Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 696. máls.

Þskj. 1215  —  696. mál.




Frumvarp til laga

um breyting á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, með síðari breytingum (eigið fé, stórar áhættur, verðbréfun o.fl.).

(Lagt fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010–2011.)




1. gr.

    2. málsl. 2. mgr. 1. gr. laganna fellur brott.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. a laganna:
     a.      Í stað orðsins „greiðsluerfiðleikum“ í b-lið 2. tölul. kemur: erfiðleikum með fjármögnun eða endurgreiðslu skulda.
     b.      Við bætast við tveir nýir töluliðir, svohljóðandi:
              10.      Fjármálafyrirtæki: Viðskiptabanki, sparisjóður, lánafyrirtæki, rafeyrisfyrirtæki, verðbréfafyrirtæki, verðbréfamiðlun eða rekstrarfélag verðbréfasjóða sem fengið hefur starfsleyfi skv. 6. gr., sbr. 4. gr.
              11.      Verðbréfun (e. securitisation): Viðskiptasamningur eða kerfisfyrirkomulag þar sem lánaáhætta tengd ákveðinni kröfu eða kröfusafni er lagskipt í hluta (e. tranches) með eftirfarandi hætti:
                      1.      greiðslur samkvæmt viðskiptasamningnum eða kerfisfyrirkomulaginu eru háðar afkomunni af kröfunni eða kröfusafninu, og
                      2.      forgangsröðun laganna (e. tranches) ákvarðar dreifingu taps á líftíma viðskiptasamningsins eða kerfisfyrirkomulagsins.

3. gr.

    Á eftir 29. gr. a laganna koma fjórar nýjar greinar, 29. gr. b – 29. gr. e, er orðast svo ásamt fyrirsögnum:

    a. (29. gr. b.)

Færsla á útlánaáhættu.

    Séu viðskiptabanki, sparisjóður eða rafeyrisfyrirtæki hvorki útgefandi (e. originator), umsýsluaðili (e. sponsor) né upphaflegur lánveitandi (e. original lender) bera þau ekki útlánaáhættu í formi verðbréfunar nema verðbréfunin uppfylli reglur sem Fjármálaeftirlitið setur.
    Útgefandi, umsýsluaðili eða upphaflegur lánveitandi getur ekki undanskilið verðbréfun, sem seld hefur verið öðrum aðila, við útreikning á eiginfjárþörf nema útgefandi, umsýsluaðili eða upphaflegur lánveitandi haldi eftir ákveðnum hluta áhættunnar.

    b. (29. gr. c.)

Upplýsingaskylda varðandi verðbréfun.


    Útgefandi eða umsýsluaðili skal greina fjárfestum frá skuldbindingu sinni varðandi verðbréfun skv. 29. gr. b. Hann skal tryggja að mögulegir framtíðarfjárfestar hafi aðgang að öllum viðeigandi upplýsingum varðandi gæði og vanskilastöðu undirliggjandi eigna, sjóðstreymi og tryggingar, auk upplýsinga sem talist geta nauðsynlegar í því skyni að framkvæma heildstæð og traust álagspróf á sjóðstreymi og virði þeirra trygginga sem liggja að baki eignunum. Í þeim tilgangi skulu viðeigandi upplýsingar miðast við þann dag sem stofnað er til verðbréfunar, og síðar ef við á í samræmi við eðli verðbréfunarinnar.

    c. (29. gr. d.)

Reglur Fjármálaeftirlitsins um verðbréfun.


    Fjármálaeftirlitið skal setja nánari reglur um verðbréfun, þar á meðal um framkvæmd ákvæða 29. gr. b og 29. gr. c, þar sem m.a. kemur fram hversu hátt hlutfall áhættu útgefandi skal halda eftir og um viðbrögð við viðvarandi lausafjárþurrð á fjármálamarkaði.
    Ef reglur Fjármálaeftirlitsins eru brotnar ber Fjármálaeftirlitinu að krefjast a.m.k. 250% hækkunar á áhættuvog við eiginfjárútreikning. Ef brot telst óverulegt að mati Fjármálaeftirlitsins er heimilt að falla frá auknum eiginfjárkröfum.

    d. (29. gr. e.)

Birting athugana Fjármálaeftirlitsins.

    Einu sinni á ári skal Fjármálaeftirlitið birta niðurstöður athugana sinna á framfylgni reglna skv. 29. gr. b og 29. gr. d. Ef útgefandi, upphaflegur lánveitandi eða umsýsluaðili hefur brotið gegn skyldum sínum skv. 29. gr. b eða reglum Fjármálaeftirlitsins skv. 29. gr. d skal Fjármálaeftirlitið gefa út samantekt þar sem fram kemur til hvaða aðgerða hefur verið gripið.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 30. gr. laganna:
     a.      Á eftir 1. málsl. 1. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Ákvæði 1. málsl. eiga þó ekki við um verðbréfafyrirtæki sem ekki hafa starfsheimildir skv. c- og f-lið 1. tölul. 1. mgr. 25. gr., verðbréfamiðlanir og rekstrarfélög verðbréfasjóða.
     b.      2. málsl. 1. mgr. verður 2. mgr. greinarinnar og breytist röð annarra málsgreina samkvæmt því.
     c.      3. málsl. 1. mgr. fellur brott.

5. gr.

