Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 748. máls.

Þskj. 1298  —  748. mál.Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof,
með síðari breytingum (EES-reglur o.fl.).

(Lagt fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010–2011.)
1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
     a.      Á eftir 1. málsl. 5. mgr. kemur nýr málsliður, 2. málsl., svohljóðandi: Í þeim tilvikum þegar barnið kemur inn á heimilið og um er að ræða reynslutíma áður en til ættleiðingar eða varanlegs fósturs getur komið er heimilt að miða við upphaf þess tíma enda staðfesti barnaverndarnefnd eða aðrir til þess bærir aðilar ráðstöfunina.
     b.      Í stað orðanna „6. mgr.“ í 6. mgr. kemur: 7. mgr.
     c.      Í stað orðanna „tímamark 5. mgr. um brottfall réttinda“ í 2. málsl. 8. mgr. kemur: 18 mánuði eftir að barn kom inn á heimilið.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 12. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „ef um er að ræða andvanafæðingu“ í 1. málsl. kemur: frá þeim degi er andvanafæðing á sér stað.
     b.      Við 2. málsl. bætist: frá þeim degi er fósturlátið á sér stað.
     c.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi: Um greiðslur fer skv. 13. gr.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. laganna:
     a.      Í stað 3.–5. málsl. 2. mgr. koma sex nýir málsliðir, svohljóðandi: Þegar um er að ræða 100% greiðslur á viðmiðunartímabili úr Fæðingarorlofssjóði, Atvinnuleysistryggingasjóði, sjúkrasjóði stéttarfélags, bætur frá tryggingafélagi vegna tímabundins atvinnutjóns eða tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna sem foreldri átti rétt á skal taka mið af þeim viðmiðunartekjum sem þær greiðslur miðuðust við. Hafi foreldri hins vegar kosið að dreifa greiðslum skv. 3. málsl. hlutfallslega á lengri tíma samhliða hlutastarfi eða leyfi, launuðu eða ólaunuðu, skal taka mið af þeim viðmiðunartekjum sem þær greiðslur miðuðust við í sama hlutfalli og greiðslurnar voru inntar af hendi á því viðmiðunartímabili sem um ræðir. Sama á við hafi foreldri kosið að dreifa greiðslum skv. 3. málsl. hlutfallslega á lengri tíma enda þótt foreldri hafi ekki verið í ráðningarsambandi á sama tíma. Skal aldrei taka mið af hærri fjárhæð en sem nemur viðmiðunartekjum sem miða skal við samkvæmt framangreindu enda þótt foreldri hafi fengið mismuninn milli greiðslna skv. 3. málsl. og meðaltals heildarlauna bættan samhliða greiðslunum. Einungis skal miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabili sem foreldri hefur verið á innlendum vinnumarkaði, sbr. einnig 2. mgr. 13. gr. a, án tillits til þess hvort laun skv. 2. málsl. eða reiknað endurgjald skv. 5. mgr. hafi komið til. Aldrei skal þó miða við færri mánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna.
     b.      Í stað orðanna „6. mgr.“ í 4. mgr. kemur: 7. mgr.
     c.      Á eftir 5. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til foreldris sem er bæði starfsmaður og sjálfstætt starfandi einstaklingur, sbr. 2. og 3. mgr. 7. gr., skal nema 80% af meðaltali heildarlauna og reiknaðs endurgjalds sem greitt hefur verið tryggingagjald af að fjárhæð 200.000 kr. og 75% af þeirri fjárhæð meðaltals heildarlauna og reiknaðs endurgjalds sem umfram er. Starfi viðkomandi foreldri sem starfsmaður skv. 2. mgr. 7. gr. í 50% eða hærra starfshlutfalli skal miða við viðmiðunartímabil skv. 2. mgr. Að öðrum kosti skal miða við viðmiðunartímabil skv. 5. mgr. Að öðru leyti gilda ákvæði 2.–5. mgr. eins og við getur átt.
     d.      Í stað orðanna „6. mgr.“ í 1. málsl. 7. mgr., sem verður 8. mgr., kemur: 7. mgr.
     e.      Á eftir 1. málsl. í 11. mgr., sem verður 12. mgr., kemur nýr málsliður, 2. málsl., svohljóðandi: Hafi foreldri hins vegar starfað á innlendum vinnumarkaði skemur en síðasta mánuðinn á ávinnslutímabili skv. 1. mgr. skal Vinnumálastofnun meta hvort viðkomandi foreldri teljist hafa starfað á innlendum vinnumarkaði í skilningi laganna þannig að taka skuli, að því marki sem nauðsynlegt er, tillit til starfstímabila foreldris sem starfsmanns eða sjálfstætt starfandi einstaklings í öðru aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, Norðurlandasamningnum um almannatryggingar, stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða samningi milli ríkisstjórnar Íslands annars vegar og ríkisstjórnar Danmerkur og heimastjórnar Færeyja hins vegar á ávinnslutímabilinu enda hafi störf foreldris veitt foreldrinu rétt samkvæmt lögum þess ríkis um fæðingarorlof.
     f.      Í stað orðanna „9. mgr.“ í 12. mgr., sem verður 13. mgr., kemur: 10. mgr.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. a laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Þátttaka á innlendum vinnumarkaði í skilningi IV. kafla felur í sér að starfa sem starfsmaður, sbr. 2. mgr. 7. gr., eða sjálfstætt starfandi einstaklingur, sbr. 3. mgr. 7. gr., Fullt starf starfsmanns miðast við 172 vinnustundir á mánuði, en þó skal jafnan tekið tillit til fjölda vinnustunda sem samkvæmt kjarasamningi teljast fullt starf. Fullt starf sjálfstætt starfandi einstaklings miðast við að viðkomandi hafi greitt mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi er nemur að lágmarki viðmiðunarfjárhæð fjármálaráðherra í viðkomandi starfsgrein.
     b.      Á eftir orðunum „Til þátttöku á“ í upphafi 2. mgr. kemur: innlendum.
     c.      Við 5. mgr. bætist: fyrir þann tíma sem um er að ræða, sbr. e-lið 2. mgr.

5. gr.

    Í stað orðanna „2. og 5. mgr.“ í 2. málsl. 3. mgr. 15. gr. laganna kemur: 2., 5. og 6. mgr.

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 17. gr. laganna:
     a.      Við 3. mgr. bætist: enda hafi hún í fæðingarorlofi sínu verið ófær um að annast barn sitt vegna veikindanna að mati sérfræðilæknis.
     b.      Í stað orðanna „að leggja niður launuð störf“ í 1. málsl. 4. mgr. kemur: að mati sérfræðilæknis að leggja niður launuð störf eða hætta þátttöku á vinnumarkaði skv. b-lið 2. mgr. 13. gr. a.
     c.      Við 1. málsl. 6. mgr. bætist: og/eða Vinnumálastofnunar eftir því sem við á.
     d.      Í stað orðsins „launagreiðslur“ í 2. málsl. 6. mgr. kemur: greiðslur.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 18. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „a.m.k. síðasta mánuðinn fyrir fæðingardag barns“ í 1. málsl. 4. mgr. kemur: í a.m.k. einhvern tíma í síðasta mánuði fyrir fæðingardag barns eða þann dag er barn kemur inn á heimili vegna frumættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur.
     b.      Orðin „á ávinnslutímabilinu“ í 1. málsl. 4. mgr. falla brott.
     c.      Orðin „úr Fæðingarorlofssjóði“ í 2. málsl. 4. mgr. falla brott.
     d.      Á eftir 1. málsl. 6. mgr. kemur nýr málsliður, 2. málsl., svohljóðandi: Í þeim tilvikum þegar barnið kemur inn á heimilið og um er að ræða reynslutíma áður en til ættleiðingar eða varanlegs fósturs getur komið er heimilt að miða við upphaf þess tíma enda staðfesti barnaverndarnefnd eða aðrir til þess bærir aðilar ráðstöfunina.

