Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 703. máls.

Þskj. 1222  —  703. mál.Frumvarp til laga

um verslun með áfengi og tóbak.

(Lagt fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010–2011.)
I. KAFLI
Gildissvið, markmið og yfirstjórn.
1. gr.
Gildissvið.

    Lög þessi gilda um smásölu á áfengi og heildsölu á tóbaki.
    Lög þessi taka ekki til skipa og flugvéla sem koma í landhelgi og hafa innan borðs áfengi eða tóbak sem hluta af tollfrjálsum forða ef með þann varning er farið samkvæmt sérákvæðum laga.
    Ráðherra er heimilt að setja sérreglur um innflutning ferðamanna og áhafna skipa og flugvéla á áfengi og tóbaki.

2. gr.
Markmið.

    Markmið laga þessara eru:
     a.      að skilgreina umgjörð um smásölu áfengis og heildsölu tóbaks sem byggist á bættri lýðheilsu og samfélagslegri ábyrgð,
     b.      að takmarka og stýra aðgengi að áfengi og tóbaki og draga þannig úr skaðlegum áhrifum áfengis- og tóbaksneyslu,
     c.      að vernda ungt fólk gegn neyslu áfengis og tóbaks og takmarka framboð á óæskilegum vörum.

3. gr.
Yfirstjórn.

    Fjármálaráðherra fer með yfirstjórn á smásölu áfengis og heildsölu tóbaks og framkvæmd laga þessara.

II. KAFLI
Stjórnsýsla.
4. gr.
Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins.

    Starfrækja skal sérstaka stofnun, Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, ÁTVR, sem sinnir smásölu áfengis og heildsölu tóbaks undir stjórn ráðherra.
    ÁTVR starfar samkvæmt stefnu stjórnvalda í áfengis- og tóbaksmálum á hverjum tíma.
    Starfsemi ÁTVR skal miðuð við að hún sé sem hagkvæmust og afli tekna sem nægi til að greiða rekstrarkostnað og skila hæfilegum arði til ríkissjóðs, m.a. með tilliti til þeirra eigna sem eru bundnar í rekstri stofnunarinnar.

5. gr.
Forstjóri Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins.

    Ráðherra skipar forstjóra ÁTVR til fimm ára í senn. Forstjóri skal hafa lokið háskólaprófi sem nýtist honum í starfi.
    Forstjóri fer með stjórn stofnunarinnar, ber ábyrgð á daglegum rekstri og ræður aðra starfsmenn. Forstjóri ber ábyrgð á gerð ársskýrslu um rekstur og starfsemi ÁTVR og skal kynna hana fyrir ráðherra árlega.

6. gr.
Verkefni Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins.

    Helstu verkefni ÁTVR eru þessi:
     a.      Innkaup á áfengi til smásölu og tóbaki til heildsölu.
     b.      Birgðahald og dreifing á áfengi til áfengisverslana.
     c.      Rekstur áfengisverslana og þjónusta við viðskiptavini.
     d.      Birgðahald, heildsala og dreifing á tóbaki.
     e.      Að tryggja að allt tóbak sé merkt samkvæmt lögum um tóbaksvarnir.
     f.      Álagning og innheimta tóbaksgjalds.
     g.      Önnur verkefni sem tengjast smásölu á áfengi og heildsölu á tóbaki.

III. KAFLI
Um Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins.
7. gr.
Einkaleyfi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins.

    ÁTVR hefur einkaleyfi til að selja og afhenda áfengi í smásölu, sbr. 10. gr. áfengislaga. Um endursölu áfengis hjá vínveitingahúsum fer eftir ákvæðum sérlaga.
    ÁTVR hefur einkaleyfi til að selja tóbak innan lands í heildsölu. Um smásölu tóbaks fer eftir ákvæðum laga um tóbaksvarnir.

8. gr.
Tóbaksgjald og merkingar tóbaks.

    ÁTVR leggur á og innheimtir tóbaksgjald af tóbaksvörum sem hafa verið fluttar hingað til lands eða eru framleiddar hér á landi. Um fjárhæð tóbaksgjalds fer eftir ákvæðum laga um gjald af áfengi og tóbaki.
    ÁTVR skal tryggja að allt tóbak flutt inn frá útlöndum eða framleitt hér á landi sem ætlað er til sölu sé merkt.

