðni um upplýsingar svo fljótt sem auðið er.

III. KAFLI
Staðfesturéttur þjónustuveitanda og leyfisveitingar.
7. gr.
Gildissvið kaflans.

    Ákvæði þessa kafla gilda þegar þjónustuveitandi með staðfestu á EES-svæðinu hyggst veita þjónustu með staðfestu á Íslandi.

8. gr.
Skilyrði fyrir veitingu leyfis.

    Ef aðgangur að því að veita þjónustu, sem fellur undir gildissvið laga þessara, er háður leyfum skulu skilyrði fyrir veitingu leyfa vera án mismununar, nauðsynleg vegna brýnna almannahagsmuna og í samræmi við meðalhóf.
    Óheimilt er að binda leyfi fyrir nýrri starfsstöð sömu skilyrðum eða eftirliti og þjónustuveitandi hefur þegar þurft að sæta á Íslandi eða í öðru EES-ríki.
    Ef takmarka á leyfi fyrir því að veita þjónustu við ákveðin landsvæði skal það rökstutt með vísan til brýnna almannahagsmuna.

9. gr.
Gildistími leyfa.

    Óheimilt er að veita leyfi til þjónustustarfsemi til takmarkaðs tíma nema:
     1.      leyfið endurnýist sjálfkrafa eða endurnýjun sé aðeins háð því að skilyrði séu áfram uppfyllt,
     2.      fjöldi tiltækra leyfa sé takmarkaður með vísan til brýnna almannahagsmuna,
     3.      hægt sé að rökstyðja takmarkaðan gildistíma með vísan til brýnna almannahagsmuna.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er leyfisveitanda heimilt að krefjast þess að þjónustuveitandi hefji í reynd starfsemi sína innan ákveðins tíma eftir að hann öðlast leyfi.
    Þjónustuveitendum er skylt að upplýsa viðeigandi lögbær yfirvöld um:
     1.      stofnun dótturfélaga með starfsemi sem fellur undir gildissvið leyfisins,
     2.      breytingar á aðstæðum þjónustuveitanda sem leiða til þess að skilyrði leyfisins eru ekki lengur uppfyllt.
    Ef fjöldi leyfa í tiltekinni starfsemi er takmarkaður vegna skorts á tiltækum náttúruauðlindum eða tæknigetu skal leyfisveitandi birta fyrir fram við hvað verður stuðst við mat á umsækjendum til að tryggja óhlutdrægni og gagnsæi við valið. Ef fjöldi leyfa er takmarkaður skal veita leyfi til takmarkaðs tíma og óheimilt er að láta leyfið endurnýjast sjálfkrafa eða fela í sér annan ávinning fyrir þjónustuveitanda, sem er með nýútrunnið leyfi, eða annan aðila honum tengdan.
    Þrátt fyrir ákvæði 4. mgr. er leyfisveitanda heimilt við veitingu leyfa að taka tillit til sjónarmiða um lýðheilsu, félagsmálastefnu, heilbrigði og öryggi starfsmanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga, vernd umhverfisins, varðveislu menningararfleifðar og annarra brýnna almannahagsmuna.
    Ákvæði þessarar greinar hafa ekki áhrif á heimild lögbærs yfirvalds til að afturkalla leyfi ef viðkomandi skilyrði eru ekki lengur uppfyllt.

10. gr.
Málsmeðferð við leyfisveitingar.

    Málsmeðferð við leyfisveitingar skal vera skýr, hlutlæg, gagnsæ og aðgengileg. Leyfisveitandi skal birta fyrir fram upplýsingar um fyrirkomulag málsmeðferðar.
    Frestur til að veita leyfi skal fastsettur og birtur fyrir fram. Leyfisveitanda er heimilt að framlengja frestinn einu sinni í takmarkaðan tíma ef mál er mjög umfangsmikið. Ákvörðun um framlengingu skal rökstyðja og birta þjónustuveitanda áður en upphaflegi fresturinn rennur út. Leyfisumsókn telst fram komin á því tímamarki þegar öll nauðsynleg gögn liggja fyrir.
    Ef svar er ekki veitt innan tímafrests skal litið svo á að leyfi sé veitt nema kveðið sé á um annað í lögum.
    Heimilt er að víkja frá því fyrirkomulagi sem kveðið er á um í 3. mgr. með vísan til brýnna almannahagsmuna.
    Staðfesta skal viðtöku umsóknar um leyfi svo fljótt sem unnt er. Í staðfestingunni skal tilgreina:
     1.      tímamörk skv. 2. mgr.,
     2.      tiltækar kæruleiðir,
     3.      ef við á, að hafi svar ekki borist innan ákveðinna tímamarka teljist leyfið hafa verið veitt.
    Ef umsókn um leyfi er hafnað eða henni er ábótavant skal tilkynna umsækjanda um það svo fljótt sem auðið er, svo og um öll hugsanleg áhrif á tímamörk skv. 2. mgr. þessarar greinar og tiltækar kæruleiðir.

11. gr.
Skilyrði sem óheimilt er að setja fyrir veitingu leyfis.

    Óheimilt er að binda aðgang að þjónustu eða veitingu þjónustu með staðfestu skilyrðum er fela í sér:
     1.      mismunun sem grundvallast beint eða óbeint á þjóðerni eða, ef lögaðili á í hlut, staðsetningu skráðrar skrifstofu,
     2.      bann við því að hafa starfsstöð í fleiri en einu EES-ríki eða við því að þjónustuveitandi sé færður í skrár eða skráður í fagfélag eða fagsamtök í fleiri en einu EES-ríki,
     3.      takmarkanir á frelsi þjónustuveitanda til að velja á milli aðalstarfsstöðvar eða aukastarfsstöðvar,
     4.      gagnkvæmni, að undanskildum skilyrðum um gagnkvæmni sem kveðið er á um í gerðum EES-samningsins um orku, sbr. ákvæði laga um Evrópska efnahagssvæðið,
     5.      að metið sé hverju sinni hvort þjónustu vanti á ákveðnum markaði, hver séu efnahagsleg áhrif þjónustunnar eða hvort þjónustan samræmist hagrænum áætlunum stjórnvalda. Heimilt er að víkja frá þessu skilyrði ef áætlanir stjórnvalda ráðast af mikilvægum almannahagsmunum,
     6.      að samkeppnisaðili eigi aðild að ákvarðanatöku stjórnvalda í einstökum málum,
     7.      að þjónustuveitandi verði að vátryggja sig hjá íslensku vátryggingafélagi eða leggja fram tryggingu frá aðila er starfar á Íslandi, sé gerð krafa um að þjónustuveitandi sé vátryggður,
     8.      kröfu um að þjónustuveitandi hafi verið skráður í tiltekinn tíma í skrár á Íslandi eða hafi áður stundað starfsemina í tiltekinn tíma á Íslandi.

IV. KAFLI
Frelsi til að veita þjónustu án staðfestu.
12. gr.
Gildissvið kaflans.

    Ákvæði þessa kafla gilda þegar þjónustuveitandi með staðfestu á EES-svæðinu hyggst veita þjónustu án staðfestu á Íslandi.

13. gr.
Frelsi til að veita þjónustu.

    Þjónustuveitandi með staðfestu í öðru ríki á EES-svæðinu hefur rétt til að veita þjónustu án staðfestu á Íslandi.
    Lögbæru yfirvaldi er einungis heimilt að setja sérstök skilyrði fyrir veitingu þjónustu án staðfestu ef það er nauðsynlegt með vísan til allsherjarreglu, almannaöryggis, lýðheilsu eða umhverfisverndar.
    Óheimilt er að setja skilyrði fyrir þjónustuveitingu án staðfestu sem leiða til beinnar eða óbeinnar mismununar á grundvelli þjóðernis eða staðfestu. Þau skilyrði sem þjónustuveitanda er gert að uppfylla til að mega veita þjónustu án staðfestu á Íslandi skulu ekki vera strangari en nauðsynlegt er til að ná þeim markmiðum sem stefnt er að.
    Óheimilt er að takmarka frelsi til að veita þjónustu án staðfestu með því að setja skilyrði er felur í sér:
     1.      kvöð um starfsstöð á Íslandi,
     2.      kvöð um leyfi frá lögbærum yfirvöldum nema kveðið sé á um undantekningu frá því í lögum þessum eða sérlögum,
     3.      bann við því að setja á fót tiltekna starfsemi sem þjónustuveitandi þarfnast til að geta veitt þjónustu,
     4.      kvöð um sérstakt samningsbundið fyrirkomulag milli þjónustuveitanda og viðtakenda þjónustu sem kemur í veg fyrir eða takmarkar að sjálfstætt starfandi aðili geti veitt þjónustu,
     5.      kvöð um að þjónustuveitandi hafi undir höndum vottorð frá lögbærum yfirvöldum um hæfi til að stunda þjónustustarfsemi,
     6.      kröfur sem hafa áhrif á notkun búnaðar og tækja sem eru óaðskiljanlegur hluti þjónustunnar nema þær séu nauðsynlegar vegna heilbrigðis og öryggis á vinnustað,
     7.      mismunun á grundvelli þjóðernis eða búsetu viðtakanda þjónustu, sbr. 14. gr.
    Ákvæði 1.–4. mgr. hafa ekki áhrif á rétt lögbærs yfirvalds til að beita reglum sem kveðið er á um í kjarasamningum.
    Ráðherra getur kveðið á um almennar undanþágur frá skilyrðum þessarar greinar í reglugerð.

14. gr.
Undanþágur í einstökum tilfellum.

    Þrátt fyrir ákvæði 13. gr. er lögbæru yfirvaldi heimilt í undantekningartilvikum að grípa til sérstakra ráðstafana gagnvart þjónustuveitanda sem hyggst veita þjónustu án staðfestu á Íslandi ef ráðstafanirnar eru til þess að tryggja öryggi þjónustu.
    Lögbæru yfirvaldi er einungis heimilt að grípa til ráðstafana skv. 1. mgr. þessarar greinar að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum:
     1.      það hefur leitað aðstoðar hjá lögbæru yfirvaldi í því ríki þar sem þjónustuveitandi hefur staðfestu, sbr. ákvæði reglna um samvinnu stjórnvalda á EES-svæðinu vegna þjónustuviðskipta, sem ráðherra setur, sbr. 21. gr.,
     2.      viðkomandi ráðstafanir um öryggi þjónustu hafa ekki verið samræmdar á EES-svæðinu,
     3.      ráðstafanirnar kveða á um meiri vernd viðtakenda þjónustu en ráðstafanir sem staðfestuaðildarríkið gerir,
     4.      staðfestuaðildarríkið hefur gripið til ófullnægjandi ráðstafana,
     5.      meðalhófs er gætt.

V. KAFLI
Réttur viðtakenda þjónustu, aðstoð við viðtakendur þjónustu o.fl.
15. gr.
Réttur viðtakenda þjónustu.

    Óheimilt er að mismuna viðtakendum þjónustu á grundvelli þjóðernis eða búsetu og þjónustuveitanda er óheimilt að setja í þjónustuskilmála sína skilyrði er mismuna viðtakendum þjónustu á þeim grundvelli. Í undantekningartilvikum er heimilt að setja mismunandi skilyrði fyrir aðgengi að þjónustu ef mismunurinn er rökstuddur með hlutlægum viðmiðum.

16. gr.
Aðstoð við viðtakendur þjónustu.

    Viðtakendur þjónustu geta fengið eftirfarandi upplýsingar á Íslandi:
     1.      almennar upplýsingar um kröfur sem gilda í öðrum EES-ríkjum um aðgang að þjónustustarfsemi og ástundun hennar, einkum um vernd neytenda,
     2.      almennar upplýsingar um tiltækar leiðir til að leggja fram kvartanir komi upp ágreiningur milli þjónustuveitanda og viðtakanda þjónustu,
     3.      upplýsingar um hvernig unnt er að ná sambandi við samtök eða stofnanir, þ.m.t. evrópsku neytendaaðstoðina, þar sem þjónustuveitendur eða viðtakendur þjónustu geta fengið hagnýta aðstoð.
    Upplýsingarnar skulu vera réttar og uppfærðar og hægt að nálgast þær með rafrænum hætti.

17. gr.
Upplýsingar um þjónustuveitendur.

    Þjónustuveitendur skulu hafa eftirfarandi upplýsingar tiltækar fyrir viðtakendur þjónustu:
     1.      nafn, rekstrarform, heimilisfang og aðrar upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að hafa samband við þjónustuveitanda,
     2.      upplýsingar um skrár sem þjónustuveitandi er skráður í, sem og upplýsingar um skráningarnúmer eða annað auðkenni þjónustuveitanda í skrá,
     3.      upplýsingar um viðeigandi lögbær yfirvöld ef starfsemin er háð leyfum,
     4.      virðisaukanúmer,
     5.      ef lögverndaðar starfsgreinar eiga í hlut, öll fagfélög þar sem þjónustuveitandi er skráður, starfsheiti og EES-ríki þar sem starfsheitið er veitt,
     6.      staðlaða samningsskilmála sem þjónustuveitandi notar, þ.m.t. samningsskilmála er varða lög sem gilda um samninginn og þar til bæra dómstóla,
     7.      tilvist ábyrgðar á þjónustu eftir sölu, umfram lögbundna ábyrgð,
     8.      fyrir fram ákveðið verð,
     9.      helstu þætti þjónustunnar,
     10.      starfsábyrgðartryggingar og ábyrgðir, hvernig hægt er að ná sambandi við vátryggjanda eða ábyrgðarmann og við hvaða svæði tryggingarnar eða ábyrgðirnar eru bundnar.
    Upplýsingar skv. 1. mgr. skulu koma fram í öllum upplýsingaskjölum sem þjónustuveitandi afhendir viðtakanda þjónustu þar sem sett er fram nákvæm lýsing á þjónustunni. Þær skulu einnig vera aðgengilegar viðtakanda þjónustu með rafrænum hætti og þar sem þjónustan er veitt.
    Óski viðtakandi þjónustu eftir því ber þjónustuveitanda að leggja fram eftirfarandi upplýsingar til viðbótar þeim sem um getur í 1. mgr.:
     1.      verð eða þá aðferð sem notuð er til að reikna út verð ef þjónustuveitandi getur ekki gefið verðið upp fyrir fram,
     2.      starfsreglur sem gilda um þjónustuveitanda í staðfestuaðildarríki hans, sé um lögverndaðar starfsgreinar að ræða,
     3.      upplýsingar um þverfaglega starfsemi og samstarf þjónustuveitanda sem tengist viðkomandi þjónustu og til hvaða ráðstafana hefur verið gripið til að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra,
     4.      allar siðareglur starfsstétta sem þjónustuveitandi er bundinn af, hvar þær er að finna með rafrænum hætti og á hvaða tungumáli þær eru tiltækar,
     5.      upplýsingar um þær einkaréttarlegu úrlausnarleiðir í ágreiningsmálum sem tiltækar eru, hvað einkenni slíkar leiðir og hver séu skilyrði þess að nota slíkar aðferðir.
    Upplýsingarnar sem kveðið er á um í þessari grein skulu liggja fyrir með skýrum hætti áður en samningur er gerður. Ef ekki er um formlegan samning að ræða skulu þær liggja fyrir innan hæfilegs tíma áður en þjónusta er veitt.
    Þjónustuveitandi skal svara beiðni viðtakanda þjónustu um upplýsingar eða kvörtun svo fljótt sem auðið er og leggja sig fram um að finna fullnægjandi lausn fyrir viðtakanda þjónustu.

