Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 741. máls.

Þskj. 1272  —  741. mál.Frumvarp til laga

um breyting á lögum nr. 24/1986, um skiptaverðmæti
og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins.

(Lagt fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010–2011.)1. gr.

    II. kafli laganna, Um greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins, fellur brott.

2. gr.

    Á eftir II. kafla laganna kemur nýr kafli, II. kafli A, Framlag til hagsmunasamtaka útgerðarmanna, með einni nýrri grein, 12. gr. a, svohljóðandi:
    Framleiðendur sjávarafurða og aðrir fiskkaupendur, svo og þeir sem taka sjávarafurðir í umboðssölu, skulu greiða tiltekið hlutfall, allt að 0,5% af samanlögðu verðmæti þess afla sem þeir taka við af opnum bátum, þilfarsbátum undir 10 lestum og krókaaflamarksbátum, inn á reikning hagsmunasamtaka útvegsmanna, t.d. Landssambands smábátaeigenda eða annars sambærilegs félags, enda hafi útvegsmaður, eða hagsmunasamtök útgerðarmanna fyrir hans hönd, óskað eftir því að svo verði gert.
    Hagsmunasamtök útgerðarmanna skulu láta framleiðendum sjávarafurða og öðrum fiskkaupendum í té skrá yfir þá útgerðarmenn sem hafa óskað þess að greiða gjald skv. 1. mgr. inn á reikning þeirra. Samtökin skulu leitast við að hafa með sér samvinnu um gerð slíkrar skrár svo að einungis verði til ein skrá um gjaldendur. Færsla á skrána felur í sér staðfestingu þess að útvegsmaður óski þess að greiða gjald skv. 1. mgr. Á skránni skulu koma fram upplýsingar um hversu hátt álagningarhlutfall skv. 1. mgr. skal vera. Heimilt er að birta skrána á netinu. Útvegsmanni skal heimilt að segja sig frá álagningu samkvæmt skránni án tillits til samþykkta þeirra hagsmunasamtaka sem hann kann að eiga aðild að. Uppsögnin öðlast gildi í upphafi annars mánaðar frá því að beiðni þar um var send viðkomandi hagsmunasamtökum.
    Þegar framleiðandi sjávarafurða veðsetur framleiðslu sína við töku afurðaláns hjá viðskiptabanka skal það ekki standa í vegi ráðstöfunar skv. 1. mgr. Greiðsla skal innt af hendi innan 14 daga frá því að fiskur var afhentur. Sambærileg skylda hvílir á þeim sem taka fisk í umboðssölu.

3. gr.

    Heiti laganna verður: Lög um skiptaverðmæti.

    4. gr.


    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2012.


Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu í samráði við hagsmunaaðila í sjávarútvegi, lífeyrissjóði og tryggingafélög. Með frumvarpinu er lagt til að veigamiklar breytingar verði gerðar á lögum um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun í sjávarútvegi. Lagt er til að greiðslumiðlun verði aflögð í núverandi mynd þótt enn verði mælt fyrir um tiltekið hagræði við innheimtu félagsgjalda til hagsmunasamtaka smábátaeigenda, þ.e. eigenda opinna báta, þilfarsbáta undir 10 lestum og krókaaflamarksbáta.

II. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Megintilgangur þessa frumvarps er að tryggja að lög nr. 24/1986 samþýðist réttarvernd 74. gr. stjórnarskrárinnar um félagafrelsi og rétt til að standa utan félaga. Um efni frumvarpsins vísast til III. kafla þessara athugasemda. Breytingar á lögunum, í þessu tilliti, hafa verið til umræðu síðan umboðsmaður Alþingis lét í té álit frá 12. apríl 2002 í máli nr. 3204/2001. Þá má geta þess að Landssamband íslenskra útvegsmanna lagði fyrst til árið 2005 að greiðslumiðlun samkvæmt lögunum yrði afnumin. Enn má geta þess að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytin áttu aðild að starfshópi forsætisráðherra um gjaldtöku í þágu félagasamtaka sem skilaði ítarlegri skýrslu í árslok 2006. Með Hæstaréttardómi frá 18. október 2010 í máli nr. 504/2008 (Víkurver ehf.) varð enn ljósara en áður að þörf er breytingar á fyrirkomulagi greiðslumiðlunar. Í IV. kafla þessara athugasemda er nánari grein gerð fyrir tildrögum frumvarpsins með hliðsjón af réttarvernd 74. gr. stjórnarskrárinnar.
    Við vinnslu frumvarpsins lagði Landssamband smábátaeigenda áherslu á að samhliða afnámi greiðslumiðlunar lífeyrisgreiðslna og tryggingafjár væri nauðsynlegt að huga að því hvernig tryggja mætti starfsgrundvöll sambandsins, enda fari það með mörg og mikilsverð verkefni fyrir félagsmenn sína. Að teknu tilliti til þessara sjónarmiða mótuðust tillögur um að mælt yrði fyrir um það hagræði við innheimtu félagsgjalds til Landssambands smábátaeigenda að fiskkaupendum væri skylt að greiða 0,5% af aflaverðmæti félagsmanna þeirra beint til sambandsins.
    Þessari tillögu um greiðsluhagræði var harðlega mótmælt með sameiginlegu bréfi Farmanna- og fiskimannasambands Íslands (FFSÍ), Félags vélstjóra og tæknimanna (VM), Landssambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ), Samtaka atvinnulífsins (SA) og Sjómannasambands Íslands (SSI) til ráðuneytisins. Í bréfinu var þess krafist að sömu reglur væru látnar gilda um alla aðila. Lagt var til að ákvæðið yrði fellt brott en ella að hagræðið verði víkkað til að ná með sama hætti til „skyldu fiskkaupenda og þeirra sem taka sjávarafurðir í umboðssölu til að greiða hlutfall af samanlögðu hráefnisverði þess afla sem þeir taka við inn á reikninga LÍÚ, VM-félags vélstjóra og málmtæknimanna, Farmanna- og fiskimannasambands Íslands og Sjómannasambands Íslands“. Í bréfi sem nýlega stofnað Landssamband línubáta reit ráðuneytinu var upplýst að félagið stæði ekki gegn tillögunni, en um leið var þess óskað að félagið mundi njóta sama hagræðis.
    Að framkomnum þessum athugasemdum voru nokkrar breytingar gerðar á frumvarpinu. Ákveðið var að víkka út greiðsluhagræði þannig að næði til allra hagsmunafélaga smábátaeigenda. Landssamband smábátaeigenda er langfjölmennast þeirra. Auk þess eru starfandi fyrrnefnt Landssamband línubáta og félag sem nefnist Félag kvótabátaeigenda. Mögulega eru fleiri slík félög starfandi. Þá er talið eðlilegt, í ljósi þessa, að álagning gjaldsins verði ekki fastákveðin í lögum heldur ráðist af ákvörðun félaganna sjálfra, þ.e. félagsmanna þeirra, hverju sinni. Ákveðið var að hafna sjónarmiðum Landssambands íslenskra útvegsmanna sem eru á skjön við fyrri afstöðu sambandsins. Þá þykir ekki rétt að mæla fyrir um greiðslumiðlun í þágu launþega, en um mat á áhrifum frumvarpsins að því leyti er vísað til VI. kafla athugasemdanna.

