Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 704. máls.

Þskj. 1223  —  704. mál.Frumvarp til laga

um breyting á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum (hæfi stjórnarmanna og framkvæmdastjóra, fjárfestingarheimildir).

(Lagt fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010–2011.)
1. gr.

    31. gr. laganna orðast svo:
    Stjórnarmenn og framkvæmdastjórar lífeyrissjóða skulu vera lögráða, fjárhagslega sjálfstæðir, hafa óflekkað mannorð og mega ekki á síðustu fimm árum hafa verið úrskurðaðir gjaldþrota. Þeir mega ekki í tengslum við atvinnurekstur hafa hlotið dóm á síðustu tíu árum fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum, samkeppnislögum, lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrotaskipti o.fl. eða ákvæðum laga er varða opinber gjöld, svo og sérlögum um aðila sem lúta opinberu eftirliti með fjármálastarfsemi. Fjármálaeftirlitið setur reglur um fjárhagslegt sjálfstæði stjórnarmanna og framkvæmdastjóra.
    Stjórnarmenn í lífeyrissjóðum mega ekki eiga sæti í stjórn annars eftirlitsskylds aðila eða aðila í nánum tengslum við hann né vera starfsmenn eða endurskoðendur annars eftirlitsskylds aðila eða aðila í nánum tengslum við hann. Stjórnarmenn lífeyrissjóðs mega ekki sinna lögmannsstörfum fyrir annan lífeyrissjóð. Starfsmönnum lífeyrissjóðs er ekki heimilt að sitja í stjórn hans.
    Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. getur stjórnarmaður eða starfsmaður lífeyrissjóðs tekið sæti í stjórn fjármálafyrirtækis sem er að hluta eða öllu leyti í eigu lífeyrissjóðsins og sinnir eingöngu þjónustuhlutverki fyrir lífeyrissjóði. Stjórnarseta samkvæmt þessari málsgrein skal háð því að hún skapi ekki, að mati Fjármálaeftirlitsins, hættu á hagsmunaárekstrum á fjármálamarkaði.
    Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. getur starfsmaður annars eftirlitsskylds aðila tekið sæti í stjórn lífeyrissjóðs ef hann er kosinn eða skipaður úr hópi sjóðfélaga. Stjórnarseta samkvæmt þessari málsgrein skal háð því að hún skapi ekki, að mati Fjármálaeftirlitsins, hættu á hagsmunaárekstrum á fjármálamarkaði eða dragi úr trúverðugleika stjórnar lífeyrissjóðs. Skal þar m.a. horft til stöðu þeirra starfsmanna sem um ræðir hjá eftirlitsskyldum aðila.
    Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. er stjórnarmanni í lífeyrissjóði heimilt að sitja í stjórn annars lífeyrissjóðs að fengnu samþykki Fjármálaeftirlitsins.
    Til viðbótar framangreindum skilyrðum skulu stjórnarmenn búa yfir nægilegri þekkingu og starfsreynslu til að geta gegnt stöðu sinni á tilhlýðilegan hátt.
    Framkvæmdastjóri annast daglegan rekstur sjóðsins og skal hann fara eftir þeirri stefnu og fyrirmælum sem sjóðstjórn hefur gefið. Ráðstafanir sem eru óvenjulegar eða mikils háttar getur framkvæmdastjóri aðeins gert samkvæmt heimild frá sjóðstjórn.
    Framkvæmdastjóra er óheimilt að taka þátt í atvinnurekstri nema að fengnu leyfi stjórnar. Eignarhlutur í fyrirtæki telst þátttaka í atvinnurekstri nema um sé að ræða óverulegan hlut sem ekki veitir bein áhrif á stjórn þess.
    Menntun, starfsreynsla og starfsferill framkvæmdastjóra lífeyrissjóðs skal vera með þeim hætti að tryggt sé að hann geti gegnt stöðu sinni á forsvaranlegan hátt.
    Lífeyrissjóður skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu um skipan og síðari breytingar á stjórn og framkvæmdastjóra. Þá skal lífeyrissjóður tilkynna Fjármálaeftirlitinu um skipan í stjórn fjármálafyrirtækis á grundvelli 3. mgr. Tilkynningar þessar skulu berast Fjármálaeftirlitinu án tafar og þeim skulu fylgja fullnægjandi upplýsingar til þess að hægt sé að meta hvort skilyrðum greinarinnar sé fullnægt. Fjármálaeftirlitið setur reglur um hvernig staðið skuli að hæfnismati.
    Um hæfi stjórnarmanna og framkvæmdastjóra lífeyrissjóðs til meðferðar máls fer eftir ákvæðum II. kafla stjórnsýslulaga.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 36. gr. laganna.
     a.      2. málsl. 3. mgr. orðast svo: Fjárfestingar í óskráðum hlutabréfum skv. 6. tölul. 1. mgr. eru þó eingöngu heimilar ef engar hömlur eru á viðskiptum með hlutabréfin og ársreikningar hlutafélaganna eru hluthöfum, fjárfestum og eftirlitsaðilum aðgengilegir.
     b.      Við 3. mgr. bætist nýr málsliður, sem verður 3. málsl., svohljóðandi: Fjárfestingar í hlutdeildarskírteinum eða hlutum annarra sjóða um sameiginlega fjárfestingu skv. 8. tölul. 1. mgr. eru eingöngu heimilar ef engar hömlur eru á viðskiptum með eignarhlutina, nema þær hömlur hafi eðlilegan viðskiptalegan tilgang og eru til þess fallnar að gæta hagsmuna fjárfesta.

3. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 2. málsl. 3. mgr. 36. gr. er lífeyrissjóðum heimilt að fjárfesta í óskráðum hlutabréfum fyrirtækja, þótt hömlur séu á viðskiptum með hlutabréfin, enda samrýmast þær lögum um hlutafélög og eftir atvikum öðrum lögum. Nýjar fjárfestingar eða nýjar skuldbindingar eru ekki heimilar í hlutabréfum, sem lúta hömlum í viðskiptum, eftir 31. desember 2015 nema í þeim hlutafélögum sem sjóðurinn á hlut í við lok tímabilsins.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ákvæðum laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, um hæfi til setu í stjórnum lífeyrissjóða og hæfi framkvæmdastjóra. Á 138. löggjafarþingi, 2009–2010, voru gerðar breytingar á ákvæðum um hæfi stjórnarmanna til setu í stjórnum fjármálafyrirtækja annars vegar og vátryggingafélaga hins vegar, sbr. lög nr. 75/2010, um breyting á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, og lög um vátryggingastarfsemi, nr. 56/2010. Skilyrði til stjórnarsetu voru þrengd í nefndum lögum en rétt þótti að takmarka svonefnda krossstjórnarsetu á fjármálamarkaði til þess að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra og til að lágmarka orðsporsáhættu. Í frumvarpi þessu er höfð hliðsjón af tilvitnuðum lagabreytingum og lagt til að sömu sjónarmið verði tekin upp í ákvæði laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða að teknu tilliti til sérstöðu lífeyrissjóða, þ.m.t. þess sjóðfélagalýðræðis sem liggur til grundvallar ákvæðum laganna.
    Þá eru lagðar til breytingar á ákvæðum laganna um fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða í þá veru að fjallað er um hömlur.
    Við samningu frumvarpsins var haft samráð við efnahags- og viðskiptaráðuneytið, iðnaðarráðuneytið, Fjármálaeftirlitið og Landssamband lífeyrissjóða.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í 1. mgr. er lagt til að þeir sem taka sæti í stjórn lífeyrissjóðs og framkvæmdastjóri lífeyrissjóðs megi ekki hafa hlotið dóm vegna brota á samkeppnislögum eða sérlögum sem gilda um aðila sem lúta opinberu eftirliti með fjármálastarfsemi. Er í ákvæðinu lögð til sú breyting að menn mega ekki hafa hlotið dóm fyrir brot í atvinnurekstri á síðastliðnum tíu árum í stað fimm áður. Þá er lagt til að sömu aðilar megi ekki á síðustu fimm árum hafa verið úrskurðaðir gjaldþrota. Að auki er lagt til að gerður verði áskilnaður um að stjórnarmenn og framkvæmdastjóri lífeyrissjóðs skuli vera fjárhagslega sjálfstæðir. Í því felst m.a. að skuldir viðkomandi hjá fjármálafyrirtæki eða ábyrgðir þeirra á skuldum þriðja aðila séu ekki þess eðlis að efast megi um óhæði þeirra gagnvart lánveitanda eða kröfuhafa, eða að þeir séu ekki eigendur eða stjórnendur fyrirtækja sem standa höllum fæti. Samkvæmt málsgreininni er Fjármálaeftirlitinu falið að setja reglur um mat á fjárhagslegu sjálfstæði og til hvaða atriða er litið í því sambandi. Ákvæðið á samsvörun í löggjöf um aðra eftirlitsskylda aðila á fjármálamarkaði. Þá er lagt til að framkvæmdastjóra verði getið með beinum hætti í ákvæðinu en ekki með tilvísun í 2. málsl. 6. mgr. 31. gr. laganna líkt og nú er.
    Í 2. mgr. eru lögð til þrengri skilyrði til setu í stjórnum lífeyrissjóða en nú gilda, en af þeim leiðir að stjórnarmanni er óheimilt að taka sæti í stjórn lífeyrissjóðs á sama tíma og hann gegnir stjórnarsetu í öðrum eftirlitsskyldum aðila á fjármálamarkaði, þ.m.t. öðrum lífeyrissjóði, eða aðila í nánum tengslum við hann. Þá er lagt til að það sama gildi um starfsmenn og endurskoðendur annars eftirlitsskylds aðila eða aðila í nánum tengslum við hann. Þá er einnig lagt til að stjórnarmenn lífeyrissjóðs megi ekki sinna lögmannsstörfum fyrir annan lífeyrissjóð. Ákvæðið samsvarar ákvæðum í lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, og lögum nr. 56/2010, um vátryggingastarfsemi, eins og fram kemur í almennum athugasemdum, og hefur það að markmiði að forða hagsmunaárekstrum á fjármálamarkaði og lágmarka orðsporsáhættu. Lífeyrissjóðir hafa með höndum móttöku, varðveislu og ávöxtun mikilla fjármuna. Það er því mikilvægt að koma í veg fyrir að krossstjórnarseta og önnur krosstengsl gefi tilefni til þess að draga í efa trúverðugleika þeirra sem fara með stjórn lífeyrissjóða.
