Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 699. máls.

Þskj. 1218  —  699. mál.Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa,
nr. 99/2004, með síðari breytingum (eftirlitsgjald).

(Lagt fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010–2011.)
1. gr.

    Í stað ártalsins „2010“ tvívegis í ákvæði til bráðabirgða III í lögunum kemur: 2011.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í 2. mgr. 19. gr. laga nr. 99/2004, um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa, er kveðið á um skyldu fasteignasala til að greiða eftirlitsgjald að fjárhæð 100.000 kr. 1. júlí ár hvert. Gjaldinu er ætlað að standa straum af kostnaði við störf eftirlitsnefndar Félags fasteignasala.
    Kostnaður við eftirlit hefur reynst mun lægri en áætlað var auk þess sem fasteignasölum fjölgaði mikið á tímabili. Myndaðist því nokkur innstæða í sjóði vegna eftirlitsgjaldsins. Af þeim sökum og þar sem heildarendurskoðun laganna stóð yfir var árlegt eftirlitsgjald fasteignasala ekki innheimt á árunum 2009 og 2010.
    Í frumvarpi til nýrra heildarlaga um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa, sem lagt var fram á 138. löggjafarþingi, voru lagðar til breytingar á eftirlitsgjaldinu en lagt var til að eftirlitsgjaldið yrði lækkað í 80.000 kr. á ári fyrir sérhvern fasteignasala og væru fleiri en einn fasteignasali starfandi á starfsstöð yrði eingöngu greitt eitt gjald. Í ákvæði til bráðabirgða við frumvarpið var þó mælt fyrir um að gjaldið yrði ekki innheimt fyrr en 1. júlí 2011 enda hefði safnast innstæða í sjóðinn sem eðlilegt þótti að ganga á. Frumvarpið hlaut ekki afgreiðslu en vinna við frumvarp til nýrra heildarlaga hefur haldið áfram og verður frumvarp þess efnis lagt fram í upphafi næsta þings.
    Með hliðsjón af framangreindu leggur ráðuneytið til að gjaldtöku eftirlitsgjalds verði frestað til ársins 2012.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa, nr. 99/2004, með síðari breytingum (eftirlitsgjald).

    Með frumvarpi þessu er lagt til að frestun á álagningu árlegs eftirlitsgjalds á fasteignasala verði framlengd til ársins 2012.
    Samkvæmt lögunum skal sérhver fasteignasali greiða árlegt eftirlitsgjald að fjárhæð 100.000 kr. til að standa straum af kostnaði við störf eftirlitsnefndar Félags fasteignasala. Frá því að innheimta gjaldsins hófst hefur safnast í nokkurn sjóð þar sem kostnaður við eftirlitið hefur reynst minni en áætlað var auk þess sem fasteignasölum fjölgaði mikið á tímabili. Samkvæmt bókhaldi ríkisins fyrir árið 2010 voru gjöld eftirlitsnefndarinnar 7,5 m.kr. umfram sértekjur og nefndin átti 66 m.kr. ónýtta fjárheimild í árslok. Eftirlitsgjald á fasteignasala er lögboðin gjaldtaka. Tekjur af gjaldinu teljast því til ríkistekna og færast á tekjuhlið ríkisreiknings og fjárlaga. Miðað við núverandi fjölda fasteignasala og að óbreyttum lögum má ætla að eftirlitsgjaldið mundi skila 19,5 m.kr. tekjum í ár. Ekki er reiknað með tekjum af gjaldinu í gildandi fjárlögum.