9. gr.
Verðlagning á áfengi og tóbak.

    Vöruverð í verslunum ÁTVR skal vera það sama hvar sem er á landinu.
    Álagning ÁTVR á áfengi með 22% eða lægra hlutfall af vínanda að rúmmáli skal vera 18% en álagning áfengis með meira en 22% hlutfall af vínanda að rúmmáli skal vera 12%. Við ákvörðun á áfengisinnihaldi vísast til laga um gjald af áfengi og tóbaki.
    Heildsöluálagning ÁTVR á tóbak skal vera 18%.
    Álagning ÁTVR á áfengi og tóbak leggst á verð vöru að viðbættum öllum gjöldum nema virðisaukaskatti.
    ÁTVR er heimilt að innheimta gjald af birgjum vegna kostnaðar sem leiðir af töku nýrrar áfengrar vöru til sölu. Skal gjaldið eingöngu standa straum af þeim kostnaði sem til fellur vegna skráningar, könnunar og annarra nauðsynlegra ráðstafana af hálfu ÁTVR við að taka nýja vöru til sölu.
    ÁTVR er heimilt að innheimta gjald af birgjum sem leiðir af merkingu á tóbaksvörum. Skal gjaldið eingöngu standa straum af þeim kostnaði sem til fellur vegna merkingarinnar. Um merkingar tóbaks fer eftir ákvæðum laga um tóbaksvarnir.

10. gr.
Áfengisverslanir.

    ÁTVR skal eiga og reka áfengisverslanir. ÁTVR skal sækja um leyfi til rekstrar áfengisverslunar til sveitarstjórnar í viðkomandi sveitarfélagi. ÁTVR ábyrgist fullnægjandi öryggis- og eftirlitsbúnað þess húsnæðis sem hýsir verslunina. Um afgreiðslutíma verslana fer eftir ákvæðum áfengislaga.

11. gr.
Vöruval.

    Ráðherra setur reglugerð um vöruval og innkaup ÁTVR á áfengi.
    Reglurnar skulu miða að því að tryggja vöruúrval með hliðsjón af eftirspurn kaupenda, jafnframt því að tryggja framleiðendum og birgjum áfengis möguleika á að koma vörum í sölu í áfengisverslunum.
    ÁTVR skal leitast við að innkaup séu í samræmi við alþjóðasáttmála.
    ÁTVR er heimilt að hafna vörum sem innihalda gildishlaðnar eða ómálefnalegar upplýsingar eða gefa til kynna að áfengi auki líkamlega, andlega, félagslega eða kynferðislega getu, særa blygðunarkennd eða brjóta á annan hátt í bága við almennt velsæmi, m.a. með skírskotun til ofbeldis, trúar, ólöglegra fíkniefna, stjórnmálaskoðana, mismununar og refsiverðrar háttsemi.
    ÁTVR er heimilt að hafna vöru sem er keimlík annarri vöru á almennum markaði.
    ÁTVR er heimilt að hafna vöru sem inniheldur koffein og önnur örvandi efni.

12. gr.
Þjónusta og upplýsingar.

    ÁTVR skal veita viðskiptavinum góða og vandaða þjónustu sem byggist á fagmennsku og hlutleysi.
    ÁTVR skal veita viðskiptavinum sínum ítarlegar upplýsingar um þá vöru sem er á boðstólum, allt eftir því sem samrýmist lögum þessum, áfengislögum og öðrum lagafyrirmælum og reglum á hverjum tíma. Upplýsingarnar eiga að fela í sér almenna fræðslu um áfengi, uppruna þess, meðferð og notkun. Einnig á ÁTVR að standa fyrir eða veita upplýsingar um mögulega skaðsemi vörunnar og þá áhættu sem getur fylgt neyslu áfengis og tóbaks.

13. gr.
Samfélagsleg ábyrgð.

    ÁTVR starfar með samfélagslega ábyrgð að leiðarljósi og vinnur gegn skaðlegri neyslu áfengis.
    Þegar ástæða er til að ætla að kaupandi hafi ekki náð aldri til að kaupa áfengi samkvæmt áfengislögum skal ÁTVR ávallt láta hlutaðeigandi sanna aldur sinn með því að sýna skilríki með mynd eða á annan fullnægjandi hátt.
    ÁTVR er heimilt að neita að selja eða afhenda áfengi ef viðkomandi er áberandi ölvaður.