18. gr.
Vátryggingar.

    Óheimilt er að krefjast þess að þjónustuveitandi afli sér starfsábyrgðartryggingar eða annars konar ábyrgðar á Íslandi ef þjónustuveitandi er þegar með ábyrgð eða vátryggingu gefna út af lánastofnun eða vátryggjanda sem hefur starfsleyfi í öðru EES-ríki og hefur heimild til að veita þjónustu hér á landi, ef vátryggingin er jafngild eða í meginatriðum sambærileg við þá tryggingu sem krafist er. Ef tryggingin eða ábyrgðin er aðeins sambærileg að hluta er heimilt að krefjast viðbótartryggingar vegna þeirra þátta sem falla ekki undir fyrirliggjandi tryggingu.

19. gr.
Markaðssetning lögverndaðra starfsgreina.

    Allsherjarbann við markaðssetningu þeirra lögvernduðu starfsstétta er falla undir gildissvið laga þessara er óheimilt. Þó er heimilt að kveða á um bann við markaðssetningu lögverndaðra starfsstétta vegna brýnna almannahagsmuna svo fremi að gætt sé jafnræðis og meðalhófs.

20. gr.
Þverfagleg starfsemi.

    Þjónustuveitandi hefur rétt á að stunda þverfaglega starfsemi sjálfur og í samstarfi við aðra. Í slíkum tilfellum skal tryggt að komið sé í veg fyrir hagsmunaárekstra, að ekki leiki vafi á sjálfstæði og óhlutdrægni hverrar starfsemi fyrir sig og að reglur viðeigandi starfsstétta stangist ekki á, sérstaklega hvað varðar þagnarskyldu.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er heimilt að takmarka þverfaglega starfsemi:
     1.      lögverndaðra starfsstétta, til að tryggja að farið sé eftir siðareglum starfsstétta og til að tryggja sjálfstæði og óhlutdrægni,
     2.      þjónustuveitenda sem veita þjónustu á sviði vottunar, faggildingar, tæknilegs eftirlits, prófana eða tilrauna, til að tryggja sjálfstæði þeirra og óhlutdrægni.

VI. KAFLI
Samvinna á sviði stjórnsýslu.
21. gr.
Vinnsla og miðlun upplýsinga.

    Íslensk stjórnvöld skulu eiga samstarf við stjórnvöld annarra EES-ríkja um eftirlit með þjónustuveitendum og miðlun upplýsinga sem nauðsynlegar eru til að tryggja frjálst flæði þjónustu.
    Stjórnvöld er hafa með höndum leyfisveitingar eða eftirlit með þjónustuveitendum hafa heimild til að miðla nauðsynlegum upplýsingum í gegnum sérstakt evrópskt upplýsingakerfi. Með sama hætti er stjórnvöldum heimilt að taka við upplýsingum úr slíku kerfi og varðveita þær í skrá. Miðlun með öðrum hætti er óheimil.
    Ráðherra getur sett nánari reglur um samvinnu stjórnvalda á EES-svæðinu vegna þjónustuviðskipta.

VII. KAFLI
Innleiðing og gildistaka.
22. gr.
Innleiðing.

    Með lögum þessum eru innleidd efnisákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2006/ 123/EB um þjónustu á innri markaðnum eins og hún var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 45/2009 frá 9. júní 2009.

23. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið í þeim tilgangi að innleiða í íslenskan rétt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/123/EB frá 12. desember 2006, hér eftir nefnd þjónustutilskipunin eða tilskipunin. Þjónustutilskipunin var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 45/2009 frá 9. júní 2009. Frumvarp þetta var lagt fram á 138. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu og er því lagt fram að nýju. Frumvarpið er að mestu óbreytt en þó hafa verið gerðar nokkrar breytingar í samræmi við þær athugasemdir sem bárust þegar frumvarpið var fyrst lagt fram. Eru breytingarnar raktar stuttlega síðar í almennum athugasemdum.
    Hér á eftir er forsaga og efni tilskipunarinnar rakið en frumvarpið er unnið upp úr ákvæðum hennar. Tilskipunin er það umfangsmikil að efni að ekki var talið mögulegt að innleiða hana með öðrum hætti en að færa meginefni hennar í lög. Er það einnig í samræmi við það sem gert hefur verið í flestum EES-löndunum, þ.m.t. Noregi, Svíþjóð og Danmörku.
    Efni frumvarpsins snertir bæði stjórnsýslu, þjónustuveitendur og neytendur og var frumvarpið sent öllum helstu hagsmunaaðilum til umsagnar áður en það var lagt fyrir ríkisstjórn.

Þjónustutilskipunin.
Forsaga.
    Tillaga að þjónustutilskipun var fyrst lögð fram í janúar 2004 með það að markmiði að greiða fyrir og auka þjónustuviðskipti milli landa. Ástæðan var sú að þrátt fyrir ákvæði um innri markað voru ennþá töluverðar hindranir á frjálsu flæði þjónustu sem komu niður bæði á þjónustuveitendum og neytendum. Tillagan var afar umdeild pólitískt, sér í lagi vegna ákvæða um heilbrigðisþjónustu og vinnurétt sem voru upphaflega hluti af tillögunni. Hin svokallaða upprunalandsregla var einnig afar umdeild og óttast var að hún fæli í sér félagsleg undirboð en samkvæmt henni giltu um þjónustuveitanda reglur þess lands þar sem hann var með staðfestu en ekki þar sem þjónustan var veitt. Í ljósi þeirrar miklu gagnrýni sem tillagan hlaut lagði framkvæmdastjórnin fram nýja tillögu þar sem tekin voru út ákvæði um heilbrigðisþjónustu og vinnurétt og verulegar breytingar gerðar á upprunalandsreglunni og var sú tillaga samþykkt í desember 2006.
    Tilskipunin fékk töluverða athygli í Noregi og gerðu Norðmenn ýtarlegar úttektir á hinum ýmsu afleiðingum tilskipunarinnar. Að lokum náðist þó samstaða um hana og var hún eins og áður segir tekin upp í EES-samninginn 9. júní 2009.

Tilgangur.
    Tilgangur þjónustutilskipunarinnar er að koma á raunverulegum innri markaði á sviði þjónustuviðskipta með því að fjarlægja lagalegar og stjórnsýslulegar hindranir svo að þjónustuveitendur og viðtakendur þjónustu eigi auðveldara með að veita og nýta sér þjónustu yfir landamæri. Tilskipunin á að tryggja þjónustuveitendum þau grundvallarréttindi sem kveðið er á um í 32. gr. og 36. gr. EES-samningsins og innri markaðurinn byggist á, þ.e. staðfestufrelsi og frelsi til að veita þjónustu. Með afnámi hindrana verður auðveldara fyrir þjónustuveitendur að veita þjónustu án staðfestu sem jafnframt eykur samkeppni og leiðir því til hagræðis fyrir viðtakendur þjónustu í formi lægra verðs og meiri gæða.

Gildissvið.
    Tilskipunin er rammatilskipun sem reglusetur og útfærir gildandi EES-rétt á sviði þjónustuveitingar, bæði almennt og á sérstökum sviðum, en ákvæði þjónustutilskipunarinnar víkja fyrir ákvæðum annarra tilskipana EES-réttar. Lög þessi eru því almenn lög sem víkja fyrir sérlögum er byggjast á ákvæðum tilskipana EES. Eins og áður hefur komið fram var tilskipuninni upprunalega ætlað að ná yfir nánast öll svið þjónustu en um það náðist ekki samstaða innan Evrópusambandsins. Margs konar þjónustusvið eru því undanskilin gildissviði tilskipunarinnar og laganna eins og fram kemur í 2. gr. frumvarpsins.

Staðfesturéttur og frelsi til að veita þjónustu án staðfestu.
    Í tilskipuninni er gerður greinarmunur annars vegar á staðfesturétti (9.–15. gr. tilskipunarinnar) og hins vegar því þegar þjónusta er veitt án staðfestu (16.–21. gr. tilskipunarinnar). Að auki eru svo almennar reglur sem gilda óháð því hvort þjónustuveitandi hyggst vera með staðfestu í aðildarríki eða veita þjónustu án staðfestu. Þessi greinarmunur er einnig gerður í frumvarpinu þar sem III. kafli gildir þegar þjónustuveitendur hyggjast hafa staðfestu á Íslandi, IV. kafli fjallar um þjónustuveitendur sem vilja veita þjónustu án staðfestu á Íslandi en aðrir kaflar frumvarpsins gilda í báðum tilvikum.
    Eins og áður hefur komið fram byggðist upphaflega tillagan á því að um alla þjónustu á gildissviði tilskipunarinnar mundi gilda fyrrgreind upprunalandsregla en sú ætlun olli töluverðum deilum. Málamiðlunin var því sú að láta upprunalandsregluna einungis gilda þegar þjónusta er veitt án staðfestu og er það ástæða fyrrgreindrar kaflaskiptingar.

Einföldun leyfisferla og yfirferð yfir löggjöf.
    Samkvæmt ákvæðum tilskipunarinnar er gerð krafa um að aðildarríkin yfirfari öll leyfisferli og einfaldi eins og kostur er en einföldun ferla kemur sér ekki einungis vel fyrir þjónustuveitendur heldur er til þess fallin að minnka álag og útgjöld stjórnvalda. Horfa verður til þess hvort gögn sem farið er fram á að þjónustuveitandi leggi fram séu nauðsynleg, hvort þjónustuveitandi þarf nauðsynlega að leggja þau fram sjálfur eða hvort stjórnvald getur nálgast þau t.d. frá öðru stjórnvaldi. Samkvæmt tilskipuninni er stjórnvaldi einnig óheimilt að krefjast frumrits, staðfests endurrits eða að löggild þýðing fylgi skjali nema brýnir almannahagsmunir krefjist þess eða önnur EES-löggjöf. Leiki vafi á því hvort skjal sé ófalsað ætti að vera auðvelt að nálgast þær upplýsingar með samvinnu milli ríkja en tilskipunin hefur að geyma sérstök ákvæði um slíka samvinnu eins og nánar er komið að síðar. Ríki verða einnig að samþykkja skjöl frá öðrum aðildarríkjum sem augljóslega þjóna sama tilgangi og það sem beðið er um eða þar sem skýrt kemur fram að viðeigandi skilyrði hafi verið uppfyllt.
    Í tilskipuninni eru einnig ákvæði um skilyrði sem óheimilt er að setja fyrir veitingu þjónustu. Ráðuneytin fengu því hvert og eitt það hlutverk að fara yfir leyfisferli og löggjöf á sínu sviði til að einfalda leyfisferli og afmá skilyrði sem ekki samrýmast ákvæðum tilskipunarinnar. Samband íslenskra sveitarfélaga aðstoðaði sveitarfélög við að gera slíkt hið sama. Niðurstöðu þeirrar vinnu er að finna í frumvarpi til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna þjónustuviðskipta á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins sem lagt er fram samhliða frumvarpi þessu. Nánar er fjallað um það frumvarp í almennum athugasemdum hér á eftir.

Rafræn málsmeðferð.
    Samkvæmt ákvæðum tilskipunarinnar verða þjónustuveitendur að geta sótt um leyfi til að stunda starfsemi sína á Íslandi með rafrænum hætti og fengið svör frá lögbærum yfirvöldum með rafrænum hætti. Af þeim sökum hefur forsætisráðuneytið ásamt efnahags- og viðskiptaráðuneytinu unnið að uppsetningu vefsvæðis (upplýsinga- og þjónustuveitu) þar sem þjónustuveitendur eiga að geta sótt um viðeigandi leyfi með rafrænum hætti.

Viðtakendur þjónustu.
    Í tilskipuninni eru ákvæði sem lúta að réttindum viðtakenda þjónustu og er m.a. ætlað að auka upplýsingar og gagnsæi varðandi þjónustuveitendur og þjónustu þeirra. Ákvæðin leggja ákveðnar skyldur á þjónustuveitendur, t.d. um að hafa tilteknar upplýsingar aðgengilegar fyrir neytendur sem og kvaðir á aðildarríkin um að breyta löggjöf á ákveðnum sviðum.

