Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 769. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1341  —  769. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um landsdóm, nr. 3/1963, með síðari breytingum.

Flm.: Atli Gíslason, Höskuldur Þórhallsson,
Jónína Rós Guðmundsdóttir, Margrét Tryggvadóttir.


1. gr.

    Við 2. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Dómarar sem eiga sæti í landsdómi þegar Alþingi hefur samþykkt málshöfðun gegn ráðherra og varamenn þeirra skulu ljúka meðferð þess máls þrátt fyrir að kjörtímabil þeirra sé á enda.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta er flutt af nefndarmönnum í saksóknarnefnd Alþingis. Einn nefndarmanna, Birgir Ármannsson, stendur ekki að flutningi þess.
    Í 2. gr. laga um landsdóm er fjallað um fjölda dómara í landsdómi og hvernig þeir eru valdir. Er þar m.a. gert ráð fyrir því að átta dómendur af 15 séu kosnir af Alþingi til sex ára í senn. Alþingi kaus síðast aðalmenn í landsdóm 11. maí 2005. Með frumvarpi þessu er lagt til að við 2. gr. laganna bætist ný málsgrein þar sem tekið verði af skarið um það að dómarar sem eiga sæti í landsdómi þegar Alþingi hefur samþykkt málshöfðun gegn ráðherra og eftir atvikum varamenn þeirra skuli ljúka meðferð þess máls þó svo að kjörtímabil þeirra sé á enda. Með slíku fyrirkomulagi verður ekki rof á umboði dómenda meðan mál er þar til meðferðar. Er þetta fyrirkomulag í samræmi við meginreglur réttarfars um milliliðalausa málsmeðferð. Ákvæðið sækir fyrirmynd sína í 48. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur, nr. 80/1938, þar sem fjallað er um dómara í Félagsdómi, en þar segir að dómarar sem hafa byrjað meðferð máls skuli ljúka því þótt kjörtímabil þeirra sé á enda. Einnig má vísa til sambærilegra ákvæða í 197. og 198. gr. laga um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991, 164. og 165. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, og ákvæða til bráðabirgða I og II í lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008.
    Lagt er til að lögin öðlist gildi þegar í stað.