IV. KAFLI
Önnur ákvæði.
14. gr.
Viðurlög og haldlagning áfengis.

    Brot gegn lögum þessum varða sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.
    Leggja skal hald á vörur þær sem lög þessi taka til og eru fluttar inn eða framleiddar í heimildarleysi. Innfluttar vörur skulu afhentar Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins til ráðstöfunar.

15. gr.
Kæruheimild.

    Ákvarðanir um rétt aðila, sem teknar eru á grundvelli þessara laga, eru kæranlegar til ráðherra.

16. gr.
Reglugerðarheimild.

    Ráðherra er heimilt að kveða nánar á um framkvæmd laga þessara með reglugerð.

17. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.
    Við gildistöku laga þessara falla úr gildi lög nr. 63/1969, um verslun með áfengi og tóbak, með síðari breytingum.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu eru lögð til ný heildarlög um verslun með áfengi og tóbak. Eldri lögin eru frá 1969 og þrátt fyrir að þau hafi tekið nokkrum breytingum frá gildistökunni endurspeglar núverandi löggjöf ekki gildandi framkvæmd. Með frumvarpinu eru ekki lagðar til veigamiklar breytingar á lagaumgjörð áfengis- og tóbaksverslunar hér á landi, heldur á framkvæmd og stefnu verslunarinnar í samræmi við fyrirliggjandi stefnu stjórnvalda í áfengismálum og þeirri framkvæmd sem mótast hefur.
    Árið 2010 skipaði fjármálaráðherra starfshóp sem fékk það verkefni að gera drög að áfengisstefnu stjórnvalda. Í hópnum sátu auk fulltrúa fjármálaráðherra fulltrúar frá innanríkisráðherra og velferðarráðherra. Þá sátu fulltrúi frá Lýðheilsustöð og forstjóri ÁTVR einnig í hópnum. Hópurinn hefur nú lokið störfum og hefur kynnt fjármálaráðherra tillögur sínar.
    Sú áfengisstefna hefur nú verið lögð fram til samþykktar í ríkisstjórn og felst í henni áframhaldandi aðhald í áfengismálum hér á landi, m.a. með markmiðum um að draga úr heildarneyslu, minnka skaðlega neyslu áfengi og vernda ungmenni gagnvart skaðlegri neyslu. Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins gegnir mikilvægu hlutverki í því hvernig stjórnvöld tekst til að ná þessum tilteknu markmiðum. Frumvarpið grundvallast á þessari stefnu stjórnvalda og veitir ÁTVR um leið ákveðin tæki til að stuðla að bættri vínmenningu hér á landi.
    Helstu breytingar frumvarpsins frá eldri lögum eru ákvæði um samfélagslega ábyrgð ÁTVR, vöruvalsreglur og heimild ÁTVR til að hafna vörum á grundvelli þeirra sjónarmiða sem fram koma í vöruvalsreglunum. Þá er lagt til að stofnunin verði án stjórnar og heyri beint undir fjármálaráðherra.
    Frumvarpið tekur einnig mið af skýrslu annars starfshóps sem skipaður var af fjármálaráðherra, en sá hópur skilaði tillögum sínum í byrjun árs 2010. Í þeirri skýrslu komu meðal annars fram athugasemdir um að lög um verslun með áfengi og tóbak væru að mörgu leyti úrelt og ekki í takt við þá framkvæmd sem væri í áfengismálum hér á landi. Lögð var áhersla á að styrkja stöðu ÁTVR sem einkasölu og veita stofnuninni tæki til að framfylgja stefnu stjórnvalda með virkari hætti. Meginniðurstaða þeirrar skýrslu var hins vegar sú að stefnu stjórnvalda í áfengismálum skorti. Erfitt væri að aðlaga löggjöfina að framkvæmd ef ekki væri til heildstæð áfengisstefna. Sú stefna liggur nú fyrir, sbr. nánari umfjöllun hér á eftir.