III. Meginefni frumvarpsins.
    Frumvarp til laga um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegarins var á sínum tíma samið af sérstakri nefnd sem í sátu fulltrúar samtaka sjómanna, útvegsmanna og fiskvinnslunnar auk fulltrúa þingflokka. Lagt var fyrir nefndina að endurskoða gildandi lög og reglur um sjóði sjávarútvegs og lögbundnar greiðslur tengdar fiskverði. Auk þess skyldi samhengið milli þessara lagafyrirmæla og skiptaverðs sjávarafla, og þar með skiptahlutar sjómanna, tekið til endurskoðunar. Formaður nefndarinnar var Jón Sigurðsson þá forstjóri Þjóðhagsstofnunar.
    Með lögunum voru allir millifærslusjóðir og greiðslur utan skipta við fiskkaup lagðir niður, en það var til mikillar einföldunar á fyrra millifærslukerfi í sjávarútvegi, sem lýst var allítarlega í frumvarpi að þeim lögum. Lögin mæltu fyrir um skiptaverðmæti sjávarafla sem ákveðið hlutfall skiptaverðs af hráefnisverði. Með því varð til raunhæf ákvörðun heildarverðs fyrir fisk, en áður fóru greiðslur eftir ýmsum leiðum, ýmist innan eða utan skipta frá fiskvinnslu eða sjóðum. Jafnframt var kveðið á um greiðslumiðlun innan sjávarútvegarins til þess að tryggja, eins og sagði í frumvarpinu „öruggar heimtur á lífeyrisiðgjöldum sjómanna, vátryggingariðgjöldum fiskiskipa, vöxtum og afborgunum af stofnlánum útvegsins og framlögum til samtaka sjómanna og útvegsmanna“. Í upphafi var mælt fyrir um að við veðsetningu framleiðslunnar skyldi haldið eftir 15% af aflaandvirði til þessara nota. Þó skyldi aðeins haldið eftir 10% af aflaverðmæti smábáta, undir 10 brúttólestum. Síðar var þetta hlutfall lækkað umtalsvert eins og rakið er í athugasemdum við 2. gr. þessa frumvarps. 1 Sérstaklega má athuga að með lögunum var mælt fyrir um brottfall laga nr. 43/1983, um útflutningsgjald af sjávarafurðum, en þau lög mæltu fyrir um álagningu gjalds, sem nam 5,5% af öllu verðmæti útflutnings. Af því féll 1,2% til samtaka sjómanna og útvegsmanna.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að allur II. kafli laga nr. 24/1986 falli brott. Þar er um að ræða ákvæði um greiðslumiðlun, sem greina má í tvær deildir. Annars vegar greiðslumiðlun fjár sem nemur 8% af öllu hráefnisverði sjávarafurða stærri báta, skv. 1. mgr. 5. gr. laganna, og hins vegar greiðslumiðlun fjár sem nemur 8,4% af hráefnisverði sjávarafla smábáta, skv. 6. gr. laganna. Líkar reglur gilda um innheimtu greiðslumiðlunarfjár í báðum deildum, en það skal inna af hendi innan 14 daga frá því að fiskur er afhentur. Sérreglur eru um umboðssölu sjávarafla, sölu á ísfiski í erlendri höfn og skip sem vinna og frysta afla um borð. Við veðsetningu framleiðslunnar til töku afurðaláns hjá viðskiptabanka ber að tryggja rétt skil á greiðslumiðlunarfé samkvæmt nánari reglum. Réttur til lögtaks (fjárnáms), án undangengins dóms eða sáttar, fylgir kröfu um greiðslu fjárins.