8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 19. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „og sýnt viðunandi námsárangur“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: og staðist kröfur um námsframvindu á þeim tíma.
     b.      Í stað orðanna „og sýnt viðunandi námsárangur“ í 4. málsl. 1. mgr. kemur: og hafi staðist kröfur um námsframvindu á þeim tíma.
     c.      Í stað orðanna „og sýnt viðunandi námsárangur“ í 2. mgr. kemur: og staðist kröfur um námsframvindu á þeim tíma.
     d.      Í stað orðanna „3. mgr.“ í lokamálslið 3. mgr. kemur: 5. mgr.
     e.      Í stað orðanna „a.m.k. síðasta mánuðinn fyrir fæðingardag barns“ í 1. málsl. 4. mgr. kemur: í a.m.k. einhvern tíma í síðasta mánuði fyrir fæðingardag barns eða þann dag sem barn kemur inn á heimili vegna frumættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur.
     f.      Orðin „á ávinnslutímabilinu“ í 1. málsl. 4. mgr. falla brott.
     g.      Orðin „úr Fæðingarorlofssjóði“ í 2. málsl. 4. mgr. falla brott.
     h.      Á eftir 1. málsl. 6. mgr. kemur nýr málsliður, 2. málsl., svohljóðandi: Í þeim tilvikum þegar barnið kemur inn á heimilið og um er að ræða reynslutíma áður en til ættleiðingar eða varanlegs fósturs getur komið er heimilt að miða við upphaf þess tíma enda staðfesti barnaverndarnefnd eða aðrir til þess bærir aðilar ráðstöfunina.
     i.      Í stað orðsins „samfellt“ í 11. mgr. kemur: fullt; og í stað orðanna „í samfelldu starfi“ í sömu málsgrein kemur: samfellt.
     j.      Á eftir orðunum „verið samfellt á“ í 1. málsl. 12. mgr. kemur: innlendum.
     k.      Í stað orðanna „viðunandi námsárangur“ í 1. málsl. 13. mgr. kemur: að hafa staðist kröfur um námsframvindu.

9. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 20. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „ef um er að ræða andvanafæðingu“ 1. málsl. kemur: frá þeim degi er andvanafæðing á sér stað.
     b.      Við 2. málsl. bætist: frá þeim degi er fósturlátið á sér stað.

10. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 22. gr. laganna:
     a.      Við 3. mgr. bætist: enda hafi hún þann tíma sem fæðingarstyrkur var greiddur verið ófær um að annast barn sitt vegna veikindanna að mati sérfræðilæknis.
     b.      Á eftir orðunum „styttist greiðslutímabil fæðingarstyrks“ í 5. mgr. kemur: samkvæmt 1.–3. mgr.

11. gr.

    Í stað orðanna „sameiginlegs fæðingarorlofs“ í 2. málsl. 2. mgr. 23. gr. laganna kemur: á sameiginlegum rétti til fæðingarstyrks.

12. gr.

    Í stað orðanna „13 vikur“ í 1. mgr. 24. gr. og 4. mgr. 25. gr. laganna kemur: fjóra mánuði.

13. gr.

    Við 1. mgr. 26. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Á það við hvort sem starfsmaðurinn hefur verið ráðinn tímabundið eða ótímabundið.

14. gr.

    Í stað 1.–2. mgr. 33. gr. laganna koma fjórar nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Foreldri sem nýtur greiðslna úr Atvinnuleysistryggingasjóði samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar getur ekki á sama tímabili nýtt sér rétt sinn til fæðingarstyrks, greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eða foreldraorlofs samkvæmt lögum þessum.
    Foreldri sem nýtur slysadagpeninga samkvæmt lögum um almannatryggingar, sjúkradagpeninga samkvæmt lögum um sjúkratryggingar eða endurhæfingarlífeyris samkvæmt lögum um félagslega aðstoð getur ekki á sama tímabili nýtt sér rétt sinn til fæðingarstyrks eða greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt lögum þessum.
    Foreldri sem nýtur greiðslna samkvæmt lögum um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna getur ekki á sama tímabili nýtt sér rétt sinn til fæðingarstyrks eða greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt lögum þessum.
    Foreldri sem nýtur orlofslauna eða greiðslna vegna starfsloka getur ekki nýtt sér rétt sinn til fæðingarstyrks eða greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt lögum þessum á sama tímabili og þær greiðslur eiga við um.

15. gr.

    Lög þessi eru meðal annars sett til innleiðingar á tilskipun ráðsins 2010/18/EB, um framkvæmd endurskoðaðs rammasamnings um foreldraorlof sem Evrópusamtök atvinnulífsins (BUSINESSEUROPE), Samtök evrópskra handverksmanna, lítil og meðalstór fyrirtæki (UEAPME), Evrópusamtök fyrirtækja með opinberri eignaraðild (CEEP) og Evrópusamband verkalýðsfélaga (ETUC) hafa gert með sér, og um niðurfellingu tilskipunar 96/34/EB.

16. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júní 2011 og eiga við um foreldra barna sem fæðast, eru ættleidd eða eru tekin í varanlegt fóstur 1. júní 2011 eða síðar.
    Þrátt fyrir 1. mgr. skal 12. gr. laga þessara eiga við um foreldra barna sem fæðast, eru ættleidd eða eru tekin í varanlegt fóstur 1. janúar 2012 eða síðar.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Frumvarp þetta er lagt fram til breytinga á lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum. Við gerð þess hafði velferðarráðuneytið samráð við Alþýðusamband Íslands, Bandalag háskólamanna, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök atvinnulífsins, starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytis og Vinnumálastofnun.
    Megintilefni breytinga þessara eru athugasemdir Eftirlitsstofnunar EFTA við 11. mgr. 13. gr. laganna þar sem kveðið er á um samlagningu starfstímabila foreldra er flytjast milli aðildarríkja að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Samkvæmt gildandi lögum er gert ráð fyrir að foreldri þurfi að hafa verið virkt á innlendum vinnumarkaði a.m.k. síðasta mánuðinn á ávinnslutímabili skv. 1. mgr. 13. gr. laganna svo komi til álita að leggja saman starfstímabil þess á ávinnslutímabilinu sem starfsmanns eða sjálfstætt starfandi einstaklings í öðru aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, Norðurlandasamningnum um almannatryggingar, stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða samningi milli ríkisstjórnar Íslands annars vegar og ríkisstjórnar Danmerkur og heimastjórnar Færeyja hins vegar enda hafi störf viðkomandi foreldris veitt foreldrinu rétt til fæðingarorlofs í hlutaðeigandi ríki samkvæmt lögum þess ríkis um fæðingarorlof. Ástæða þessa var einkum sú að tryggja að foreldri hefði sannanlega verið á innlendum vinnumarkaði en í því sambandi var jafnframt litið til þess að Fæðingarorlofssjóður er fjármagnaður með tryggingagjaldi en ekki beint úr ríkissjóði. Enn fremur þótti fyrrnefndur tími nauðsynlegur til að koma í veg fyrir misnotkun á fæðingarorlofskerfinu enda ljóst að sveigjanleiki ríkir á innlendum vinnumarkaði sem meðal annars hefur leitt til þess að tiltölulega auðvelt hefur verið fyrir foreldra að ráða sig til starfa í mjög tímabundin störf á þeim tíma þegar framboð starfa hefur verið nægjanlegt. Eftirlitsstofnun EFTA telur hins vegar að skilyrði um þátttöku á innlendum vinnumarkaði a.m.k. síðasta mánuðinn á ávinnslutímabili sé of langur tími í þessu sambandi og telur mikilvægt að hafi foreldri hafið störf á innlendum vinnumarkaði beri að meta hvert tilvik fyrir sig hvað varðar möguleikann á samlagningu starfstímabila í öðrum ríkjum. Er því í frumvarpi þessu lagt til að meginreglan verði áfram sú að hafi foreldri verið á innlendum vinnumarkaði a.m.k. síðasta mánuðinn á ávinnslutímabili skuli Vinnumálastofnun, að því marki sem nauðsynlegt er, taka tillit til starfstímabila foreldris á ávinnslutímabilinu sem starfsmanns eða sjálfstætt starfandi einstaklings í öðru aðildarríki að þeim samningum sem tilgreindir eru í ákvæðinu enda hafi störf foreldris veitt foreldrinu rétt til fæðingarorlofs samkvæmt lögum þess ríkis um fæðingarorlofs. Hins vegar er lagt til að hafi foreldri verið skemmri tíma á innlendum vinnumarkaði en síðasta mánuðinn á ávinnslutímabili skuli Vinnumálastofnun meta í hverju tilviki fyrir sig hvort foreldri teljist hafa starfað á innlendum vinnumarkaði í skilningi laganna þannig að taka skuli, að því marki sem nauðsynlegt er, tillit til starfstímabila foreldris í öðru aðildarríki enda hafi störf foreldris veitt foreldrinu rétt til fæðingarorlofs samkvæmt lögum þess ríkis um fæðingarorlof. Er þetta lagt til svo koma megi í veg fyrir misnotkun á fæðingarorlofskerfinu þar sem þátttaka á innlendum vinnumarkaði í skemmri tíma en síðasta mánuðinn á ávinnslutímabili þykir skammur tími svo unnt sé að leiða sjálfkrafa rétt af þeim tíma til samlagningar starfstímabila og þar með greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.
    Enn fremur er lagt til að innleidd verði hér á landi tilskipun ráðsins 2010/18/EB, um framkvæmd endurskoðaðs rammasamnings um foreldraorlof sem Evrópusamtök atvinnulífsins (BUSINESSEUROPE), Samtök evrópskra handverksmanna, lítil og meðalstór fyrirtæki (UEAPME), Evrópusamtök fyrirtækja með opinberri eignaraðild (CEEP) og Evrópusamband verkalýðsfélaga (ETUC) hafa gert með sér, og um niðurfellingu tilskipunar 96/34/EB. Tilskipun þessi felur í sér endurskoðun á fyrri tilskipun Evrópusambandsins 96/34/EB um sama efni sem innleidd var í íslensk lög á árinu 2000 með lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof. Kveður endurskoðaður samningur um foreldraorlof á um lengingu foreldraorlofs úr þrettán vikum í fjóra mánuði. Í ljósi þess að ekki er gert ráð fyrir að aðildarríki innleiði tilskipun þessa fyrr en í síðasta lagi 8. mars 2012 er lagt til að lenging foreldraorlofsins eigi við um foreldra barna sem fæðast, verða ættleidd eða eru tekin í varanlegt fóstur 1. janúar 2012 eða síðar enda ákveðið hagræði í því að miða við áramót í þessu sambandi. Í tilskipun ráðsins 2010/18/EB er sérstök áhersla lögð á að réttur foreldra til foreldraorlofs verði ekki framseljanlegur en þegar er kveðið á um slíkt í 24. gr. laganna og því ekki þörf á breytingum á lögunum hvað það varðar. Enn fremur er í tilskipuninni lagt til að tekið verði sérstakt tillit til foreldra langveikra eða fatlaðra barna en með lögum nr. 22/2006, um rétt foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, var ákvæði 3. mgr. 24. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof breytt þannig að hafi réttur til foreldraorlofs fallið niður ónýttur að hluta eða öllu leyti við átta ára aldur barns verður sá réttur virkur aftur komi til þess að barn greinist síðar, en þó áður en það verður fullra átján ára, með alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða alvarlega fötlun. Kallar þetta því ekki á breytingar á lögum um fæðingar- og foreldraorlof. Þá er í tilskipuninni undirstrikað mikilvægi þess að foreldrum verði auðvelduð endurkoma til vinnu að loknu foreldraorlofi en slíkt ákvæði er þegar að finna í 21. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, um samhæfingu fjölskyldu- og atvinnulífs. Þar er skýrt kveðið á um að atvinnurekandi skuli gera nauðsynlegar ráðstafanir til að gera konum og körlum kleift að samræma starfsskyldur sínar og ábyrgð gagnvart fjölskyldu. Er sérstaklega kveðið á um að ráðstafanir þær sem atvinnurekandi grípur til í þessu skyni skuli meðal annars miða að því að auðvelda starfsmönnum að koma aftur til starfa eftir fæðingar- og foreldraorlof eða leyfi úr vinnu vegna óviðráðanlegra og brýnna fjölskylduaðstæðna. Ákvæði þetta hefur verið í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla frá árinu 2000 en jafnframt þykir í þessu sambandi mikilvægt að minna á lög nr. 27/2000, um bann við uppsögnum vegna fjölskylduábyrgðar starfsmanna, en þar kemur fram að óheimilt sé að segja manni upp störfum eingöngu vegna fjölskylduábyrgðar sem hann ber.
    Auk framangreindra breytinga eru í frumvarpi þessu lagðar til mikilvægar breytingar á lögum um fæðingar- og foreldraorlof, meðal annars í því skyni að skýra betur tiltekin ákvæði sem þótt hafa óskýr við framkvæmd laganna.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Samkvæmt lögum um fæðingar- og foreldraorlof er foreldrum heimilt að hefja töku fæðingarorlofs þegar formleg ættleiðing hefur átt sér stað og öll gögn þar að lútandi eru fyrir hendi, sbr. 5. mgr. 8. gr. laganna. Réttarstaða þeirra foreldra sem hafa ættleitt börn frá ríkjum þar sem gert er ráð fyrir einhvers konar reynslutíma áður en gengið er frá endanlegum skjölum sem staðfesta ættleiðinguna hefur því þótt óljós við framkvæmd laganna. Í ljósi þessa er með ákvæði þessu lagt til að skýrt verði kveðið á um að foreldrum verði heimilt að hefja töku fæðingarorlofs þegar barnið kemur inn á heimilið þrátt fyrir að um sé að ræða fyrrgreindan reynslutíma og formleg ættleiðing hafi ekki endanlega átt sér stað. Engu síður er gert ráð fyrir að barnaverndarnefnd eða aðrir til þess bærir aðilar staðfesti að ráðstöfuninni sé ætlað að leiða til formlegrar ættleiðingar.
    Þar sem lögin gera ráð fyrir að sömu reglur gildi hvað varðar rétt foreldra til fæðingarorlofs þegar um er að ræða töku barns í varanlegt fóstur er í ákvæði þessu jafnframt lagt til að foreldrum verði heimilt að hefja töku fæðingarorlofs þegar barn kemur inn á heimili á svokölluðum reynslutíma skv. 2. mgr. 65. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, með síðari breytingum, enda gert ráð fyrir að fyrrnefndur reynslutími leiði til varanlegs fósturs sem og að barnaverndarnefnd eða aðrir til þess bærir aðilar staðfesti að svo sé. Rétt er að árétta að ekki er átt við þann tíma þegar barn kemur inn á heimili í tímabundið fóstur samkvæmt barnaverndarlögum enda önnur sjónarmið og markmið sem liggja að baki slíkum fósturráðstöfunum en þegar um er að ræða varanlegt fóstur. Enn fremur er rétt að árétta að ekki er um aukningu réttinda að ræða heldur einungis gert ráð fyrir að foreldrar geti í umræddum tilvikum hafið töku fæðingarorlofs fyrr en gildandi lög gera ráð fyrir.
    Þá er lagt til að réttur foreldra til að framselja réttindi til fæðingarorlofs til hins foreldrisins verði í öllum tilvikum sem slíkt framsal er heimilt bundið við fyrstu 18 mánuðina, sbr. einnig 1. málsl. 8. mgr. og 9. mgr. 8. gr. laganna.