    4. mgr. 52. gr. laganna orðast svo:
    Stjórnarmenn fjármálafyrirtækis mega ekki eiga sæti í stjórn annars eftirlitsskylds aðila eða aðila sem er í nánum tengslum við hann né vera starfsmenn eða endurskoðendur annars eftirlitsskylds aðila eða aðila í nánum tengslum við hann. Stjórnarmenn fjármálafyrirtækis mega ekki sinna lögmannsstörfum fyrir annað fjármálafyrirtæki. Starfsmönnum fjármálafyrirtækis er ekki heimilt að sitja í stjórn viðkomandi fjármálafyrirtækis.

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 84. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðunum „byggðir á“ í 2. málsl. 4. mgr. kemur: ársuppgjöri eða.
     b.      Í stað 4. málsl. 5. mgr. koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Eiginfjárliðir teljast aðeins til eiginfjárþáttar A ef unnt er að færa þá niður til að mæta rekstrartapi fjármálafyrirtækja í áframhaldandi rekstri. Við gjaldþrot eða slit skal greiða innborgað hlutafé og yfirverðsreikning hlutafjár á eftir öllum öðrum kröfum.

7. gr.

    3. mgr. 87. gr. laganna orðast svo:
    Í ársreikningi skal tilgreina upplýsingar um launagreiðslur og hvers konar greiðslur eða hlunnindi félagsins til hvers og eins stjórnarmanns, framkvæmdastjóra og lykilstarfsmanns.

8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 110. gr. laganna:
     a.      Við inngangsmálslið bætist: eftirtöldum ákvæðum laga þessara og eftir atvikum reglum settum á grundvelli þeirra.
     b.      4. tölul. orðast svo: 17. gr. um framkvæmd áhættustýringar.
     c.      Orðin „að fara að reglum Fjármálaeftirlitsins“ í 7. tölul. falla brott.
     d.      Á eftir 12. tölul. koma tveir nýir töluliðir, 13. og 14. tölul., svohljóðandi, og breytist röð annarra töluliða samkvæmt því:
        13.        29. gr. b um færslu á útlánaáhættu.
        14.        29. gr. c um upplýsingaskyldu varðandi verðbréfun.
     e.      Orðin „1. og 3. mgr.“ í 13. tölul., sem verður 15. tölul., falla brott.

9. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 112. gr. b laganna:
     a.      Inngangsmálsliður orðast svo: Það varðar sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, liggi þyngri refsing ekki við broti samkvæmt öðrum lögum, að brjóta gegn eftirtöldum ákvæðum laga þessara og eftir atvikum reglum settum á grundvelli þeirra.
     b.      3. tölul. orðast svo: 19. gr. um góða viðskiptahætti og venjur.
     c.      Við bætast tveir nýir töluliðir, 9. og 10. tölul., svohljóðandi, og breytist röð annarra töluliða samkvæmt því:
                  9.      29. gr. b um færslu á útlánaáhættu.
                  10.      29. gr. c um upplýsingaskyldu varðandi verðbréfun.

10. gr.

    Í stað orðanna „og tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2007/44/EB“ í 117. gr. laganna kemur: tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2007/44/EB og tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2009/111/EB.

11. gr.

    Í stað dagsetningarinnar „1. júlí 2011“ í 8. mgr. ákvæðis til bráðabirgða VI í lögunum kemur: 1. júlí 2012.

12. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Ákvæði 29. gr. b tekur til verðbréfunar sem stofnað hefur verið til eftir gildistöku þessara laga, en eftir 31. desember 2014 skal ákvæðið einnig ná til allra verðbréfaðra staðna sem stofnað hefur verið til fyrir setningu þessara laga, enda hafi eignum verið skipt út eða eignum bætt við undirliggjandi eignasafn eftir þann tíma.
    Fjármálaeftirlitið skal, fyrir 31. desember 2011, birta upplýsingar um almenn viðmið og aðferðir sem notaðar eru við mat á því hvort skilyrði 29. gr. b eða reglna Fjármálaeftirlitsins skv. 29. gr. d teljast vera uppfyllt.

13. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Ákvæði d-liðar 3. gr. (29. gr. e) kemur þó ekki til framkvæmda fyrr en frá og með 31. desember 2012.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Í lagafrumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Megintilgangurinn með frumvarpinu er að innleiða í íslenskan rétt ákvæði tilskipunar nr. 2009/111/EB, en einnig að gera smávægilegar breytingar á öðrum ákvæðum laganna, svo sem 4. mgr. 52. gr. um hæfi til að sitja í stjórn fjármálafyrirtækja og 3. mgr. 87. gr. varðandi upplýsingar um greiðslur og hlunnindi í ársreikningi.
    Sá hluti frumvarpsins er lýtur að breytingum á lögunum vegna innleiðingar á tilskipun 2009/111/EB var saminn af hluta nefndar sem var skipuð af viðskiptaráðherra 6. janúar 2009 í þeim tilgangi að fara yfir lög á sviði fjármálamarkaðar.
    Umrædd nefnd samdi einnig frumvarp það er varð að lögum nr. 75/2010, um breyting á lögum um fjármálafyrirtæki, en nefndin mun halda áfram að vinna í því að fara yfir löggjöf á sviði fjármálamarkaðar.
    Á fundi nefndarinnar 1. júlí 2010 var ákveðið að stækka nefndina lítillega og skipta henni í tvo hópa, tæknihóp og lagahóp. Tæknihópinn sem vann þetta frumvarp skipa Harpa Jónsdóttir, f.h. Seðlabankans, formaður hópsins, Lilja Rut Kristófersdóttir, f.h. Fjármálaeftirlitsins, Sverrir Örn Þorvaldsson, f.h. Samtaka fjármálafyrirtækja, og Vilhjálmur Bjarnason, f.h. Samtaka fjárfesta. Starfsmaður hópsins var Auður Ýr Steinarsdóttir, lögfræðingur í efnahags- og viðskiptaráðuneyti. Tæknihópurinn hélt sinn fyrsta fund 17. september 2010, en hópnum var ætlað það hlutverk að fara yfir tæknileg ákvæði tilskipunar 2009/111/EB og koma með tillögur að innleiðingu hennar í íslenskan rétt.