    Í 3. mgr. er lagt til að gerð verði undantekning frá meginreglunni í 2. mgr. að því er varðar stjórnarsetu stjórnarmanns eða starfsmanns lífeyrissjóðs í stjórn fjármálafyrirtækis sem er að hluta til í eigu þess lífeyrissjóðs og sinnir eingöngu þjónustuhlutverki í þágu lífeyrissjóða, t.d. er varðar eignastýringu. Fjármálafyrirtækið má því ekki hafa með höndum aðra starfsemi en þá sem lýtur að þjónustu við lífeyrissjóði.
    Í 4. mgr. er lagt til að komið verði til móts við sjónarmið um áhrif sjóðfélaga á stefnumörkun og stjórn lífeyrissjóða. Í þessu sambandi skal vísað til almennra athugasemda við frumvarpið sem varð að lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða á 122. löggjafarþingi, 249. mál, þskj. 294, en þar kom fram að með ákvæðum í frumvarpinu væri leitast við að auka bein áhrif sjóðfélaga á stefnumörkun og stjórn sjóðanna. Í frumvarpi þessu er því lagt til að undantekning verði gerð frá framangreindri meginreglu um bann við krosstengslum í þá veru að starfsmaður annars eftirlitsskylds aðila geti tekið sæti í stjórn lífeyrissjóðs ef hann er kosinn eða skipaður úr hópi sjóðfélaga. Slík regla stuðlar að jafnræði sjóðfélaga þegar kemur að þátttöku í starfi þeirra sjóða sem þeir greiða til. Undantekningarheimildin er þó ekki algild því gert er ráð fyrir að Fjármálaeftirlitið geti gert athugasemdir við stjórnarsetu starfsmanna eftirlitsskylds aðila ef eftirlitið telur að hún skapi hættu á hagsmunaárekstrum eða orðsporsáhættu. Er þar einkum litið til stjórnenda og annarra lykilstarfsmanna eftirlitsskylds aðila og þeirra starfsmanna sem annast eignastýringu hjá fjármálafyrirtækjum.
    Í 5. mgr. er lagt til að þrátt fyrir þá meginreglu að stjórnarmenn í lífeyrissjóðum megi ekki eiga sæti í stjórn annars eftirlitsskylds aðila, þ.m.t. lífeyrissjóðs, eða aðila í nánum tengslum við hann, geti stjórnarmanni í lífeyrissjóði verið heimilt að sitja í stjórn annars lífeyrissjóðs að fengnu samþykki Fjármálaeftirlitsins, enda gæti verið hagur í því t.d. þegar um sambærileg og flókin réttindakerfi er að ræða hjá lífeyrissjóðum. Slíkt gæti átt við um sjóði sem lytu sameiginlegum rekstri, eins og á við um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins (LSR) og Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga (LH) eða með hliðsjón af sérstöðu annars eða beggja sjóða. Er gert ráð fyrir að Fjármálaeftirlitið geti sett leiðbeiningarreglur eða viðmið um slíka undanþágu.
    Ákvæði 6. mgr. er samhljóða 3. mgr. 31. gr. gildandi laga.
    Ákvæði 7. mgr. er samhljóða 4. mgr. 31. gr. gildandi laga.
    Ákvæði 8. mgr. er samhljóða 5. mgr. 31. gr. gildandi laga.
    Ákvæði 9. mgr. er samhljóða 6. mgr. 31. gr. gildandi laga að öðru leyti en því að lagt er til að 2. málsl. 6. mgr. 31. gr. laganna falli brott, enda er framkvæmdastjóra getið sérstaklega í 1. mgr. og 11. mgr. þessarar greinar frumvarpsins.
    Í 10. mgr. er lagt að lífeyrissjóðir tilkynni Fjármálaeftirlitinu um skipan og síðari breytingar á stjórn og framkvæmdastjóra. Ákvæðið þarfnast ekki nánari skýringar.
    Ákvæði 11. mgr. er samhljóða 2. mgr. 31. gr. gildandi laga að öðru leyti en því að framkvæmdastjóra er getið sérstaklega í ákvæðinu en ekki með tilvísun í 2. málsl. 6. mgr. 31. gr. laganna líkt og nú er.