Um 2. gr.


    Þær breytingar sem lagðar eru til í ákvæði þessu fela ekki í sér efnislegar breytingar en í athugasemdum með frumvarpi því er varð að gildandi lögum kemur meðal annars fram að einungis sé heimilt að taka út fæðingarorlof skv. 12. gr. laganna „næstu þrjá mánuði eftir andvanafæðingu eða tvo mánuði eftir fósturlát“ og er þá miðað við andvanafæðingu eftir 22 vikna meðgöngu eða fósturlát eftir 18 vikna meðgöngu. Þar sem fyrrnefndir tímafrestir koma einungis fram í áðurnefndum lögskýringargögnum þykir ástæða til að skýra nánar í lagatextanum sjálfum hvenær heimilt er að taka fæðingarorlof á grundvelli ákvæðisins í því skyni að koma í veg fyrir að foreldrar glati rétti sínum til fæðingarorlofs við umræddar aðstæður þar sem þeim er þá ekki ljóst að nýta verði réttinn á ákveðnu tímabili. Enn fremur er lagt til að tekið verði fram að foreldrar eigi rétt á greiðslum skv. 13. gr. laganna eins og verið hefur. Þar sem ekki er um efnislegar breytingar að ræða er ekki gert ráð fyrir að breytingar þessar hafi áhrif á framkvæmd laganna verði þær að lögum.

Um 3. gr.