Tilskipun 2009/111/EB.
    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/111/EB (e. Directive 2009/111/EC of the European Parliament and of the Council of 16 September 2009 amending Directives 2006/ 48/EC, 2006/49/EC and 2007/64/EC as regards banks affiliated to central institutions, certain own funds items, large exposures, supervisory arrangements, and crisis management) kveður á um breytingar á tilskipunum 2006/48/EB, um stofnun og rekstur lánastofnana, 2006/49/EB, um eigið fé fjármálafyrirtækja, og 2007/64/EB, um greiðsluþjónustu á innri markaðnum, að því er varðar tiltekna þætti eigin fjár, stórar áhættur, fyrirkomulag eftirlits og áhættustýringar.
    Samkvæmt niðurstöðum tæknihópsins munu allmörg ákvæða tilskipunarinnar verða innleidd með reglum Fjármálaeftirlitsins, en í flestum þeim tilvikum er um að ræða nánari útfærslur á tæknilegum atriðum er varða útreikninga.
    Í fylgiskjali I með frumvarpinu er að finna yfirlitstöflu yfir ákvæði tilskipunarinnar þar sem fram koma niðurstöður hópsins varðandi innleiðingu þeirra.

Helstu breytingar og nýmæli.
          Endurbætt skilgreining á eigin fé hvað varðar eiginfjárþátt A.
          Skilgreiningu á fjármálafyrirtækjum breytt lítillega og hún færð í 1. gr. a laganna, orðskýringar.
          Skilgreining á hópi tengdra viðskiptavina bætt.
          Nýtt ákvæði um færslu á útlánaáhættu, auk skilgreiningar á verðbréfun.
          Undanþága frá takmörkunum á stórum áhættum fyrir tiltekin verðbréfafyrirtæki, verðbréfamiðlanir og rekstrarfélög verðbréfasjóða.
          Ákvæði um að samtala fyrir stórar áhættur megi ekki fara yfir 800% af eiginfjárgrunni fellt brott.
          Ákvæði laganna um hæfi lögmanna til að sitja í stjórn fjármálafyrirtækja breytt.
          Viðurlagaákvæðum laganna breytt til hagræðingar, auk þess sem bætt er inn tveimur nýjum töluliðum sem veita heimildir fyrir beitingu viðurlaga fyrir brot gegn a- og b-lið 3. gr. frumvarpsins.
          Lagt til að í ársreikningi fjármálafyrirtækis skuli tilgreina upplýsingar um launagreiðslur og hvers konar greiðslur eða hlunnindi félagsins til hvers og eins lykilstarfsmanns, auk hvers og eins stjórnarmanns og framkvæmdastjóra.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Lagt er til að 2. málsl. 2. mgr. 1. gr. verði felldur brott, en af hagkvæmnisástæðum þykir réttara að hafa almenna skilgreiningu á fjármálafyrirtækjum í 1. gr. a laganna, sem inniheldur orðskýringar.

Um 2. gr.


    Í greininni er annars vegar lögð til viðbót og hins vegar breyting á 1. gr. a laganna, sem inniheldur orðskýringar.
     Um a-lið.
    Lagt er til að orðalagið í b-lið 2. tölul. verði breytt til samræmis við b-lið 2. mgr. 1. gr. tilskipunar 2009/111/EB, sem breytir 45. lið b 4. gr. tilskipunar 2006/48/EB.
     Um b-lið.
    Til hagræðingar þykir æskilegt að hafa skilgreiningu á fjármálafyrirtækjum í 1. gr. a laganna, sem inniheldur orðskýringar. Þá var einnig talið æskilegt að telja sérstaklega upp í ákvæðinu þau fjármálafyrirtæki sem geta fengið starfsleyfi skv. 6. gr., sbr. upptalningu í 4. gr. laganna.
    Í 3. gr. frumvarpsins er lagt til að nýjum greinum verði bætt við lögin sem muni fjalla um verðbréfun og því þykir nauðsynlegt að bæta sérstakri skilgreiningu á hugtakinu í orðskýringarákvæði laganna.

Um 3. gr.


