Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 717. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1241  —  717. mál.




Frumvarp til laga



um Þjóðhagsstofu.

Flm.: Eygló Harðardóttir, Birkir Jón Jónsson, Guðmundur Steingrímsson,
Gunnar Bragi Sveinsson, Höskuldur Þórhallsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson,
Sigurður Ingi Jóhannsson, Siv Friðleifsdóttir, Vigdís Hauksdóttir.


1. gr.

    Þjóðhagsstofa starfar á vegum Alþingis. Hún skal fylgjast með árferði og afkomu þjóðarbúsins, vinna að hagrannsóknum og vera Alþingi til ráðuneytis í efnahagsmálum. Einnig skal hún vera sveitarfélögum, aðilum vinnumarkaðarins, fræðimönnum, fag- og fræðistofnunum og öðrum aðilum til aðstoðar, eftir því sem efni standa til.

2. gr.

    Forsætisnefnd Alþingis ræður forstöðumann stofnunarinnar til sex ára í senn og nefnist hann þjóðhagsstofustjóri. Hann skal hafa menntun og þekkingu á sviði hagfræði og má ekki vera alþingismaður. Launakjör hans skulu ákveðin af kjararáði. Hann ræður aðra starfsmenn stofnunarinnar. Þjóðhagsstofustjóri er starfsmaður Alþingis og ber ábyrgð gagnvart því. Forsætisnefnd getur vikið þjóðhagsstofustjóra úr starfi að fengnu samþykki 2/3 hluta Alþingis.

3. gr.

    Þjóðhagsstofa er engum háð í störfum sínum. Forsætisnefnd getur þó ýmist að eigin frumkvæði eða samkvæmt óskum þingmanna krafist skýrslna um einstök mál sem falla undir starfsemi Þjóðhagsstofu.

4. gr.

    Verkefni Þjóðhagsstofu eru:
     1.      Að færa þjóðhagsreikninga.
     2.      Að semja þjóðhagsspár og -áætlanir.
     3.      Að semja og birta opinberlega tvisvar á ári, vor og haust, yfirlitsskýrslur um þróun þjóðarbúskaparins og horfur, þar á meðal um framleiðslu, neyslu, fjárfestingu, viðskipta- og greiðslujöfnuð, verðlag og kaupgjald, atvinnu og tekjur almennings, afkomu atvinnuvega, fjármál hins opinbera og aðra mælikvarða um hagsæld þjóðarbúskaparins, þ.m.t. lífsgæði og umhverfi. Auk þess skal stofnunin koma fyrir almenningssjónir, eftir því sem kostur er, niðurstöðum athugana sinna á einstökum þáttum efnahagsmála og þeirra rannsókna sem hún að eigin frumkvæði kýs að ráðast í.
     4.      Að annast hagfræðilegar athuganir og skýrslugerð um efnahagsmál fyrir Alþingi.
     5.      Að láta alþingismönnum, nefndum Alþingis og þingflokkum í té upplýsingar og skýrslur um efnahagsmál og vera Alþingi sem fjárveitingar- og fjárstjórnarvaldi almennt til ráðuneytis.
     6.      Að veita aðilum vinnumarkaðarins upplýsingar um efnahagsmál og annast fyrir þá hagfræðilegar athuganir, eftir því sem um semst.
     7.      Þá skal stofnunin sinna öðrum þeim verkefnum sem Alþingi felur henni.
    Þjóðhagsstofu er heimilt að fela sérfræðingum á viðkomandi sviði að vinna að einstökum verkefnum sem stofnuninni eru falin í lögum þessum eða öðrum lögum.

5. gr.

    Þjóðhagsstofu er heimilt að krefja stjórnvöld, stofnanir, fyrirtæki og einstaklinga í atvinnurekstri um gögn og upplýsingar sem hún þarfnast vegna starfsemi sinnar skv. 4. gr. Nýtur hún í þessu efni sömu réttinda og Hagstofa Íslands og sömu viðurlög liggja við ef út af er brugðið, sbr. lög um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð, nr. 163/2007.
    Stofnunin skal hafa samráð við Hagstofu Íslands og aðra aðila sem safna hliðstæðum upplýsingum, í því skyni að komast hjá tvíverknaði.