Samvinna stjórnvalda.
    Til að markmið tilskipunarinnar um aukið flæði þjónustu með afnámi hindrana og einföldun ferla náist er afar mikilvægt að aðildarríkin eigi með sér gott samstarf. Á vegum Evrópusambandsins hefur því verið komið upp sérstöku evrópsku upplýsingakerfi (Internal Market Information system) sem ætlað er að auðvelda lögbærum yfirvöldum ólíkra landa að hafa samskipti sín á milli. Samvinna stjórnvalda er einnig afar mikilvæg til að tryggja nægjanlegt eftirlit með þjónustuveitendum.

Um fyrirvara Íslands við upptöku tilskipunarinnar í EES-samninginn.
    Þegar tilskipun 2006/123/EB, um þjónustu á innri markaðnum, svonefnd þjónustutilskipun, var til umfjöllunar í ríkisstjórn var samþykkt sérstök yfirlýsing, að frumkvæði Ögmundar Jónassonar þáverandi heilbrigðisráðherra, er hljóðar svo:
    „Við upptöku þjónustutilskipunarinnar (2006/123/EB) í EES-samninginn er minnt á af hálfu Íslands að tilskipunin hefur m.a. ekki áhrif á ráðningarskilmála og -skilyrði, samskipti milli aðila vinnumarkaðarins, réttinn til þess að semja um og ganga frá kjarasamningum og grundvallarréttindi, svo sem verkfallsréttinn og réttinn til að grípa til aðgerða á vinnustað. Þjónustutilskipunin hefur ekki áhrif á vinnulöggjöf eða þríhliða samvinnu verkalýðsfélaga, vinnuveitenda og stjórnvalda. Af Íslands hálfu er lögð áhersla á að hin víðtæka samstaða meðal Íslendinga um að gera áætlanir um aðgerðir, svo og viðeigandi ráðstafanir, sem miða að því að standa vörð um réttindi innlendra og útlendra starfsmanna og góðan aðbúnað á vinnustöðum, stríði ekki gegn þjónustutilskipuninni. Þær ráðstafanir geta m.a. náð yfir skilvirkt kerfi um almenna beitingu kjarasamninga og innleiðingu sameiginlegrar ábyrgðar verktaka og undirverktaka til þess að tryggja að réttindi vinnandi fólks séu virt. Af Íslands hálfu er lögð áhersla á að það verði áfram á valdsviði innlendra yfirvalda - á öllum stigum stjórnsýslunnar, ríkisvalds og sveitarstjórna – að ákvarða í hvaða mæli hið opinbera skuli veita þjónustu, hvernig hún skuli skipulögð og fjármögnuð og hvaða sérstöku kvaðir skuli gilda um slíka opinbera þjónustu.“
    Vegna fyrirvarans er gildissviðsákvæði frumvarpsins nú mjög ítarlegt, mun ítarlegra en t.d. sambærileg ákvæði norskra og danskra laga. Má í því sambandi benda á eftirfarandi töluliði í 4. mgr. 2. gr. frumvarpsins þar sem segir að reglur laganna gildi ekki um:
    1. tölul. – markaðsvæðingu þjónustu í almannaþágu sem hefur almenna efnahagslega þýðingu, hvort sem hún er í höndum opinberra aðila eða einkaaðila, né einkavæðingu opinberra aðila sem veita þjónustu,
    2. tölul. – afnám einkaréttar á sviði þjónustustarfsemi,
    4. tölul. – rétt stjórnvalda til að skilgreina, í samræmi við EES-reglur, hvað telst vera þjónusta í almannaþágu sem hefur almenna efnahagslega þýðingu
    5. tölul. – skipulag og fjármögnun þjónustu í almannaþágu sem hefur almenna efnahagslega þýðingu, í samræmi við EES-reglur um ríkisaðstoð, eða hvað sérstöku skyldur felast í slíkri þjónustu,
    8. tölul. – vinnurétt, þ.e. lagaleg eða samningsbundin ákvæði um ráðningarskilmála, vinnuskilyrði, heilbrigði og öryggi á vinnustað, tengsl milli vinnuveitanda og starfsmanna, réttindi og skyldur launafólks sem starfa á Íslandi í lengri eða skemmri tíma, eða almannatryggingalöggjöf,
    9. tölul. – nýtingu grundvallarréttinda, né réttinn til að semja um, ganga frá og framfylgja kjarasamningum eða grípa til aðgerða á vinnustað í samræmi við landslög og venju er samræmist EES-reglum,
    10. tölul. – rétt stjórnvalda til að ákveða hvort að um er að ræða ráðningarsamband milli vinnuveitanda og launþega eða verktöku, og beita í því sambandi viðeigandi íslenskum lögum og kjarasamningum.
    Til samanburðar má nefna að það eina sem segir um vinnurétt í norsku lögunum er að lögin gildi ekki um: „arbeidsretten, herunder retten til å forhandle og inngå tariffavtaler, og retten til arbeidskamp“ og um almannaþjónustu: „loven griper ikke inn i organisering og finansiering av offentlige tjenester, herunder plikter knyttet til utøvelse av disse“.

Um hugtökin „þjónusta í almannaþágu sem er ekki af efnahagslegum toga“ og „þjónusta í almannaþágu sem hefur almenna efnahagslega þýðingu“.
    Í þjónustutilskipuninni er að finna hugtökin „non-economic services of general interest“ (NESGI) og „services of general economic interest“ (SGEI). Þessi hugtök eru í raun tvískipting á hugtakinu „services of general interest“(SGI) sem í daglegu tali mætti kalla „almannaþjónustu“ á íslensku.
    Fyrra hugtakið er í þessu frumvarpi þýtt sem „þjónusta í almannaþágu sem er ekki af efnahagslegum toga“. Þetta hugtak er samtvinnað þjónustuhugtakinu eins og það er skilgreint í 37. gr. EES-samningsins, sbr. lög nr. 2/1993, en þar segir: „Með þjónustu er í samningi þessum átt við þjónustu sem að jafnaði er veitt gegn þóknun ...“ Af þessu leiðir að til þess að falla undir hugtakið þjónusta verður þjónustan að vera af efnahagslegum toga. Hvort þjónusta telst af efnahagslegum toga verður að meta í hvert skipti fyrir sig og vert að hafa í huga að þjónusta er ekki sjálfkrafa ekki af efnahagslegum toga fyrir það eitt að hún er veitt af ríkinu, ríkisstofnun eða stofnun sem ekki er rekin í hagnaðarskyni. Í ljósi framangreinds telst „þjónusta í almannaþágu sem ekki er af efnahagslegum toga“ ekki þjónusta samkvæmt skilgreiningu 37. gr. EES-samningsins, sbr. lög nr. 2/1993, og fellur því ekki undir gildissvið ákvæða frumvarpsins líkt og fram kemur í 1. tölul. 3. gr.
    Frumvarpið, verði það að lögum, mun því ekki hafa áhrif á þjónustu í almannaþágu sem er ekki af efnahagslegum toga.
    Hugtakið „þjónusta í almannaþágu sem er ekki af efnahagslegum toga“ hefur hvorki verið skilgreint í Evrópurétti né íslenskum rétti. Í handbók sem fylgdi þjónustutilskipuninni segir að meta verði í hverju tilfelli fyrir sig, í ljósi dóma Evrópudómstólsins, hvort þjónusta telst af efnahagslegum toga eða ekki. Dómstólinn hefur þó ekki þróað skilgreiningu á hugtakinu en við skilgreiningu þess ber að horfa til fyrirvara Íslands við tilskipunina, sem getið er að framan.
    Við matið á því hvort að þjónusta er „efnahagsleg“ má líta til þess hvernig hún er fjármögnuð. Þar skiptir hugtakið „þóknun“ töluverðu máli en Evrópudómstólinn hefur komist að þeirri niðurstöðu að einkenni þóknunar sé að hún teljist vera endurgjald fyrir þá þjónustu sem um ræðir. Þá hefur dómstólinn sagt að þjónusta sé ekki efnahagsleg ef hún er fjármögnuð af hinu opinbera en ekki neytendum. Sem dæmi um þetta má nefna að dómstólinn hefur úrskurðað að sú þjónusta sem veitt er í opinbera menntakerfinu sé ekki þjónusta í skilningi sáttmálans, jafnvel þó að nemendur greiði ákveðin gjöld, svo fremi að gjöldin standi ekki undir meginfjármögnun þjónustuveitandans.
    Seinna hugtakið er í þessu frumvarpi þýtt sem „þjónusta í almannaþágu sem hefur almenna efnahagslega þýðingu“. Þetta hugtak kemur fyrir í 2. mgr. 59. gr. EES-samningsins en þar er talað um „þjónustu sem hefur almenna efnahagslega þýðingu“. Hér er lagt til að inn í hugtakið verði skotið orðunum „í almannaþágu“ til að útskýra betur hvað átt er við. Í 1., 4. og 5. tölul. 4. mgr. 2. gr. frumvarpsins er tekið fram að frumvarpið fjalli ekki um markaðsvæðingu, afnám einkaréttar, réttinn til að skilgreina eða skipulag og fjármögnun þjónustu í almannaþágu sem hefur almenna efnahagslega þýðingu. Líkt og fyrra hugtakið hefur þjónusta í almannaþágu sem hefur almenna efnahagslega þýðingu hvorki verið skilgreint í Evrópurétti né íslenskum rétti. Að sama skapi hefur Evrópudómstólinn ekki þróað skilgreiningu á hugtakinu, heldur eingöngu tekið afstöðu til þess í einstökum málum, en við túlkun hugtaksins ber að horfa til fyrirvara Íslands við tilskipunina, sem getið er að framan.
    Í nýlegu vinnuskjali framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, frá 7. desember 2010, er að finna leiðbeiningar um beitingu Evrópureglna um ríkisaðstoð, opinber innkaup og innri markaðinn, gagnvart þjónustu í almannaþágu sem hefur almenna efnahagslega þýðingu. Þar bendir framkvæmdastjórnin á að gildissvið og skipulag þjónustu í almannaþágu sem hefur almenna efnahagslega þýðingu sé mjög mismunandi eftir ríkjum. Sú þjónusta sem undir hugtakið falli sé því mjög fjölbreytt og ráðist af sögulegum, landfræðilegum, félagslegum og menningarlegum þáttum. Það sé því ekki á forræði framkvæmdastjórnarinnar að skilgreina hvað teljist vera þjónusta í almannaþágu sem hefur almenna efnahagslega þýðingu heldur sé það á forræði ríkjanna sjálfra að skilgreina eðli og gildissvið slíkrar þjónustu.
    Í ljósi þess sem að framan greinir er þjónusta í almannaþágu sem hefur almenna efnahagslega þýðingu veitt gegn þóknun eða endurgjaldi. Þjónustan hefur því einhvers konar efnahagslegan tilgang en er engu að síður þjónusta sem stjórnvöld telja nauðsynlega í samfélagslegu tilliti óháð því hvort það er nægur hvati til staðar fyrir aðila á frjálsum markaði til að veita slíka þjónustu.
    Framangreind hugtök hafa eins og áður segir ekki verið skilgreind í íslenskum lögum og í þessu frumvarpi er ekki að finna skilgreiningu á þeim. Skilgreining þeirra er alls ekki óumdeild í Evrópu og er í raun í stöðugri þróun. Því verður að telja að ef nauðsynlegt þykir að skilgreina þau í íslenskum lögum fari betur á því að það sé gert í lögum á sviði almannaþjónustu.

Frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna þjónustuviðskipta á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins.
    Samhliða frumvarpi þessu er lagt fram frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna þjónustuviðskipta á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins. Eins og fyrr segir gerir þjónustutilskipunin þær kröfur að ríkin yfirfari löggjöf og einfaldi til samræmis við ákvæði tilskipunarinnar. Hvert og eitt ráðuneytið fór því yfir löggjöf á sínu sviði og Samband íslenskra sveitarfélaga aðstoðaði sveitarfélögin við að gera slíkt hið sama. Niðurstöðurnar er að finna í umræddu frumvarpi en þar eru lagðar til eftirfarandi breytingar:
    Lagt er til að lögum nr. 85/2007, um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, verði breytt þannig að skilyrðið sem kveður á um að búseta á Íslandi sé forsenda rekstrarleyfis samkvæmt lögunum gildi ekki um ríkisborgara og lögaðila innan EES, aðildarríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyinga. Lagt er til að sams konar breytingar verði gerðar á lögum nr. 28/1998, um verslunaratvinnu, lögum nr. 145/1994, um bókhald, og lögum nr. 64/2000, um bílaleigur. Að sama skapi er lögheimilisskilyrði fellt niður í lögum nr. 36/1994, um húsaleigu.
    Með breytingum á lögum nr. 28/1998, um verslunaratvinnu, er lagt til að efnahags- og viðskiptaráðherra sé heimilt að ákveða að heimild til að veita leyfi til sölu notaðra ökutækja og leyfi til uppboðsstjóra, verði á hendi eins sýslumanns í stað þess að hver og einn sýslumaður veiti leyfi í sínu umdæmi.
    Í lögum nr. 28/1998, um verslunaratvinnu, lögum nr. 79/2008, um endurskoðendur, og lögum nr. 64/2000, um bílaleigur, er lagt til að orðalagi hvað varðar starfsábyrgðartryggingar verði breytt og allur vafi tekin af um það að heimilt er að taka starfsábyrgðartryggingu hjá öðrum vátryggingarfélögum en íslenskum, hafi umrædd félög öðlast heimild til að veita þjónustu hér á landi samkvæmt lögum nr. 60/1994, um vátryggingarstarfsemi.
    Lagt er til að tímabinding leyfa til sölu notaðra ökutækja, samkvæmt lögum nr. 28/1998, um verslunaratvinnu, verði felld niður, en þau eru nú veitt til fimm ára í senn, sem og tímabinding leyfa vegna löggildingar rafverktaka samkvæmt lögum nr. 146/1996, um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga.