    Greininni er ætlað að innleiða ákvæði 30. mgr. 1. gr. tilskipunar 2009/111/EB, sem bætir nýjum undirkafla um færslu á útlánaáhættu (e. exposures to transferred credit risk) við 2. kafla tilskipunar 2006/48/EB, en sá kafli fjallar um varfærniseftirlit (e. technical instruments of prudential supervision).
     Um a-lið (29. gr. b).
    Í 1. mgr. ákvæðisins kemur fram að séu viðskiptabanki, sparisjóður eða rafeyrisfyrirtæki hvorki útgefandi (e. originator), umsýsluaðili (e. sponsor) né upphaflegur lánveitandi (e. original lender) beri þau ekki útlánaáhættu í formi verðbréfunar nema verðbréfunin uppfylli reglur sem Fjármálaeftirlitið setur.
    Með stofnun áhættu er vísað til þess hver beri útlánaáhættuna (e. credit risk) ef til vanefnda kemur og hvar áhættan liggi við útreikning á eiginfjárþörf (sbr. 2. mgr.). Þannig er ekki lagt bann við því að fjárfesta í verðbréfuninni, en skilyrði þess hvar áhættan liggur eru háð því að útgefandi, umsýsluaðili eða upphaflegur lánveitandi uppfylli reglur Fjármálaeftirlitsins. Kaupandinn ber áhættuna ef útgefandi, umsýsluaðili eða upphaflegur lánveitandi uppfyllir reglur Fjármálaeftirlitsins um verðbréfunina, annars ber hann ekki áhættuna.
    Til að útskýra efni 1. mgr. nánar fylgir skýringarmynd um stofnun áhættu í fylgiskjali II með frumvarpinu.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að útgefandi, umsýsluaðili eða upphaflegur lánveitandi geti ekki, nema að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, undanskilið verðbréfun sem seld hefur verið öðrum aðila við útreikning á eiginfjárþörf. Fjármálaeftirlitið skal mæla fyrir um skilyrðin í reglum skv. c-lið 3. gr. frumvarpsins. Megintilgangurinn er að tryggja að útgefendur, umsýsluaðilar eða upphaflegir lánveitendur beri hluta áhættunnar með því að halda eftir ákveðnum hluta af fjármálagerningnum og að útgefendur losi sig ekki undan allri áhættu af fjármálagerningum sem orðið hafa til í fjármálafyrirtækinu. Viðskiptabanki, sparisjóður eða rafeyrisfyrirtæki sem stofnar til útlánaáhættu með því að kaupa verðbréfaða fjármálagerninga á að vera tryggt fyrir því að svo sé. Ef reglur Fjármálaeftirlitsins eru uppfylltar þá ber kaupanda að halda þessari verðbréfun inni í áhættugrunni við útreikning eiginfjárþarfar og að sama skapi eru þær eignir sem verðbréfunin inniheldur ekki lengur áhætta upphaflegs lánveitanda við útreikning á eiginfjárþörf, þannig hefur áhættan færst frá upphaflegum lánveitanda yfir til eiganda verðbréfunarinnar. Ef hins vegar umsýsluaðili eða upphaflegur lánveitandi uppfyllir ekki reglur Fjármálaeftirlitsins um verðbréfunina þá má upphaflegur lánveitandi ekki undanskilja tilsvarandi eignir við útreikning eigin fjár og hann ber jafnframt áhættuna ef til vanefnda kemur. Að sama skapi ber kaupandinn ekki áhættuna né tekur tillit til þessarar áhættu við útreikning á eiginfjárþörf.
    Í nýju ákvæði til bráðabirgða er kveðið á um tímafresti varðandi þær verðbréfanir sem ákvæðinu er ætlað að ná til, en eftir 31. desember 2014 mun ákvæðið ná til allra verðbréfaðra staðna sem stofnað hefur verið til fyrir gildistöku laganna, enda hafi eignum verið skipt út eða eignum bætt við eftir þann tíma.
     Um b-lið (29. gr. c).
    Tilgangurinn með ákvæðinu er að tryggja upplýsingaflæði til fjárfesta frá viðskiptabönkum, sparisjóðum og rafeyrisfyrirtækjum sem stofna til verðbréfunar. Því er gerð sú krafa að tryggt sé að mögulegir framtíðarfjárfestar hafi aðgang að öllum viðeigandi upplýsingum varðandi skuldbindingar skv. a-lið 3. gr. frumvarpsins.
     Um c-lið (29. gr. d).
    Samkvæmt ákvæðinu er Fjármálaeftirlitinu ætlað að útfæra nánar með reglum ákvæði a- og b-liðar 3. gr. frumvarpsins auk ákvæða tilskipunar 2009/111/EB sem varða verðbréfun og verða ekki innleidd í lög.
    Einnig er tekið fram í ákvæðinu að Fjármálaeftirlitinu sé m.a. heimilt að setja reglur um viðbrögð við viðvarandi lausafjárþurrð á fjármálamarkaði, en hér er átt við sérstakar aðstæður á markaði almennt, sem varir í tiltekinn tíma. Meðal þeirra atriða 30. mgr. 1. gr. tilskipunar 2009/111/EB sem er ætlast til að verði innleidd með reglum Fjármálaeftirlitsins er sú regla að tryggja beri að aðilar hafi nægjanlegan skilning á aðgerðunum, en Fjármálaeftirlitinu er í þeim tilgangi heimilt að setja í reglur ákvæði um að aðeins þeim fjármálafyrirtækjum sem hafa yfir að ráða virkri áhættustýringu að mati Fjármálaeftirlitsins sé heimilt að taka þátt í verðbréfun.
    Þá er innleidd sú regla í 2. mgr., sem fram kemur í 5. tölul. 30. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar, að í þeim tilvikum þegar reglur Fjármálaeftirlitsins eru brotnar beri Fjármálaeftirlitinu að krefjast þess að áhættuvog við eiginfjárútreikning hækki um a.m.k. 250%, þó með þeirri undantekningu að Fjármálaeftirlitinu sé heimilt að falla frá slíkri aukningu ef það telur að um óverulegt brot sé að ræða.
     Um d-lið (29. gr. e).
    Samkvæmt greininni skal Fjármálaeftirlitið árlega, fyrst 31. desember 2012, gefa út samantekt sem inniheldur niðurstöður um framfylgni reglna skv. a- og c-lið 3. gr. frumvarpsins. Ef útgefandi, umsýsluaðili eða upphaflegur lánveitandi hafa brotið gegn skyldum sínum skv. a-lið 3. gr. frumvarpsins eða reglum Fjármálaeftirlitsins sem settar hafa verið á grundvelli c-liðar 3. gr. frumvarpsins skal einnig gefa út samantekt með lýsingu á þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til.

