Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 298. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1174  —  298. mál.
Breytingartillögurvið frv. til l. um stjórn vatnamála og brtt. á þskj. 1161.

Frá Álfheiði Ingadóttur.     1.      Í stað orðsins „grunnvatnshlots“ í 3. tölul. 3. gr. og sama orðs hvarvetna annars staðar í frumvarpinu komi, í viðeigandi beygingarmynd, auk þess sem kyn sambeygðra orða breytist samsvarandi: grunnvatnsheild.
     2.      Í stað orðsins „vatnshlot“ í 6. tölul. 3. gr. og sama orðs hvarvetna annars staðar í frumvarpinu komi, í viðeigandi beygingarmynd, auk þess sem kyn sambeygðra orða breytist samsvarandi: vatnsheild.
     3.      Í stað orðsins „yfirborðsvatnshlot“ í 7. tölul. 3. gr. og sama orðs hvarvetna annars staðar í frumvarpinu komi, í viðeigandi beygingarmynd, auk þess sem kyn sambeygðra orða breytist samsvarandi: yfirborðsvatnsheild.
     4.      Við brtt. á þskj. 1161. Í stað orðanna „gerðir vatnshlota“ í 1. tölul og tvívegis í 6. tölul. komi, í viðeigandi beygingarmynd: gerðir vatnsheilda.
     5.      Við brtt. á þskj. 1161. Í stað orðsins „vatnshlot“ hvarvetna í 4. tölul. komi, í viðeigandi beygingarmynd, auk þess sem kyn sambeygðra orða breytist samsvarandi: vatnsheild.
     6.      Við brtt. á þskj. 1161. Í stað orðsins „yfirborðsvatnshloti“ í 2. efnismgr. 4. tölul. komi: yfirborðsvatnsheild.
     7.      Við brtt. á þskj. 1161. Í stað orðsins „grunnvatnshlota“ í 3. og 4. efnismgr. 4. tölul. komi: grunnvatnsheilda.
     8.      Í stað orðsins „vatnshlotsgerðir“ í i-lið 1. mgr. 19. gr. komi: vatnsheildargerðir.

Greinargerð.


    Hér er gerð tillaga um að í lögunum tákni orðið „vatnsheild“ einingu vatns, svo sem allt það vatn sem er að finna í stöðuvatni, á eða strandsjó.
    Orðið „vatnshlot“ er að mati flutningsmanns mjög ógagnsætt og algerlega óþarft þar sem annað hljómfegurra, gagnsærra og skýrara orð er fyrir í íslensku máli. Það er orðið „vatnsheild“ enda „heild“ viðtekið orð og öllum skiljanlegt og tekur til þess sem segir í greinargerð að á dönsku sé „legeme“, ensku „body“ og á þýsku „Körper“. Þau orð er ekki hægt að þýða beint yfir á íslensku sem líkama eða boddí og óþarft er að búa til óskýrt orð yfir það sem eðlilegt er að nefna vatnsheild. Að mati flutningsmanns gildir einu þótt stjórnsýslan hafi notað orðið vatnshlot eða önnur hlot og flutningsmaður telur óþarft að festa slíkt í lög.