Breytingar á frumvarpinu frá fyrri framlagningu.
    Eins og áður sagði hafa verið gerðar nokkrar breytingar á frumvarpinu frá því að það var lagt fram á 138. löggjafarþingi og eru breytingarnar gerðar til að koma til móts við athugasemdir sem viðskiptanefnd Alþingis bárust þegar frumvarpið var þar til umfjöllunar. Verður nú farið stuttlega yfir þær breytingar sem gerðar hafa verið.
    Við ákvæði 1. gr. frumvarpsins er því bætt að tilgangur laganna sé jafnframt að viðhalda hágæðaþjónustu og er það í samræmi við tilgang tilskipunarinnar, sbr. 1. mgr. 1. gr. hennar. Þá hafa þær breytingar verið gerðar á 8. tölul. 2. mgr. 2. gr. frumvarpsins að nánar er skilgreint hvað átt sé við með hugtakinu fjárhættuspil.
    Nokkrar breytingar eru gerðar 4. mgr. 2. gr. laganna þar sem fjallað er um atriði sem lögin taka ekki til. Vísast hér til 8. og 9. tölul. ásamt því að nýjum lið, 10. tölul., er bætt við greinina. Er breytingunum ætlað að kveða enn skýrar á um að reglur frumvarpsins hafi ekki áhrif á vinnurétt eða nýtingu grundvallarréttinda og eru töluliðirnir nú nær samhljóða fyrirmyndum í tilskipuninni. Í nýjum 10. tölul. er kveðið á um að frumvarpið haggi ekki rétti stjórnvalda til að ákvarða hvort um sé að ræða ráðningarsamband milli vinnuveitanda og launþega eða verktöku, og beita í því sambandi viðeigandi íslenskum lögum og kjarasamningum. Er hér tekið upp mikilvægt atriði sem fram kemur í inngangsorðum tilskipunarinnar.
    Lítils háttar breyting er gerð á heiti 5. gr. frumvarpsins til frekari skýringar á því um hvað greinin fjallar og nýjum tölulið hefur verið bætt við 1. mgr. 6. gr. þar sem kveðið er á um að þjónustuveitendur og viðtakendur eigi að geta nálgast með rafrænum hætti upplýsingar um kjarasamninga sem og aðrar upplýsingar um réttindi og skyldur á íslenskum vinnumarkaði. Þá er því bætt við 6. mgr. 10. gr. að við höfnun á leyfisumsókn skuli einnig tilgreina tiltækar kæruleiðir. Að endingu eru svo gerðar lítils háttar breytingar á orðalagi 7. tölul. 1. mgr. 11. gr. til að taka af öll tvímæli um það að heimilt sé að krefjast þess að þjónustuveitandi sé með ákveðnar tryggingar, sem og 2. mgr. 14. gr. til að það sé alveg skýrt að öll skilyrði sem talin eru upp í 2. mgr. þurfi að vera uppfyllt svo að lögbæru yfirvaldi sé heimilt að grípa til umræddra ráðstafana. Að auki hefur umfjöllun í athugasemdum við frumvarpið um ýmis atriði verið aukin.

Um reglugerðarheimild 2. gr. frumvarpsins.
    Rétt er að geta þess að skv. 5. mgr. 2. gr. er ráðherra heimilt að kveða nánar á um gildissvið laganna í reglugerð. Er því hér um ákveðið framsal löggjafarvalds að ræða. Ástæða þessa ákvæðis er sú að í þjónustutilskipuninni er sérstaklega tekið fram að hún gildi ekki um ákveðnar gerðir sem teknar hafa verið upp í EES-samninginn líkt og kemur fram í athugasemdum við 3. tölul. 3. mgr. 2. gr. frumvarpsins. Slíkar upptalningar, sem í raun eru frekari útskýringar á gildissviði laganna, er skýrara að hafa í reglugerð heldur en lögunum sjálfum. Komi til breytinga á þessum upptalningum er það einnig til hagræðis fyrir Alþingi og stjórnsýslu að hægt sé að breyta þeirri upptalningu með reglugerð. Þessi heimild hefur það hins vegar að sjálfsögðu ekki í för með sér að ráðherra geti með neinum hætti hróflað við gildissviðinu eins og það er tiltekið í lögunum sjálfum.


Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í 1. gr. frumvarpsins er gerð grein fyrir markmiðum laganna en þau eru að greiða fyrir frjálsum þjónustuviðskiptum og tryggja jafnræði þeirra sem veita þjónustu innan Evrópska efnahagssvæðisins en viðhalda jafnframt hágæðaþjónustu. Evrópusambandið komst að þeirri niðurstöðu að þrátt fyrir ákvæði stofnsáttmála Evrópusambandsins og EES-samningsins um innri markað væru ennþá töluverðar hindranir á frjálsu flæði þjónustu milli ríkja innan EES og réðst því í gerð þjónustutilskipunarinnar með fyrrgreind markmið í huga. Með greininni er 1. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar innleidd.

Um 2. gr.


    Ákvæðið skilgreinir gildissvið laganna en í 1. mgr. segir að lögin gildi um alla þjónustu sem ekki er sérstaklega undanskilin gildissviði þeirra. Eins og rakið er í almennum athugasemdum var þjónustutilskipuninni í upphafi ætlað mjög víðtækt gildissvið en fyrir því var ekki hljómgrunnur innan Evrópusambandsins og því eru þónokkur þjónustusvið undanskilin gildissviði hennar.
    Í 2. mgr. eru talin upp þau þjónustusvið sem eru undanskilin gildissviði laganna en þau eru þónokkur. Ákvæði 2. mgr. innleiðir 2. mgr. 2. gr. þjónustutilskipunarinnar.
    Samkvæmt 1. tölul. 2. mgr. gilda lögin ekki um þjónustu í almannaþágu sem ekki er af efnahagslegum toga. Þetta hugtak er samtvinnað þjónustuhugtakinu eins og það er skilgreint í 37. gr. EES-samningsins, sbr. lög nr. 2/1993, en þar segir: „Með þjónustu er í samningi þessum átt við þjónustu sem að jafnaði er veitt gegn þóknun ...“ Af þessu leiðir að til þess að falla undir hugtakið þjónusta verður þjónustan að vera af efnahagslegum toga. Hvort þjónusta telst vera af efnahagslegum toga verður að meta í hvert skipti fyrir sig og vert að hafa í huga að þjónusta er ekki sjálfkrafa ekki af efnahagslegum toga fyrir það eitt að hún er veitt af ríkinu, ríkisstofnun eða stofnun sem er ekki rekin í hagnaðarskyni. Í ljósi framangreinds telst þjónusta í almannaþágu sem er ekki af efnahagslegum toga ekki þjónusta samkvæmt skilgreiningu 37. gr. EES-samningsins, sbr. lög nr. 2/1993, og fellur því ekki undir gildissvið laganna.
    Fjármálaþjónusta er undanskilin gildissviði laganna skv. 2. tölul. 2. mgr. en með fjármálaþjónustu er m.a. átt við hvers konar bankaþjónustu, útlánaþjónustu, þjónustu skuldabréfa- og fjárfestingarsjóða sem og þjónustu á sviði trygginga og lífeyris.
    Með 3. tölul. 2. mgr. er rafræn fjarskiptaþjónusta og fjarskiptanet sem og aðstaða og þjónusta því tengd undanskilin gildissviði laganna. Er hér átt við málefni sem tekin eru fyrir í (a) tilskipun 2002/19/EB um aðgang að rafrænum fjarskiptanetum og samtengingu þeirra og tilheyrandi afstöðu, (b) tilskipun 2002/20/EB um heimild fyrir rafrænum fjarskiptanetum og þjónustu, (c) tilskipun 2002/21/EB um lágmarkssamstæðu leigulína með samhæfða eiginleika og tilheyrandi staðla sem um getur í 18. gr. tilskipunar um alþjónustu, (d) tilskipun 2002/22/EB um alþjónustu og réttindi notenda að því er varðar rafræn fjarskiptanet og þjónustu og (e) tilskipun 2002/58/EB um vinnslu persónuupplýsinga og vernd einkalífs á sviði rafrænna fjarskipta eins og þær eru innleiddar með lögum nr. 81/2003, um fjarskipti.
    Samkvæmt 4. tölul. 2. mgr. er þjónusta á sviði flutninga og tengd starfsemi, sem fellur undir 6. kafla III. hluta EES-samningsins, sbr. lög nr. 2/1993, undanskilin gildissviði laganna. Með því er átt við þjónustu er snýr að flutningum með flugi, sjóflutninga, þ.m.t. þjónustu hafna, og landflutninga, líkt og t.d. þjónustu strætisvagna, leigubifreiða og sjúkrabíla. Undanþágan gildir hins vegar ekki um t.d. þjónustu ökuskóla, þjónustu vegna búslóðaflutninga, bílaleigur, útfararþjónustu eða myndatökur úr lofti. Starfsemi verslana eða veitingastaða í höfnum eða flugvöllum er ekki heldur undanskilin gildissviði laganna.
    Með 5. tölul. 2. mgr. eru starfsmannaleigur undanþegnar gildissviði laganna. Undanþágan gildir hins vegar ekki um vinnumiðlanir eða ráðningarskrifstofur.
    Heilbrigðisþjónusta er undanskilin gildissviði laganna skv. 6. tölul. 2. mgr. Hugtakið er ekki skilgreint í frumvarpinu en við skilgreiningu þess ber að horfa til fyrirvara Íslands við tilskipunina, sem getið er að framan. Hugtakið heilbrigðisþjónusta er þó skilgreint í lögum nr. 40/2007, um heilbrigðisþjónustu, og hægt að hafa þá skilgreiningu til hliðsjónar. Í 1. tölul. 1. mgr. 4. gr. laganna er hugtakið skilgreint þannig: „ Heilbrigðisþjónusta: Hvers kyns heilsugæsla, lækningar, hjúkrun, almenn og sérhæfð sjúkrahúsþjónusta, sjúkraflutningar, hjálpartækjaþjónusta og þjónusta heilbrigðisstarfsmanna innan og utan heilbrigðisstofnana sem veitt er í því skyni að efla heilbrigði, fyrirbyggja, greina eða meðhöndla sjúkdóma og endurhæfa sjúklinga.“