Um 4. gr.


    Í greininni eru lagðar til breytingar á 30. gr. laganna, sem kveður á um takmarkanir á stórum áhættum.
     Um a-lið.
    Lagt er til að nýr málsliður varðandi undanþágur frá ákvæðinu verði settur inn, til samræmis við ákvæði 2. mgr. 2. gr. tilskipunar 2009/111/EB, sem felur í sér breytingar á 2. mgr. 20. gr. tilskipunar 2006/49/EB.
    Orðalag ákvæðisins er til samræmis við orðalag 3. málsl. 2. mgr. 84. gr. laganna, sem kveður á um undanþágur fyrir sömu aðila frá mati á rekstraráhættu, sem er einn liður áhættugrunns skv. 84. gr.
     Um b-lið.
    Lagt er til að 2. málsl. 1. mgr. verði færður í 2. mgr. ákvæðisins og að röð þeirra málsgreina sem koma þar á eftir breytist til samræmis. Ákvæðið mun því eftir breytinguna innihalda alls fjórar málsgreinar. Tilvitnaður 2. málsl. 1. mgr. núgildandi laga er svohljóðandi: „Leiki vafi á því hverjir teljast til hóps tengdra viðskiptamanna er fjármálafyrirtæki skylt að tengja aðila saman nema viðkomandi fjármálafyrirtæki geti sýnt fram á hið gagnstæða.“
     Um c-lið.
    Lagt er til að 3. málsl. 1. mgr. 30. gr. falli brott, en þar er kveðið á um að samtala fyrir stórar áhættur megi ekki fara yfir 800% af eiginfjárgrunni.
    Þetta er gert til samræmis við 22. mgr. 1. gr. tilskipunar 2009/111/EB, sem breytir 111. gr. tilskipunar 2006/48/EB, en í breytingunni felst m.a. að sambærilegt ákvæði sem var að finna í 3. mgr. 11. gr. tilskipunarinnar hefur verið fellt brott.
    Óskað var eftir upplýsingum frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins um rökin fyrir breytingunni á rýnifundi um fjármálaþjónustu sem fram fór í Brussel í nóvember 2010, í tengslum við aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu. Samkvæmt svari sem barst með tölvupósti 28. janúar 2011 var álitið að skilyrðið um að samtala stórra áhættuskuldbindinga færi ekki yfir 800% hefði ekki gert gagn við mat á samþjöppunaráhættu. Fjármálafyrirtæki getur verið með verulega mikla samþjöppunaráhættu og á sama tíma með samtölu stórra áhættuskuldbindinga langt undir 800%, og var Ísland glöggt dæmi um það. Það eru því aðrir þættir sem þarf að líta til varðandi samþjöppunaráhættu en 800% viðmiðið, t.d. aðferðafræðin við að meta viðskiptavini fjármálafyrirtækja sem tengda aðila.
    Í tilskipun 2009/111/EB eru talsverðar breytingar á ákvæðum um stórar áhættuskuldbindingar sem Fjármálaeftirlitið þarf að innleiða í reglur um stórar áhættuskuldbindingar hjá fjármálafyrirtækjum, nú reglur nr. 216/2007. Fjármálaeftirlitið hefur heimild skv. 3. mgr. 30. gr. laganna til að setja reglur um stórar áhættuskuldbindingar fjármálafyrirtækja og fjármálasamsteypa. Sér í lagi munu áhættuskuldbindingar milli fjármálafyrirtækja verða takmarkaðar, sem minnkar innbyrðis tengsl milli fjármálafyrirtækja og dregur úr kerfisáhættu.

Um 5. gr.


    Með lögum nr. 75/2010, um breyting á lögum um fjármálafyrirtæki, voru gerðar töluverðar breytingar á 52. gr. laganna. Meðal annars var kveðið á um það að stjórnarmenn fjármálafyrirtækja og annarra eftirlitsskyldra aðila skyldu ekki vera starfsmenn, lögmenn eða endurskoðendur annars eftirlitsskylds aðila eða félaga í nánum tengslum. Í kjölfar breytingarinnar hefur Fjármálaeftirlitinu borist talsverður fjöldi fyrirspurna varðandi störf lögmanna sem sitja í stjórn fjármálafyrirtækja, en samkvæmt orðanna hljóðan leggur gildandi ákvæði fortakslaust bann við því að lögmenn sem sitja í stjórn fjármálafyrirtækis sinni lögmannsstörfum fyrir aðra eftirlitsskylda aðila. Ljóst er að ekki þykir þörf á jafn víðtæku banni varðandi lögmenn sem sitja í stjórn fjármálafyrirtækja og gildir um starfsmenn þeirra og endurskoðendur, þar sem hættan á hagsmunaárekstrum er augljóslega minni varðandi lögmenn hvað varðar störf fyrir aðra eftirlitsskylda aðila. Því er lögð til sú breyting á ákvæðinu að bannið verði einungis látið ná til lögmannsstarfa fyrir önnur fjármálafyrirtæki. Samkvæmt þessu mun lögmanni sem situr í stjórn fjármálafyrirtækis verða óheimilt að sinna hvers kyns störfum í þágu annars fjármálafyrirtækis.
    Með eftirlitsskyldum aðila er átt við þá aðila sem heyra undir eftirlit Fjármálaeftirlitsins skv. 1. mgr. 2. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998.
    Með hliðsjón af gildissviði laganna var orðalagið „og stjórnarmenn annars eftirlitsskylds aðila“ fjarlægt úr 1. málsl. ákvæðisins, auk þess sem orðalaginu var breytt lítillega varðandi tengda aðila í þeim tilgangi að gæta samræmis við hugtakanotkun laganna.