Hlutverk ÁTVR.
    Áfengi er ein af fáum söluvörum þar sem rannsóknir sýna að sterkt samband er á milli heildarneyslu og þess skaða sem neyslan veldur í samfélaginu. Lönd innan Evrópu eiga heimsmet í áfengisneyslu á íbúa. Hvergi í heiminum er drukkið eins mikið áfengi á mann. Áhyggjur sérfræðinga af þróun mála í þessum löndum fara vaxandi því neyslumynstrið er að þróast yfir í „binge drinking“ eða magndrykkju. Það þýðir að drukkið er mikið í einu til þess að verða ölvaður sem fyrst. Annað sem veldur sérfræðingum í áfengismálum áhyggjum er að sókn markaðsaflanna í ungt fólk hefur aldrei verið meiri en nú, t.d. eru framleiddir áfengir drykkir sem þeir telja að séu markaðssettir beint til unglinga. Sérfræðingar í áfengismálum innan Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar og Evrópusambandsins hafa miklar áhyggjur af þessari þróun en skoðun þeirra er sú að þar sem aðhaldssöm stjórnun er á sölu áfengis eigi skilyrðislaust að halda í slík kerfi og þar sem mest frjálsræði ríkir eigi að þrengja að. Þeir benda á að rannsóknir sýni einmitt að aðhaldssöm stjórnun áfengismála leiði beint til minni unglingadrykkju.
    Hlutverk ÁTVR er því vandasamt. Notkun áfengis getur verið ávanabindandi og misnotkun hefur neikvæðar afleiðingar fyrir neytandann og samfélagið. Samkvæmt nýlegum rannsóknum sem birtar voru í læknatímaritinu Lancet kom fram að áfengi er í fimmta sæti yfir hættulegustu vímuefni heims. Bein tengsl eru á milli heildarneyslu áfengis og þess skaða sem neyslan veldur í samfélaginu, þegar neyslan vex þá eykst skaðsemin. Það er ástæðan fyrir því að stjórnvöld reyna að draga úr heildarneyslunni. Í gegnum tíðina hafa ýmsar leiðir verið reyndar til þess að takmarka sölu á áfengi. Eitt öflugasta tækið til þess er ríkisrekin áfengisverslun með einkaleyfi til smásölu á áfengi eins og í tilfelli ÁTVR.
    Með rekstri verslunar eins og ÁTVR sýna stjórnvöld í verki að áfengi er ekki eins og hver önnur söluvara en áfengiseinkasölur í einhverju formi eru reknar víða. Öll Norðurlöndin nema Danmörk hafa slík sölukerfi. Í Bandaríkjunum eru einkasölur af fjölbreyttu tagi í 18 fylkjum af 50 og í Kanada í tólf fylkjum af þrettán. Í þessu sambandi má einnig geta þess að íslenskar reglur um áfengi og neyslu þess eru taldar að mati ýmissa vísindamanna með þeim skilvirkustu í heimi.

