Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 721. máls.

Þskj. 1245  —  721. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á lögum nr. 106/1999, um Byggðastofnun.

(Lagt fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010–2011.)




1. gr.

    1. málsl. 2. mgr. 3. gr. laganna orðast svo: Ráðherra skipar á ársfundi fimm menn í stjórn Byggðastofnunar og jafnmarga til vara til eins árs í senn.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júní 2011.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Byggðastofnun starfar samkvæmt lögum nr. 106/1999. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á 3. gr. laganna sem fjallar um ársfund og stjórnarmenn. Þær breytingar sem felast í frumvarpinu eru þær að stjórnarmönnum verði fækkað úr sjö í fimm.
    Byggðastofnun var sett á fót með lögum nr. 64/1985 sem síðar var breytt með lögum nr. 106/1999 er nú gilda um stofnunina. Stofnunin hefur því starfað í ríflega aldarfjórðung á grundvelli núverandi skipulags. Á þeim tíma hafa orðið gríðarlegar breytingar á fjármálakerfi landsins og óþarft er að fjölyrða um það kerfishrun sem varð hér á landi haustið 2008. Byggðastofnun hefur ekki farið varhluta af þeim vandkvæðum sem fylgdu falli íslensku bankanna og ýmsum afleiddum breytingum, svo sem eins og breyttu gengi íslensku krónunnar.
    Haustið 2010 skipaði iðnaðarráðherra starfshóp sem hafði það verkefni að greina nokkra þætti í lánastarfsemi Byggðastofnunar. Meðal verkefna starfshópsins var að leggja mat á það hvað ætla megi að ríkissjóður þurfi að leggja Byggðastofnun til mikla fjármuni á næstu fimm árum miðað við kröfu um 8% lágmark eigin fjár. Starfshópurinn skilaði skýrslu í janúar 2011. Í niðurstöðukafla skýrslunnar kemur m.a. fram að reikna megi með að ríkissjóður þurfi að leggja Byggðastofnun til 3,5 milljarða kr. á næstu fimm árum. Í niðurstöðunum er einnig bent á það að íhuga þurfi hvort ekki megi fækka fulltrúum í stjórn stofnunarinnar. Þessu til stuðnings er vísað til þess í skýrslunni að telja verði að ná megi fram hagræðingu og skilvirkni með fækkun stjórnarmanna ásamt því að endurskoða skipulag stofnunarinnar eins og því er lýst í reglugerð.
    Í kjölfar vinnu starfshópsins ákvað ráðherra að skipa nefnd með fulltrúum allra stjórnmálaflokka sem eiga sæti á Alþingi. Nefndinni var falið það hlutverk að endurskoða lagaákvæði um lánastarfsemi Byggðastofnunar í heild sinni. Sú nefnd var skipuð 16. febrúar 2011 og er henni ætlað að skila tillögum eigi síðar en 1. maí 2011.
    Í frumvarpinu er lagt til að stjórnarmönnum verði fækkað úr sjö í fimm. Lagt er til að óbreytt verði að iðnaðarráðherra skipi stjórn en með hliðsjón af breyttu fjármálaumhverfi og tilkomu Bankasýslu ríkisins kemur til greina að fela valnefnd Bankasýslu ríkisins að tilnefna tvo stjórnarmenn.
    Með fækkun manna í stjórn Byggðastofnunar er talið að ná megi fram aukinni skilvirkni í störfum hennar. Þá mun þessi ráðstöfun lækka kostnað við rekstur stjórnar stofnunarinnar.
    Byggðastofnun hefur starfsleyfi sem lánafyrirtæki samkvæmt lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Í því felst að þau hæfiskilyrði sem rakin eru í 52. gr. laganna gilda um stjórn og framkvæmdastjóra Byggðastofnunar. Þær hæfisreglur eru ítarlegar auk þess sem gerðar voru verulega auknar kröfur til hæfis með 39. gr. laga nr. 75/2010, um breyting á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Breytingalögin tóku gildi á árinu 2010 en einstök ákvæði hæfisreglnanna taka þó gildi nokkru síðar eða 1. apríl og 1. júlí á þessu ári. Varðandi hæfisskilyrði um menntun og þekkingu er gerð sú krafa í 3. mgr. 52. gr. laga nr. 161/2002 að stjórnarmenn skuli hafa lokið háskólaprófi sem nýtist í starfi. Fjármálaeftirlitið getur veitt undanþágu frá þessu skilyrði á grundvelli þekkingar og reynslu viðkomandi. Jafnframt skulu stjórnarmenn og framkvæmdastjórar búa yfir nægilegri þekkingu og starfsreynslu til að geta gegnt stöðu sinni á tilhlýðilegan hátt, m.a. hafa þekkingu á þeirri starfsemi sem viðkomandi fjármálafyrirtæki stundar. Fulltrúar í stjórn Byggðastofnunar þurfa því að hafa a.m.k. grunnþekkingu á málefnum atvinnulífs á landsbyggðinni.
    Lagt er til að gildistaka laganna verði 1. júní 2011 og að þannig geti nýjar reglur komið til framkvæmda við skipun stjórnar Byggðastofnuar á ársfundi árið 2011.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga umbreyting á lögum nr. 106/1999, um Byggðastofnun.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að stjórnarmönnum í Byggðastofnun verði fækkað úr sjö í fimm. Í athugasemdum frumvarpsins kemur fram að talið sé að með fækkun í stjórn stofnunarinnar megi ná fram bættri skilvirkni í störfum hennar.
    Byggðastofnun hefur starfsleyfi sem lánafyrirtæki samkvæmt lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Í því felst að þau hæfiskilyrði sem rakin eru í 52. gr. þeirra laga gilda um stjórn og framkvæmdastjóra Byggðastofnunar. Þær hæfisreglur eru ítarlegar auk þess sem gerðar voru verulega auknar kröfur til hæfis með 39. gr. laga nr. 75/2010, um breyting á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Breytingalögin tóku gildi á árinu 2010 en einstök ákvæði hæfisreglnanna taka þó gildi nokkru síðar eða 1. apríl og 1. júlí á þessu ári. Í athugasemdum frumvarpsins kemur fram að miðað sé við að þessar nýju reglur geti komið til framkvæmda við skipun stjórnar Byggðastofnunar á ársfundi árið 2011.
    Í fyrra námu þóknanir stjórnarmanna í Byggðastofnun 8,4 m.kr. að meðtöldum launatengdum gjöldum. Verði frumvarpið að lögum má því gera ráð fyrir að árlegur kostnaður við yfirstjórn stofnunarinnar geti lækkað um rúmlega 2 m.kr. Fjárreiður Byggðastofnunar tilheyra C-hluta fjárlaga en stofnunin fær rekstrarstyrk úr A-hluta ríkissjóðs sem nemur 286 m.kr. í fjárlögum 2011. Ekki er gert ráð fyrir að breyting verði á því framlagi í tengslum við lögfestingu á þessu frumvarpi.