Um 6. gr.


    Hér eru lagðar til breytingar á 84. gr. laganna, sem fjallar um skilgreiningu eigin fjár.
     Um a-lið.
    Lagt er til að orðinu „ársuppgjör“ verði bætt inn í 2. málsl. 4. mgr. ákvæðisins og er það til samræmis við ákvæði c-liðar 7. mgr. 1. gr. tilskipunar 2009/111/EB, sem breytir 3. mgr. 57. gr. tilskipunar 2006/48/EB.
     Um b-lið.
    Lagt er til að tekin verði út skilgreiningin á innborguðu hlutafé. Að mati nefndarinnar er hún í raun merkingarlaus og getur jafnvel verið villandi. Hugtakið peningar (e. cash money) bendir til þess að eingöngu sé átt við reiðufé og því geti t.d. ríkisskuldabréf og bankainnstæður ekki fallið þar undir. Að auki taka ákvæði á grundvelli 83. gr. laganna (um laust fé) og 84. gr. laganna (um eigið fé) á þessu atriði. Er þá litið til þess að ef um nýtt innborgað hlutafé er að ræða muni Fjármálaeftirlitið hafa eftirlit með því að reglur eftirlitsaðila um laust fé og eigið fé séu uppfylltar.
    Lagt er til að bætt verði við ákvæðið nýjum málsliðum sem er ætlað að innleiða ákvæði a-liðar 7. mgr. 1. gr. tilskipunar 2009/111/EB, sem breytir a-lið 1. mgr. 57. gr. tilskipunar 2006/48/EB.
    Hinum nýju málsliðum er ætlað að tryggja að hægt sé að ganga á allt það eigið fé sem telst til eiginfjárþáttar A til að mæta rekstrartapi í áframhaldandi rekstri. Ekki sé nóg að ákveðnir liðir í eiginfjárþætti A falli á eftir öðrum kröfum við gjaldþrot. Auk þess er tryggt að við gjaldþrot eða slit skuli innborgað hlutafé og yfirverðsreikningur hlutafjár greiðast á eftir öllum öðrum kröfum.
    Í tilskipun 2009/111/EB eru talsverðar breytingar á ákvæðum um eigið fé sem Fjármálaeftirlitið þarf að innleiða í reglur um viðbótareiginfjárliði fyrir fjármálafyrirtæki, nú reglur nr. 156/2005. Fjármálaeftirlitið hefur heimild skv. 10. mgr. 84. gr. laganna til að setja reglur um að aðrir liðir en tilgreindir eru í 5.–7. mgr. 84. gr. laganna teljist með eiginfjárgrunni fjármálafyrirtækis.

Um 7. gr.


    Lagt er til að í ársreikningi fjármálafyrirtækis skuli tilgreina upplýsingar um launagreiðslur og hvers konar greiðslur eða hlunnindi félagsins til hvers og eins lykilstarfsmanns, auk hvers og eins stjórnarmanns og framkvæmdastjóra. Það að greina frá launum og fríðindum lykilstarfsmanna er nálgun við upplýsingaskyldu skráðra fyrirtækja í kauphöll. Ákvæðið er einnig sett inn til að sporna við því að launakerfi fjármálafyrirtækja fari í fyrra horf, þ.e. áður en fjármálakerfi landsins varð fyrir hremmingum árið 2008. Þá kunna, eftir atvikum, bæði lág laun og há laun tiltekinna lykilstarfsmanna að vera vísbending um veikleika í innra skipulagi viðkomandi fjármálafyrirtækis.

Um 8. gr.


    Lagt er til að viðurlagaákvæðum laganna verði breytt til samræmis við þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu.
    Í 3. gr. frumvarpsins er lagt til að bætt verði við lögin nýjum greinum um verðbréfun, en verði frumvarpið að lögum óbreytt er ljóst að nauðsyn ber til að veita Fjármálaeftirlitinu heimild til beitingar stjórnsýslusekta ef brotið er gegn ákvæðum a- eða b-liðar 3. gr. frumvarpsins, sem fjalla annars vegar um færslu á útlánaáhættu og hins vegar um upplýsingaskyldu útgefanda og umsýsluaðila varðandi verðbréfun.

Um 9. gr.


    Vísað er til athugasemda við 8. gr.

Um 10. gr.


    Með frumvarpinu er lagt til að tilskipun 2009/111/EB verði innleidd í íslenskan rétt, en hún kveður á um breytingar á tilskipunum 2006/48/EB, um stofnun og rekstur lánastofnana, 2006/49/EB, um eigið fé fjármálafyrirtækja, og 2007/64/EB, um greiðsluþjónustu á innri markaðnum, að því er varðar tiltekna þætti eigin fjár, stórar áhættur, fyrirkomulag eftirlits og áhættustýringar. Tilskipunin var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 85/2010 þann 2. júlí 2010.

Um 11. gr.