Samfélagsleg ábyrgð.
    Nauðsynlegt er fyrir ÁTVR að leggja mikla áherslu á samfélagslega ábyrgð í starfsemi sinni. Í sinni einföldustu mynd snýst samfélagsleg ábyrgð um að láta gott af sér leiða í samfélaginu og bera virðingu fyrir reglum samfélagsins og umhverfinu.
    Hjá ÁTVR er verið að selja vöru sem getur verið mjög skaðleg fyrir neytandann og samfélagið. Það er hlutverk seljenda að upplýsa viðskiptavini og neytendur um mögulega skaðsemi við neyslu vörunnar sem þeir selja. ÁTVR þarf því að fylgjast vel með rannsóknum á sviði áfengismála og miðla þeirri þekkingu til viðskiptavina ef ástæða er til. Þetta á sérstaklega við um tengsl áfengis og heilsu en mikilvægt er að viðskiptavinir ÁTVR séu hvattir til heilbrigðrar og ábyrgrar neyslu áfengis. Í því felst meðal annars að áfengið sé notuð í hófi og við réttar aðstæður. Eitt mikilvægasta verkefni ÁTVR á sviði samfélagslegrar ábyrgðar er að standa vörð um unga fólkið og vernda það gagnvart áfengi og misnotkun þess. Breyta þarf þeim viðhorfum í þjóðfélaginu að áfengisneysla unglinga sé í lagi. ÁTVR á að fylgja ströngum reglum um aldurseftirlit og eiga samstarf við lögreglu og forvarnaaðila.
    ÁTVR hefur á undanförnum árum skilgreint samfélagslega ábyrgð sína með nokkuð ítarlegum hætti, en hún kemur meðal annars fram í eftirfarandi þáttum:
          ÁTVR sinnir hlutverki sínu af ábyrgð, t.d. eru engar söluhvetjandi aðgerðir leyfðar.
          Strangt eftirlit er með aldri viðskiptavina.
          ÁTVR fer í ýmsar herferðir þar sem samfélagsleg ábyrgð er í fyrirrúmi. Má nefna t.d. „Akstur og áfengi fara ekki saman“, „Ábyrgð gestgjafans“, „Bíddu“ og „Kaupum ekki áfengi fyrir unglinga“.
          ÁTVR tekur þátt í að byggja upp vínmenningu, t.d. með fræðslu til viðskiptavina um vín og tengingu matar og vína.
          Samstarf við lögreglu og aðila sem vinna að forvörnum. Sérstök áhersla er á að torvelda aðgengi unglinga að áfengi.
          Leitast er við að bjóða einungis vörur sem framleiddar eru eftir „Global Compact“ sáttmála Sameinuðu Þjóðanna.
    Í dag er ÁTVR þjónustufyrirtæki sem byggist á samfélagslegum gildum. Engin söluhvetjandi starfsemi er stunduð eða reynt að ýta vörum að viðskiptavinum í því skyni að fá þá til þess að kaupa meira. Lögð er áhersla á að vöruþekking starfsfólksins sé mikil og að viðskiptavinir fái notið úrvals þjónustu. Verslunin einbeitir sér einnig að því að bæta vínmenningu á Íslandi með því að vekja áhuga viðskiptavina á vönduðum vínum, tengja saman vín og mat og reyna þannig að draga úr magndrykkju. Allt þetta er gert í þeim tilgangi að minnka þá skaðsemi sem misnotkun áfengis hefur í för með sér í þjóðfélaginu.

Stefna stjórnvalda.
    Stefna stjórnvalda í áfengismálum er að lágmarka skaðlega neyslu áfengis. Á það bæði við heilsufarslegan og félagslegan skaða í samfélaginu. Sérstaklega er stefnt að því að vernda börn og unglinga gegn áfengi og markaðssetningu þess. Grunnstoðir áfengisstefnunnar eru að starfrækja einkasölu ríkisins á áfengi, háir áfengisskattar og bann við áfengisauglýsingum og markaðsstarfsemi tengdri áfengi.
    Aðalmarkmið áfengisstefnunnar eru eftirfarandi:

Stýring neyslu:
    Draga úr heildarneyslu (stýra og hafa hemil á heildarneyslu).
    Draga úr óheppilegu neyslumynstri.
    Leyfa ekki óæskilegar vörur.

Verndun ungs fólks:
    Leyfa ekki sölu á vörum sem eru markaðssettar fyrir ungt fólk.
    Seinka fyrstu kynnum unglinga af áfengi.
    Draga úr áfengisneyslu aldurshópsins 18 ára til tvítugs.
    Vernda ungt fólk, börn og ófædd börn.

Bann við auglýsingum og markaðstengdri starfsemi:
    Bann við auglýsingum.
    Leyfa ekki sölu á vörum sem fallnar eru til þess að blekkja neytendur.
    Berjast gegn ólöglegri sölu á áfengi.
    Markaðstengd starfsemi til að auka sölu á áfengi ekki leyfð.

Heilsugæsla, forvarnir og skaðsemi:
    Minnka ölvunarakstur.
    Upplýsa, fræða og vekja fólk til vitundar um áhrif skaðlegrar neyslu áfengis.
    Virkja heilsugæslu fyrir fólk með áfengistengd vandamál.
    Tengja betur saman heilbrigðisyfirvöld og meðferðargeira.
    Ýta undir og hvetja til forvarna á sviði stjórnsýslu og sveitarfélaga.
    Viðhorfsbreyting hjá 60 ára og eldri gagnvart áfengisneyslu.
    Efla eftirlit með áfengi og rannsóknir.