    Greiðslumiðlunarfé stærri báta kemur á tvo staði. Af því er 80% ráðstafað inn á vátryggingarreikning hvers skips hjá Landssambandi íslenskra útvegsmanna og fer um nánari ráðstöfun þess samkvæmt lögum nr. 17/1976 um greiðslu vátryggingargjalda fiskiskipa. Lögin mæla fyrir um skyldu Landssambands íslenskra útvegsmanna til að skila andvirðinu, mánaðarlega, til viðkomandi tryggingafélags, enda liggi fyrir samkomulag um vátryggingar fiskiskipa. Þá skal Landssamband íslenskra útvegsmanna, eigi síðar en við árslok, endurgreiða skipseiganda greiðslu umfram vátryggingargjald. Þeim 20% sem eftir standa af greiðslumiðlunarfé stærri báta er ráðstafað inn á sérstakan greiðslumiðlunarreikning fiskiskipa hjá Lífeyrissjóði sjómanna. Samkvæmt 9. gr. laganna skal Lífeyrissjóðurinn skipta þessu fé mánaðarlega í svo látandi hlutföllum: 92% til lífeyrissjóða sjómanna, 2,4% til Sjómannasambands Íslands og sjómanna innan Alþýðusambands Austfjarða og Alþýðusambands Vestfjarða, 1,6% til Farmanna- og fiskimannasambands Íslands og Vélstjórafélags Íslands og 4% til Landssambands íslenskra útvegsmanna. Um nánari skiptingu fjárins milli stéttarfélaga skal fara eftir fjölda félagsmanna sem stunda fiskveiðar og er heimilt að kveða saman sérstakan gerðardóm til að úrskurða um rétta skiptingu þess.
    Greiðslumiðlunarfé smábáta, þ.e. opinna báta, þilfarsbáta undir 10 lestum og krókaaflamarksbáta, skal ráðstafað inn á sérstakan greiðslumiðlunarreikning smábáta hjá Lífeyrissjóði sjómanna. Samkvæmt 8. gr. laganna skal Lífeyrissjóðurinn skipta fénu mánaðarlega í svo látandi hlutföllum: 37,5% til lífeyrissjóða sjómanna, 56,5% til greiðslu iðgjalda af slysa- og örorkutryggingu skipverja, sams konar þeim sem samið er um í heildarkjarasamningum sjómanna og útvegsmanna, þar á meðal vegna grásleppuveiða, svo og af vátryggingu báts, og 6% til Landssambands smábátaeigenda. Landssamband smábátaeigenda hefur með höndum umsjón með ráðstöfun tryggingarfjárins með líkum hætti og áður var getið um Landssamband íslenskra útvegsmanna.
    Í frumvarpinu felst að gerð er tillaga um verulegar breytingar á lögum um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins. Lagt er til að greiðslumiðlun vegna lífeyrisgreiðslna og trygginga verði aflögð. Lagt er til að í stað beinnar greiðsluskyldu til Landssambands smábátaeigenda komi ákvæði sem skyldi fiskkaupendur til að greiða hlutfall af aflaverðmæti til hagsmunafélaga smábátaeigenda sem eiginlegt félagsgjald. Með þessu er stefnt að því að innheimta gjaldsins verði skilvirk og einföld í framkvæmd. Þeir útgerðarmenn sem svo kjósa eru ekki skyldir til að greiða framlagið.