    Tilgangur breytingarinnar er að framlengja gildistíma ákvæðis til bráðabirgða VI um eitt ár, til 1. júlí 2012.

Um 12. gr.


    Í 1. mgr. er kveðið á um tímafresti varðandi þær verðbréfanir sem 29. gr. b er ætlað að ná til, en eftir 31. desember 2014 mun ákvæðið ná til allra verðbréfaðra staðna sem stofnað hefur verið til fyrir gildistöku laganna, enda hafi eignum verið skipt út eða eignum bætt við eftir þann tíma.
    Samkvæmt 2. mgr. ber Fjármálaeftirlitinu, fyrir 31. desember 2011, að birta upplýsingar um almenn viðmið og aðferðir sem notaðar eru við mat á því hvort skilyrði a-liðar 3. gr. frumvarpsins eða reglna Fjármálaeftirlitsins sem settar hafa verið á grundvelli c-liðar 3. gr. frumvarpsins teljist uppfyllt.

Um 13. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.




Fylgiskjal I.


Yfirlitstafla yfir ákvæði tilskipunar 2009/111/EB, sem felur í sér breytingar á tilskipunum 2006/48/EB, 2006/49/EB og 2007/64/EB.


Ákvæði Efnisflokkur Efni Niðurstaða
1. gr.: Breytingar á ákvæðum tilskipunar 2006/48/EB.
1 Efni, gildissvið og skilgreiningar Undanþágur Óþarfi að innleiða
2 a) Efni, gildissvið og skilgreiningar Skilgreining á „institutions“ B-liður 2. gr. frumvarps
b) Efni, gildissvið og skilgreiningar Skilgreining á tengdum aðilum A-liður 2. gr. frumvarps
c) Efni, gildissvið og skilgreiningar Skilgreining á „eftirlitsaðila á samstæðugrundvelli“ Heyrir undir lög um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi
3 Varfærniseftirlit og upplýsingagjöf Samvinna milli aðildarríkja Heyrir undir lög um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi
4 Varfærniseftirlit og upplýsingagjöf Samvinna milli aðildarríkja o.fl. Heyrir undir lög um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi
5 a) Varfærniseftirlit og upplýsingagjöf Miðlun upplýsinga til Seðlabanka Heyrir undir lög um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi
b) Varfærniseftirlit og upplýsingagjöf Miðlun upplýsinga til Seðlabanka í neyðarástandi Heyrir undir lög um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi
6 Varfærniseftirlit og upplýsingagjöf Miðlun upplýsinga til viðeigandi ríkisstofnana í neyðarástandi Heyrir undir lög um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi
7 a) Eigið fé Eiginfjárþáttur A B-liður 6. gr. frumvarps
b) Eigið fé Viðbót – „other instruments“ Heyrir undir reglur FME
c) Eigið fé Minni háttar orðalagsbreytingar – ársuppgjöri bætt við A-liður 6. gr. frumvarps
8 Eigið fé Eiginfjárgrunnur – frádráttarliðir Heyrir undir reglur FME
9 Eigið fé Frekari skilyrði á „instruments“ skilgr. skv. b-lið 7. mgr. Heyrir undir reglur FME
10 Eigið fé Ný grein um hybrid-skilyrði Heyrir undir reglur FME
11 Eigið fé Um hlutdeild minni hluta sem mynda eiginfjárþátt A Heyrir undir reglur FME
12 a) Eigið fé Hlutföll og frekari skilyrði vegna a- liðar 57. gr. Heyrir undir reglur FME
b) Eigið fé Smávægileg orðalagsbreyting Óþarfi að innleiða
13 Eigið fé Breyting á heiti kafla Óþarfi að innleiða
14 Eigið fé Skýrslugjöf til FME Heyrir undir lög um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi
15 Eigið fé Útreikningur eiginfjárgrunns Heyrir undir reglur FME
16 a) Eigið fé Útreikningur eiginfjárgrunns Heyrir undir reglur FME
b) Eigið fé Útreikningur eiginfjárgrunns Heyrir undir reglur FME
17 Eigið fé Útreikningur eiginfjárgrunns Heyrir undir reglur FME
18 Eigið fé Útreikningur eiginfjárgrunns Heyrir undir reglur FME
19 a) Stórar áhættuskuldbindingar Neikvæð skilgreining á áhættu Heyrir undir reglur FME
b) Stórar áhættuskuldbindingar Mat á því hvort um tengda viðskiptamenn sé að ræða Óþarfi að innleiða
20 Stórar áhættuskuldbindingar Nánari skilgreining á „credit institution“ Óþarfi að innleiða
21 Stórar áhættuskuldbindingar Tilkynningarskylda fjármálafyrirtækja til eftirlitsaðila Heyrir undir reglur FME
22 a) Stórar áhættuskuldbindingar Takmarkanir á áhættuskuldbindingum milli fjármálafyrirtækja Tekin var ákvörðun um að aðeins sé miðað við 25% viðmiðið. Það þarf að gera smávægilegar breytingar á reglum FME til samræmis
b) Stórar áhættuskuldbindingar 800% viðmið tekið út C-liður 4. gr. frumvarps
c) Stórar áhættuskuldbindingar Heimild sem veitir fjármálafyrirtækjum svigrúm til þess að aðlaga sig að mörkunum í sérstökum tilvikum Óþarfi að innleiða
23 a) Stórar áhættuskuldbindingar Útskýringar og skilyrði varðandi beitingu 113.–117. gr. Heyrir undir reglur FME
b) Stórar áhættuskuldbindingar Útskýringar og skilyrði varðandi beitingu 113.–117. gr. Heyrir undir reglur FME
24 a) Stórar áhættuskuldbindingar 1.–2. mgr. 113. gr. varðandi undanþágur eytt út Heyrir undir reglur FME
b) Stórar áhættuskuldbindingar Undanþágur frá 111. gr. og breytingar á 3. mgr. 113. gr. Heyrir undir reglur FME
c) Stórar áhættuskuldbindingar Undanþágur frá 111. gr. Heyrir undir reglur FME
25 Stórar áhættuskuldbindingar Útreikningur Heyrir undir reglur FME
26 Stórar áhættuskuldbindingar Útreikningur Heyrir undir reglur FME
27 Stórar áhættuskuldbindingar 116. gr. eytt út Heyrir undir reglur FME
28 a) Stórar áhættuskuldbindingar Ábyrgðir 3ja aðila vegna áhættuskuldbindingar viðskiptavinar Heyrir undir reglur FME
b) Stórar áhættuskuldbindingar Smávægilegar orðalagsbreytingar Heyrir undir reglur FME
29 Stórar áhættuskuldbindingar 119. gr. eytt út Heyrir undir reglur FME
30 Stórar áhættuskuldbindingar Verðbréfun 3. gr. frumvarps. Ákvæðið verður útfært nánar í reglum FME
31 a) Eftirlitsstofnanir Skyldur eftirlitsaðila Heyrir undir lög um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi
b) Eftirlitsstofnanir Skyldur eftirlitsaðila Heyrir undir lög um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi
32 Eftirlitsstofnanir Skyldur eftirlitsaðila Heyrir undir lög um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi
33 Eftirlitsstofnanir Skyldur eftirlitsaðila Heyrir undir lög um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi
34 Eftirlitsstofnanir Smávægilegar orðalagsbreytingar Óþarfi að innleiða
35 Framkvæmdavald Óþarfi að innleiða
36 Aðlögunarákvæði Heyrir undir reglur FME
37 Aðlögunarákvæði Heyrir undir reglur FME
38 Lokaákvæði Óþarfi að innleiða
39 Viðauki III Heyrir undir reglur FME
40 Viðauki V Heyrir undir reglur FME
41 Viðauki IX Heyrir undir reglur FME
42 Viðauki XI Heyrir undir reglur FME
43 Viðauki XII Heyrir undir reglur FME
2. gr.: Breytingar á ákvæðum tilskipunar 2006/49/EB.
1 Eigið fé Viðbót – „other instruments“ Heyrir undir reglur FME
2 Stórar áhættuskuldbindingar Undanþágur fyrir verðbréfafyrirtæki A-liður 4. gr. frumvarps
3 Stórar áhættuskuldbindingar Neikvæð skilgreining á áhættu Heyrir undir reglur FME
4 Stórar áhættuskuldbindingar Heimild til undanþágu frá 111.–117. gr. tilskipunar 2006/48/EB Óþarfi að innleiða
5 Stórar áhættuskuldbindingar Skyldur eftirlitsaðila Heyrir undir lög um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi
6 Eigið fé Skýrslugjöf til eftirlitsaðila Heyrir undir lög um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi
7 Varfærniseftirlit og upplýsingagjöf Samvinna milli aðildarríkja Heyrir undir lög um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi
8 Framkvæmdarráðstafanir Breyting á dagsetningu Óþarfi að innleiða
9 Framkvæmdarráðstafanir Undanþágur – breyting á dagsetningu Óþarfi að innleiða
10 Framkvæmdarráðstafanir Undanþágur – breyting á dagsetningu Óþarfi að innleiða
3. gr.: Breytingar á ákvæðum tilskipunar 2007/64/EB.
1 Skilgreiningar Breyting á skilgreiningu á „credit institutions“ Frumvarp til laga um greiðsluþjónustu


