Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 121. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1275  —  121. mál.




Nefndarálit



um frv. til laga um grunngerð landupplýsinga.

Frá umhverfisnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Kristínu Rannveigu Snorradóttur frá umhverfisráðuneyti, Magnús Guðmundsson frá Landmælingum Íslands, Þorbjörgu Kr. Kjartansdóttir og Esther Hlíðar Jensen frá LÍSA, samtökum um landupplýsingar á Íslandi, Örn Arnar Ingólfsson frá Loftmyndum, Lilju Sigrúnu Jónsdóttur og Svanhildi Þorsteinsdóttur frá landlæknisembættinu og Þórð Sveinsson frá Persónuvernd.
    Þá bárust nefndinni umsagnir frá Byggðastofnun, Bændasamtökum Íslands, Fiskistofu, Geislavörnum ríkisins, Hafrannsóknastofnuninni, Háskóla Íslands, Isavia ohf., Íslenskum orkurannsóknum, landlæknisembættinu, LÍSA, samtökum um landupplýsingar á Íslandi, Loftmyndum ehf., Náttúrufræðistofnun Íslands, Náttúruminjasafni Íslands, Orkustofnun, ríkislögreglustjóra, ríkisskattsjóra, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Siglingastofnun Íslands, Skipulagsstofnun, Úrvinnslusjóði, Veðurstofu Íslands, Vegagerðinni og Viðskiptaráði Íslands.
    Með samþykkt frumvarpsins er innleidd tilskipun 2007/2/EB um notkun og miðlun landupplýsinga, INSPIRE-tilskipunin. Tilskipunin grundvallast á svonefndri grunngerð fyrir stafrænar landupplýsingar sem aðildarríki koma sér upp. Samkvæmt athugasemdum með frumvarpinu er virk grunngerð fyrir slíkar upplýsingar mikilvægur þáttur skilvirkrar stjórnsýslu, svo sem við ákvarðanatöku og stefnumörkun og til að auðvelda almenningi þátttöku í stefnumótun. Slíkt skipulag gefur fyrirtækjum á einkamarkaði einnig færi á að róa á ný mið þar sem landupplýsingar koma við sögu. Í INSPIRE-tilskipuninni er gert ráð fyrir að opinberar stafrænar landupplýsingar verði samræmdar og samnýttar, en landupplýsingar eru hvers kyns upplýsingar um fyrirbæri í umhverfinu, bæði náttúruleg og manngerð.
    Þau atriði frumvarpsins sem nefndin fjallaði mest um voru markmið, gildissvið og skilgreiningar, landupplýsingagátt og tungumál, hlutverk samræmingarnefndar í frumvarpinu, kostnaður og gjaldtaka.
     Nefndin fjallaði um orð- og hugtakanotkun í frumvarpinu. Að mati nefndarinnar þarf að vera skýrt að fjallað er um stafrænar upplýsingar en ekki hvers kyns gögn, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 3 gr., og þar sem um er að ræða grunngerð – þ.e. innra skipulag eða innviði (infrastrúktúr) – til að vinna með upplýsingarnar en ekki grunngerð upplýsinganna sjálfra telur nefndin skýrara að tala um grunngerð fyrir stafrænar landupplýsingar en um grunngerð upplýsinganna. Nefndin leggur því til breytingar í þessa veru, sem meðal annars varða heiti frumvarpsins.
    Mikilvægt er að textagögn séu á íslensku auk annarra tungumála, og þetta er óhjákvæmilegt um lýsigögn sem eiga að greiða notendum leið að upplýsingum. Nefndin telur að hér sé rétt að taka af öll tvímæli og leggur því til breytingar á 5. gr. um að upplýsingatexti skuli svo sem unnt er vera til í íslenskri útgáfu og að lýsigögn skuli öll vera til í íslenskri útgáfu.
    Nefndin fjallaði nokkuð um ákvæði 10. gr. frumvarpsins um samræmingarnefnd vegna grunngerðar landupplýsinga. Samkvæmt frumvarpinu skal samræmingarnefndin skipuð til fimm ára í senn og eiga í henni sæti 11 fulltrúar, tilnefndir einkum frá ráðuneytum. Samræmingarnefndin á að vera faglegur vettvangur stjórnvalda við að móta stefnu í landupplýsingamálum í víðu samhengi og að mati frumvarpshöfunda er æskilegt að slík stefnumótun fari fram í samráði við ráðuneyti og stofnanir sem við sögu koma, og sérlega brýnt þegar setja á fyrstu aðgerðaáætlun um uppbyggingu, rekstur og viðhald grunngerðar fyrir stafrænar landupplýsingar um Ísland. Nefndin telur hins vegar að eftir staðfestingu fyrstu aðgerðaáætlunarinnar sé óþarft að starfrækja slíka samræmingarnefnd og leggur til að þá verði hún lögð af en Landmælingum Íslands falið að gera tillögu til ráðherra um aðgerðaáætlun í framhaldi af staðfestingu fyrstu áætlunarinnar. Nefndin leggur þó ríka áherslu á að samstarf haldi áfram en með óformlegum hætti og þá á milli stofnana.
