Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 591. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1232  —  591. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Kristjáns Þórs Júlíussonar um ríkisábyrgð til Nýja Kaupþings banka hf., nú Arion banka hf.

     1.      Hvernig stendur á veitingu ríkisábyrgðar til Nýja Kaupþings banka hf., nú Arion banka hf., sem er sprottin af samningi sem Nýja Kaupþing banki og Drómi undirrituðu 22. júní 2009 um endurgreiðslu skuldar og veðsamninga vegna skuldbindinga í samræmi við ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, en í bréfi ráðuneytisins til Nýja Kaupþings banka, dagsettu 20. ágúst 2009, kemur fram að ríkissjóður ber fjárhagslega ábyrgð gagnvart bankanum ef greiðslufall verður af umræddu skuldabréfi, sem er að fjárhæð 96,7 milljarðar kr.?
    Þáverandi ríkisstjórn gaf haustið 2008 yfirlýsingu um að innstæður í bönkum væru tryggðar að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Núverandi ríkisstjórn hefur gefið sambærilega yfirlýsingu. Þegar stjórn Spron óskaði eftir því við FME að það tæki yfir rekstur sparisjóðsins á grundvelli neyðarlaganna tók stjórn FME þá ákvörðun varðandi innstæður Spron að leita eftir því við Arion banka að bankinn tæki við innstæðum Spron í því skyni að tryggja aðgang innstæðueigenda að fjármunum sínum. Á móti gaf slitastjórn Spron út skuldabréf sem tryggt var með veði í eignum þrotabúsins sem endurgjald fyrir skuldbindingarnar. Ákvörðun FME um flutning innstæðna var formgerð með þeim hætti að slitastjórn Spron gaf út skuldabréf á Arion banka fyrir hinum yfirfærðu innstæðum að fjárhæð 96,7 milljarðar kr. eða nettó að fjárhæð 89 milljarðar kr. þegar tekið er tillit til þess yfirdráttar sem jafnframt var fluttur yfir. Til tryggingar skuldinni eru eignir þrotabúsins og er veðhlutfallið talið vera um 140% samkvæmt síðasta mati. Nú er unnið að nýju mati á verðmæti eignanna sem birt verður á kröfuhafafundi 14. apríl nk. Rétt er að geta þess að skuldin nemur nú um 70 milljörðum kr. Þessir gjörningar eru þannig milli tveggja lögaðila og færast því ekki í bækur ríkissjóðs. Á grundvelli ákvörðunar FME um að færa innstæður Spron til Arion banka gerði bankinn hins vegar þær kröfur til ríkissjóðs að hann staðfesti ábyrgð ríkisins á þessum innstæðum, eins og á öðrum innstæðum í íslenskum bönkum, ef svo færi að verðmæti veðsettra eigna stæði ekki undir þeim skuldbindingum.

     2.      Hvers vegna er þessi skuldbinding ekki tilgreind í ríkisreikningi fyrir árið 2009?
    Þar sem ríkissjóður lýsti yfir því með almennri yfirlýsingu að hann ábyrgðist allar innstæður í íslenskum bönkum, og þar með talið þessar, var það álitamál hvort sérstaklega skyldi tiltaka ábyrgð á þessum innstæðum í skýringum með ríkisreikningi en ekki ábyrgð á öðrum innstæðum. Á vegum ríkisreikningsnefndar er verið að fara með heilstæðum hætti yfir hvernig gerð verði grein fyrir ábyrgðarskuldbindingum í ríkisreikningi.

     3.      Á hvaða heimildum byggist ábyrgðarveiting ríkissjóðs?
    Framangreindir gerningar voru gerðir á grundvelli neyðarlaganna.

     4.      Var innheimt ábyrgðargjald samkvæmt lögum um ríkisábyrgðir?
    Sjá svar við 1. tölul.

     5.      Hvert er áhættumat ráðuneytisins á því að ábyrgðin falli á ríkissjóð að hluta eða í heild? Um hvaða fjárhæðir er að ræða og á hvaða tímapunktum kunna þær að falla til?
    Sjá svar við 1. tölul.