Fylgiskjal II.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal III.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, með síðari breytingum (eigið fé, stórar áhættur, verðbréfun o.fl.).

    Með frumvarpi þessu er lagt til að innleidd verði í íslenskan rétt ákvæði tilskipunar 2009/111/EB, sem kveður á um breytingar á tilskipunum 2006/48/EB um stofnun og rekstur lánastofnana, 2006/49/EB um eigið fé fjármálafyrirtækja og 2007/64/EB um greiðsluþjónustu á innri markaðnum, að því er varðar tiltekna þætti eigin fjár, stórar áhættur, fyrirkomulag eftirlits og áhættustýringar. Helstu breytingarnar sem innleiðing tilskipunar 2009/111/EB felur í sér eru þær að skilgreining á eigin fé er endurbætt og nánari skilyrði sett varðandi eiginfjárliði. Einnig eru sett ný ákvæði um færslu á útlánaáhættu og skilgreiningu á verðbréfun, auk þess sem kveðið er á um undanþágu frá takmörkunum á stórum áhættum fyrir tiltekin verðbréfafyrirtæki, verðbréfamiðlanir og rekstrarfélög verðbréfasjóða. Þá er tekið út ákvæði núgildandi laga sem kveður á um að samtala fyrir stórar áhættur megi ekki fara yfir 800% af eiginfjárgrunni.
    Í frumvarpinu eru jafnframt lagðar til smávægilegar breytingar á núgildandi ákvæðum laganna um hæfi til að sitja í stjórn fjármálafyrirtækja og varðandi upplýsingar um greiðslur og hlunnindi í ársreikningi.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki gert ráð fyrir að það hafi í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.