Um 2. gr.

    Í greininni er lagt til að tekin verði af öll tvímæli um að ákvæði 2. málsl. 3. mgr. 36. gr. gildi ekki um aðra sjóði um sameiginlega fjárfestingu en nokkur vafi hefur leikið á því hvort skilyrðið gildi um þá, enda er slíkum sjóðum heimilt að gefa út hlutdeildarskírteini eða hlutabréf, sbr. 4. gr. laga um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði nr. 30/2003. Þessi vegna er lagt til í a-lið greinarinnar að í málsliðnum verði vísað til 6. tölul. 1. mgr. þar sem fjallað er um hlutabréf fyrirtækja. Hins vegar þykir ástæða til þess að setja fjárfestingum í hlutum eða hlutdeildarskírteinum í öðrum sjóðum um sameiginlega fjárfestingu skorður og því er lagt til í b-lið greinarinnar að miðað verði við að fjárfestingar í eignarhlutum í öðrum sjóðum um sameiginlega fjárfestingu verði eingöngu heimilar ef þær hafa eðlilegan viðskiptalegan tilgang og eru til þess fallnar að gæta hagsmuna fjárfesta. Þar skal t.d. vísað til þeirrar takmörkunar sem eðlileg telst að ábyrðar- eða rekstraraðili sjóðs þurfi að samþykkja nýjan kaupanda á eignarhlut í sjóðnum, innlausnar eða forkaupsréttar.
    Lögð er til breyting er varðar kröfur um birtingu ársreikninga samkvæmt ákvæðinu þar sem vafi hefur ríkt um túlkun núverandi orðalags ákvæðisins, en mismunandi getur verið í löggjöf ríkja hvaða kröfur eru gerðar um birtingu. Með breytingunni er þó tryggt að ársreikningar skuli aðgengilegir fjárfestum og eftirlitsaðilum en kröfur um opinbera birtingu fara þá eftir reglum heimaríkis.