    Þeim breytingum sem hér eru lagðar til á 2. mgr. 13. gr. laganna er ætlað að skýra frekar þá reiknireglu sem ákvæðið hefur að geyma og Fæðingarorlofssjóður hefur viðhaft við framkvæmd laganna. Er reiknireglunni meðal annars ætlað að gæta jafnræðis milli annars vegar þeirra sem kjósa að dreifa fæðingarorlofi og þar með greiðslum í fæðingarorlofi frá Fæðingarorlofssjóði sem þeir eiga rétt á samkvæmt lögunum yfir lengra tímabil en um getur í 1. mgr. 8. gr. laganna á móti ólaunuðu leyfi á grundvelli ráðningarsamnings, kjarasamnings eða venju eða eru ekki í ráðningarsambandi á móti fæðingarorlofinu og hins vegar þeirra sem kjósa að dreifa fæðingarorlofi yfir lengra tímabili en um getur í 1. mgr. 8. gr. laganna á móti minnkuðu starfshlutfalli og/eða launuðu leyfi á grundvelli ráðningarsamnings, kjarasamnings eða venju. Umrædd reikniregla gildir jafnframt þegar um er að ræða aðrar þær greiðslur sem nefndar eru í ákvæði þessu, svo sem greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði eða sjúkrasjóðum stéttarfélaga.
    Sem dæmi má nefna foreldri sem ákveður að dreifa sex mánaða fæðingarorlofi á tólf mánaða tímabil (er þá um að ræða rétt foreldrisins sjálfs til fæðingarorlofs auk sameiginlegs réttar beggja foreldranna) og vinnuveitandi samþykkir að foreldrið sé í launalausu leyfi á móti. Samkvæmt útreikningum hafði foreldrið 200.000 kr. í tekjur að meðaltali á mánuði á viðmiðunartímabili og hefði því átt að fá 160.000 kr. greiddar úr Fæðingarorlofssjóði í sex mánuði en fær þess í stað greiddar 80.000 kr. á mánuði úr Fæðingarorlofssjóði í tólf mánuði enda foreldrið í 50% fæðingarorlofi í tólf mánuði. Þetta sama foreldri fer síðan aftur í fæðingarorlof skömmu eftir að fyrra fæðingarorlofinu lýkur þannig að greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í fyrra fæðingarorlofinu koma inn á viðmiðunartímabil við útreikning meðaltekna vegna greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði í seinna fæðingarorlofinu. Er þá gert ráð fyrir að í slíkum tilvikum verði miðað við viðmiðunartekjurnar sem þær greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði miðuðust við í sama hlutfalli og greiðslurnar voru inntar af hendi vegna fyrra fæðingarorlofsins á því viðmiðunartímabili sem um ræðir í tengslum við síðara fæðingarorlof viðkomandi foreldris. Þannig er gert ráð fyrir að miðað verði við 50% af 200.000 kr. viðmiðunartekjum foreldrisins í tengslum við fyrra fæðingarorlofið eða 100.000 kr. enda þótt greiðslurnar hafi eingöngu verið 80.000 kr. til foreldris á þeim tíma í samræmi við ákvæði 2. mgr. 13. gr. laganna. Viðmiðunartekjur fyrir síðara fæðingarorlofið fyrir þann tíma þar sem greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði í fyrra fæðingarorlofi koma inn á viðmiðunartímabil fyrir seinna fæðingarorlofið verða þá 100.000 kr. á mánuði (100.000 kr. vegna greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði + 0 kr. vegna ólaunaðs leyfis).
    Til að skýra þessa reglu enn frekar er unnt að nefna sem dæmi foreldri sem hefur kosið að dreifa sex mánaða fæðingarorlofi vegna fyrra barns á tólf mánaða tímabil samhliða 50% starfi. Eins og í fyrra dæminu voru viðmiðunartekjur umrædds foreldris 200.000 kr. á mánuði í fyrra fæðingarorlofinu og fær það því greiddar 80.000 kr. á mánuði úr Fæðingarorlofssjóði í tólf mánuði í seinna fæðingarorlofinu í stað 160.000 kr. í sex mánuði í samræmi við ákvæði 2. mgr. 13. gr. laganna. Samhliða fær foreldrið greiddar 100.000 kr. á mánuði frá vinnuveitanda fyrir 50% starf. Þetta sama foreldri fer síðan aftur í fæðingarorlof skömmu eftir að fyrra fæðingarorlofinu lýkur þannig að greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í fyrra fæðingarorlofinu koma inn á viðmiðunartímabil við útreikning meðaltekna vegna greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði í seinna fæðingarorlofinu. Er þá gert ráð fyrir líkt og í fyrra dæminu að í slíkum tilvikum verði miðað við viðmiðunartekjurnar sem þær greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði miðuðust við í sama hlutfalli og greiðslurnar voru inntar af hendi vegna fyrra fæðingarorlofsins á því viðmiðunartímabili sem um ræðir í tengslum við síðara fæðingarorlof viðkomandi foreldris. Þannig er gert ráð fyrir að miðað verði við 50% af 200.000 kr. viðmiðunartekjum foreldrisins í tengslum við fyrra fæðingarorlofið eða 100.000 kr. enda þótt greiðslurnar hafi eingöngu verið 80.000 kr. til foreldris á þeim tíma í samræmi við ákvæði 2. mgr. 13. gr. laganna. Viðmiðunartekjur fyrir síðara fæðingarorlofið fyrir þann tíma þar sem greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði í fyrra fæðingarorlofi koma inn á viðmiðunartímabil fyrir seinna fæðingarorlofið verða þá 100.000 kr. á mánuði. Til viðbótar er gert ráð fyrir að við útreikning meðaltekna verði auk þess miðað við tekjur foreldrisins frá atvinnurekanda fyrir 50% vinnuframlag sitt eða 100.000 kr., sbr. 1. málsl. 2. mgr. 13. gr. laganna. Viðmiðunartekjur fyrir síðara fæðingarorlofið yrðu þá 200.000 kr. á mánuði (100.000 kr. vegna greiðslna frá Fæðingarorlofssjóði vegna 50% fæðingarorlofs + 100.000 kr. tekjur vegna 50% vinnuframlags). Hafi laun viðkomandi foreldris hækkað meðan fyrra fæðingarorlof stóð yfir þannig að foreldrið hafi fengið 125.000 kr. greiddar fyrir 50% vinnuframlag yrðu viðmiðunartekjur fyrir síðara fæðingarorlofið þá 225.000 kr. (100.000 kr. vegna greiðslna frá Fæðingarorlofssjóði vegna 50% fæðingarorlofs + 125.000 kr. tekjur vegna 50% vinnuframlags). Hafi foreldrið hins vegar fengið greiddan mismun milli greiðslna og meðaltals heildarlauna (20.000 kr. í dæminu hér að framan) bættan frá vinnuveitanda verður sú greiðsla ekki tekin með við útreikninga á greiðslum vegna síðara fæðingarorlofs.
    Þá er jafnframt lagt til að í lögunum verði kveðið skýrar á um að allir þeir mánuðir sem foreldri telst vera á innlendum vinnumarkaði í skilningi laganna, sbr. einnig 2. mgr. 13. gr. a laganna, verði taldir með við útreikninginn enda þótt foreldri hafi hvorki haft laun né staðið skil á tryggingagjaldi af reiknuðu endurgjaldi fyrir alla þá mánuði. Er þá miðað við að hlutaðeigandi foreldri hafi ekki haft tekjur þá mánuði en engu síður skuli telja mánuðina með við útreikning á meðaltali heildarlauna á viðmiðunartímabili. Í þessu sambandi er vert að nefna dæmi í samræmi við dæmin að framan en þar væri um að ræða foreldri sem kaus að taka fullt fæðingarorlof í sex mánuði og vera síðan í sex mánaða launalausu leyfi frá störfum með samþykki vinnuveitanda. Þetta sama foreldri fer síðan aftur í fæðingarorlof skömmu eftir að launalausa leyfinu lýkur þannig að greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í fyrra fæðingarorlofinu koma inn á viðmiðunartímabil við útreikning meðaltekna vegna greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði í seinna fæðingarorlofinu. Er þá gert ráð fyrir líkt og í fyrri dæmum að í slíkum tilvikum verði miðað við viðmiðunartekjurnar sem þær greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði miðuðust við í sama hlutfalli og greiðslurnar voru inntar af hendi vegna fyrra fæðingarorlofsins á því viðmiðunartímabili sem um ræðir í tengslum við síðara fæðingarorlof viðkomandi foreldris. Þannig er gert ráð fyrir að miðað verði við 200.000 kr. viðmiðunartekjur foreldrisins í tengslum við fyrra fæðingarorlofið á þeim tíma sem fæðingarorlofið fer saman við viðmiðunartímabilið vegna síðara fæðingarorlofs. Meðalheildarlaun fyrir það tímabil sem foreldri var í launalausu leyfi eru hins vegar 0 kr. Ef þessir tólf mánuðir koma að öllu leyti inn á viðmiðunartímabil vegna síðara fæðingarorlofs verður meðaltal heildarlauna viðkomandi foreldris á því tímabili 100.000 kr. á mánuði (200.000 kr. vegna greiðslna frá Fæðingarorlofssjóði vegna 100% fæðingarorlofs í sex mánuði + 0 kr. tekjur vegna ólaunaðs leyfis í sex mánuði). Hins vegar er gert ráð fyrir að öðru máli gegni um þá mánuði sem foreldri var ekki á innlendum vinnumarkaði í skilningi laganna á viðmiðunartímabili en gert er ráð fyrir að þeir mánuðir verði ekki teknir með við útreikninga á meðaltali heildarlauna á viðmiðunartímabili. Þó skal ávallt miða við fjóra mánuði að lágmarki við útreikning á meðaltali heildarlauna.
    Við framkvæmd laganna hafa komið upp dæmi þar sem foreldri telst bæði vera starfsmaður og sjálfstætt starfandi einstaklingur í skilningi 7. gr. laganna og því ekki ljóst við hvaða viðmiðunartímabil skuli miða við útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Í slíkum tilvikum hefur verið farin sú leið að miða við starfshlutfall foreldris sem starfsmanns þannig að hafi hann gegnt 50% eða hærra starfshlutfalli sem starfsmaður á ávinnslutímabili hefur verið farið eftir viðmiðunartímabili skv. 2. mgr. 13. gr. laganna en ella hefur verið farið eftir viðmiðunartímabili skv. 5. mgr. sama ákvæðis. Er í frumvarpinu lagt til að þessi framkvæmdaregla verði lögfest og fest þannig enn frekar í sessi.
    Eftirlitsstofnun EFTA hefur gert athugasemdir við 11. mgr. 13. gr. laganna þar sem stofnunin telur að skilyrði um að foreldri hafi verið þátttakandi á innlendum vinnumarkaði a.m.k. síðasta mánuðinn á ávinnslutímabili áður en geti komið til samlagningar starfstímabila foreldris í öðrum aðildarríkjum brjóti gegn samningnum um Evrópska efnahagssvæðið sem og reglugerð nr. 1408/71/EBE, um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum, sjálfstætt starfandi einstaklingum og aðstandendum þeirra sem flytjast á milli aðildarríkja. Þar sé um að ræða skilyrði um þátttöku á innlendum vinnumarkaði í of langan tíma áður en til samlagningar starfstímabila í öðrum ríkjum getur komið. Að mati Eftirlitsstofnunar EFTA er samkvæmt reglugerðinni óheimilt að tilgreina tiltekinn tímaramma á innlendum vinnumarkaði áður en til samlagningar starfstímabila í öðrum ríkjum getur komið. Í því skyni að koma í veg fyrir misnotkun á fæðingarorlofskerfinu er slíkt engu síður heimilt að mati Eftirlitsstofnunar EFTA ef jafnframt er heimilt að meta hvert tilvik fyrir sig og er því í frumvarpi þessu lagt til að meginreglan verði áfram sú að hafi foreldri verið á innlendum vinnumarkaði a.m.k. síðasta mánuðinn á ávinnslutímabili áður en fæðingarorlof hefst skuli Vinnumálastofnun, að því marki sem nauðsynlegt er, taka tillit til starfstímabila foreldris sem starfsmanns eða sjálfstætt starfandi einstaklings í öðru aðildarríki að þeim samningum sem tilgreindir eru í ákvæðinu á ávinnslutímabilinu enda hafi störf foreldris veitt foreldrinu rétt samkvæmt lögum þess ríkis um fæðingarorlof. Hafi foreldri hins vegar verið skemmri tíma en einn mánuð á innlendum vinnumarkaði skuli Vinnumálastofnun meta í hverju tilviki fyrir sig hvort foreldri teljist hafa starfað á innlendum vinnumarkaði í skilningi laganna þannig að taka skuli, að því marki sem nauðsynlegt er, tillit til starfstímabila foreldris í öðru aðildarríki enda hafi störf foreldris veitt foreldrinu rétt til fæðingarorlofs samkvæmt lögum þess ríkis um fæðingarorlof. Er þetta lagt til svo koma megi í veg fyrir misnotkun á fæðingarorlofskerfinu þar sem þátttaka á innlendum vinnumarkaði í skemmri tíma en einn mánuð þykir skammur tími svo unnt sé að leiða sjálfkrafa rétt af þeim tíma til samlagningar starfstímabila og þar með til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Í því sambandi var jafnframt litið til þess að sjóðurinn er fjármagnaður með tryggingagjaldi en ekki beint úr ríkissjóði.