    Samkvæmt 7. tölul. 2. mgr. er hljóð- og myndmiðlunarþjónusta undanskilin gildissviði laganna. Með þessu er t.d. átt við útsendingu í sjónvarpi, kvikmyndahúsum og útvarpi. Undanþágan á hins vegar ekki við þjónustu sem tengist hljóð- og myndmiðlunarþjónustu óbeint líkt og þjónustu auglýsingastofa eða sölu matar og drykkjar í kvikmyndahúsum.
    Í 8. tölul. 2. mgr. er kveðið á um að fjárhættuspil falli utan gildissviðs laganna en með fjárhættuspili er átt við hvers konar spil eða leik er ræðst af hluta eða öllu leyti af heppni og felur í sér fjárhagslegan ávinning.
    Með 9. tölul. 2. mgr. er starfsemi í tengslum við meðferð opinbers valds undanskilin gildissviði laganna og er það í samræmi við 32. gr. EES-samningsins, sbr. lög nr. 2/1993.
    Félagsþjónusta er undanskilin gildissviði laganna skv. 10. tölul. 2. mgr. Hugtakið félagsþjónusta er ekki skilgreint í frumvarpinu, en í 2. gr. laga nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga, að finna skilgreiningu á því hvað sé félagsþjónusta, samkvæmt þeim lögum. Þá skilgreiningu er, að breyttu breytanda, hægt að hafa til hliðsjónar þegar metið er hvað telst félagsþjónusta, þótt að ekki sé rétt að einskorða félagsþjónustu við það sem þar segir. Ákvæði 2. gr. umræddra laga hljóðar svo: „Með félagsþjónustu er í lögum þessum átt við þjónustu, aðstoð og ráðgjöf í tengslum við eftirtalda málaflokka: 1. Félagslega ráðgjöf. 2. Fjárhagsaðstoð. 3. Félagslega heimaþjónustu. 4. Málefni barna og ungmenna. 5. Þjónustu við unglinga. 6. Þjónustu við aldraða. 7. Þjónustu við fatlaða. 8. Húsnæðismál. 9. Aðstoð við áfengissjúka og vímugjafavarnir. 10. Atvinnuleysisskráningu og vinnumiðlun.“
    Þá ber einnig að horfa til þess að félagsþjónustu er ætlað að efla jöfnuð í samfélaginu, að hlaupa undir bagga með þeim sem höllum fæti standa til lengri eða skemmri tíma, að virkja einstaklinga og hópa til þátttöku í þjóðfélaginu, að auka jafnrétti kynjanna og koma í veg fyrir ómálefnaleg sjónarmið af sérhverju tagi. Úrræði félagsþjónustunnar taka hvort heldur sem er til einstaklinga eða hópa og geta verið fyrirbyggjandi, tekið á vandamálum samtíðarinnar eða uppsöfnuðum félagslegum fortíðarvanda. Undanþágan nær t.d. ekki til þjónustu á vegum einkaaðila, svo sem barnfóstra, og sumarbúða eða þjónustu vegna heimilisþrifa.
    Öryggisþjónusta á vegum einkaaðila er undanskilin skv. 11. tölul. 2. mgr., svo sem eftirlit með eignum, byggingum og persónum sem og varsla, flutningur og dreifing fjármuna og annarra verðmæta. Hins vegar er sala, afhending, uppsetning og viðhald tæknibúnaðar til öryggisgæslu ekki undanþegið gildissviði laganna.
    Ákvæði 12. tölul. 2. mgr. undanskilur gildissviði laganna þjónustu lögbókenda og fulltrúa sýslumanna sem eru skipaðir af hinu opinbera.
    Í 3. mgr. er fjallað um hvaða þjónustuveitendur falla undir lögin og eru það þjónustuveitendur með staðfestu í öðru EES-ríki sem vilja öðlast staðfestu á Íslandi, sbr. 1. tölul., þjónustuveitendur með staðfestu í öðru EES-ríki sem vilja veita þjónustu hér á landi án þess að vera með staðfestu á Íslandi, sbr. 2. tölul., og þjónustuveitendur sem eru með staðfestu á Íslandi.
    Í 4. mgr. eru talin upp ýmis atriði sem reglur laganna gilda ekki um. Vegna þess hvað gildissvið þjónustutilskipunarinnar er viðamikið þótti nauðsynlegt að hafa þessa upptalningu í lögunum til að taka af allan vafa um að lögin hafi ekki áhrif á þessi atriði.
    Samkvæmt 1. tölul. 4. mgr. hafa lögin ekki þau áhrif að auka frelsi í þjónustu í almannaþágu sem hefur almenna efnahagslega þýðingu og á það við hvort sem hún er í höndum opinberra aðila eða einkaaðila. Þá kveða lögin ekki á um einkavæðingu opinberra aðila sem veita þjónustu. Með þessum tölulið er innleidd 2. mgr. 1. gr. þjónustutilskipunarinnar.
    Með 2.–5. tölul. 4. mgr. er 3. mgr. 1. gr. þjónustutilskipunarinnar innleidd. Skv. 2. tölul. 4. mgr. falla lögin ekki um afnám einkaréttar á sviði þjónustustarfsemi. Skv. 3. tölul. 4. mgr. fjalla þau ekki um ríkisaðstoð sem veitt er í EES-ríki og fellur undir samkeppnisreglur EES- samningsins. Skv. 4. tölul. 4. mgr. fjalla þau ekki um rétt stjórnvalda til að skilgreina, í samræmi við EES-reglur, hvað skuli vera þjónusta í almannaþágu sem hefur almanna efnahagslega þýðingu og skv. 5. tölul. 4. mgr. fjalla þau ekki um skipulag og fjármögnun þjónustu í almannaþágu sem hefur almenna efnahagslega þýðingu í samræmi við EES-reglur um ríkisaðstoð eða hvaða sérstöku skyldur felast í slíkri þjónustu.
    Með 6. tölul. 4. mgr. er 4. mgr. 1. gr. þjónustutilskipunarinnar innleidd og fjalla lögin því ekki um ráðstafanir, í samræmi við EES-reglur, sem gerðar eru til að vernda eða stuðla að margbreytileika menningar og tungumála eða fjölbreyttri fjölmiðlun.
    Lögin fjalla ekki um refsirétt, sbr. 7. tölul. 4. mgr., en með þessum tölulið er verið að innleiða 5. mgr. 1. gr. þjónustutilskipunarinnar.
    Samkvæmt 8. tölul. 4. mgr. fjalla lögin ekki um vinnurétt, þ.e. lagalegan eða samningsbundin ákvæði um ráðningarskilmála, vinnuskilyrði, heilbrigði og öryggi á vinnustað, tengsl milli vinnuveitanda og starfsmanna, réttindi eða skyldur launafólks sem starfa á Íslandi í lengri eða skemmri tíma eða almannatryggingalöggjöf og er hér verið að innleiða 6. mgr. 1. gr. þjónustutilskipunarinnar.
    Lögin fjalla ekki um nýtingu grundvallarréttinda né réttinn til að semja um og framfylgja kjarasamningum eða grípa til aðgerða á vinnustað í samræmi við landslög og venjur er samræmast EES-reglum, sbr. 9. tölul. 4. mgr., og er hér verið að innleiða 7. mgr. 1. gr. þjónustutilskipunarinnar.
    Samkvæmt 10. tölul. fjalla lögin ekki um rétt stjórnvalda til að ákvarða hvort um sé að ræða ráðningarsamband milli vinnuveitanda og launþega eða verktöku, og beita í því sambandi viðeigandi íslenskum lögum og kjarasamningum. Er hér tekið inn í frumvarpið mikilvægt atriði sem kemur fram í 86. tölul. í inngangsorðum tilskipunarinnar.
    Skattaréttur er ekki innan gildissviðs laganna, skv. 11. tölul., og er hér innleidd 3. mgr. 2. gr. þjónustutilskipunarinnar.
    Í 12. tölul. 4. mgr. er kveðið á um að lögin fjalli ekki um alþjóðlegan einkamálarétt og er hér verið að innleiða 2. mgr. 3. gr. þjónustutilskipunarinnar.
    Samkvæmt 5. mgr. er ráðherra heimilt að kveða nánar á um gildissvið laganna í reglugerð. Í þjónustutilskipuninni eru sérstaklega tekið fram að hún gildi ekki um ákveðnar gerðir sem teknar hafa verið upp í EES-samningin líkt og kemur fram í athugasemdum við 3. tölul. 3. mgr. 2. gr. frumvarpsins. Slíkar upptalningar, sem í raun eru frekari útskýringar á gildissviði laganna, er skýrara að hafa í reglugerð heldur en lögunum sjálfum. Komi til breytinga á þessum upptalningum er það einnig til hagræðis jafnt fyrir Alþingi sem stjórnsýslu að hægt sé að breyta upptalningu með reglugerð.

Um 3. gr.


    Í greininni er að finna skýringu á merkingu einstakra orða eða hugtaka í lögunum. Þau orð eða hugtök sem skýrð eru í greininni eru þjónusta, þjónustuveitandi, viðtakandi þjónustu, staðfesta, fyrirkomulag leyfisveitinga, krafa, lögbært yfirvald, lögvernduð starfsgrein, starfsábyrgðartrygging og þverfagleg starfsemi. Einnig er skilgreint hvað átt er við með markaðssetningu en upplýsingar sem gera mönnum kleift að fá beinan aðgang að starfsemi fyrirtækis, stofnunar eða aðila, t.d. lénsheiti eða netfang, teljast ekki til markaðssetningar. Sama á við um orðsendingar sem varða vörur, þjónustu eða ímynd fyrirtækis, stofnunar eða aðila sem teknar eru saman á sjálfstæðan hátt, einkum þegar þær eru lagðar fram án endurgjalds. Skýringarnar byggjast að hluta til á 4. gr. þjónustutilskipunarinnar. Ekki er þörf á frekari skýringum en fram koma í greininni sjálfri.

Um 4. gr.


    Samkvæmt 1. mgr. eiga þjónustuveitendur að geta sótt um leyfi til að stunda starfsemi sína á Íslandi með rafrænum hætti og fengið svör frá lögbærum yfirvöldum með rafrænum hætti. Af þeim sökum hefur forsætisráðuneytið ásamt efnahags- og viðskiptaráðuneytinu unnið að uppsetningu vefsvæðis (upplýsinga- og þjónustuveitu) þar sem þjónustuveitendur eiga að geta sótt um viðeigandi leyfi með rafrænum hætti. Ein af þeim hindrunum sem þjónustuveitendur hafa staðið frammi fyrir þegar þeir hyggjast veita þjónustu í öðrum löndum á EES-svæðinu er að oft þurfa margir aðilar að koma að leyfisveitingum og/eða fylla þarf út hin ýmsu eyðublöð og skila margs konar fylgigögnum. Með upplýsinga- og þjónustuveitunni á ekki aðeins að vera auðvelt fyrir þjónustuveitanda að sjá hvað hann þarf að gera til að geta hafið starfsemi á Íslandi heldur á hann einnig að geta klárað öll nauðsynleg ferli rafrænt. Ljóst er að í þessu felst mikið hagræði fyrir þjónustuveitendur bæði innlenda sem erlenda og er til þess fallið að auka flæði þjónustu innan EES-svæðisins. Með þessu er hins vegar ekki verið að breyta því hver tekur ákvarðanir um leyfisveitingar og upplýsinga- og þjónustuveitan hefur ekki það hlutverk að veita leyfi. Upplýsinga- og þjónustuveitan á að þjóna bæði innlendum og erlendum þjónustuveitendum hvort sem þeir vilja hafa staðfestu á Íslandi eða veita þjónustu á Íslandi án staðfestu. Með 1. mgr. er verið að innleiða 6. gr. og 1. mgr. 8. gr. þjónustutilskipunarinnar.
    Með 2. mgr. er gerð undantekning á því að þjónustuveitandi eigi að geta lokið öllum ferlum rafrænt ef um er að ræða atriði sem eðli málsins samkvæmt geta ekki farið fram rafrænt, svo sem skoðun á húsnæði þar sem þjónustan er veitt, skoðun á búnaði sem þjónustuveitandi notar eða áþreifanleg skoðun á getu þjónustuveitanda, ráðvendni hans eða starfsmanna sem hann ber ábyrgð á. Ákvæðið er innleiðing á 2. mgr. 8. gr. þjónustutilskipunarinnar.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að ráðherra geti í reglugerð sett nánari reglur um nauðsynlegar ráðstafanir vegna rafrænnar málsmeðferðar. Ljóst er að í þessu fyrirkomulagi mun felast breyting fyrir ákveðna leyfisveitendur og því nauðsynlegt að ráðherra sé heimilt að kveða nánar á um hvernig fyrirkomulagið skuli vera.

Um 5. gr.


    Í greininni er fjallað um þær kröfur sem heimilt er að gera um þau skjöl sem leyfisveitanda er gert að leggja fram við leyfisumsókn. Þjónustutilskipunin kveður ítarlega á um að stjórnvöld ríkjanna skuli aðstoða hvert annað, t.d. með upplýsingagjöf, og því á að vera auðvelt fyrir leyfisveitanda að ganga úr skugga um réttmæti skjala í gegnum IMI-kerfið sem fjallað er um í almennum athugasemdum. Með 5. gr. er innleidd 3. mgr. 5. gr. þjónustutilskipunarinnar.
    Samkvæmt 1. mgr. verður leyfisveitandi að viðurkenna skjöl frá öðrum EES-ríkjum ef skjölin þjóna sama tilgangi og ef þar kemur skýrt fram að viðeigandi skilyrði sé uppfyllt. Leyfisveitendur verða því að líta til innihalds fyrirliggjandi gagna frekar en forms. Sem dæmi má nefna að leyfisveitandi getur ekki krafist tiltekinna opinberra skjala sem sýna fram á þjóðerni þjónustuveitanda ef þjónustuveitandi sýnir önnur opinber gögn sem sanna þjóðerni líkt og t.d. vegabréf eða persónuskilríki.
    Óheimilt er að krefjast þess að skjal frá öðru EES-ríki sé í frumriti, staðfestu endurriti eða löggilt þýðing nema slík krafa sé rökstudd með vísan til brýnna almannahagsmuna, sbr. 2. mgr. Ef leyfisveitandi er í vafa um réttmæti skjala á hann að geta staðreynt gildi þeirra með því að hafa samband við viðeigandi lögbært yfirvald í viðkomandi landi í gegnum fyrrgreint IMI-kerfi.
    Eins og fram kemur í 3. mgr. er leyfisveitanda hins vegar heimilt að krefjast þess að þjónustuveitandi leggi fram ólöggilta þýðingu skjala á íslensku.
    Ráðherra hefur skv. 4. mgr. heimild til að kveða á um í reglugerð að ákveðin skjöl séu undanþegin kröfum 5. gr. frumvarpsins. Í 4. mgr. 5. gr. þjónustutilskipunarinnar eru talin upp skjöl sem kveðið er á um í (a) 2. mgr. 7. gr. og 50. gr. tilskipunar 2005/36/EB um gagnkvæma viðurkenningu starfsréttinda, (b) 3. mgr. 45. gr., 46. gr., 49. gr. og 50. gr. tilskipunar 2004/18/EB um samræmingu reglna um útboð og gerð opinberra verksamninga, vörusamninga og þjónustusamninga, (c) 2. mgr. 3. gr. tilskipunar 98/5/EB um að auðvelda lögmönnum að starfa til frambúðar í öðru aðildarríki en þar sem þeir hlutu starfsmenntun sína og hæfi, (d) fyrsta tilskipun ráðsins 68/151/EBE samræmingu verndarráðstafana sem ætlað er að vera jafngildar í Bandalaginu og aðildarríki krefjast af félögum í skilningi annarrar málsgreinar 58. gr. sáttmálans, til að vernda hagsmuni félagsmanna og (e) önnur og ellefta tilskipun ráðsins 89/666/EBE um birtingarkröfur gagnvart útibúum sem stofnuð eru í aðildarríki af vissum gerðum félaga er lög annars ríkis taka til, eins og ákvæðin eru innleidd í íslenskan rétt. Eftir því sem fleiri gerðir eru teknar upp í EES-samninginn getur þessi upptalning tekið breytingum og því skýrara og einfaldara að hafa þessa upptalningu í reglugerð frekar en í lögunum sjálfum.

Um 6. gr.


    Í greininni er fjallað um hvaða upplýsingar þjónustuveitendur og viðtakendur þjónustu eigi að geta nálgast rafrænt í gegnum upplýsinga- og þjónustuveituna. Í 1. mgr. eru talin upp atriði í fimm liðum og er hér verið að innleiða 1. og 3. mgr. 7. gr. þjónustutilskipunarinnar.
    Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. verða þjónustuveitendur að geta nálgast allar upplýsingar um hvaða skilyrði þeir þurfa að uppfylla til að geta veitt þjónustu á Íslandi.
    Í 2. tölul. 1. mgr. er kveðið á um að þjónustuveitandi verði að geta nálgast upplýsingar um hvernig hægt er að hafa samband við þau lögbæru yfirvöld sem bera ábyrgð á veitingu leyfis til að stunda þjónustu.
    Ákvæði 3. tölul. 1. mgr. fjallar um að þjónustuveitendur verði að geta fengið upplýsingar um leiðir og skilyrði fyrir því að fá aðgang að opinberum skrám og gagnagrunnum um þjónustuveitendur og þjónustu.
    Samkvæmt 4. tölul. 1. mgr. verða þjónustuveitendur að geta nálgast upplýsingar um þær úrlausnarleiðir sem alla jafna eru tiltækar komi upp ágreiningur. Er hér átt við ágreining hvort sem hann er milli lögbærra yfirvalda og þjónustuveitanda, lögbærra yfirvalda og viðtakanda þjónustu, viðtakanda og þjónustuveitanda eða milli þjónustuveitenda.
    Í 5. tölul. 1. mgr. segir að upplýsingar um hvernig unnt er að ná sambandi við samtök eða stofnanir, önnur en lögbær yfirvöld, þar sem þjónustuveitendur geta fengið hagnýta aðstoð skuli vera aðgengilegar fyrir þjónustuveitendur.
    Í 6. tölul. er kveðið á um að einnig eigi að vera hægt að nálgast upplýsingar um kjarasamninga og aðrar upplýsingar er varða réttindi og skyldur á íslenskum vinnumarkaði.
    Samkvæmt 2. mgr. eiga þjónustuveitendur og viðtakendur rétt á aðstoð með rafrænum hætti í formi almennra upplýsinga um almenna túlkun og beitingu þeirra skilyrða sem um getur í 1. tölul. 1. mgr. Ákvæðið kveður á um að þjónustuveitendum og viðtakendum séu veittar almennar upplýsingar en gerir ekki þær kröfur til lögbærra yfirvalda að þau veiti lögfræðiaðstoð í einstökum málum. Lögbært yfirvald skal bregðast við beiðni um upplýsingar eins fljótt og auðið er. Með 2. mgr. er verið að innleiða 2. og 4. mgr. 7. gr. þjónustutilskipunarinnar.

