Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 298. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1160  —  298. mál.




Framhaldsnefndarálit



um frv. til l. um stjórn vatnamála.

Frá umhverfisnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið að nýju eftir 2. umræðu og fengið á sinn fund Sigríði Auði Arnardóttur frá umhverfisráðuneyti, Kristínu L. Árnadóttur og Heiðrúnu Guðmundsdóttur frá Umhverfisstofnun, Ingimar Jóhannsson og Sigríði Norðmann frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti, Árna Snorrason frá Veðurstofu Íslands, Sigurð Guðjónsson frá Veiðimálastofnun, Jóhann Sigurjónsson frá Hafrannsóknastofnuninni og Jón Gunnar Ottósson frá Náttúrufræðistofnun Íslands. Þá barst nefndinni bréf frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti.
    Að þessu sinni voru meðal annars ræddar greinar um refsiábyrgð, þvingunarúrræði og hlutverk rannsóknarstofnana.
    Nefndin ræddi nokkuð um refsiábyrgð og þvingunarúrræði. Að mati nefndarinnar felur frumvarpið ekki í sér mörg efnisákvæði sem varðað geta refsingu, en einna helst væri um að ræða ákvæði III. kafla frumvarpsins. Nefndin bendir á að lítið hefur reynt á refsiákvæði laga á sviði umhverfislöggjafar, en áréttar að almenn refsiákvæði er að finna í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, og telur að þau ákvæði muni í flestum tilvikum ná yfir þau atvik sem gætu komið til skoðunar við framkvæmd laganna verði frumvarpið samþykkt. Það er því niðurstaða nefndarinnar að leggja ekki til að refsiábyrgðarákvæði verði sett inn í frumvarpið þótt í vatnatilskipuninni, 23. gr., séu ákvæði um viðurlög, en bendir á að rétt sé að huga betur að þessum þætti þegar reynsla hefur fengist af hinum væntanlegu lögum um stjórn vatnamála. Nefndin telur hins vegar öðru máli gegna um þvingunarúrræði. Með því að bæta ákvæði um þvingunarúrræði inn í frumvarpið verði tryggt að stefnumörkun um vatnsvernd verði samþætt skipulagsáætlunum sveitarfélaga og leyfisveitingum. Með þeirri breytingu gæti Umhverfisstofnun gripið til aðgerða gegn leyfisveitendum ef þeir sinna ekki skyldum sínum samkvæmt frumvarpinu. Nefndin áréttar hins vegar að þvingunarúrræðin eigi eingöngu við um ákvæði 2.–4. mgr. 28. gr. en ekki frumvarpið í heild sinni.
    Nefndin ræddi um hlutverk rannsóknarstofnana skv. 10. gr. sem breytt var að tillögu nefndarinnar við 2. umræðu með þeim hætti að hlutur Náttúrufræðistofnunar var aukinn í samræmi við lög um þær stofnanir sem taldar eru upp í greininni, þ.e. lög um Veðurstofu Íslands, nr. 70/2008, einkum 3. gr., lög um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur, nr. 60/1992, einkum 4. og 6. gr., lög um Veiðimálastofnun, nr. 59/2006, einkum 1. og 4. gr., og lög um rannsóknir í þágu atvinnuveganna, nr. 64/1965, einkum 17. gr. Fram kom óánægja hjá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti og forstjórum annarra stofnana en Náttúrufræðistofnunar með þessa breytingu, og á fundi nefndarinnar með forstjórum stofnananna fjögurra auk forstjóra Umhverfisstofnunar kom í ljós að greininni var einkum ætlað að lýsa uppbyggingu gagnagrunns á vegum Veðurstofunnar og framlagi hverrar og einnar stofnunar til hans. Ljóst er að innan stofnana og ráðuneyta er ekki einhugur um skipulag náttúrufarsrannsókna, og er meðal annars deilt um túlkun áðurnefndra laga. Viðhorf nefndarinnar í þeim efnum kemur skýrt fram í nefndaráliti fyrir 2. umræðu málsins, þ.e. að hlutverk Náttúrufræðistofnunar Íslands sé að lögum að rannsaka alla náttúru Íslands, einkum allt lífríki þess, en hlutverk Veiðimálastofnunar og Hafrannsóknastofnunarinnar beinist einkum að nytjastofnum. Vel má vera að þetta þurfi að skýra nánar í lögum og tilgreina beint skiptingu verka milli einstakra stofnana, m.a. til að slá á deilur eins og þær sem nú hafa sprottið af orðalagi 10. gr. Nefndin telur þó ekki skynugt að Alþingi setji slík ákvæði í væntanleg lög um stjórn vatnamála. Hún leggur því til að Umhverfisstofnun verði á grundvelli reglugerðar falið að ganga til samninga við þessar stofnanir og fleiri um þau hagnýtu verkefni sem hér um ræðir.
    Við 2. umræðu kallaði nefndin breytingartillögu sína við 11. gr. frumvarpsins til 3. umræðu. Leggur nefndin nú til annars konar breytingar á 11. gr. til að ljóst sé hvernig flokka eigi vatnshlot, hver umhverfismarkmiðin eigi að vera og hvar þau eigi að koma fram.
    Í 7. og 19. gr. frumvarpsins er rætt um að setja umhverfismarkmið fyrir einstök vatnshlot. Það mun vera óvinnandi vegur samkvæmt ábendingum og leggur nefndin í samræmi við ábendingarnar til að þessi ákvæði taki til vatnshlotsgerða.
    Í 25. gr. frumvarpsins er fjallað um skrá yfir „vernduð svæði“. Nefndinni var bent á að í vatnatilskipuninni, 6. gr. og IV. viðauka, kemur fram að átt er við ýmiss konar vatnasvæði sem á grundvelli laga og reglna hafa verið skilgreind sem svæði sem gefa þarf sérstakan gaum að af ýmsum ástæðum, en ekki eingöngu á forsendum náttúruverndar eða vegna vatnstöku eins og mætti skilja af frumvarpstextanum einum. Nefndin leggur því til að orðalagi verði breytt í greininni og notuð í staðinn orðin „vernduð og viðkvæm svæði“.
    Nefndin leggur til breytingar á 28. gr. frumvarpsins á þann hátt að við afgreiðslu umsóknar um leyfi til nýtingar vatns og við aðra leyfisveitingu til framkvæmda á grundvelli skipulagslaga og laga um mannvirki skuli leyfisveitandi tryggja að leyfið sé í samræmi við þá stefnumörkun um vatnsvernd sem fram kemur í vatnaáætlun. Þar sem framkvæmdaleyfi sveitarstjórnar á grundvelli skipulagslaga getur varðað vatnshlot sem metin hafa verið og um hafa verið sett umhverfismarkmið í vatnaáætlun telur nefndin eðlilegt að slík leyfi verði í samræmi við vatnaáætlunina.
    Að auki leggur nefndin til frekari breytingar sem snúa einkum að lagatæknilegum atriðum auk einstakra minni háttar leiðréttinga.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð er grein fyrir hér að framan og lagðar eru til í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 29. mars 2011.



Mörður Árnason,


form., frsm.


Jónína Rós Guðmundsdóttir.


Birgir Ármannsson.



Álfheiður Ingadóttir,


með fyrirvara.


Vigdís Hauksdóttir,


með fyrirvara.


Ólafur Þór Gunnarsson.



Kristján Þór Júlíusson.


Skúli Helgason.


Birgitta Jónsdóttir.