Um 4. gr.


    Í ákvæði þessu er lagt til að í stað þess að endurtaka í 1. mgr. 13. gr. a það sem fram kemur í 2. og 3. mgr. 7. gr. laganna hvað varðar skilgreiningar á því hverjir teljast starfsmenn og hverjir sjálfstætt starfandi einstaklingar í skilningi laganna verði til einföldunar vísað beint til viðeigandi ákvæða 7. gr. Ekki er því gert ráð fyrir að breytingarnar hafi áhrif á framkvæmd laganna að þessu leyti verði þær að lögum. Starfshlutfall foreldra kemur til álita við framkvæmd laganna þegar reynir á 6. mgr. 13. gr. laganna um lágmarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði. Fram til þessa hefur ekki verið litið til starfshlutfalls sjálfstætt starfandi einstaklinga og því ávallt litið svo á að þeir eigi rétt á lágmarksgreiðslum til foreldris í 50–100% starfi óháð þeim fjárhæðum sem þeir hafa greitt til skattyfirvalda. Þykir eðlilegra í ljósi þess að Fæðingarorlofssjóður er fjármagnaður af tryggingagjaldi að miða starfshlutfall sjálfstætt starfandi þannig að tekið verði mið af reiknuðu endurgjaldi og þar með tryggingagjaldi sem sjálfstætt starfandi einstaklingar hafa greitt til skattyfirvalda þegar 6. mgr. 13. gr. laganna kemur til álita. Er því lagt til með ákvæði þessu að litið verði á sjálfstætt starfandi einstakling í fullu starfi greiði hann mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi er nemur að lágmarki viðmiðunarfjárhæð fjármálaráðherra í viðkomandi starfsgrein en fjármálaráðherra gefur út viðmiðunarfjárhæðir fyrir hverja starfsgrein við upphaf hvers tekjuárs á grundvelli laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, að fengnum tillögum ríkisskattstjóra. Við ákvörðun þessa lágmarksendurgjalds er höfð hliðsjón af raunverulegum tekjum fyrir sambærileg störf. Þessi breyting er jafnframt í samræmi við það sem lög nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, með síðari breytingum, kveða á um þegar kemur að því að meta fullt starf sjálfstætt starfandi einstaklinga samkvæmt lögunum, sbr. lög nr. 37/2009. Er með þessu réttur sjálfstætt starfandi einstaklinga færður til betra samræmis við réttindi launafólks enda þótt taka verði áfram tillit til þess að nokkur eðlismunur er talinn vera á starfstengdum aðstæðum þessara hópa auk þess sem breytingunum er ætlað að tryggja betra samræmi milli inn- og útstreymis Fæðingarorlofssjóðs.
    Í því skyni að taka af allan vafa er jafnframt lagt til að skýrt verði kveðið á um það í lögunum að aðstæður skv. a–e-lið 2. mgr. 13. gr. a teljist til þátttöku á innlendum vinnumarkaði.

Um 5. gr.


    Þær breytingar sem lagðar eru til í ákvæði þessu eru í samræmi við þær breytingar sem lagðar eru til í c-lið 3. gr. frumvarps þessa og er vísað til athugasemda um það ákvæði.

Um 6. gr.


    Lagt er til að í 3. mgr. 17. gr. laganna verði skýrt kveðið á um að skilyrði þess að heimilt sé að framlengja fæðingarorlof móður um allt að tvo mánuði vegna alvarlegra veikinda hennar í tengslum við fæðingu sé að hún hafi í fæðingarorlofi sínu verið ófær um að annast barn sitt vegna veikindanna að mati sérfræðilæknis. Ekki er um að ræða breytingu á framkvæmd þar sem efnislega samhljóða ákvæði hefur verið að finna í reglugerð nr. 1218/2008, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.
    Í 4. mgr. 17. gr. laganna er kveðið á um að sé þungaðri konu nauðsynlegt af heilsufarsástæðum að leggja niður launuð störf meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns skuli hún eiga rétt á greiðslum í fæðingarorlofi þann tíma en þó aldrei lengur en tvo mánuði. Í frumvarpi þessu er lagt til að hið sama gildi þegar þungaðri konu er nauðsynlegt af heilsufarsástæðum að hætta atvinnuleit fái hún greiddar atvinnuleysisbætur, er á biðtíma eftir slíkum bótum eða hefði átt rétt á þeim hefði hún skráð sig án atvinnu samkvæmt gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar og væri þar með þátttakandi á innlendum vinnumarkaði skv. b-lið 2. mgr. 13. gr. a laganna. Ástæða þessa er sú að upp hafa komið tilvik þar sem þungaðar konur hafa ekki getað verið í virkri atvinnuleit vegna heilsufarsástæðna og hafa þar af leiðandi ekki átt rétt á atvinnuleysisbótum. Þar með hefur komið rof í ávinnslu þeirra til fæðingarorlofs sem hefur orðið til þess að þær hafa jafnframt ekki átt rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði skv. 13. gr. laganna. Til samræmis við þessar breytingar er jafnframt lagt til að með umsókn um lengingu fæðingarorlofs skv. 4. mgr. 17. gr. laganna skuli fylgja staðfesting Vinnumálastofnunar eftir því sem við getur átt sem og að í stað orðsins launagreiðslur í 6. mgr. ákvæðisins komi greiðslur þar sem um geti verið að ræða atvinnuleysisbætur og því ekki um eiginlegar launagreiðslur að ræða í hefðbundnum skilningi þess orðs.

Um 7. gr.


    Lagt er til að í tilvikum er foreldri hefur átt lögheimili hér á landi í a.m.k. einhvern tíma í síðasta mánuði fyrir fæðingardag barns eða þann dag sem barn kemur inn á heimili vegna frumættleiðingar eða varanlegs fósturs skuli Vinnumálastofnun, að því marki sem nauðsynlegt er, taka tillit til búsetutímabila þess foreldris í öðru aðildarríki að samningum sem tilgreindir eru í ákvæðinu þegar metið er hvort foreldri fullnægi lögheimilisskilyrði skv. 3. mgr. ákvæðisins. Samkvæmt gildandi lögum er gert ráð fyrir að foreldri eigi lögheimili hér á landi a.m.k. síðasta mánuðinn fyrir fæðingardag barns eða þann dag er barn kemur inn á heimili vegna frumættleiðingar eða varanlegs fóstur sem þykir of langur tími áður en til samlagningar búsetutímabila geti komið. Enn fremur er lagt til að orðið ávinnslutímabil verði fellt brott enda ekki um að ræða eiginlegt ávinnslutímabil heldur frekar samlagningu búsetutímabila í fleiri en einu ríki. Þá er lagt til að orðið Fæðingarorlofssjóður verði fellt brott enda ekki um að ræða greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði heldur úr ríkissjóði.
    Í d-lið ákvæðis þessa eru lagðar til breytingar í samræmi við þær breytingar sem lagðar eru til í 1. gr. frumvarps þessa hvað varðar 8. gr. laganna og er vísað til athugasemda um það ákvæði.