    Í þessu frumvarpi eru lagðar til leiðir til að ná fram framangreindum markmiðum. Með viðvarandi einkasölu á áfengi hafa stjórnvöld tæki til að stýra og hafa hemil á heildarneyslu áfengis í samfélaginu. Takmarkaður fjöldi verslana og afgreiðslutími eru meðal þess sem hamla aukningu í heildarneyslu. Heimild ÁTVR til að upplýsa neytendur um skaðlega þætti neyslu áfengis og tóbaks er einnig tæki til að ná fram þeim markmiðum, enda tilgangurinn sá að draga úr óheppilegu drykkjumynstri. Eitt af markmiðum stefnu stjórnvalda er að heimila ekki óæskilegar vörur. Þær vörur geta verið áfengi í formi sælgætis eða í umbúðum sem eru blekkjandi fyrir neytendur. Hluti af því er að leyfa ekki sölu á vöru sem markaðssettar eru fyrir ungt fólk er að heimila ÁTVR að hafna vörum á grundvelli þeirra sjónarmiða sem nánar eru talin upp í lögunum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í greininni er kveðið á um gildissvið laganna. Greinin er að mestu sambærileg 1. gr. eldri laga og áfram er lagt til að ráðherra hafi heimild til að setja sérreglur um innflutning ferðamanna og áhafna skipa og flugvéla á áfengi og tóbaki.

Um 2. gr.


     Markmið laganna eru skilgreind í þessari grein og er hér um nýtt ákvæði að ræða. Lagt er til að markmiðin taki mið af stefnu stjórnvalda varðandi sölu áfengis og tóbaks. Mismunandi sjónarmið ráða för við rekstur ÁTVR, annars vegar að fylgja aðhaldsstefnu stjórnvalda og hins vegar að veita viðskiptavinum góða og vandaða þjónustu. Af þeirri ástæðu þykir eðlilegt að markmiðin séu skýr og löggjafinn taki af skarið um það hvaða sjónarmið eigi að leggja til grundvallar ákvörðunum sem byggðar eru á lögunum.
    Skilgreind er umgjörð um smásölu áfengis og heildsölu tóbaks og skal sú umgjörð byggjast á bættri lýðheilsu og samfélagslegri ábyrgð. Rannsóknir hafa sýnt fram á að mikil og skaðleg neysla áfengis og reykingar hafa neikvæð áhrif á lýðheilsu almennings og auka kostnað fyrir samfélagið. Eitt af markmiðum laganna er því að bæta lýðheilsu með áframhaldandi aðhaldi í verslun með áfengi og tóbaki. Önnur markmið miða að því að draga úr skaðlegum áhrifum áfengisneyslu með takmörkuðu aðgengi og að vernda ungt fólk með ströngum aldursmörkum.

Um 3. gr.


    Í greininni er kveðið skýrar á um að fjármálaráðherra fari með yfirstjórn á smásölu áfengis og heildsölu á tóbaki ásamt framkvæmd þessara laga en í eldri lögum og fyrirkomulagið því í raun óbreytt.

Um 4. gr.


    Greinin fjallar um stofnunina Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, ÁTVR, sem lýtur stjórn fjármálaráðherra og fer með smásölu áfengis og heildsölu tóbaks. Kveðið er á um að ÁTVR skuli starfa samkvæmt stefnu stjórnvalda í áfengis- og tóbaksmálum. Í því felst að allur rekstur skuli miða að því að framfylgja þeirri stefnu sem sett er hverju sinni í þessum málaflokkum. Ásamt þessu er fjallað um rekstrarforsendur ÁTVR, m.a. að auk þess að afla tekna skuli starfsemi stofnunarinnar vera sem hagkvæmust.

Um 5. gr.


