Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 50. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1265  —  50. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um sölu sjávarafla o.fl.

Frá minni hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Friðrik J. Arngrímsson og Svein Hjört Hjartarson frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Þórdísi Bjarnadóttur frá Viðskiptaráði Íslands, Jón Gunnar Björgvinsson og Grétar Mar Jónsson frá Samtökum íslenskra fiskimanna, Elínu Björgu Ragnarsdóttur og Jón Stein Elíasson frá Samtökum fiskframleiðenda og útflytjenda og Sævar Gunnarsson og Hólmgeir Jónsson frá Sjómannasambandi Íslands. Umsagnir bárust frá Byggðastofnun, Fiskistofu, Hafrannsóknastofnuninni, Landssambandi íslenskra útvegsmanna og Samtökum atvinnulífsins, Matís ohf., Samtökum fiskframleiðenda og útflytjenda, Samtökum íslenskra fiskimanna, Sjómannasambandi Íslands og Viðskiptaráði Íslands.
    Markmið frumvarpsins er að hámarka arð þjóðarinnar af auðlindum sjávar og efla atvinnustarfsemi innan lands. Þá er markmið þess jafnframt að auka aðkomu og yfirsýn íslenskra stjórnvalda yfir viðskipti með sjávarafurðir, hvort sem þær eru veiddar innan efnahagslögsögunnar eða tilheyra íslenskum deilistofnum. Framangreind markmið eru útfærð á þann hátt í frumvarpinu að gert er ráð fyrir breytingum á fjórum lagabálkum. Í fyrsta lagi eru lagðar til breytingar á lögum um umgengni við nytjastofna sjávar sem að meginstefnu fela í sér að allur sjávarafli, utan fullunnins frysts afla, rækju, humars og uppsjávarfisks, sem veiddur er úr íslenskum fiskstofnum og deilistofnum skuli seldur á innlendum uppboðsmarkaði sjávarafla. Þá er gert ráð fyrir því að áfram verði heimilt að selja afla í beinum viðskiptum til innlendrar fiskvinnslu en þá skuli verð á milli útgerðar og fiskvinnslu ákvarðast af markaðsverði söludagsins eða síðasta þekkta markaðsverði á uppboðsmarkaði. Í öðru lagi er stefnt að breytingum á lögum um Verðlagsráð sjávarútvegsins í því skyni að draga úr hlutverki þess á þann hátt að verðákvarðanir þess taki aðeins til rækju, humars og uppsjávarfisks en ekki annars sjávarafla og verð á óunnum sjávarafla skuli ákveðið með sölu á uppboðsmarkaði. Í þriðja lagi gerir frumvarpið ráð fyrir breytingu á lögum um uppboðsmarkaði sjávarafla í því skyni að meginreglan um frjálsa verðmyndun sjávarafla á markaði fái aukið vægi. Í fjórða lagi gerir frumvarpið ráð fyrir breytingum á lögum um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins þannig að aðeins verði þar kveðið á um hvert skiptaverðmæti afla skuli vera þegar fiskiskip sem vinna afla um borð landa í erlendri höfn samkvæmt heimild Fiskistofu, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga um nytjastofna sjávar.
    Í umsögn Viðskiptaráðs Íslands kemur m.a. fram að frumvarpið feli í sér tilraun til að ýta undir atvinnusköpun á Íslandi sem sé góðra gjalda verð. Þó telur ráðið að frumvarpshöfundar missi sjónar á því að verðmætasköpun skiptir mestu máli fyrir þjóðarbúið. Þá hafnar ráðið hugmyndum um að ríkið stýri sölu og vinnslu sjávarafla eins og frumvarpið geri ráð fyrir enda sé það mat ráðsins að núverandi fiskveiðistjórnarkerfi þjóni hagsmunum þjóðarinnar vel. Landssamband íslenskra útvegsmanna telur að með frumvarpinu sé ætlunin að taka fram fyrir hendur samtaka sjómanna og útvegsmanna sem hafi það verkefni að semja um kaup og kjör auk þess sem ætlunin sé að banna siglingar með ísfisk á erlendan markað sem eigi sér yfir hundrað ára sögu. Byggðastofnun virðist aftur á móti telja að ef frumvarpið verði að lögum geti það bætt samkeppnisstöðu innlendrar fiskvinnslu og þannig aukið atvinnu víða um land. Þá fagna Samtök fiskframleiðenda og útflytjenda þeim breytingartillögum sem koma fram í I. kafla frumvarpsins enda telji samtökin með honum stigin skref í rétta átt til þess að leiðrétta þá samkeppnislegum mismunun sem samtökin telja innbyggða í lagaumgjörð fiskveiða og vinnslu. Benda samtökin á að svokallað verðlagsstofuverð hafi jafnan verið umtalsvert undir því verði sem fæst fyrir sjávarafurðir á opnum mörkuðum. Aðilar sem stunda bæði veiðar og vinnslu sjávarafla fái hráefni á lægra verði en aðrar fiskvinnslur. Slíkt skekki samkeppnisstöðu aðila í fiskvinnslu enda veiti fyrirkomulagið handhöfum aflaheimilda forskot í samkeppni sem þeir geti nýtt til þess að halda verði á opnum fiskmörkuðum háu og undirbjóða fullunna vöru til erlendra kaupenda. Að auki benda samtökin á að það feli í sér ákveðið forskot í samkeppni að fá úthlutað aflaheimildum þar sem með því móti sé eigendum aflaheimilda tryggt hráefni til vinnslu umfram aðra. Telja samtökin framangreinda tilhögun andstæða jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar, hún vegi að atvinnufrelsi manna og sé andstæð markmiðum samkeppnislaga.