    Í umsögnum var þeim athugasemdum komið á framfæri að kostnaðarmat fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytis væri ekki í samræmi við tölur sem áður hefðu komið fram í umfjöllun um málið, heldur hefði kostnaður lækkað töluvert. Nefndin tekur undir áhyggjur af þeim kostnaði sem getur fallið til vegna innleiðingar tilskipunarinnar en telur þó mikilvægt að koma landupplýsingagátt upp og hefja skipulegt starf og samvinnu þar um. Nefndin telur jafnframt að málið sé vel undirbúið og bendir á að góð samvinna hefur tekist á milli flestra þeirra stofnana sem um ræðir. Áréttar nefndin einnig að frumvarpið gerir ráð fyrir að landupplýsingagáttin byggist hægt upp og er því ekki gert ráð fyrir miklum árlegum fjárframlögum. Samkvæmt 6. gr. frumvarpsins er ekki kveðið á um skyldu stjórnvalda til að afla nýrra gagna, heldur skulu stjórnvöld sem hafa stafrænar landupplýsingar í umsjá sinni eingöngu sjá til þess að gögn og tengd vefþjónusta séu gerð aðgengileg í gegnum landupplýsingagáttina. Ekki er því verið að leggja skyldur á opinberar stofnanir til að afla nýrra gagna en sú staða getur hins vegar komið upp að samræma þurfi lýsigögnin og gæti það valdið nokkrum kostnaði.
    Nefndin fjallaði einnig um höfundarétt að þeim gögnum sem eiga að tengjast landupplýsingagátt. Var nefndin upplýst um að málið hefði verið unnið í samstarfi við sérfræðinga mennta- og menningarmálaráðuneytis til að tryggja að höfundaréttur væri virtur að fullu, þar á meðal sæmdarréttur.
    Nefndin fjallaði nokkuð um persónuverndarmál í tengslum við frumvarpið. Ljóst er að um landupplýsingagáttina verður ekki veittur aðgangur að öðrum gögnum en þeim sem þegar eru eða yrðu opinber hjá einstökum stofnunum. Persónuhelgi kann þó að stafa ákveðin hætta af greiðari aðgangi en áður að opinberum gögnum, og ekki er víst að þau standist öll kröfur sem nú gilda að þessu leyti. Nefndin hvetur til þess að forráðamenn stofnana og samræmingarnefndin hyggi vel að innihaldi og umbúnaði gagna sem aðgangur veitist nú að um gáttina, ekki síst gagna á heilbrigðissviði.
    Athugasemdir voru gerðar við að frumvarpið mundi þrengja að stöðu einkafyrirtækja á sviði landupplýsinga. Nefndin telur að slíkar áhyggjur séu óþarfar, enda fjallar frumvarpið einungis um gögn sem eru í eigu eða á vegum stjórnvalda. Ljóst er að áður en gögn eru sett inn í landupplýsingagáttina þurfa stjórnvöld að tryggja að það sé leyfilegt samkvæmt samningi við seljanda gagnanna, og bendir nefndin á að ákvæði samnings um að setja gögn inn á slíka gátt gætu hæglega haft áhrif á verðforsendur þegar slík gögn eru keypt. Nefndin áréttar hins vegar að mikilvægt sé að opinberar stofnanir hafi náið samráð því ýmis dæmi eru þess að tvær eða fleiri opinberar stofnanir noti samsvarandi gögn frá sama rétthafa. Nefndin leggur einnig mikla áherslu á að frumvarpið hefur ekki áhrif á tekjur stofnana sem selja aðgang að gögnum því þær gera það áfram þótt tengingin sé um landupplýsingagáttina. Gjaldtökugreinin í frumvarpinu á eingöngu við um tæknivinnu við gáttina og verður þjónustugjaldið tiltekið í gjaldskrá samkvæmt reglugerð sem ráðherra setur á grundvelli 11. gr.
    Í 1. mgr. 11. gr. er veitt heimild til að hafa gögn hjá skoðunarþjónustu á því sniði að þau verði ekki nýtt í viðskiptalegum tilgangi. Nefndin bendir á að þetta orðalag kemur ekki í veg fyrir að hver sem er geti nýtt upplýsingarnar í þeim tilgangi sem hann kýs, þar á meðal sem þátt í einhvers konar vöru á markaði, svo fremi það sé gert samkvæmt reglum annarra laga sem um það gilda, svo sem laga um höfundarrétt.
    Nefndin leggur jafnframt til ýmsar smávægilegar lagatæknilegar og málfarslegar breytingar, einkum til skýringar að ábendingu umsagnaraðila. Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð er grein fyrir hér að framan og lagðar eru til í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 29. mars 2011.



Mörður Árnason,


form., frsm.


Jónína Rós Guðmundsdóttir.


Birgir Ármannsson,


með fyrirvara.



Álfheiður Ingadóttir.


Vigdís Hauksdóttir,


með fyrirvara.


Ólafur Þór Gunnarsson.



Kristján Þór Júlíusson,


með fyrirvara.


Skúli Helgason.


Birgitta Jónsdóttir.