IV. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Í áliti frá 12. apríl 2002 í máli nr. 3204/2001 tók umboðsmaður Alþingis til athugunar, að eigin frumkvæði, hvort og þá með hvaða hætti ákvæði 6. og 8. gr. laga nr. 24/1986, um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins, þar sem kveðið er á um skyldu vinnslu- og söluaðila sjávarafurða til að greiða gjöld sem renna m.a. til Landssambands smábátaeigenda, án tillits til félagsaðildar, samrýmast 74. gr. stjórnarskrárinnar. Umboðsmaður áleit, einkum með vísun til lögskýringargagna, dómaframkvæmdar og 11. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, að ganga yrði út frá því að mæltu lög fyrir um slíka skyldu afmarkaðs hóps manna til að inna af hendi fjárframlag til tiltekins hagsmunafélags, enda þótt greiðendum væri ekki gert skylt að gerast meðlimir í því félagi, kynni það að ganga gegn meginreglu fyrri málsliðar 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar, þar sem segir að engan megi skylda til aðildar að félagi. Slík tilhögun kynni þannig að vera óheimil í stjórnskipulegu tilliti nema talið yrði að hún fullnægði að öðru leyti skilyrðum síðari málsliðar 2. mgr. 74. gr., þ.e. ef hún er bundin í lög og nauðsynleg til að félag geti sinnt lögmæltu hlutverki vegna almannahagsmuna eða réttinda annarra. Umboðsmaður taldi verulegan vafa leika á því að ákvæði laga nr. 24/1986 fullnægðu þessum skilyrðum stjórnarskrárinnar.
    Með erindisbréfi dags. 23. febrúar 2005 skipaði forsætisráðherra starfshóp, undir forsæti Páls Þórhallssonar lögfræðings í forsætisráðuneyti, til þess að leggja til viðbrögð við þessu áliti og huga jafnframt að því hvort sömu sjónarmið ættu við um gjaldtöku í þágu félagssam taka í öðrum atvinnugreinum. Starfshópurinn skilaði ítarlegri skýrslu í desember 2006 þar sem bent var á möguleika til úrbóta. 2
    Greiðsluskylda til Landssambands smábátaeigenda kom þessu næst til skoðunar í Hæstaréttardómi frá 18. október 2010 í máli nr. 504/2008. Stefnandi málsins, Víkurver ehf. (V), var ekki félagi í Landssambandi smábátaeigenda en gerði út smábáta og féll þar með undir greiðsluskyldu til sambandsins, með sama hætti og aðilar sambandsins. Stefnandi sætti sig ekki við þetta og höfðaði mál á hendur Gildi lífeyrissjóði og Landssambandi smábátaeigenda þar sem hann taldi lagaákvæðið fara í bága við ýmis ákvæði stjórnarskrárinnar, einkum 72. gr. og 2. mgr. 74. gr. Í dóminum segir að skv. 72. gr. stjórnarskrárinnar sé eignarrétturinn friðhelgur en með umþrættum ákvæðum laga nr. 24/1986 væru eignarréttindi stefnanda skert til hagsbótar fyrir félag sem hann vildi standa utan við. Aðstaða þessi leiddi til þess að skera varð úr um hvort uppfyllt væru skilyrði síðari málsliðar 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar svo að heimilt væri að skylda hann með lögum til að greiða gegn vilja sínum til félags, sem hann ætti ekki aðild að. Dómurinn taldi að með því að greiðsluskyldan væri lögbundin þá væri uppfyllt hið fyrsta þeirra skilyrða sem þyrftu að vera fyrir hendi samkvæmt síðari málslið 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar. Við úrlausn um það hvort skilyrði væru uppfyllt að öðru leyti yrði að líta til þess hvort Landssamband smábátaeigenda hefði lögmæltu hlutverki að gegna, en ef svo væri þyrfti að skera úr um hvort greiðsluskylda annarra en félagsmanna hans væri nauðsynleg svo að hann gæti gegnt því hlutverki í þágu almannahagsmuna eða réttinda annarra. Fram kemur að í tilgreindum lögum er kveðið á um tiltekin viðfangsefni Landssambandsins. Hlutverk þess er þannig ekki markað í lögum, heldur einungis mælt þar fyrir um tiltekin verkefni í óverulegum mæli. Dómurinn taldi að engum haldbærum rökum hefði verið stutt að skylda stefnanda til að inna af hendi fjárframlög til Landssambands smábátaeigenda væri nauðsynleg svo að sambandið gæti rækt þau viðfangsefni, sem á það væru lögð með lögum, eða hvernig almannahagsmunir eða réttindi annarra gætu legið að baki því að slík nauðsyn teldist vera fyrir hendi. Þá væri hvergi í ákvæðum laga nr. 24/1986 kveðið á um með hvaða hætti því fé skyldi varið sem þannig væri fært frá V og afhent sambandinu. Í raun væri það fært sambandinu til frjálsrar ráðstöfunar, en einnig að því leyti skorti á að sýnt væri fram á að skilyrði síðari málsliðar 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar væru uppfyllt. Fallast yrði á það með stefnanda að lögin færu að þessu leyti í bága við 72. gr. og 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar og að honum væri óskylt að inna af hendi til Landssambands smábátaeigenda þau fjárframlög sem kveðið væri á um í lögunum. Dómurinn taldi kröfugerð stefnanda í málinu á hinn bóginn verulega áfátt en af þeim sökum yrði að sýkna Gildi lífeyrissjóð og Landssamband smábátaeigenda af öllum kröfum hans í málinu og láta málskostnað falla niður á báðum dómsstigum. Í sératkvæði eins af fimm dómurum Hæstaréttar var ekki fundið að kröfugerðinni með sama hætti og talið að skilyrði væru til að leggja skyldu á Landssamband smábátaeigenda til að endurgreiða innheimt félagsgjald og greiða málskostnað á báðum dómsstigum.
    Verði þetta frumvarp að lögum munu ákvæði laga nr. 24/1986 samþýðast réttarvernd 74., sbr. 72. gr. stjórnarskrárinnar, enda felst í frumvarpinu að greiðsluskylda verður valkvæð. Ekki er mælt fyrir um hagræði við öflun félagsgjalda til Landssambands útvegsmanna, enda þykja ekki standa sömu rök til þess að tryggja því félagi greiðsluhagræði og í tilviki hagsmunafélaga smábátaeigenda. Bæði er að gjaldendur eru til muna færri og að félagið hefur allt frá árinu 2005 mælst til þess að greiðslumiðlun verði afnumin að öllu leyti.