Um 7. gr.


    Eins og fram kemur í greininni gilda ákvæði III. kafli laganna eingöngu þegar þjónustuveitandi af EES-svæðinu hyggst veita þjónustu með staðfestu á Íslandi. Skiptir hér ekki máli hvort þjónustuveitandi hyggst stofna nýtt fyrirtæki með staðfestu á Íslandi eða hvort um er að ræða útibú eða dótturfélag fyrirtækis sem nú þegar er starfandi í öðru EES-ríki. Ákvæði kaflans gilda óháð því á hvaða stjórnsýslustigi skilyrði eru sett. Þá gilda þau einnig um skilyrði sem fagfélög, fagsamtök eða aðrar fagstofnanir hafa samþykkt á grundvelli lagalegs sjálfstæðis.

Um 8. gr.


    Eins og fram kemur í almennum athugasemdum kveða ákvæði tilskipunarinnar á um að aðildarríkin yfirfari löggjöf og leyfisferli og afnemi eða einfaldi þau eins og kostur er. Í 1. mgr. er kveðið á um að ef aðgangur að því að veita þjónustu er háður leyfum skuli skilyrði fyrir veitingu leyfis vera (1) án mismununar, en með því er átt við að fyrirkomulagið feli ekki í sér beina eða óbeina mismunun á grundvelli staðfestu þjónustuveitanda, (2) nauðsynlegt vegna brýnna almannahagsmuna og (3) og í samræmi við meðalhóf en í því sambandi verður að hafa í huga að oft er hægt að ná sama árangri með því að lögbært yfirvald hafi eftirlit með þjónustustarfseminni eða að þjónustuveitandi gefi út einhvers konar einfalda yfirlýsingu. Er þetta ákvæði í samræmi við 9. gr. þjónustutilskipunarinnar.
    Samkvæmt 2. mgr. er óheimilt að binda leyfi fyrir nýrri starfsstöð jafngildum eða í meginatriðum sambærilegum skilyrðum eða eftirliti og þjónustuveitandi hefur nú þegar þurft að undirgangast í öðru eða sama EES-ríki. Af þessu leiðir að leyfisveitandi verður að taka tillit til þess ef þjónustuveitandi hefur áður uppfyllt umbeðin skilyrði í öðru EES-ríki og getur ekki krafist þess að þjónustuveitandi gangi í gegnum annað mat hér á landi. Hér er innleidd 3. mgr. 10. gr. þjónustutilskipunarinnar.
    Ef takmarka á leyfi til að veita þjónustu við ákveðin landsvæði skal það rökstutt með vísan til brýnna almannahagsmuna, sbr. 3. mgr. Það að takmarka leyfi við ákveðin landsvæði getur talist hindrun á frjálsu flæði þjónustu og lagt auknar byrðar á þjónustuveitendur. Eðli málsins samkvæmt getur verið nauðsynlegt að takmarka ákveðna þjónustu við landsvæði, t.d. ef þjónustan er tengd einhvers konar starfsstöð og nauðsynlegt er að leggja mat á hverja starfsstöð fyrir sig. Með lögunum er ekki hróflað við því hver veiti leyfi á tilteknu svæði en sveitarfélög veita t.d. margs konar leyfi innan síns landsvæðis. Sú staðreynd að leyfisveiting liggur hjá einstökum sveitarfélögum er hins vegar ein og sér ekki næg röksemd fyrir því að leyfi sé takmarkað við ákveðið landsvæði. Ef eitt lögbært yfirvald, t.d. sveitarfélag, hefur veitt þjónustuveitanda leyfi er því meginreglan sú að önnur lögbær yfirvöld verða einnig að viðurkenna leyfið og þjónustuveitandi á því ekki, með rökstuddum undantekningum þó, að þurfa að sækja aftur um leyfi vilji hann veita sömu þjónustu á öllu Íslandi. Með þessu ákvæði er innleidd 4. mgr. 10. gr. þjónustutilskipunarinnar.

Um 9. gr.


    Samkvæmt 1. mgr. greinarinnar er óheimilt að tímabinda leyfi til þjónustustarfsemi nema leyfið endurnýist sjálfkrafa eða það sé aðeins háð því að skilyrði séu áfram uppfyllt, sbr. 1. tölul., fjöldi tiltækra leyfa sé takmarkaður með vísan til brýnna almannahagsmuna, sbr. 2. tölul., eða hægt sé að réttlæta takmarkaðan gildistíma með vísan til brýnna almannahagsmuna, sbr. 3. tölul. Það að takmarka gildistíma leyfis getur falið í sér hindrun á frjálsu flæði þjónustu, m.a. þar sem það getur komið í veg fyrir að þjónustuveitandi geti gert langtímaáætlanir um starfsemi sína. Í einhverjum tilfellum getur t.d. verið að það sé óþarfi að þjónustuveitandi þurfi að sækja um leyfi upp á nýtt heldur sé nægjanlegt að lögbært yfirvald hafi eftirlit með starfsemi þjónustuveitanda. Er hér innleidd 1. mgr. 11. gr. þjónustutilskipunarinnar.
    Í 2. mgr. segir að þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. sé heimilt að krefjast þess að þjónustuveitandi hefji í reynd starfsemi sína innan ákveðins tíma frá því að leyfið er veitt og er hér innleidd 2. mgr. 11. gr. þjónustutilskipunarinnar.
    Samkvæmt 3. mgr. er þjónustuveitanda skylt að upplýsa viðeigandi lögbært yfirvald um stofnun dótturfélaga með starfsemi sem fellur innan gildissviðs leyfisins, sbr. 1. tölul., og breytingar á aðstæðum þjónustuveitanda sem leiða til þess að skilyrði leyfisins eru ekki lengur uppfyllt, sbr. 2. tölul. Er hér innleidd 3. mgr. 11. gr. þjónustutilskipunarinnar.
    Í 4. mgr. segir að ef fjöldi leyfa í tiltekinni starfsemi er takmarkaður vegna skorts á tiltækum náttúruauðlindum eða tæknigetu skal leyfisveitandi birta fyrir fram við hvað verður stuðst við mat á umsækjendum til að tryggja óhlutdrægni og gagnsæi við valið. Sú skylda er því lögð á leyfisveitanda að birta fyrir fram allar viðeigandi upplýsingar sem lúta að leyfisferlinu, þ.m.t. inntak leyfisferlisins, ástæðu þess að fjöldi leyfa er takmarkaður, tímafresti og framkvæmd valferlisins. Ef fjöldi leyfa er takmarkaður skal tímabinda leyfið og óheimilt er að láta það endurnýjast sjálfkrafa eða fela í sér annan ávinning fyrir þjónustuveitanda sem er með nýútrunnið leyfi eða annan aðila honum tengdan. Þegar tímalengd leyfis er ákvörðuð er vert að hafa í huga að það sé ekki styttra en svo að þjónustuveitandi eigi kost á að endurheimta þann kostnað sem hann lagði út vegna þjónustunnar ásamt sanngjörnum hagnaði. Með þessu ákvæði er verið að innleiða 1. og 2. mgr. 12. gr. þjónustutilskipunarinnar.
    Í 5. mgr. segir að þrátt fyrir ákvæði 4. mgr. sé leyfisveitanda heimilt við veitingu leyfa að taka tillit til sjónarmiða um lýðheilsu, markmið félagsmálastefnu, heilbrigði og öryggi starfsmanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga, vernd umhverfisins, varðveislu menningararfleifðar og annarra brýnna almannahagsmuna. Er hér innleidd 3. mgr. 12. gr. tilskipunarinnar.
    Tekið er fram í 6. mgr. að ákvæði greinarinnar hafa ekki áhrif á heimildir lögbærs yfirvalds til að afturkalla leyfi ef viðkomandi skilyrði eru ekki lengur uppfyllt og er það í samræmi við 4. mgr. 11. gr. þjónustutilskipunarinnar.

Um 10. gr.


    Samkvæmt 1. mgr. skal málsmeðferð við leyfisveitingar vera skýr, ótvíræð, hlutlæg, gagnsæ og aðgengileg og skal leyfisveitandi birta upplýsingar um fyrirkomulag málsmeðferðarinnar fyrir fram. Ákvæðinu er ætlað að koma í veg fyrir gerræðislegar ákvarðanir og tryggja að ákvarðanir um veitingu leyfis séu teknar með óhlutdrægum hætti. Hér eru innleiddar 1. og 2. mgr. 10. gr. og 1. mgr. 13. gr. tilskipunarinnar.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að frestur til að veita leyfi skuli fastsettur og birtur fyrir fram. Leyfisveitanda er heimilt að framlengja frestinn einu sinni í takmarkaðan tíma ef mál er mjög umfangsmikið. Ákvörðun um framlengingu skal rökstyðja og birta þjónustuveitanda áður en upphaflegi fresturinn rennur út. Leyfisumsókn telst fram komin á því tímamarki þegar öll nauðsynleg gögn liggja fyrir.
    3. mgr. kveður á um að ef svar er ekki veitt innan tímafrests skal litið svo á að leyfi sé veitt. Evrópuríki hafa í auknu mæli gripið til þess ráðs að einfalda stjórnsýslu með því að taka upp eins konar „þögn er sama og samþykki“ reglu eða „tacit authorisation“ og er það sú leið sem kveðið er á um í frumvarpinu. Það er því afar mikilvægt að allir tímafrestir séu fastsettir fyrir fram svo að ljóst sé hvenær frestur til svara rennur út.
    Samkvæmt 4. mgr. er heimilt að víkja frá því fyrirkomulagi sem kveðið er á um í 3. mgr. með vísan til brýnna almannahagsmuna. Þriðja og fjórða málsgrein eru í samræmi við 3. og 4. mgr. 13. gr. tilskipunarinnar.
    Samkvæmt 5. mgr. skal staðfesta viðtöku umsóknar um leyfi svo fljótt sem unnt er. Í staðfestingunni skal tilgreina þau tímamörk sem um getur í 3. mgr. greinarinnar, sbr. 1. tölul., tiltækar kæruleiðir, sbr. 2. tölul., og yfirlýsingu, þegar það á við, um að hafi ekki borist svar innan ákveðinna tímamarka teljist leyfið hafa verið veitt, sbr. 3. tölul. Hér er verið að innleiða 5. mgr. 13. gr. tilskipunarinnar.
    Í 6. mgr. segir að sé umsókn um leyfi ábótavant skal tilkynna umsækjanda um það svo fljótt sem auðið er, svo og öll hugsanleg áhrif á tímamörkin sem um getur í 2. mgr. greinarinnar og tiltækar kæruleiðir. Er það í samræmi við 6. mgr. 13. gr. tilskipunarinnar.

Um 11. gr.