Um 8. gr.


    Í ákvæði þessu er lagt til að skýrar verði kveðið á um hvað átt er við með viðunandi námsárangri í skilningi 19. gr. laganna. Er því lagt til að í stað viðunandi námsárangurs komi fram að miðað sé við að foreldri hafi staðist kröfur um námsframvindu á þeim tíma er námið stendur yfir. Er þá átt við að foreldri hafi staðist kröfur um námsframvindu sem nemur fullu námi, þ.e. að um sé að ræða 75–100% samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði, sbr. 4. mgr. 7. gr. laganna. Er einnig átt við 75–100% nám á háskólastigi og annað nám sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Er því ekki gert ráð fyrir að unnt sé að leggja saman einingafjölda milli skólaanna þannig að samtals hafi foreldri náð einingafjölda á tveimur önnum sem nemur fullu námi á einni önn við hlutaðeigandi skóla. Aðrar breytingar sem lagðar eru til í ákvæði þessu eru í samræmi við þær breytingar sem lagðar eru til í 7. gr. frumvarps þessa, sbr. einnig 1. gr. frumvarpsins, og er vísað til þeirra athugasemda er þar koma fram.

Um 9. gr.


    Breytingar þær sem lagðar eru til í ákvæði þessu eru til samræmis við þær breytingar sem lagðar eru til í 2. gr. frumvarps þessa en eðlilegt þykir að miðað sé við sama tímamark hvað varðar rétt foreldra til fæðingarstyrks og fæðingarorlofs í kjölfar andvanafæðingar eftir 22 vikna meðgöngu eða fósturláts eftir 18 vikna meðgöngu. Er því vísað til athugasemda um 2. gr. frumvarps þessa.

Um 10. gr.


    Vísað er til athugasemda um 6. gr. frumvarps þessa en þær breytingar sem lagðar eru til í því ákvæði sem hér um ræðir eru í samræmi við þær breytingar sem þar eru lagðar til hvað varðar 3. mgr. 17. gr. laganna.

Um 11. gr.


    Ákvæði þetta þarfnast ekki skýringa.

Um 12. gr.


    Hér er gert ráð fyrir að réttur foreldra til foreldraorlofs verði aukinn úr þrettán vikum í fjóra mánuði. Er þetta lagt til í því skyni að innleiða ákvæði tilskipunar ráðsins 2010/18/EB, um framkvæmd endurskoðaðs rammasamnings um foreldraorlof sem Evrópusamtök atvinnulífsins (BUSINESSEUROPE), Samtök evrópskra handverksmanna, lítil og meðalstór fyrirtæki (UEAPME), Evrópusamtök fyrirtækja með opinberri eignaraðild (CEEP) og Evrópusamband verkalýðsfélaga (ETUC) hafa gert með sér, og um niðurfellingu tilskipunar 96/34/ EB. Tilskipun þessi hefur enn ekki verið tekin undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið en engu síður er lagt til að ákvæði hennar verði innleidd hér á landi þar sem innleiðing þeirra þykir mikil réttarbót fyrir foreldra. Að öðru leyti er vísað til almennra athugasemda við frumvarp þetta.

Um 13. gr.


    Lögin gera ráð fyrir að starfsmaður öðlist rétt til foreldraorlofs eftir að hafa starfað samfellt í sex mánuði hjá sama vinnuveitanda. Í tilskipun ráðsins 2010/18/EB, sem frumvarp þetta gerir ráð fyrir að verði innleidd, sbr. einnig 12. gr. frumvarps þessa, er sérstaklega tekið á aðstæðum þeirra sem eru ráðnir tímabundið. Er því í frumvarpi þessu lagt til að foreldri öðlist rétt til foreldraorlofs skv. VII. kafla laganna eftir að hafa starfað samfellt í sex mánuði hjá sama vinnuveitanda án tillits til þess hvort foreldrið hafi verið ráðið tímabundið eða ótímabundið hjá hlutaðeigandi vinnuveitanda.

Um 14. gr.


    Lagt er til að skýrt verði kveðið á um það í lögunum hvað telst til ósamrýmanlegra réttinda á sama tímabili og foreldri ætlar að nýta sér rétt sinn til fæðingarstyrks eða greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Er því lagt til að tekið verði fram hvaða greiðslur úr öðrum greiðslukerfum samrýmist ekki greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði eða útgreiðslu fæðingarstyrks en meðal annars er gert ráð fyrir að fái foreldri orlofslaun eða greiðslur vegna starfsloka geti foreldrið ekki nýtt sér rétt sinn til fæðingarstyrks eða greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði á sama tímabili og þær greiðslur eiga við um.

Um 15. og 16. gr.


    Í ljósi eðlis laga um fæðingar- og foreldraorlof þykir mikilvægt að skýrt sé kveðið á um til hvaða foreldra þær breytingar sem frumvarp þetta gerir ráð fyrir að gerðar verði á lögunum nái. Er því lagt til að lögin taki gildi 1. júní 2011 og eigi við um foreldra barna sem fæðast, eru ættleidd eða eru tekin í varanlegt fóstur 1. júní 2011 eða síðar. Þó er gert ráð fyrir að ákvæði um lengingu foreldraorlofs úr þrettán vikum í fjóra mánuði eigi við um foreldra barna sem fæðast, eru ættleidd eða eru tekin í varanlegt fóstur 1. janúar 2012 eða síðar, en samkvæmt tilskipun ráðsins 2010/18/EB, sem kveður á um lengingu foreldraorlofs og lagt er til í frumvarpi þessu að verði innleidd hér á landi, ber ríkjum að innleiða efni hennar eigi síðar en 8. mars 2012.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum (EES-reglur o.fl.).