V. Samráð.
    Samráð hefur verið haft við alla hagsmunaaðila, þ.m.t. hagsmunasamtök útgerðarmanna og sjómanna, tryggingafélög og lífeyrissjóði. Skriflegra umsagna var leitað um uppkast að frumvarpi með bréfum dags. 11. janúar 2011. Nokkrar athugasemdir bárust sem leiddu til þess að breyting var gerð á frumvarpinu, eins og rakið er í II. kafla.

VI. Mat á áhrifum.
    Verði frumvarp þetta óbreytt að lögum verður greiðslumiðlun í sjávarútvegi aflétt. Gefinn verður rúmur aðlögunartími og má gera ráð fyrir því að lítil eða engin röskun verði á greiðslum í lífeyrissjóði og til tryggingafélaga. Um þetta er vísað nánar til athugasemda við einstakar greinar. Í frumvarpinu felst að Landssamband íslenskra útvegsmanna og Landssamband smábátaeigenda munu ekki njóta sjálfkrafa lögákveðins framlags. Ómögulegt er að leggja mat á áhrif þess á starfsemi félaganna, enda ekki fyrirséð hvort félögum í þeim muni fækka.
    Mikið vatn hefir til sjávar runnið síðan lög nr. 24/1986, um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins, öðluðust gildi. Almenn ákvæði laga á sviði vinnuréttar og tryggingaverndar verða talin geta leyst af hólmi þær sérreglur sem lagt er til að falli brott með frumvarpsgreininni. Með lögum nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða er kveðið á um að öllum launamönnum, og þeim sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, sé rétt og skylt að tryggja sér lífeyrisréttindi með aðild að lífeyrissjóði frá og með 16 ára til 70 ára aldurs. Um iðgjald í lífeyrissjóði, m.a. álagningu þess og innheimtu, eru ítarleg ákvæði í lögunum og eftir atvikum kjarasamningum í hlutaðeigandi starfsgrein. Í 1. mgr. 6. gr. laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda segir að öllum atvinnurekendum sé skylt að greiða í fræðslusjóði atvinnulífsins, sem og sjúkrasjóði og orlofssjóði viðkomandi stéttarfélaga iðgjöld þau, sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um hverju sinni og samkvæmt þeim reglum sem kjarasamningar greina. Í 2. mgr. 6. gr. laganna segir að atvinnurekanda sé skylt að halda eftir af launum starfsmanns iðgjaldi hans til viðkomandi stéttarfélags samkvæmt þeim reglum er kjarasamningar greina. Atvinnurekendur í sjávarútvegi falla að sjálfsögðu undir þessi ákvæði. Loks má athuga að með 4. gr. laga nr. 35/2010, um lögskráningu sjómanna, er mælt fyrir um þá meginreglu að óheimilt er að leggja skipi úr höfn nema allir skipverjar hafi verið lögskráðir í skiprúm. Samkvæmt 4. tölul. 3. mgr. 5. gr. laganna er skilyrði slíkrar skráningar að fyrir liggi yfirlýsing frá viðkomandi tryggingafélagi um fullnægjandi líf- og slysatryggingu skipverja. Síðan segir: „Nú vanrækir útgerðarmaður að hafa líf- og slysatryggingu í gildi og er hann þá ábyrgur fyrir viðkomandi bótagreiðslum. Reynist útgerðarmaður eigi fær um greiðslu slíkra bóta ber ríkissjóður fulla ábyrgð á greiðslu þeirra.“ Samkvæmt þessu eru ætíð fyrir hendi tryggingar við slys á fiskiskipum og fiskibátum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um 2. gr.