    Í 11. gr. er upptalning á skilyrðum sem óheimilt er að leggja á þjónustuveitendur sem vilja veita þjónustu með staðfestu á Íslandi og er hér innleidd 14. gr. þjónustutilskipunarinnar.
    Samkvæmt 1. tölul. er óheimilt að láta aðgang að þjónustustarfsemi vera háða skilyrðum sem fela í sér mismunun sem grundvallast beint eða óbeint á þjóðerni eða, í tilfelli lögaðila, staðsetningu skráðrar skrifstofu. Má þar einkum nefna kröfur um þjóðerni þjónustuveitanda, starfsmanna hans, hluthafa, stjórnarmanna í framkvæmdastjórn eða eftirlitsaðila eða kröfur um að þjónustuveitandi, starfsmenn hans, hluthafar, stjórnarmenn í framkvæmdastjórn eða eftirlitsaðilar þjónustuveitanda séu búsettir á Íslandi.
    Óheimilt er skv. 2. tölul. að banna þjónustuveitanda að hafa starfsstöð í fleiri en einu EES-ríki eða vera færður í skrár eða skráður í fagfélag eða fagsamtök í fleiri en einu EES- ríki.
    Í 3. tölul. segir að óheimilt sé að takmarka frelsi þjónustuveitanda til að velja á milli aðalstarfsstöðvar eða aukastarfsstöðvar og er þá einkum átt við skilyrði um að þjónustuveitandi hafi aðalstarfsstöð á yfirráðasvæði leyfisveitanda. Að sama skapi er óheimilt að takmarka frelsi þjónustuveitanda til að velja á milli þess að hafa starfsstöð í formi umboðs, útibús eða dótturfélags.
    Samkvæmt 4. tölul. eru skilyrði sem kveða á um gagnkvæmni óheimil að undanþegnum skilyrðum sem kveðið er á um í gerðum EES-samningsins um orku. Skilyrðin mega því ekki vera þannig úr garði gerð að þau kveði á um að EES-ríki þar sem þjónustuveitandi er með staðfestu komi fram við íslenskan þjónustuveitanda með sama hætti og komið er fram við þjónustuveitanda frá því EES-ríki á Íslandi.
    Óheimilt er skv. 5. tölul. að krefjast þess að í hverju tilfelli fyrir sig fari fram mat á því hvort vöntun sé á þjónustu á ákveðnum markaði, hver séu efnahagsleg áhrif þjónustunnar eða hvort þjónustan samræmist hagrænum áætlunum stjórnvalda. Heimilt er að víkja frá þessu skilyrði ef áætlanir stjórnvalda réttlætast af nauðsynlegum almannahagsmunum. Bakgrunnur ákvæðisins er sá að í nokkrum aðildarríkjum EES-svæðisins hefur verið að finna skilyrði sem þessi sem seinka eða koma jafnvel alveg í veg fyrir að þjónustuveitandi geti sótt á nýjan markað.
    Í 6. tölul. segir að óheimilt sé að samkeppnisaðili þjónustuveitanda eigi aðild að ákvarðanatöku stjórnvalda í einstökum málum enda gengur það gegn því markmiði að tryggja að leyfisveitingar séu hlutlausar og gagnsæjar og getur jafnvel hindrað algjörlega innkomu nýrra þjónustuveitanda. Ákvæðið kemur þó ekki í veg fyrir að samkeppnisaðilar geti verið almennt ráðgefandi svo framarlega sem það er ekki í einstökum málum. Það kemur ekki heldur í veg fyrir að fagfélög eða fagsamtök taki ákvarðanir í einstökum málum ef þau eru í hlutverki lögbærs yfirvalds.
    Samkvæmt 7. tölul. er óheimilt að krefjast þess að þjónustuveitandi tryggi sig hjá íslensku tryggingafélagi eða leggja fram tryggingu frá aðila er starfar á Íslandi. Slík skilyrði geta hæglega leitt til þess að þjónustuveitandi sé með tvöfalda tryggingu ásamt því að mismuna fjármálastofnunum eða vátryggjendum eftir staðfestu. Rétt er þó að taka fram að í lögum nr. 60/ 1994, um vátryggingastarfsemi, er að finna reglur um hvaða skilyrði vátryggingafélög þurfa að uppfylla til að mega veita þjónustu á Íslandi og er með þessum lögum ekki verið að hrófla við þeim reglum. Ákvæðið kemur hins vegar ekki í veg fyrir að hægt sé að krefjast þess að þjónustuveitandi sé tryggður fyrir ákveðnum atriðum svo framarlega sem hann er ekki nú þegar með viðeigandi tryggingar. Eins kemur ákvæðið ekki í veg fyrir að þjónustuveitendum sé gert að greiða í sameiginlega bótasjóði sem fagsamtök, fagfélög eða aðrar fagstofnanir koma á fót.
    Óheimilt er skv. 8. tölul. að gera kröfu um að þjónustuveitandi hafi verið forskráður í tiltekinn tíma í skrár á Íslandi eða hafi áður stundað starfsemina í tiltekinn tíma á Íslandi.

Um 12. gr.


    Ákvæði IV. kafla laganna gilda þegar þjónustuveitendur með staðfestu í öðru EES-ríki vilja veita þjónustu á Íslandi án staðfestu. Til að ákvarða hvaða reglur gilda um þjónustuveitanda er því lykilatriði að skilgreina hvort um staðfestu þjónustuveitanda er að ræða en hugtakið „staðfesta“ er skilgreint í 4. tölul. 3. gr. frumvarpsins.

Um 13. gr.


    Í 13. gr. er fjallað um frelsið til að veita þjónustu án staðfestu á Íslandi. Með greininni er 16. gr. tilskipunarinnar innleidd en hún er einn af hornsteinum hennar. Ákvæði 1. mgr. kveður á um að þjónustuveitandi með staðfestu í öðru EES-ríki eigi rétt á að veita þjónustu án staðfestu á Íslandi.
    Samkvæmt 2. gr. er óheimilt að setja sérstök skilyrði fyrir veitingu þjónustu án staðfestu nema það sé nauðsynlegt með vísan til allsherjarreglu, almannaöryggis, lýðheilsu eða umhverfisverndar. Lögbærum yfirvöldum á Íslandi er því óheimilt að leggja skyldur á þjónustuveitendur nema hægt sé að rökstyðja þær með vísan til fyrrgreindra sjónarmiða. Ákvæðið kemur ekki í veg fyrir að lögbær yfirvöld á Íslandi geti látið ákveðin skilyrði gilda um þjónustuveitendur sem hafa staðfestu á Íslandi þó að þeim sé ekki heimilt að láta þau gilda um þjónustuveitendur sem veita þjónustu án staðfestu.
    Í 3. mgr. segir að óheimilt sé að setja skilyrði fyrir þjónustuveitingu án staðfestu sem leiða til beinnar eða óbeinnar mismununar á grundvelli þjóðernis eða staðfestu. Þau skilyrði sem þjónustuveitanda er gert að uppfylla til að mega veita þjónustu án staðfestu á Íslandi skulu ekki vera strangari en nauðsynlegt er til að ná þeim markmiðum sem stefnt er að. Þannig er alltaf óheimilt að setja skilyrði sem leiða til mismununar þrátt fyrir að það tengist undantekningunum sem kveðið er á um í 1. mgr. Lokaprófið á það hvort heimilt er að leggja ákveðið skilyrði á þjónustuveitanda sem veitir þjónustu án staðfestu er svo meðalhófið. Ef skilyrðið er ekki til þess fallið að ná einhverju af þeim markmiðum sem vísað er til í 1. mgr. er það ekki réttlætanlegt. Í því sambandi getur jafnvel þurft að meta hvort skilyrði sem gilda um þjónustuveitandi í öðru EES-ríki eru til þess fallinn að ná því markmiði sem stefnt er að. Mat á nauðsyn getur því oft þurft að fara fram í hverju tilfelli fyrir sig.
    Í 4. mgr. eru talin upp í sjö liðum skilyrði sem óheimilt er að setja fyrir því að þjónustuveitandi geti veitt þjónustu án staðfestu á Íslandi og er verið að innleiða 2. mgr. 16. gr. tilskipunarinnar.
    Samkvæmt 1. tölul. er óheimilt að gera kröfu um að þjónustuveitandi hafi starfsstöð á Íslandi enda kæmi skilyrði sem þetta eðli málsins samkvæmt í veg fyrir að hægt væri að veita þjónustu án staðfestu á Íslandi líkt og kveðið er á um í 1. mgr.
    Í 2. tölul. segir að óheimilt sé að gera kröfu um að þjónustuveitandi þurfi að sækja um leyfi til að veita þjónustu nema kveðið sé á um undantekningu frá því í þessum lögum eða öðrum lögum sem ganga þessum lögum framar. Á það meðal annars við um skilyrði sem kveða á um að þjónustuveitandi verði að skrá sig í opinberar skrár eða skrár fagfélaga eða fagsamtaka.
    Skilyrði er leggja bann við því að þjónustuveitandi setji á fót tiltekna starfsemi sem hann þarfnast til að geta veitt þjónustu eru óheimilt skv. 3. tölul. Ástæðan er sú að þrátt fyrir að þjónustuveitandi veiti þjónustu án staðfestu getur hann þurft að hafa einhverja aðstöðu á Íslandi líkt og t.d. skrifstofu eða geymslu.
    Bannað er að setja skilyrði sem kveður á um sérstakt samningsbundið fyrirkomulag milli þjónustuveitanda og viðtakanda sem kemur í veg fyrir eða takmarkar að sjálfstætt starfandi aðili geti veitt þjónustu, sbr. 4. tölul. Þetta á t.d. við ef kveðið er á um að ákveðna þjónustu sé ekki hægt að veita sem sjálfstætt starfandi aðili heldur einungis í tengslum við ráðningarsamband.
    Samkvæmt 5. tölul. er óheimilt að krefjast þess að þjónustuveitandi hafi undir höndum vottorð frá lögbærum yfirvöldum um hæfi til að stunda þjónustustarfsemi en slík skilyrði geta flækt og valdið töfum á aðgengi þjónustuveitanda að því að veita þjónustu.
    Óheimilt er að kveða á um skilyrði sem hafa áhrif á notkun búnaðar og tækja sem eru óaðskiljanlegur hluti þjónustunnar nema þau séu nauðsynleg vegna heilbrigðis og öryggis á vinnustað. Er hér m.a. átt við hvers konar verkfæri, vélar, vinnufatnað o.s.frv. Ákvæðið á hins vegar ekki við efni sem þjónustuveitandi þarf á að halda til að veita þjónustu. Ákvæðið hefur ekki heldur áhrif á rétt lögbærra yfirvalda til að kveða á um skilyrði sem eru nauðsynleg vegna heilbrigðs og öryggis á vinnustöðum.
    Samkvæmt 7. tölul. er óheimilt að kveða á um skilyrði sem mismuna viðtakendum þjónustu á grundvelli þjóðernis eða búsetu, sbr. 14. gr. frumvarps þessa. Ástæðan er sú að kvaðir sem settar eru á hugsanlega viðtakendur þjónustu geta falið í sér óbeina hindrun á rétti þjónustuveitanda til að veita þjónustu án staðfestu. Að öðru leyti vísast til athugasemda við 14. gr. frumvarpsins.
    Rétt þykir að taka af öll tvímæli með það að þrátt fyrir ákvæði 1.–4. mgr. hafi greinin ekki áhrif á rétt lögbærs yfirvalds til að beita reglum sem kveðið er á um í kjarasamningum og er það tekið fram í 5. mgr. greinarinnar.
    Eins og áður sagði er með 13. gr. verið að innleiða 16. gr. tilskipunarinnar. Í 17. gr. tilskipunarinnar er hins vegar að finna upptalningu á hinum ýmsu gerðum Evrópusambandsins sem og ýmiss konar þjónustu sem undanþegin er gildissviði IV. kafla frumvarpsins. Því er í 6. mgr. gert ráð fyrir að ráðherra sé heimilt að kveða á um almennar undanþágur frá skilyrðum greinarinnar í reglugerð.

Um 14. gr.


    Samkvæmt 1. mgr. greinarinnar er lögbæru yfirvaldi, þrátt fyrir ákvæði 13. gr., heimilt í undantekningartilfellum að grípa til sérstakra ráðstafana gagnvart þjónustuveitanda sem hyggst veita þjónustu án staðfestu á Íslandi ef ráðstafanirnar eru gerðar til að tryggja öryggi þjónustu. Einungis er heimilt að nýta þessa undanþágu í sérstökum tilfellum er snúa að afmarkaðri þjónustu ákveðins þjónustuveitanda. Óheimilt er að nota ákvæði greinarinnar til að víkja almennt frá ákvæðum 13. gr. á ákveðnum þjónustusviðum eða með vísan til ákveðinnar tegundar þjónustuveitenda.
    Samkvæmt 2. mgr. er lögbæru yfirvaldi einungis heimilt að grípa til ráðstafana í samræmi við 1. mgr. eftir að hafa leitað aðstoðar hjá lögbæru yfirvaldi í viðeigandi EES-ríki, sbr. ákvæði reglna er ráðherra setur og lúta að samvinnu stjórnvalda EES-ríkjanna vegna þjónustuviðskipta. Um frekari upplýsingar um reglurnar vísast til almennra athugasemda við 21. gr. Ákvæðið hefur það í för með sér að það er einungis heimilt að beita undanþágu 1. mgr. ef öryggi þjónustu er ógnað og ef ekki er hægt að vinna bót á því með aðstoð frá staðfestuaðildarríki þjónustuveitanda. Þau skilyrði sem lögbær yfirvöld á Íslandi setja verða að vera betur til þess fallin að tryggja öryggi þjónustu heldur en þau skilyrði sem staðfestuaðildarríkið hefur gripið til. Með þessari grein er 18. gr. þjónustutilskipunarinnar innleidd.

Um 15. gr.


    Samkvæmt 15. gr. er óheimilt að mismuna viðtakendum þjónustu á grundvelli þjóðernis eða búsetu og þjónustuveitanda er óheimilt að setja í þjónustuskilmála sína skilyrði er mismuna viðtakendum þjónustu á þeim grundvelli. Í undantekningartilfellum er heimilt að setja mismunandi skilyrði fyrir aðgengi að þjónustu ef mismunurinn er rökstuddur beint með hlutlægum viðmiðum. Er hér verið að innleiða 19. og 20. gr. tilskipunarinnar. Til að ná frjálsu flæði þjónustu á innri markaðnum er ekki einungis nauðsynlegt að tryggja þjónustuveitendum rétt til að veita þjónustu án staðfestu heldur er einnig nauðsynlegt að tryggja að viðtakendur þjónustu geti nýtt sér rétt sinn óháð staðfestu þeirra eða þjónustuveitenda. Ákvæðið útilokar hins vegar ekki með öllu að mismunandi reglur geti gilt um viðtakendur þjónustu eftir því hvar þeir eru með staðfestu. Eins kemur ákvæðið ekki í veg fyrir að þjónustuveitandi mismuni viðtakendum eftir búsetu ef það byggist á viðskiptalegum forsendum, t.d. að þjónustan sé dýrari eftir því sem fjarlægð frá þjónustuveitanda eykst. Ákvæðið gildir um alla viðtakendur þjónustu en hugtakið er skilgreint í 3. tölul. 3. gr. frumvarpsins.

Um 16. gr.