6. gr.

    Kostnaður af starfsemi Þjóðhagsstofu greiðist úr ríkissjóði.

7. gr.

    Þagnarskylda ríkir um allar upplýsingar sem Þjóðhagsstofa safnar og snerta tilgreinda einstaklinga eða lögaðila. Slíkar upplýsingar skulu teljast trúnaðargögn og skulu einvörðungu notaðar til þess að sinna verkefnum stofnunarinnar.
    Starfsfólki Þjóðhagsstofu er skylt að halda trúnað og gæta fyllstu þagmælsku um öll trúnaðargögn, trúnaðarupplýsingar og trúnaðarmál sem það verður áskynja í starfi sínu og leynt skulu fara, sbr. 18. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996. Þagnarskylda helst þótt hlutaðeigandi láti af störfum.

8. gr.

    Forsætisnefnd getur sett nánari reglur um starfsemi Þjóðhagsstofu að undangengnu samráði við þjóðhagsstofustjóra og fulltrúa starfsmanna stofnunarinnar.

9. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2012.

Greinargerð.


    Efnahagsmál eru ein mikilvægustu þjóðfélagsmál hvers ríkis enda góð hagstjórn oft lykillinn að velsæld og velgengni þjóða. Grundvöllur góðrar hagstjórnar hlýtur að vera aðgengi að upplýsingum svo að ákvarðanataka verði sem best undirbúin. Frá árinu 1974 og fram til 2002 starfaði Þjóðhagsstofnun sem heyrði undir forsætisráðherra og átti að „fylgjast með árferði og afkomu þjóðarbúsins, vinna að hagrannsóknum og vera ríkisstjórn og Alþingi til ráðuneytis í efnahagsmálum“. Mikil umræða spratt af því þegar lagt var fram á Alþingi frumvarp um að Þjóðhagsstofnun skyldi lögð niður. Snerist umræðan meðal annars um sjálfstæðar efnahagsspár en verkefni Þjóðhagsstofnunar voru færð til fjármálaráðuneytis og Seðlabanka Íslands sem ekki geta talist framkvæma hlutlausa efnahagsspá.
    Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis kom fram nokkuð hörð gagnrýni á hagstjórn síðustu ára og var meðal annars talað um misræmi í hagstjórn. Þá var það niðurstaða þingmannanefndarinnar sem fjallaði um skýrslu rannsóknarnefndarinnar að rétt væri að stofna sjálfstæða ríkisstofnun sem heyrði undir Alþingi og hefði það hlutverk að meta og gefa út spár fyrir efnahagslífið á sama hátt og Þjóðhagsstofnun gerði til 1. júní 2002.
    Með frumvarpi þessi er einmitt lagt til að komið verði á fót slíkri stofnun sem bera skuli heitið Þjóðhagsstofa og starfa á vegum Alþingis og að stjórnsýsluleg staða hennar verði svipuð og staða umboðsmanns Alþingis og Ríkisendurskoðunar.
    Hlutverk Þjóðhagsstofu er að fylgjast með afkomu þjóðarbúsins, sinna ýmsum rannsóknum og vera til aðstoðar fyrir Alþingi og aðra aðila, svo sem sveitarfélög, aðila á vinnumarkaði og fræðistofnanir. Sérstaklega er síðan tiltekið að Þjóðhagsstofa sé engum háð í störfum sínum þótt forsætisnefnd geti krafist skýrslna af stofnuninni um einstök málefni sem undir hana falla. Með þessi móti telja flutningsmenn að komið verði upp sterkri, sjálfstæðri stofnun sem geti gefið hlutlausar og greinargóðar upplýsingar um stöðu efnahagsmála og að akkur verði í að hafa allar upplýsingar og vitneskju á einum stað þannig að yfirsýn verði meiri og betri. Þá gerir þetta fyrirkomulag þingmönnum, ekki síst stjórnarandstöðuþingmönnum, betur kleift að nálgast upplýsingar og gögn um efnahagsmálin.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.


