Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 644. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1262  —  644. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um brottfall laga um stjórnlagaþing, nr. 90 25. júní 2010.

Frá meiri hluta allsherjarnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að lög um stjórnlagaþing, nr. 90 25. júní 2010, verði felld brott. Hlutverk stjórnlagaþings var að endurskoða með ráðgefandi hætti stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33 17. júní 1944. Fulltrúar stjórnlagaþings voru kosnir til verkefnisins 27. nóvember 2010 en Hæstiréttur ógilti kosningu til stjórnlagaþings 25. janúar sl.
    Við umfjöllun um þingsályktunartillögu um skipun stjórnlagaráðs var talið rétt að leggja til að lög um stjórnlagaþing féllu brott eins og fjallað var um í áliti meiri hluta allsherjarnefndar (sbr. þskj. 1028, 549. mál).
    Í ákvæði til bráðabirgða í frumvarpinu er lagt til að ekki verði skylt að auglýsa störf starfsmanna stjórnlagaráðs. Stjórnlagaráði er ætlað að hefja störf hið fyrsta og mun það starfa í tiltölulega skamman tíma, þrjá til fjóra mánuði, en auglýsinga- og ráðningarferli tekur talsverðan tíma. Meiri hlutinn tekur undir mikilvægi þess að unnt sé að ráða hæft starfsfólk fyrir ráðið með sem stystum fyrirvara.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt.

Alþingi, 4. apríl 2011.

Valgerður Bjarnadóttir,
frsm.
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.
Þráinn Bertelsson.

Mörður Árnason.
Þór Saari.