Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 667. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Prentað upp.

Þskj. 1183  —  667. mál.
Flutningsmenn.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002 (skilanefndir, slitastjórnir).

Flm.: Álfheiður Ingadóttir, Helgi Hjörvar, Þráinn Bertelsson, Eygló Harðardóttir.


1. gr.

    Við 3. tölul. ákvæðis til bráðabirgða V í lögunum bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Ákvæði þetta fellur úr gildi 1. september 2011 og skulu þá þau verk sem skilanefndir hafa sinnt samkvæmt framansögðu falla til slitastjórna. Þegar slitastjórn hefur tekið við verkefnum skilanefndar getur héraðsdómari eftir beiðni slitastjórnar skipað fleiri menn í slitastjórn en þeir mega þó ekki vera fleiri en fimm.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á bráðabirgðaákvæði í lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Markmið breytinganna er að við slitameðferð hinna föllnu banka starfi ekki lengur tveir aðilar, þ.e. skilanefndir og slitastjórnir heldur flytjist verkefni skilanefndanna til slitastjórna við tiltekið tímamark.
    Skilanefndir voru skipaðar yfir þrjá íslenska banka með ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins, FME, eftir setningu neyðarlaganna svokölluðu, laga nr. 125 7. október 2008. Í 5. gr. þeirra var gert ráð fyrir að FME gæti gripið til aðgerða og tekið yfir fjármálafyrirtæki við erfiðar aðstæður og til að takmarka tjón á fjármálamarkaði. Á grundvelli þessa ákvæðis og með ákvörðunum sínum dagana 7.–9. október 2008 skipaði FME umræddar skilanefndir í þeim tilgangi að taka yfir stjórn bankanna. Um þær giltu þó engin lagaákvæði og störfuðu þær því í lögfræðilegu tómarúmi fyrstu mánuðina.
    Með lögum nr. 44/2009, um breyting á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sem samþykkt voru 15. apríl 2009, var síðan settur heildarrammi um slitameðferð fjármálafyrirtækja. Var þá lögfest heimild til að setja slitastjórnir yfir fjármálafyrirtæki að tilteknum skilyrðum uppfylltum, sbr. 101. gr. laga nr. 161/2002, og kemur það í hlut héraðsdómara sem tekur fjármálafyrirtæki til skipta að skipa því slitastjórn. Hefur slitastjórnin flestar sömu heimildir og skiptastjóri þrotabús, eins og nánar er lýst í lögunum. Í frumvarpinu sem varð að lögum nr. 44/2009 var einnig fjallað sérstaklega um þau fjármálafyrirtæki sem þegar hefðu fengið heimild til greiðslustöðvunar þegar lögin gengju í gildi. Var þar gert ráð fyrir að skilanefndirnar sem FME hafði skipað við yfirtöku þeirra mundu starfa áfram samhliða slitastjórnum. Í ákvæðunum var gert ráð fyrir að skilanefndir sinntu því hlutverki sem slitastjórn var ætlað í nánar tilgreindum tilfellum en öðrum verkefnum sinnti slitastjórn. Við meðferð frumvarpsins á Alþingi var nokkuð rætt um þetta fyrirkomulag, þ.e. að hafa skilanefnd og slitastjórn starfandi samhliða. Viðskiptanefnd flutti breytingartillögu við frumvarpið þar sem gert var ráð fyrir að takmarkað yrði hversu lengi skilanefndir gætu starfað eftir gildistöku laganna og lagði nefndin til að slitastjórnir mundu áður en sex mánuðir væru liðnir frá gildistöku laganna taka við verkefnum sem skilanefndunum var ætlað að sinna. Taldi nefndin eðlilegt að skilanefndir störfuðu ekki samhliða slitastjórnum enda væri flutningur verkefna þeirra á milli ekki vandkvæðum bundinn. Það var því mat nefndarinnar að tvöfalt kerfi væri ekki heillavænlegt til framtíðar litið. Í meðförum málsins á Alþingi tók tillaga nefndarinnar smávægilegum breytingum, þ.e. fallið var frá því að tiltaka sérstakt tímamark þar sem slitastjórn tæki við verkefnum skilanefndar. Ástæða þessa var gagnrýni af hálfu skilanefnda og ýmissa kröfuhafa. Meðal annars var talið að samkomulag milli ríkis og erlendra kröfuhafa væri á viðkvæmu stigi og að persónuleg samskipti skilanefndarmanna við kröfuhafana væru það mikilvæg að ekki væri ráðlegt að leggja nefndirnar af á þeim tímapunkti.
    Nú er staðan hins vegar orðin önnur og tveir af þremur bönkum sem falla undir bráðabirgðaákvæðið í lögunum eru þegar komnir í eigu kröfuhafanna. Því ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að takmarka líftíma skilanefndanna og færa verkefnin yfir til slitastjórna. Séu í hópi skilanefndarmanna einstaklingar sem hafa víðtæka þekkingu og góð persónuleg sambönd við kröfuhafa ætti að vera mögulegt að ráða viðkomandi einstaklinga til starfa fyrir slitastjórnina og halda þannig þekkingu, reynslu og persónulegum tengslum við kröfuhafana.
    Því er í frumvarpi þessu lagt til að skilanefndir starfi ekki lengur en til 1. september 2011 og falli þá öll verkefni þeirra í hendur slitastjórnanna. Þá er einnig gert ráð fyrir því að héraðsdómari geti fjölgað starfsmönnum slitastjórna að beiðni slitastjórnar. Telja verður að tímafrestur þessi sé nægilegur til að undirbúa breytingarnar og skipuleggja flutning starfsmanna ef af honum verður og hafa skilanefndirnar þá starfað í hartnær þrjú ár.