    Með þessari grein er lagt til að sett verði ákvæði í lögin sem geta ýtt undir tryggari heimtur á framlagi til Landssambands smábátaeigenda. Réttlæting þessa er það mikilsverða starf sem Landssambands smábátaeigenda hefur unnið á síðustu árum. Jafnframt er gert ráð fyrir að ákvæði þessi gildi um önnur sambærileg félög útvegsmanna.

Um 3. gr.


    Greinin þarfnast ekki frekari skýringa.

Um 4. gr.


    Rétt þykir að mæla fyrir um að lögin öðlist gildi 1. janúar 2012. Með því er gefinn hallkvæmur aðlögunarfrestur vegna þeirra umfangsmiklu breytinga sem felast í lögunum. Til þess að framkvæma þau þarf aðkomu atvinnugreinarinnar, tryggingafélaga, lífeyrissjóða, viðskiptabanka, fisksala og stjórnvalda.
    Svo síðbúin gildistaka laganna mun ekki valda réttarspjöllum enda verður að álykta af dómi í máli Víkurvers, sem ítarlega er rakinn í almennum athugasemdum við frumvarpið, að þrátt fyrir ákvæði laganna sé óheimilt, vegna ákvæða stjórnarskrár, að innheimta starfsfé til Landssambands íslenskra útvegsmanna eða Landssambands smábátaeigenda, enda sé viðkomandi ekki aðili að félögunum.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 24/1986,
um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að lögboðin greiðslumiðlun sjávarútvegsins samkvæmt gildandi lögum verði aflögð. Þó er lagt til að fiskkaupendum sem taka við afla smábáta verði skylt að greiða tiltekið hlutfall, allt að 0,5% af aflaverðmæti, til Landssambands smábátaeigenda eða annars sambærilegs félags, enda hafi útvegsmaður, eða hagsmunasamtök útgerðarmanna fyrir hans hönd, óskað eftir því að svo verði gert. Í athugasemdum með frumvarpinu kemur fram að tilgangur þess sé að stuðla að hagræði við innheimtu félagsgjalda til hagsmunasamtaka smábátaeigenda.
    Greiðslumiðlun sjávarútvegsins er alfarið utan ríkisrekstrarins. Verður því ekki séð að lögfesting frumvarpsins hafi áhrif á gjöld eða tekjur ríkissjóðs.
Neðanmálsgrein: 1
1 Alþt. 1985–1986, A-deild, bls. 3080–3084.
Neðanmálsgrein: 2
2     Lögbundin greiðsluskylda til hagsmunasamtaka og félagafrelsisákvæði stjórnarskrárinnar. Skýrsla starfshóps á vegum forsætisráðherra. Forsætisráðuneyti 2006, bls. 15–18.