    Í ákvæðinu er lagt til að Þjóðhagsstofa verði sjálfstæð stofnun á vegum Alþingis. Hún skuli fylgjast með afkomu þjóðarbúsins, vinna rannsóknarvinnu og vera Alþingi til ráðuneytis í efnahagsmálum. Þá er hlutverk hennar einnig að vera ýmsum aðilum til aðstoðar, svo sem sveitarfélögum, aðilum vinnumarkaðarins, fræðimönnum og -stofnunum.

Um 2. gr.


    Gert er ráð fyrir að forsætisnefnd Alþingis ráði forstöðumann stofnunarinnar og að hann megi ráða til sex ára í senn. Skuli hann nefnast þjóðhagsstofustjóri og hafa menntun á sviði hagfræði. Einnig er gert ráð fyrir að forsætisnefnd geti vikið þjóðhagsstofustjóra úr starfi að fengnu samþykki Alþingis.

Um 3. gr.


    Hér er kveðið á um sjálfstæði og óhæði stofnunarinnar. Þó er tiltekið að stofnuninni beri að fara að kröfu forsætisnefndar um skýrslugerð um einstök mál, að því gefnu að viðkomandi mál falli undir starfsemi Þjóðhagsstofu eins og hún er skilgreind í 4. gr. frumvarpsins.

Um 4. gr.


    Frumvarpið tiltekur með tæmandi hætti verkefni Þjóðhagsstofu. Þau eru að miklu leyti sambærileg við verkefni Þjóðhagsstofnunar en eru þó víðtækari, svo sem hvað varðar frumkvæði að rannsóknum og veitta aðstoð til fleiri aðila en eldri stofnunin gerði. Einnig er lagt til að Þjóðhagsstofa þrói og birti aðra mælikvarða í hagstjórn, m.a. hagsældarmælikvarða, svo sem lífsgæði og umhverfisþætti, í samræmi við tillögur nefndar um mælikvarða um stöðu efnahags og félagslega þróun (e. Commission on the Measurement of Economic Performance and Social Progress) sem Joseph E. Stiglitz veitti forustu. Að lokum er stofnuninni heimilað að fela sérfræðingum að vinna hluta af einstökum verkefnum.

Um 5. gr.


    Ákvæðið felur í sér heimild til handa Þjóðhagsstofu til þess að afla og krefjast upplýsinga frá ýmsum stjórnvöldum í þeim tilgangi að sinna hlutverki sínu samkvæmt lögunum. Heimildirnar eru í samræmi við heimildir Hagstofu Íslands í lögum nr. 163/2007. Þá er lagt til að Þjóðhagsstofa hafi samráð við Hagstofuna og aðra aðila sem safna hliðstæðum upplýsingum í þeim tilgangi að koma í veg fyrir tvíverknað.

Um 6. gr.


    Kostnaður af starfsemi Þjóðhagsstofu skal greiðast úr ríkissjóði en erfitt er að afmarka eða meta kostnað af rekstri stofnunarinnar. Kostnaður við Þjóðhagsstofnun nam 132 millj. kr. í fjárlögum ársins 2002 og mætti hafa þá fjárhæð til viðmiðunar að teknu tilliti til verðlags. Þá þarf einnig að meta hvort ekki dragi á móti úr útgjöldum annarra stofnana sem sinna nú hluta af því starfi sem Þjóðhagsstofu er ætlað með frumvarpi þessu.

Um 7. gr.


    Ákvæðið tekur á þagnarskyldu starfsmanna Þjóðhagsstofu og að hún sé rík hvað varðar upplýsingar um einstaklinga og lögaðila. Einnig er áréttað í ákvæðinu að starfsmönnum beri að gæta þagmælsku um atriði í samræmi við 18. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Er með því sérstaklega tiltekið að gæta skuli trúnaðar um viðkvæmar upplýsingar sem veittar eru stofnuninni.

Um 8. gr.


    Ákvæðið felur í sér heimild fyrir forsætisnefnd til reglusetningar um starfsemi Þjóðhagsstofu sem yrði sambærileg við reglugerðir sem settar eru í ráðuneytum. Tiltekið er að hafa skuli samráð við þjóðhagsstofustjóra og fulltrúa starfsmanna þegar reglurnar eru settar.

Um 9. gr.


    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.