Um 3. gr.

    Í greininni er lagt til nýtt ákvæði til bráðabirgða með það fyrir augum að rýmka tímabundið skilyrði fyrir fjárfestingu í óskráðum hlutabréfum í fyrirtækjum skv. 2. málsl. 3. mgr. 36. gr. laganna. Lífeyrissjóðir hafa í auknum mæli leitað fjárfestinga í óskráðum hlutabréfum í ljósi breyttra aðstæðna á íslenskum fjármálamarkaði. Heimild lífeyrissjóðanna til þess að fjárfesta í óskráðum verðbréfum var aukin úr 10% í 20% af hreinni eign hvers sjóðs með lögum nr. 171/2008, um breyting á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, m.a. með vísan til þess að fjárfestingarkostir sjóðanna innan lands höfðu þá dregist verulega saman. Það skilyrði er sett fyrir fjárfestingum í óskráðum hlutabréfum að engar hömlur megi vera í viðskiptum með bréfin, sbr. 2. málsl. 3. mgr. 36. gr. laganna. Við skýringu á þessu ákvæði hefur einkum verið litið til 21.–23. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög, þar sem fjallað er um viðskiptahömlur. Því hefur verið litið svo á að t.d. forkaupsréttarákvæði hamli viðskiptum í skilningi 3. mgr. 36. gr. laganna í öllum tilvikum. Á liðnum missirum hafa skapast nokkrar umræður um skilyrðið og því hefur verið haldið fram, með vísan til sjónarmiða sem eðlileg teljast í viðskiptum með óskráð hlutabréf, að það sé of þröngt. Þess vegna er lagt til í greininni að lífeyrissjóðum verði tímabundið heimilt að fjárfesta í óskráðum hlutabréfum fyrirtækja þótt einhverjar hömlur gildi um meðferð hluta samkvæmt ákvæðum samþykkta enda séu þær innan marka þess sem löggjafinn hefur leyft í lögum um hlutafélög eða eftir atvikum öðrum lögum. Er tillögunni í fyrsta lagi ætlað að tryggja lífeyrissjóðunum raunhæfan fjárfestingarkost í óskráðum hlutbréfum í fyrirtækjum, en eins og áður er nefnt þá hafa fjárfestingarkostir sjóðanna á fjármálamarkaði dregist verulega saman á undanförnum árum. Þá má og nefna þau áhrif sem gjaldeyrishöftin hafa á mögulegar fjárfestingar lífeyrissjóða sem og annarra.
    Lagt er til að tímaramminn hér miðist við 31. desember 2015 til samræmis við áætlun Seðlabanka Íslands um afnám gjaldeyrishafta, en slíkar fjárfestingar verði almennt ekki heimilar eftir það tímamark. Þó er miðað við að lífeyrissjóði verði heimilt að fjárfesta í hlutabréfum í hlutafélögum sem sjóðurinn á hlut í við lok árs 2015. Með því er tryggt að lífeyrissjóðurinn geti gætt hagsmuna sinna með eðlilegum hætti, til að mynda með þátttöku í hlutafjáraukningu eða með því að eiga almenn viðskipti með hluti sína. Rétt er að benda á í þessu sambandi að samkvæmt almennum reglum er hámarkshlutur lífeyrissjóðs í hverju hlutafélagi 15%.

Um 4. gr.

    Gert er ráð fyrir að lögin öðlist þegar gildi.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum (hæfi stjórnarmanna og framkvæmdastjóra, fjárfestingarheimildir).