    Í greininni er fjallað um forstjóra ÁTVR sem skipaður skal af fjármálaráðherra til fimm ára í senn. Breytingar frá eldri lögum eru að sett eru inn skilyrði um að forstjóri skuli hafa lokið háskólaprófi sem nýtist í starfi. Slíkt er talið eðlilegt í ljósi umfangs og stærðar stofnunarinnar.
    Verkefni forstjóra eru skilgreind og ber hann ábyrgð á daglegum rekstri og ræður aðra starfsmenn. Forstjóra ber samkvæmt greininni að gera ársskýrslu um rekstur og starfsemi ÁTVR og kynna hana fyrir fjármálaráðherra. Hér er breyting frá eldri lögum á þann veg að ekki er gert ráð fyrir stjórn yfir stofnuninni. Í stað þess eru sett skýr fyrirmæli um að ráðherra sé gerð grein fyrir rekstrinum í árlegri skýrslu.

Um 6. gr.


     Í greininni eru helstu verkefni ÁTVR talin upp en sú upptalning er þó ekki tæmandi. Sambærilegt ákvæði hefur staðið í reglugerð um ÁTVR en mikilvægt þykir að verkefnin séu skilgreind í lögum þannig að hlutverk stofnunarinnar liggi fyrir með skýrum hætti.

Um 7. gr.


    Í greininni er fjallað um einkaleyfi ÁTVR. Hér er ekki um efnisbreytingu að ræða frá eldri lögum heldur er hér með skýrari hætti kveðið á um og skilgreint í hverju einkaleyfi ÁTVR felst.

Um 8. gr.


    Greinin fjallar um innheimtu og álagningu tóbaksgjalds. ÁTVR hefur alla tíð verið innheimtuaðili á tóbaksgjaldi og er gerð tillaga um að halda því fyrirkomulagi. Ásamt því að innheimta gjaldið fer ÁTVR með eftirlit með umbúðum tóbaks. Útbúa þarf sérstaka merkimiða á umbúðirnar til að uppfylla ákvæði tóbaksvarnalaga og hefur ÁTVR eftirlit með að þeim sé fullnægt.

Um 9. gr.


    Greinin fjallar um verðlagningu á áfengi og tóbak. Greinin er óbreytt frá eldri lögum að því undanskildu að lagt er til að ÁTVR fái heimild til að innheimta gjald af birgjum vegna merkingar tóbaks. Gjaldið á eingöngu að standa straum af kostnaði sem til fellur vegna merkinga á tóbaki og er sambærilegt ákvæði um gjald vegna umsýslu áfengis fyrir birgja.

Um 10. gr.


     Í greininni er kveðið á um umhverfi og rekstur smásöluverslana ÁTVR. Þar segir að ÁTVR skuli eiga og reka áfengisverslanir. Verslanirnar eru alfarið á ábyrgð ÁTVR, einnig hvað varðar öryggis- og eftirlitsbúnað, og skal sækja um leyfi til reksturs vínbúðar ÁTVR til sveitarstjórnar viðkomandi sveitarfélags.

Um 11. gr.


    Í greininni er lagt til að fjármálaráðherra verði skylt að setja reglugerð um vöruval og innkaup ÁTVR á áfengi sem er nýjung frá eldri lögum. Reglurnar skulu taka mið af eftirspurn og eins því að tryggja framleiðendum og birgjum möguleika á að koma vöru í sölu í vínbúðum ÁTVR. Í ákvæðinu er gerð tillaga um að innkaup ÁTVR skuli taka mið af alþjóðlegum sáttmálum. ÁTVR hefur þegar unnið markvisst að því að innleiða „Global compact“ sáttmála Sameinuðu þjóðanna inn í sitt vörukaupaferli. Í því felst að ÁTVR gerir kröfu um að vörur sem birgjar bjóða upp á séu í samræmi við sáttmálann sem kveður á um afnám barnaþrælkunar, virðingu mannréttinda, aðbúnað á vinnustað, umhverfismál og varnir gegn spillingu. Eins er í greininni heimild til handa ÁTVR að hafna vöru á grundvelli sjónarmiða sem nánar eru talin upp í greininni. Um er að ræða breytingar frá eldri lögum þar sem svipuð heimild var einungis í reglugerð. Talið er mikilvægt að ÁTVR fái þessa heimild í lögum til að framfylgja með virkum hætti stefnu stjórnvalda í áfengismálum.
    Ásamt þessu er gerð tillaga um að ÁTVR sé heimilt að hafna vöru sem er keimlík annarri vöru á almennum markaði. Í þessu felst til dæmis heimild til að hafna sölu á bjór séu umbúðir hans eins að flestu leyti og sambærilegrar óáfengrar vöru á almennum markaði. Framleiðendur hafa í gegnum tíðina sneitt fram hjá auglýsingabanni með þeim hætti að framleiða vöru sem er undir 2,25% styrkleika undir sama nafni og áfeng framleiðsla hjá sama fyrirtæki. Gert er ráð fyrir að heimildin sé bundin þeim skilyrðum að erfitt sé að greina á milli varanna tveggja, svo sem að á vörunum séu sams konar umbúðir eða sami texti eða myndmál.
    Þá er lagt til í greininni að ÁTVR fái heimild til að hafna vörum sem innihalda koffein eða önnur örvandi efni. Nú þegar er á almennum markaði framboð af slíkum vörum þar sem sterku áfengi er blandað saman við orkudrykki. Rannsóknir hafa sýnt fram á að slík neysla sé mjög skaðleg bæði fyrir einstaklinginn og samfélagið. Sambland slíkra drykkja leiðir til þess að neytandi finnur síður fyrir ölvun en er þó undir áhrifum. Sömu rannsóknir hafa sýnt að neytendur í þessu ástandi eru líklegri til að setjast undir stýri þar sem þeir telja sig ekki ölvaða. Ásamt þessu getur mikið heilsufarslegt tjón hlotið af neyslu þessara drykkja, svo sem hjartatruflanir.