     Aðrar athugasemdir umsagnaraðila vörðuðu einstök ákvæði frumvarpsins eða þau ákvæði sem talin voru vanta í frumvarpið. Í umsögn Sjómannasambands Íslands kemur fram, í athugasemdum við 2. gr. frumvarpsins, að nokkur hluti afla sem fluttur er óunninn úr landinu sé fluttur út fullvigtaður til fiskvinnslu erlendis og að í lögum séu ekki sett takmörk við slíku. Bendir sambandið á að ekki séu ákvæði í frumvarpinu sem ætlað sé að koma í veg fyrir að íslensk fiskvinnslufyrirtæki kaupi afla og sendi hann síðan óunninn úr landi eftir fyrstu sölu. Að lokum hafnar sambandið þeirri hugmynd að banna fyrstu sölu á óunnum fiski á erlendum fiskmörkuðum. Þess í stað mælist sambandið til þess að bein viðskipti með óunninn fisk til fiskvinnslu erlendis verði takmörkuð eða stöðvuð.
    Í athugasemdum Viðskiptaráðs Íslands við 3. gr. frumvarpsins kemur m.a. fram það álit ráðsins að frumvarpið feli í sér mikla takmörkun á vali útgerða á því hvert þær selja afla sinn og leggi á þær skýra kvöð um að selja afla á innlendum markaði. Telur ráðið slíkt ekki geta falið í sér hagkvæma lausn fyrir íslenskt þjóðfélag enda hljóti útgerðarmenn að vera best hæfir til þess að hámarka verðmæti afla. Gagnrýnir ráðið að frumvarpið feli í sér atvinnustefnu sem takmarki verulega möguleika á hámörkun verðmæta og bendir á að slík hámörkun sé markmið sem stefna beri að. Í umsögn Sjómannasambands Íslands um a-lið 3. gr. frumvarpsins kemur fram sú skoðun sambandsins að allan afla eigi að selja á uppboðsmarkaði innan lands eða á erlendum fiskmörkuðum sem fengið hafa leyfi Fiskistofu til vigtunar á afla. Virðist sambandið þannig telja að verðmyndun allra tegunda sjávarafla eigi að fara fram á markaði. Sjómannasambandið telur fyrsta skrefið í þá átt vera að setja ákvæði í lög um fjárhagslegan aðskilnað fiskveiða og fiskvinnslu. Viðskiptaráð Íslands gerir hins vegar þær athugasemdir við framangreindan lið 3. gr. frumvarpsins að með honum sé verið að takmarka möguleika á að aðili geti samið um hagstæðari verð fyrir afla en ella og telur að með því séu stjórnvöld að taka yfir stjórn á sölumarkaði fyrir sjávarafla. Fiskistofa telur lokamálslið a-liðar óljósan og bendir á að sé markmiðið með frumvarpinu að gefa stjórnvöldum heimild til þess að hafa aðkomu að beinum viðskiptum með sjávarafla þá þurfi að kveða skýrar á um slíkt.
