Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 768. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Prentað upp.

Þskj. 1336  —  768. mál.
Flutningsmenn.




Frumvarp til laga



um brottfall laga nr. 96/2009, um heimild til handa fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, til að ábyrgjast lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu til að standa straum af greiðslum til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands hf.

Flm.: Vigdís Hauksdóttir, Birkir Jón Jónsson, Eygló Harðardóttir,


Guðmundur Steingrímsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Höskuldur Þórhallsson,
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigurður Ingi Jóhannsson, Siv Friðleifsdóttir.

1. gr.

    Lög nr. 96/2009, um heimild til handa fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, til að ábyrgjast lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu til að standa straum af greiðslum til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands hf., falla brott.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Í frumvarpi þessu er lagt til að lög nr. 96/2009 falli úr gildi. Fyrir því hafði verið gert ráð í lögum nr. 13/2011 sem synjað var staðfestingar í þjóðaratkvæðagreiðslu 9. apríl sl.
    Lög nr. 96/2009 tóku gildi 3. september árið 2009, en með þeim var fjármálaráðherra, f.h. ríkissjóðs, að greindum skilyrðum, heimilað að veita Tryggingarsjóði innstæðueigenda ríkisábyrgð á lánaskuldbindingum sjóðsins sem byggðust á svokölluðum Icesave-samningum sem undirritaðir höfðu verið um mitt sama ár. Í reynd fólst í lögunum gagntilboð sem bresk og hollensk stjórnvöld reyndust síðan ekki reiðubúin að samþykkja.
    Þess í stað hófust samningaviðræður aðila aftur vegna málsins sem lauk með viðaukasamningum sem undirritaðir voru 19. október 2009. Með breytingalögum nr. 1/2010, sem samþykkt voru í lok árs 2009, stóð til að laga efni laga nr. 96/2009 að umræddum viðaukum en því hafnaði þjóðin í þjóðaratkvæðagreiðslu 6. mars 2010.
    Aftur var gengið til samninga við bresk og hollensk stjórnvöld í lok árs 2010 og að þeim undirrituðum voru lög nr. 13/2011 samþykkt á Alþingi 16. febrúar 2011. Þau lög voru síðan felld úr gildi í þjóðaratkvæðagreiðslu 9. apríl 2011.
    Fyrir vikið er sú staða nú fyrir hendi að lög nr. 96/2009, sem til stóð að fella brott, eru enn í fullu gildi. Með tilliti til þess sem á undan er gengið er ljóst að löngu tímabært er að fella brott umrædd lög. Enginn tilgangur er með því að þau haldi áfram gildi sínu.