    Í 1. mgr. eru taldar upp þær upplýsingar sem viðtakendur þjónustu, hvort sem þeir eru neytendur eða þjónustuveitendur, eiga að geta nálgast á Íslandi og er hér innleidd 21. gr. tilskipunarinnar. Tilgangurinn er sá að viðtakendur þjónustu geti auðveldlega valið sér þjónustuveitanda óháð staðfestu hans en skortur á upplýsingum gerir það að verkum að neytandi á erfitt með að bera saman kjör mismunandi þjónustuveitenda og veigrar sér jafnvel við því að leita til þjónustuveitenda sem ekki eru með staðfestu í sama ríki.
    Samkvæmt 1. tölul. eiga viðtakendur að geta nálgast almennar upplýsingar um kröfur sem gilda í öðrum EES-ríkjum varðandi aðgang að þjónustustarfsemi og því að stunda hana, einkum varðandi vernd neytenda. Ákvæði 2. tölul. kveður á um að almennar upplýsingar um tiltækar leiðir til að leggja fram kvartanir komi upp ágreiningur milli þjónustuveitanda og viðtakanda eigi að vera aðgengilegar viðtakendum og skv. 3. tölul. verður viðtakandi að geta fengið upplýsingar um hvernig unnt er að ná sambandi við samtök eða stofnanir, þ.m.t. evrópsku neytendaaðstoðina þar sem þjónustuveitendur eða viðtakendur geta fengið hagnýta aðstoð.
    Samkvæmt 2. mgr. eiga upplýsingar frá lögbærum yfirvöldum að fela í sér einfaldar leiðbeiningar um hvert skref fyrir sig og skulu þær vera uppfærðar og aðgengilegar með rafrænum hætti.
    Megininntak greinarinnar er að viðtakandi á að geta fengið almennar upplýsingar en ákvæðið felur ekki í sér að lögbær yfirvöld verði að veita sértæka ítarlega aðstoð í einstökum málum. Samvinna lögbærra yfirvalda aðildarríkjanna er lykilatriði en nánar er kveðið á um þá samvinnu í reglum sem ráðherra setur, sbr. 21. gr. frumvarpsins. Ákvæðið leggur ekki heldur þær skyldur á lögbær yfirvöld að hafa allar fyrrgreindar upplýsingar til reiðu heldur verða þau að geta aflað þeirra ef viðtakandi svo óskar.

Um 17. gr.


    Í 17. gr. er fjallað um þær upplýsingar sem þjónustuveitendum er skylt að hafa tiltækar fyrir viðtakendur. Í mörgum tilfellum hafa viðtakendur þjónustu ekki nægar upplýsingar um þjónustuveitendur og þjónustu þeirra. Þessari grein er ætlað að auka möguleika viðtakenda á því að nálgast nauðsynlegar upplýsingar án þess að leggja of þungar byrðar á þjónustuveitendur. Með greininni er verið að innleiða 22. gr. þjónustutilskipunarinnar.
    Í 1. mgr. eru í tíu liðum taldar upp þær upplýsingar sem þurfa alltaf að vera aðgengilegar fyrir viðtakendur þjónustu, þ.e. upplýsingar um nafn, réttarstöðu, rekstrarform, heimilisfang og aðrar upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að hafa samband við þjónustuveitanda, sbr. 1. tölul., upplýsingar um skrár sem þjónustuveitandi er skráður í sem og upplýsingar um skráningarnúmer eða annað auðkenni þjónustuveitanda í skránni, sbr. 2. tölul., upplýsingar um viðeigandi lögbær yfirvöld ef starfsemin er háð leyfum, sbr. 3. tölul., virðisaukanúmer, sbr. 4. tölul., í tilfelli lögverndaðra starfsgreina öll fagfélög þar sem þjónustuveitandi er skráður, starfsheiti og EES-ríki þar sem starfsheitið er veitt, sbr. 5. tölul., staðlaða samningsskilmála sem þjónustuveitandi notar, þ.m.t. samningsskilmála er varða lög sem gilda um samninginn og þar til bæra dómstóla, sbr. 6. tölul., tilvist ábyrgðar á þjónustu eftir sölu, umfram lögbundna ábyrgð, sbr. 7. tölul., fyrirframákveðið verð, sbr. 8. tölul., helstu þætti þjónustunnar, sbr. 9. tölul., og starfsábyrgðartryggingar og ábyrgðir, hvernig hægt er að ná sambandi við vátryggjanda eða ábyrgðarmann og við hvaða svæði tryggingarnar eða ábyrgðirnar eru bundnar, sbr. 10. tölul. Ákvæði 1. mgr. þarfnast ekki frekari skýringa.
    Samkvæmt 2. mgr. skulu upplýsingar skv. 1. mgr. koma fram í öllum upplýsingaskjölum sem þjónustuveitandi afhendir viðtakanda þar sem sett er fram nákvæm lýsing á þjónustunni. Þær skulu einnig vera aðgengilegar viðtakanda með rafrænum hætti og þar sem þjónustan er veitt. Að öðru leyti er þjónustuveitanda í sjálfsvald sett hvernig hann kemur upplýsingunum á framfæri.
    Samkvæmt 3. mgr. ber þjónustuveitanda að leggja fram þær upplýsingar sem taldar eru upp í 1.–5. tölul. 3. mgr. til viðbótar þeim sem um getur í 1. mgr. ef viðtakandi óskar eftir því. Er hér um að ræða upplýsingar um verð eða þá aðferð sem notuð er til að reikna út verð ef þjónustuveitandi getur ekki gefið verðið upp fyrir fram, sbr. 1. tölul., starfsreglur sem gilda um þjónustuveitanda í staðfestuaðildarríki hans, sé um lögverndaðar starfsgreinar að ræða, sbr. 2. tölul., upplýsingar um þverfaglega starfsemi og samstarf þjónustuveitenda sem tengist viðkomandi þjónustu og til hvaða ráðstafana hefur verið gripið til að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra, sbr. 3. tölul., allar siðareglur starfsstétta sem þjónustuveitandi er bundinn af, hvar þær er að finna með rafrænum hætti og á hvaða tungumáli þær eru tiltækar, sbr. 4. tölul., og upplýsingar um þær einkaréttarlegu úrlausnarleiðir í ágreiningsmálum sem tiltækar eru, hvað einkenni slíkar leiðir og hver séu skilyrði þess að nota slíkar aðferðir, sbr. 5. tölul. Ákvæði 3. mgr. þarfnast ekki frekari skýringa.
    Í 4. mgr. segir að upplýsingarnar sem kveðið er á um í greininni skuli liggja fyrir áður en samningur er gerður. Ef ekki er um formlegan samning að ræða skulu þær liggja fyrir innan hæfilegs tíma áður en þjónustan er veitt.
    5. mgr. kveður svo á um að þjónustuveitandi skuli svara beiðni viðtakanda þjónustu um upplýsingar eða kvörtun svo fljótt sem auðið er og leggja sig fram um að finna viðeigandi lausn fyrir viðtakanda þjónustu. Er hér innleidd 1. mgr. 27. gr. tilskipunarinnar.

Um 18. gr.


    Samkvæmt greininni er óheimilt er að krefjast þess að þjónustuveitandi afli sér starfsábyrgðartryggingar eða annars konar ábyrgðar á Íslandi ef þjónustuveitandinn er þegar með ábyrgð eða vátryggingu gefna út af lánastofnun eða vátryggjanda sem hefur starfsleyfi í öðru EES-ríki, og hefur heimild til að veita þjónustu hér á landi í samræmi við lög nr. 60/1994, um vátryggingastarfsemi, sem er jafngild eða í meginatriðum sambærileg við þá tryggingu sem krafist er. Ef tryggingin eða ábyrgðin er aðeins sambærileg að hluta er heimilt að krefjast viðbótartryggingar vegna þeirra þátta sem ekki falla undir fyrirliggjandi tryggingu. Með greininni er verið að innleiða 23. gr. þjónustutilskipunarinnar. Lögbært yfirvald verður að leggja mat á það hvort tryggingin eða ábyrgðin telst jafngild eða í meginatriðum sambærileg í ljósi tilgangs og skilmála tryggingarinnar.

Um 19. gr.


    Samkvæmt greininni er óheimilt að kveða á um allsherjarbann við markaðssetningu lögverndaðra starfsstétta. Hugtakið „markaðssetning“ er skilgreint í 11. tölul. 3. gr. frumvarpsins. Bann við allsherjarmarkaðssetningu kemur hins vegar ekki í veg fyrir að settar séu reglur t.d. um innihald og skilyrði auglýsinga og annarrar markaðssetningar. Þá er heimilt að kveða á um bann við markaðssetningu vegna brýnna almannahagsmuna svo fremi að gætt sé jafnræðis og meðalhófs. Er hér innleidd 24. gr. tilskipunarinnar.

Um 20. gr.


    Ákvæði 1. mgr. kveður á um að þjónustuveitandi hafi rétt á að stunda þverfaglega starfsemi sjálfur og í samstarfi með öðrum en takmörkun á þessum rétti getur takmarkað framboð þjónustu og hindrað þróun nýrrar þjónustustarfsemi. Hugtakið „þverfaglega starfsemi“ er skilgreint í 10. tölul. 3. gr. frumvarpsins. Þá segir einnig í greininni að í slíkum tilfellum skuli tryggja að komið sé í veg fyrir hagsmunaárekstra, að ekki leiki vafi á sjálfstæði og óhlutdrægni hverrar starfsemi fyrir sig og að reglur viðeigandi starfsstétta stangist ekki á, sérstaklega hvað varðar þagnarskyldu.
    Þá segir í 2. mgr. að þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. sé heimilt að takmarka annars vegar þverfaglega starfsemi lögverndaðra starfsstétta, til að tryggja að farið sé að reglum um siðferðilega breytni starfsstétta og til að tryggja sjálfstæði og óhlutdrægni, sbr. 1. tölul., og hins vegar þjónustuveitenda sem veita þjónustu á sviði vottunar, faggildingar, tæknilegs eftirlits, prófana eða tilrauna, til að tryggja sjálfstæði þeirra og óhlutdrægni, sbr. 2. tölul. Gildir ákvæðið óháð því hvort hindranirnar er að finna í lögum eða reglum settum af stjórnvöldum, sveitarfélögum eða fagfélögum, fagsamtökum eða öðrum fagstofnunum.

Um 21. gr.


    Samkvæmt 1. mgr. skulu íslensk stjórnvöld eiga samstarf við stjórnvöld annarra EES-ríkja um eftirlit með þjónustuveitendum og miðlun upplýsinga sem nauðsynlegar eru til að tryggja frjálst flæði þjónustu. Til að markmið tilskipunarinnar um aukið flæði þjónustu með afnámi hindrana og einföldun ferla náist er afar mikilvægt að aðildarríkin eigi með sér gott samstarf. Samvinna stjórnvalda er einnig afar mikilvæg til að tryggja nægjanlegt eftirlit með þjónustuveitendum, sérstaklega þegar um er að ræða að þjónusta sé veitt án staðfestu.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að stjórnvöld er hafi með höndum leyfisveitingar eða eftirlit með þjónustuveitendum hafa heimild til að miðla nauðsynlegum upplýsingum í gegnum sérstakt evrópskt upplýsingakerfi (Internal Market Information system). Með sama hætti er stjórnvöldum heimilt að taka við upplýsingum úr slíku kerfi og varðveita þær í skrá. Miðlun með öðrum hætti er óheimil.
    Samkvæmt 3. mgr. setur ráðherra nánari reglur um samvinnu stjórnvalda á EES-svæðinu á sviði stjórnsýslu í tengslum við lög þessi. Tilskipunin hefur að geyma ítarlegar reglur um samvinnu stjórnvalda sem betur eiga heima í reglugerð en lögum.

Um 22. og 23. gr.


    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um þjónustuviðskipti
á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins.

    Með frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að innleidd verði í íslenskan rétt efnisákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2006/123 um þjónustu á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins. Tilgangur frumvarpsins er að greiða fyrir frjálsum þjónustuviðskiptum og tryggja jafnræði þeirra sem veita þjónustu innan EES. Gildissvið frumvarpsins er víðtækt en þó eru mörg stór þjónustusvið undanskilin gildissviði þess, svo sem heilbrigðisþjónusta, félagsþjónusta og fjármálaþjónusta. Í frumvarpinu er kveðið á um í hvaða tilfellum heimilt er að láta aðgang að því að veita þjónustu vera háðan leyfum og hvaða skilyrði óheimilt er að setja fyrir veitingu leyfa. Þá skulu gilda mismunandi reglur eftir því hvort þjónustuveitandi hyggst veita þjónustu með eða án staðfestu í landinu. Gert er ráð fyrir að þjónustuveitendur geti sótt um leyfi til að stunda starfsemi sína á Íslandi með rafrænum hætti og fengið svör frá lögbærum aðilum með sama hætti. Í því sambandi hefur forsætisráðuneytið ásamt efnahags- og viðskiptaráðuneytinu unnið að uppsetningu vefsvæðis (upplýsinga- og þjónustuveitu) þar sem þjónustuveitendur eiga að geta sótt um viðeigandi leyfi með rafrænum hætti en sú vinna er hluti af verkefninu island.is.
    Gert er ráð fyrir að 40% stöðugildi þurfi til að sinna upplýsingaskyldu vegna þjónustutilskipunarinnar í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu og að árlegur kostnaður vegna þess verði 4,6 m.kr. Hjá forsætisráðuneytinu er gert ráð fyrir að við innleiðingu þjónustutilskipunarinnar þurfi 50% stöðugildi til þess að viðhalda þjónustuveitunni og, hanna, setja upp og skipuleggja nýtt vefsvæði auk aðkeyptrar þjónustu vegna þýðingarvinnu við að koma upp gagnvirkum eyðublöðum á ensku til viðbótar þeim íslensku. Áætlað er að árlegur kostnaður vegna þessa verði samtals um 9,5 m.kr. Að auki er hjá forsætisráðuneytinu gert ráð fyrir að á árinu 2011 muni koma til kostnaður við tæknilega þróun og notkun rafrænna skilríkja milli landa. Um kostnað vegna þess verkefnis ríkir mikil óvissa en áætlað er að hann geti numið um 10 m.kr. og falli til á árinu 2011.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum má gera ráð fyrir að útgjöld ríkissjóðs kunni að aukast um 24 m.kr. á árinu 2011 miðað við þessi áform ráðuneytanna en þar af eru um 10 m.kr. tímabundin framlög. Ekki er gert ráð fyrir þessum auknu útgjöldum í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2011 en þar er settur bindandi útgjaldarammi á nafnvirði fyrir ríkið í heild á árinu 2011.