    Í umsögnum Matís ohf. og Fiskistofu kemur m.a. fram að í b-lið 3. gr. frumvarpsins sé ekki gert ráð fyrir að hausskorinn karfi og haus- og sporðskorin grálúða teljist til fullunnins afla á frystiskipi. Benda þau á að grálúða og karfi séu oftast unnin með þeim hætti og seld sem fullunnin vara á verðmæta markaði og hið sama eigi við um stóra rækju (Japansrækju). Í umsögnum Samtaka fiskframleiðenda og útflytjenda, Sjómannasambands Íslands og Samtaka íslenskra fiskimanna kom m.a. fram að ekki væri lengur unnið samkvæmt lögum um Verðlagsráð sjávarútvegsins og því væri eðlilegt að þau yrðu felld úr gildi. Bentu aðilarnir á að samtök þau sem lögin tilgreindu sem kaupendur afla væru í flestum tilvikum ekki til í dag og að ráðið hefði ekki komið saman í yfir áratug. Af þeim sökum m.a. hefðu breytingar á lögunum enga þýðingu. Í athugasemdum við 9. gr. frumvarpsins segist Sjómannasambandið alfarið hafna þeirri grein enda sé kjarasamningum sjómanna stefnt í voða með henni hvað skiptakjör varðar. Í umsögn Fiskistofu lýsir stofnunin áhyggjum sínum af því að í lög um uppboðsmarkaði sjávarafla vanti ákvæði sem setji takmarkanir við eignaraðild að fiskmörkuðum og lágmarksskilyrði sem uppfylla þurfi þannig að tryggt verði að fiskmarkaðir geti með fullnægjandi hætti sinnt þeim verkefnum sem þeim er ætlað að hafa.
    Framangreind sjónarmið umsagnaraðila voru ítrekuð á fundum nefndarinnar. Þá kom þar einnig fram það álit að fyrirkomulag það sem frumvarpið gerði ráð fyrir dreifði arði af sjávaraflaauðlindinni, væri líklegt til að stækka kaupendahópinn á fiskmörkuðum og gæti leitt til hærra verðs sem aftur leiddi til þess að tekjur ríkissjóðs mundu hækka. Þá var á það bent að fyrirkomulag frumvarpsins gæti leitt til þess að komið yrði til móts við sjómenn sem orðið hafa fyrir verulegri skerðingu vegna afnáms sjómannaafsláttar.
    Nokkrar umræður urðu um málið innan nefndarinnar og voru skiptar skoðanir á afgreiðslu þess. Minni hluti nefndarinnar telur þó liggja fyrir að gera þurfi talsverðar breytingar á frumvarpinu ef það eigi að verða að lögum enda um margflókið mál að ræða sem hefur snertifleti við verulega mikilvæga og viðkvæma hagsmuni.
    Að undanförnu hefur innan sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins verið unnið að gerð frumvarps til nýrra laga um stjórn fiskveiða. Sú vinna byggir m.a. á starfi endurskoðunarnefndar um stjórn fiskveiða sem í áttu sæti fulltrúar hagsmunaaðila í sjávarútvegi auk fulltrúa allra stjórnmálaflokka á Alþingi. Það er mat minni hlutans að sala þess afla sem aflað er á grundvelli fiskveiðiheimilda sé það tengd stjórn fiskveiða að ekki verði með sanngirni ætlast til þess að stjórn fiskveiða verði tekin til endurskoðunar nema í sama mund verði haft í huga hvaða leiðir verði færar til þess að selja veiddan afla. Er það meðal markmiða í fiskveiðistjórnarlögum að stuðla að hagkvæmri nýtingu nytjastofna og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Er það álit minni hlutans að það fagráðuneyti sem hefur yfirumsjón með mótun reglna er varða sjávarafla komist vart hjá því að taka framangreind mál til skoðunar með heildstæðum hætti.
    Þá telur minni hlutinn sérstakt tilefni til þess að lýsa áhyggjum af því að íslenskir fiskverkendur sem ekki hafa yfir fiskveiðiheimildum að ráða virðast ekki sitja við sama borð og erlendir kaupendur sjávarafla þegar kemur að öflun hráefnis til vinnslu. Af þeim sökum telur nefndin fullt tilefni til að gerð verði úttekt á samkeppnislegum áhrifum og þjóðhagslegri hagkvæmni útflutnings óunnins sjávarafla enda geti niðurstöður slíkrar úttektar legið til grundvallar mögulegum breytingum á reglum um uppboð og verðmyndun sjávarafla. Tryggja þarf að innlendir fiskverkendur sem ekki hafa yfir veiðiheimildum að ráða sitji við sama boð og aðrir fiskverkendur.
    Í ljósi alls framangreinds leggur minni hlutinn til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.
    Róbert Marshall, Sigurður Ingi Jóhannsson, Ólína Þorvarðardóttir og Helgi Hjörvar voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 31. mars 2011.Lilja Rafney Magnúsdóttir,


form., frsm.


Björn Valur Gíslason.


Atli Gíslason.