Um 12. gr.


    Í þessari grein er kveðið á um skyldu ÁTVR til að veita góða og vandaða þjónustu. Felst það meðal annars í því að veita faglega og hlutlausa ráðgjöf í verslunum sínum. Seinni hluta ákvæðisins svipar til 7. gr. eldri laga. Þó er gerð krafa um ítarlegri upplýsingagjöf til viðskiptavina, m.a. um skaðsemi vörunnar og þá áhættu sem neyslu hennar getur fylgt. Ljóst er að um fína línu er að ræða þar sem annars vegar skal veita góða þjónustu og selja vöruna og hins vegar að framfylgja stefnu stjórnvalda hverju sinni. Gerð er því krafa um að báðir þessir þættir séu í upplýsingagjöf ÁTVR þar sem um óvenjulega neysluvöru er að ræða.

Um 13. gr.


    Í greininni er hlutverk ÁTVR skilgreint nánar út frá stefnu stjórnvalda. Lagt er til að ÁTVR skuli starfa með samfélagslega ábyrgð að leiðarljósi og vinna gegn misnotkun áfengis. Er heimildum ÁTVR í greininni ætlað að gera stofnuninni kleift að framfylgja þessu hlutverki á virkan hátt.

Um 14. gr.


     Greinin fjallar um kæruheimild til ráðherra. Ekki var með skýrum hætti kveðið á um slíka heimild í eldri lögum. Ljóst er að ákvarðanir ÁTVR sem varða rétt og skyldur aðila eru stjórnsýsluákvarðanir sem þurfa að vera kæranlegar til æðra stjórnvalds, ráðherra í þessu tilviki.

Um 15. gr.


    Greinin fjallar um refsiheimildir og viðurlög. Greinin er samhljóða eldri lögum.

Um 16. gr.


     Í greininni er að finna almenna reglugerðarheimild fyrir fjármálaráðherra.

Um 17. gr.


    Greinin fjallar um gildistöku og þarfnast ekki nánari skýringa.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um verslun með áfengi og tóbak.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að sett verði ný heildarlög um verslun með áfengi og tóbak. Eldri lög eru í grunninn frá árinu 1963 og endurspegla ekki lengur nægilega vel þá framkvæmd sem nú er til staðar. Frumvarpið er samið í samræmi við stefnu stjórnvalda í áfengismálum sem er að lágmarka skaðlega neyslu áfengis, bæði heilsufarslega og félagslega. Ekki eru þó lagðar til veigamiklar breytingar á verslun með áfengi og tóbak og eru helstu breytingarnar frá eldri lögum ákvæði um samfélagslega ábyrgð ÁTVR og ákvæði um vöruvalsreglur og heimild ÁTVR til að hafna vörum á grundvelli þeirra sjónarmiða sem þar eru lögð fram.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki gert ráð fyrir að það hafi í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.