    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á ákvæðum laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Breytingarnar varða annars vegar hæfi til setu í stjórnum lífeyrissjóða og hæfi framkvæmdastjóra og hins vegar breytingar á ákvæðum um fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða er lúta að því hvað geti talist hömlur í viðskiptum.
    Á síðasta þingi voru gerðar breytingar á ákvæðum um hæfi stjórnarmanna til setu í stjórnum fjármálafyrirtækja annars vegar og vátryggingafélaga hins vegar, sbr. lög nr. 75/2010, um breyting á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, og lög um vátryggingastarfsemi, nr. 56/2010. Skilyrði til stjórnarsetu voru þrengd í nefndum lögum en rétt þótti að takmarka svonefnda krossstjórnarsetu á fjármálamarkaði til þess að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra og til að lágmarka orðsporsáhættu. Í frumvarpi þessu er byggt á því að sömu sjónarmið verði tekin upp í ákvæði laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða að teknu tilliti til sérstöðu lífeyrissjóða. Því er lagt til að þrátt fyrir þá meginreglu að stjórnarmenn í lífeyrissjóðum megi ekki eiga sæti í stjórn annars eftirlitsskylds aðila, þ.m.t. lífeyrissjóðs, eða aðila í nánum tengslum við hann verði lögfestar undanþágur. Í fyrsta lagi að gerð verði undantekning að því er varðar stjórnarsetu stjórnarmanns eða starfsmanns lífeyrissjóðs í stjórn fjármálafyrirtækis sem er að hluta til í eigu þess lífeyrissjóðs og sinnir eingöngu þjónustuhlutverki í þágu lífeyrissjóða, t.d. er varðar eignastýringu. Fjármálafyrirtækið má þó ekki hafa með höndum aðra starfsemi en þá sem lýtur að þjónustu við lífeyrissjóði. Í öðru lagi er lögð til undanþága til að koma til móts við sjónarmið um áhrif sjóðfélaga á stefnumörkun og stjórn lífeyrissjóða í þá veru að starfsmaður eftirlitsskylds aðila geti tekið sæti í stjórn lífeyrissjóðs ef hann er kosinn eða skipaður úr hópi sjóðfélaga. Þá er í þriðja lagi lögð til sú undanþága að stjórnarmanni í lífeyrissjóði geti verið heimilt að sitja í stjórn annars lífeyrissjóðs að fengnu samþykki Fjármálaeftirlitsins, enda sé talinn hagur í því t.d. þegar um sambærileg og flókin réttindakerfi er að ræða hjá lífeyrissjóðum.
    Í frumvarpinu er lagt til að fjárfestingar í óskráðum hlutabréfum sé eingöngu heimilar ef engar hömlur eru á viðskiptum með hlutabréfin og ársreikningar hlutafélaganna eru hluthöfum, fjárfestum og eftirlitsaðilum aðgengilegir. Þó þykir ástæða til þess að setja fjárfestingum í hlutum eða hlutdeildarskírteinum í öðrum sjóðum um sameiginlega fjárfestingu skorður og því er lagt til að miðað verði við að fjárfestingar í eignarhlutum í öðrum sjóðum um sameiginlega fjárfestingu verði eingöngu heimilar ef þær hafa eðlilegan viðskiptalegan tilgang og eru til þess fallnar að gæta hagsmuna fjárfesta. Þá er lagt til að sett verði ákvæði til bráðabirgða, sem gildi til 31. desember 2015, með það fyrir augum að rýmka tímabundið skilyrði fyrir fjárfestingu í óskráðum hlutabréfum í fyrirtækjum. Tímafresturinn er veittur í samræmi við áætlun Seðlabanka Íslands um afnám gjaldeyrishafta. Þannig verði lífeyrissjóðum tímabundið heimilt að fjárfesta í óskráðum hlutabréfum fyrirtækja þótt einhverjar hömlur gildi um meðferð hluta samkvæmt ákvæðum samþykkta enda séu þær innan marka þess sem löggjafinn hefur leyft í lögum um hlutafélög eða eftir atvikum öðrum lögum.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki gert ráð fyrir að það hafi í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.