Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 217. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1154  —  217. mál.
Svarvelferðarráðherra við fyrirspurn Sigurðar Inga Jóhannssonar um tannheilsu þjóðarinnar.

     1.      Hver er stefna ráðherra varðandi tannheilsu þjóðarinnar? Kemur hún fram í nýrri heilbrigðisáætlun?
    Stefna ráðherra er að bæta tannheilsu landsmanna eins og kostur er. Er nú leitað leiða til að ná því markmiði. Í drögum að heilbrigðisáætlun til ársins 2020 kemur fram að bætt tannheilsa er meðal forgangsverkeffna á sviði heilbrigðismála. Í heilbrigðisáætlun til 2010 var stefnt að umtalsverðri fækkun tannskemmda (DMFT) 12 ára barna. Einnig var stefnt að því að fjölga tönnum í biti hjá 65 ára og eldri um 50%. Þessi markmið náðust ekki að fullu fyrir 2010 þannig að ljóst er að enn er verk að vinna.

     2.      Hver er stefna ráðherra varðandi tannheilsu barna og markmið um að allir hafi jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu, óháð efnahag?
    Eins og að framan greinir stefnir velferðarráðherra að því að bæta tannheilsu þjóðarinnar á næstu árum. Sérstök áhersla verður lögð á að bæta tannheilsu barna og er undirbúningur þess þegar hafinn. Markmið velferðarráðuneytisins er að ná samningum við tannlækna sem tryggja ókeypis forvarnaskoðun fyrir fjóra árganga barna í stað þriggja árganga áður. Þá er stefnt að samkomulagi um eina gjaldskrá vegna tannlækninga barna sem geti tryggt að kostnaðarþátttaka hins opinbera verði allt að 75% af raunkostnaði fyrir allar almennar tannlækningar barna. Ljóst er þó að breytingar geta orðið frá þessum samningsmarkmiðum á samningaferlinu. Stefnt er að því að innan nokkurra ára njóti öll börn og unglingar á Íslandi nauðsynlegrar tannlæknaþjónustu óháð efnahag. Er m.a. stefnt að sérstökum stuðningi við fjölskyldur sem af fjárhagsástæðum geta ekki staðið undir eigin greiðsluþátttöku í tannlæknakostnaði barna sinna.

     3.      Hver er heildarkostnaður sjúklinga og ríkis við tannlækningar? Svar óskast sundurliðað eftir:
                  a.      fyrirbyggjandi þjónustu,
                  b.      tannréttingum,
                  c.      almennum tannlækningum,
                  d.      meiri háttar inngripum sem greidd eru af Sjúkratryggingum Íslands.

    Erfitt er að meta tannlæknakostnað einstaklinga á aldrinum 18–66 ára þar sem Sjúkratryggingar greiða ekki tannlæknakostnað þeirra. Hagstofa Íslands hefur áætlað tannlæknakostnað út frá könnun á einkaneyslu sem gerð var árið 2007. Samkvæmt könnuninni var tannlæknakostnaður á mann árið 2007 að meðaltali 23.127 kr., þar af greiddi hið opinbera 4.205 kr. eða 18%.
    Sjúkratryggingar taka þátt í kostnaði vegna tannlækninga aldraðra, öryrkja og barna yngri en 18 ára á grundvelli gjaldskrár sem Sjúkratryggingar Íslands gefa út. Mismunandi hlutfall af gjaldskrá SÍ er endurgreitt eftir stöðu sjúkratryggðra. Þá er veittur styrkur vegna tannréttingar barna og unglinga að fjárhæð 150 þús. kr. Greitt er 95% af kostnaði vegna alvarlegra afleiðinga meðfæddra galla, slysa og sjúkdóma.
    Í meðfylgjandi töflu kemur fram kostnaður ríkisins af ýmsum flokkum tannlæknaþjónustu.

Tannlæknaþjónusta 2010 Kostnaður SÍ í millj. kr.
Fyrirbyggjandi þjónusta 456,3
Tannréttingar 233,7
Almennar tannlækningar 546,4
„Meiri háttar“ inngrip 67,7
Samtals 1.304,1

    Kostnaður vegna fyrirbyggjandi þjónustu samanstendur af gjaldfrjálsum forvarnaskoðunum 3, 6 og 12 ára barna, almennu eftirliti, fræðslu, tannhreinsun, flúorlökkun og skorufyllum.
    „Meiri háttar inngrip“ eru flokkuð hér sem öll tannlæknaþjónusta sem tilkomin er vegna alvarlegra afleiðinga fæðingargalla, sjúkdóma eða slysa.
    Upplýsingar um verð tannlækna í töflunni fela í sér heildarverð gjaldskrárliða sem SÍ tekur þátt í að greiða. Ekki er hægt að greina allan tannlæknakostnað sjúkratryggðra í gögnum SÍ þar sem aðeins liggja fyrir upplýsingar um þá gjaldliði sem SÍ tekur þátt í að greiða.

     4.      Hvað þyrfti skattprósenta að hækka mikið til að standa undir öllum kostnaði skv. 3. lið fyrirspurnarinnar?
    Ætla má að um það bil 18% heildarkostnaðar við tannlækningar landsmanna sé greiddur af hinu opinbera. Út frá þeirri forsendu má áætla að heildarkostnaður landsmanna allra vegna tannlækninga hafi verið 7,2 milljarðar kr. á árinu 2010. Ef dreginn er frá sá kostnaður sem ríkið greiddi árið 2010 standa eftir um 5,9 milljarðar kr.
    Fjármálaráðuneytið áætlar að hækkun um eitt prósentustig í tekjuskatti einstaklinga (þ.e. breyta grunnþrepinu um 1 prósentustig og efri þrepunum tilsvarandi einnig um 1 prósentustig) gefi ríkissjóði um 7 milljarða kr. Samkvæmt því mundi þurfa að hækka tekjuskatt einstaklinga um 0,85 prósentustig til að ríkið gæti staðið undir öllum tannlæknakostnaði landsmanna.