    Megintilgangur þessa frumvarps er að bregðast við athugsemdum Eftirlitsstofnunar EFTA við það ákvæði gildandi laga er varðar samlagningu starfstímabila foreldra er flytjast milli aðildarríkja að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Þá er einnig verið að innleiða tilskipun Evrópusambandsins sem kveður á um lengra foreldraorlof en lögin gera nú ráð fyrir. Að auki er að finna í frumvarpinu tillögur sem ætlað er að bæta úr ýmsum atriðum í gildandi lögum og komið hafa til meðferðar hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.
    Helstu breytingartillögur frumvarpsins við gildandi lög eru eftirfarandi: Í fyrsta lagi er lagt til að hafi foreldri verið skemmri tíma en einn mánuð á innlendum vinnumarkaði skuli Vinnumálastofnun meta í hverju tilviki fyrir sig hvort taka skuli tillit til starfstímabila foreldris í öðru aðildarríki. Samkvæmt gildandi lögum er gert ráð fyrir að foreldri þurfi að hafa verið virkt á innlendum vinnumarkaði a.m.k. síðasta mánuðinn á ávinnslutímabili svo komi til álita að leggja saman starfstímabil þess sem starfsmanns eða sjálfstætt starfandi einstaklings í öðru aðildarríki að þeim samningum sem taldir eru upp í ákvæðinu á ávinnslutímabilinu enda hafi störf foreldris veitt því rétt samkvæmt lögum þess ríkis um fæðingarorlof. Við þetta ákvæði hefur Eftirlitsstofnun EFTA gert athugasemdir. Gera má ráð fyrir að þetta ákvæði geti leitt til aukinna greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði en um er ræða rýmri ákvæði en nú eru í gildi. Hins vegar eru hér engar forsendur til að áætla hversu stór hópur verðandi foreldra af Evrópska efnahagssvæðinu sem til landsins koma munu hafa rétt á greiðslum úr sjóðnum en telja verður líklegt að hann verði fámennur.
    Í öðru lagi er lögð til lenging foreldraorlofs úr 13 vikum í fjóra mánuði. Tillagan er í samræmi við tilskipun nr. 2010/18/EB, um framkvæmd endurskoðaðs rammasamnings um foreldraorlof. Ekki er gert ráð fyrir að aðildarríki innleiði tilskipun þessa fyrr en 8. mars 2012 og því er lagt til að lenging foreldraorlofs taki gildi fyrir foreldra barna sem fæðast, verða ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur 1. janúar 2012 eða síðar. Foreldrar fá ekki greitt fyrir það tímabil sem þeir nýta sér rétt sinn til foreldraorlofs og því á lenging foreldraorlofs ekki koma til með að hafa teljandi áhrif á ríkisútgjöld.
    Í þriðja lagi er lagt til að skýrt verði kveðið á um að foreldrum sem ættleiða barn verði heimilt að hefja töku fæðingarorlofs þegar barnið kemur inn á heimilið þrátt fyrir að um sé að ræða reynslutíma og formleg ættleiðing hafi ekki endanlega átt sér stað. Lagt er til að hið sama gildi þegar um er að ræða svokallaðan reynslutíma sem fyrirhugað er að leiði til varanlegs fósturs. Samkvæmt gildandi lögum um fæðingar- og foreldraorlof er foreldrum heimilt að hefja töku fæðingarorlofs þegar formleg ættleiðing hefur átt sér stað og öll gögn þar að lútandi eru fyrir hendi. Réttarstaða þeirra foreldra sem hafa ættleitt börn frá ríkjum þar sem gert er ráð fyrir einhvers konar reynslutíma áður en gengið er frá endanlegum skjölum sem staðfesta ættleiðinguna hefur því þótt óljós við framkvæmd laganna. breytingin varðar tilfærslu á réttindatímabili við ættleiðing og fósturtöku. Almennt er reglan sú að skilgreindur reynslutími leiði til áframhaldandi fósturs og því alger undantekning að hefja þyrfti reynslutíma öðru sinni hjá nýjum foreldrum vegna sama barns og því verður ekki séð að slíkt muni hafa áhrif á útgjöld sjóðsins.
    Í fjórða lagi er kveðið á um tímafrest við töku fæðingarorlofs í kjölfar andvanafæðingar eða fósturláts. Ekki er um breytingu á framkvæmd laganna að ræða og því verður ekki séð að tillagan hafi aukin útgjöld í för með sér.
    Í fimmta lagi eru lagðar til breytingar sem ætlað er að skýra frekar þá reiknireglu sem Fæðingarorlofssjóður hefur viðhaft við framkvæmd laganna og varðar viðmiðunartekjur við útreikning bóta. Ekki er gert ráð fyrir að breytingin hafi áhrif á kostnað ríkissjóðs þar sem efnislegt innihald um þátttöku á vinnumarkaði er áfram óbreytt.
    Í sjötta lagi er lagt til að í tilvikum þar sem foreldrar eru báðir með tekjur sem starfsmenn í skilningi laganna, en einnig sjálfstætt starfandi einstaklingar á viðmiðunartímabili, verði miðað við starfshlutfall foreldris sem starfsmanns hafi hann gegnt 50% eða hærra starfshlutfalli sem starfsmaður á viðmiðunartímabili en annars verði miðað við tekjur sem sjálfstætt starfandi einstaklingur. Þetta mun vera sú framkvæmdarregla sem Fæðingarorlofssjóður notast við. Þá er lagt til að litið verði svo á að sjálfstætt starfandi einstaklingur hafi verið í fullu starfi hafi hann greitt mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi er nemur að lágmarki viðmiðunarfjárhæð fjármálaráðherra í viðkomandi starfsgrein. Lögfesting framkvæmdarreglna ætti ekki að hafa aukin útgjöld í för með sér.
    Í sjöunda lagi er lagt til að skilyrði þess að heimilt verði að framlengja fæðingarorlof móður um allt að tvo mánuði vegna alvarlegra veikinda hennar í tengslum við fæðingu sé að hún hafi í fæðingarorlofi sínu verið ófær um að annast barn sitt vegna veikindanna að mati sérfræðilæknis. Ekki er um að ræða breytingu á framkvæmd þar sem efnislega samhljóða ákvæði hefur verið að finna í reglugerð nr. 1218/2008, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslna fæðingarstyrks, og því mun breytingin ekki auka útgjöld úr ríkissjóði.
    Í áttunda lagi er kveðið á um rétt barnshafandi kvenna til greiðslna í fæðingarorlofi þann tíma sem þær hafa af heilsufarsástæðum þurft að leggja niður launuð störf meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns. Þó geta greiðslur aldrei varað lengur en í tvo mánuði. Það sama mun gildi þegar barnshafandi konur þurfa af heilsufarsástæðum að hætta atvinnuleit, enda fái konan greiddar atvinnuleysisbætur, sé á biðtíma eftir slíkum bótum eða hefði átt rétt á þeim hefði hún skráð sig án atvinnu samkvæmt gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar og væri þar með þátttakandi á innlendum vinnumarkaði. Breytingartillagan varðar lengri orlofsrétt mæðra vegna veikinda á meðgöngu. Gert er ráð fyrir að kostnaðarauki vegna þessarar breytingar verði um 10 m.kr. á ári en á undanförnum árum hafa greiðslur sjóðsins vegna veikinda mæðra á meðgöngu verið á bilinu 100–135 m.kr.
    Í níunda lagi er lagt til að skýrt verði kveðið á um hvað telst til ósamrýmanlegra réttinda á sama tímabili og foreldri ætlar að nýta sér rétt sinn til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eða fæðingarstyrks. Meðal annars er gert ráð fyrir að fái foreldri orlofslaun eða greiðslur vegna starfsloka geti það ekki nýtt sér rétt sinn til fæðingarorlofs eða fæðingarstyrks á sama tímabili. Breytingartillagan hefur ekki aukin útgjöld í för með sér.
    Að framangreindu má því ætla að lögfesting frumvarpsins gæti aukið útgjöld ríkissjóðs lítils háttar. Annars vegar vegna þeirra sem koma af Evrópska efnahagssvæðinu og munu geta fengið greiðslur úr sjóðnum en ekki eru forsendur til að meta þann kostnað nákvæmlega. Hins vegar hlýst kostnaður af auknum réttindum til orlofstöku vegna veikinda á meðan á meðgöngu stendur og er hann áætlaður 10 m.kr. á ári. Telja má að þessi útgjöld verði innan skekkjumarka áætlana um fjárheimildir Fæðingarorlofssjóðs í heild.